STOL – SAMASTAÐARBÓK

Omnom-bréf eru í einkar þægilegri stærð til að halda utan um samastaðarbækur fyrir ólík verkefni.

Ég hef talað við höfunda sem segja að þeir kjósi helst að lesa ekki neitt á meðan þeir eru að vinna að bók af ótta við að textinn þeirra „smitist“. Sjálfum hefur mér alltaf fundist slík smit vera órjúfanlegur hluti af ferlinu. Allt sem þú skrifar á í eðli sínu í samtali við allt annað sem skrifað hefur verið (eða að minnsta kosti allt það sem lesandi þinn hefur lesið).

Það sem ég les leiðir mig líka áfram í því sem ég skrifa. Sama hvort ég er með ákveðið verkefni í huga eða ekki þá glósa ég alltaf á meðan ég les. Til þess nota ég svokallaða commonplace book – eða „samastaðarbók“. (John Locke skrifaði t.a.m. leiðbeiningabækling um þessa aðferðafræði.)

Þegar ég er að vinna að ákveðnu verki verð ég yfirleitt svo upptekinn af því að allt sem ég les virðist tengjast því á einn eða annan hátt. Samt reyni ég að setja til hliðar og safna saman atriðum sem endurvarpa þeim blæbrigðum eða tilfinningum sem ég vonast til að ná fram í mínum skrifum. Stundum vísa ég í þetta efni í textanum en aðallega nota ég það sem einskonar leiðarvísi. Þetta hjálpar mér að komast aftur af stað þegar mig rekur í strand; að finna réttu leiðina þegar ég er á villigötum.

Hér að neðan má sjá samastaðarbókin sem ég hélt á meðan ég vann að skáldsögunni Stol.

HVAÐ GET ÉG SAGT?

Þessi pistill birtist fyrst á vef Stundarinnar þann 15. september síðastliðinn, þegar þær fréttir bárust að vísa skyldi Khedr-fjölskyldunni úr landi daginn eftir.

Hvað get ég sagt?

Í morgun, á leiðinni á skrifstofuna mína í Borgartúninu, datt mér svolítið fyndið í hug. Það skiptir ekki máli hvað það var. Bara einhver spaugileg athugasemd um daginn og veginn; eitthvað sem gladdi mig í hversdeginum.

Eins og ég á til þá tók ég upp símann og hripaði niður tíst til að deila hugskotinu með því snefilmagni þjóðarsálarinnar sem fyrirfinnst á Twitter. Þar er ég með prófíl með huggulegri mynd af sjálfum mér og set oft inn eitt og annað sem mér þykir hnyttið, deili tónlistinni sem ég er að hlusta á hverju sinni og svo framvegis.

Ég hef ekki farið leynt með ástæður þess að ég byrjaði á forritinu. Ég, eins og margir í skapandi geiranum, hef gengist við þeirri hugmyndafræði að það sé mikilvægt að vera „sýnilegur“ á netinu, í von um aukna möguleika á að lifa á list minni (þótt ég velti oft fyrir mér hvort öllum tímanum sem fer í að viðhalda þessum sýnileika væri ekki betur varið í listsköpunina sjálfa). Vera mín á þessum samfélagsmiðli hefur frá byrjun verið stýrt af mínum eigin hagsmunum. Ég geri mér grillur um að með því að vera „virkur“ þarna og annars staðar á netinu séu auknar líkur á að fólk veiti því eftirtekt sem ég er að gera, lesi greinarnar mínar og kaupi jafnvel bækurnar mínar eða mæti að minnsta kosti á bókmenntaviðburði þar sem ég les úr þeim.

Þar sem ég stóð í Borgartúninu, við það að senda enn eina sniðuga og umfram allt meinlausa athugasemd út í ljósvakann, mundi ég að í dag ætla íslensk stjórnvöld að senda úr landi sex manna fjölskyldu sem hefur sest hér að og upplifað hér öryggi og von um bjartari framtíð. Ég hef fylgst með þessari fjölskyldu undanfarna daga. Þau hafa neyðst til að fara í fréttirnar til að biðla til þjóðarinnar og íslenska ríkisins um miskunn. Bænum þeirra hafa stjórnvöld svarað með sorgarsvip búrókratans sem telur sig eiga engra kosta völ, hristir höfuðið og kennir kerfinu um.

Ég get ekki sagt að mín viðbrögð hafi verið mikið betri. Ég hef setið í þögn og fylgst með fréttaflutningi af þessari sorgarsögu, eins og ég hef gert við aðrar slíkar sögur undafarin ár. Eins og áður er naumur tími til stefnu. Svona málum fylgir tifandi klukka sem telur niður dagana, klukkustundirnar, mínúturnar þar til fólkinu er vísað úr landi. Þess vegna er mikilvægt að taka umsvifalaust skýra afstöðu þegar svona mál ber á góma. Sjálfur hef ég hikað, farið undan í flæmingi og talið mér trú um að ég búi ekki að nægilegum skilningi. Ég hef sagt sjálfum mér að ég þurfi að kynna mér allar staðreyndir málsins áður en ég geti tjáð mig; þurfi tíma til að setja saman þaulhugsuð og óhrekjanleg rök sem færa skoðun mína til bókar.

Á meðan ég hef legið undir mínum sjálfhverfa feldi hefur fjölskyldum verið vísað úr landi. Aftur og aftur. Og ég hef gleymt þessum fjölskyldum, haldið áfram að senda frá mér orðgjálfur um ekki neitt eða jafnvel notað stöðu mína til að tjá mig um önnur bitbein samfélagsins. Hjólastíga, almenningssamgöngur, launamál og annað sem skarast á skýrari hátt við mína eigin hagsmuni en afdrif brúnnar, útlenskrar fjölskyldu sem er á barmi þess að tapa tilvist sinni.

Ég eyddi meinlausa, fyndna tístinu mínu og lokaði símanum. Það sem eftir var leiðarinnar fann ég að ég skammaðist mín, bæði fyrir framferði íslenskra stjórnvalda en ekki síst fyrir mína eigin þögn; fyrir hik mitt og kjarkleysi. Það rann upp fyrir mér að í eðli sínu eru þessi mál ekkert flókin, eða að minnsta kosti ekki svo flókin að ég sé ekki fullfær um að standa upp og taka afstöðu. Jafnvel þótt það sé það minnsta sem ég geti gert, þótt orð mín kosti mig ekki neitt, breyti engu og enginn gefi þeim gaum, þá verð ég að gera skyldu mína sem þegn í þessu landi og segja hátt og snjallt: Þetta er ranglæti sem ég vill ekki að sé framkvæmt í mínu nafni.

TEXTI EFTIR GEORGES PEREC Á DEGI LJÓÐSINS

Bókmenntaborgin bað mig um að velja og lesa texta að eigin vali í tilefni að degi ljóðsins. Þar sem ég er fastur heima vegna COVID-19 og er að upplifa íbúðina mína á allt annan máta en áður þá kom ekki annað til greina en að lesa eitthvað úr „Espèces d’espaces“ (e. Species of Spaces) eftir Georges Perec. Hér að neðan má heyra mína eigin flausturslegu þýðingu (úr ensku) á texta Perec.

21. mars er alþjóðlegur dagur ljóðsins. Taggið Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og deilið ljóðum eða textum sem eru ykkur hjartnæm eða veita ykkur gleði.

#WorldPoetryDay #alþjóðadagurljóðsins

BÓKADÓMUR: STELPUR SEM LJÚGA EFTIR EVU BJÖRG ÆGISDÓTTUR

Ég tók að mér að skrifa bókadóm um spennusöguna Stelpur sem ljúga eftir Evu Björg Ægisdóttur fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Þetta er önnur bók Evu Bjargar en fyrsta bók hennar var fyrsti handhafi Svarfuglsins, bókmenntaverðlaunanna sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson komu á fót til að draga nýja íslenska glæpasagnahöfunda fram í sviðsljósið. Bókadóminn má lesa á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar en þar er einnig hægt að finna eldri bókadóm minn um fyrstu bók Evu Bjargar, Marrið í stiganum.

BÓKADÓMUR: MÁLLEYSINGJARNIR EFTIR PEDRO GUNNLAUG GARCIA

Ég tók að mér að skrifa bókadóm um skáldsöguna Málleysingjarnir eftir Pedro Gunnlaug Garcia fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Þetta er fyrsta bók Pedros og lofar góðu um áframhaldandi feril hans sem höfundar. Bókadómurinn er í lengra lagi enda er hér um að ræða þykka bók með víðáttumikið sögusvið sem erfitt er að ná utan um í stuttu máli. Bókadóminn má finna á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar.

JÓLALESTURINN SO FAR

Ég var gestur í Mannlega þættinum á Rás 1 í vikunni sem leið og var þar í hlutverki „lesanda vikunnar“. Því greip ég efsta lagið úr bunkanum á náttborðinu með mér upp í Efstaleiti til að hafa til taks á meðan ég ræddi við Gunnar Hansson um hvað ég væri að lesa þessa dagana.

Efst í þeim bunka var að finna Artful eftir skoska höfundinn Ali Smith. Smith er einn af þessum einstöku höfundum sem kemst upp með alls kyns óskunda sem fáir aðrir gætu leyft sér án þess að hljóma tilgerðarlega eða hreinlega kjánalega. Þannig sogar Artful inn í sig tilvísanir sem leiða í allar áttir og hræra saman Beyoncé, bresku súrrealistunum, ýmsum nýlegum og klassískum ljóðskáldum og Charles Dickens—en safnið dregur nafn sitt af félaga og læriföður Olíver Twists, hinum útsmogna og velklædda Jack Dawkins, öðru nafni The Artful Dodger.

Bókin er byggð á fyrirlestrarröð sem Smith gaf í St. Anne‘s College í Oxford og er í grunninn hér um að ræða ritgerðasafn þar sem rithöfundur reynir að skilja og skilgreina list sína, ekki ólíkt t.d. Negotiating with the Dead eftir Margaret Atwood. Smith fer þó heldur óhefðbundna leið til að halda utan um ritgerðirnar. Safnið er í formi skáldsögu sem rituð er í fyrstu persónu, þar sem mælandinn talar til elskuhuga síns, sem fallið hefur frá eftir áratuga sambúð. Elskhuginn tekur þó fljótt að birtast aftur heima hjá þeim, tómeygður og tormæltur, og þótt aðalpersónan geri sér fulla grein fyrir að hér sé bara um eigin ímyndun að ræða sér hún fram á að verða að vinna bug á sorginni og þar með draugnum sjálfum, og finnur leiðir til þess m.a. í gegnum lestur; með því að endurlesa Oliver Twist og lesa síðan fyrirlestrana sem elskhuginn var í óðaönn að undirbúa fyrir fráfall sitt. Þar eru komnar ritgerðir Smiths um ljóðlist, skáldskap o.fl.

Ég held að ég komist ekki lengra án þess að útskýra að Smith greinir aldrei frá kyni karakteranna tveggja í bókinni, elskhugans og aðalpersónunnar, og gerir hún það af mun meiri natni en mér var fært í þessari stuttu klausu hér að ofan. Raunar tók ég varla eftir þessu tilbrigði við fyrsta lestur heldur gerði bara (á minn siss-heteró-hátt) ráð fyrir að hér væri kvenhöfundur að skrifa um konu sem væri að ávarpa karl. Við seinni lesturinn varð ég þó varari við þetta og dáðist að því hversu opin bókin er fyrir vikið. Í textanum geta lesendur tyllt sér í vitund þessarar ónefndu fyrstu persónu raddar og horft á heim bókarinnar út frá eigin upplifunum. Ég hef séð marga reyna að greina ekki frá kyni persóna sinna á svipaðan hátt og hef meira að segja leikið mér að því sjálfur í sögunni „Barnalæti“ (Smáglæpir, 2017). Ég hef hinsvegar aldrei séð þetta gert af annarri eins natni og sýnd er hérna, eða án þess að með fylgi einhverskonar „kynafhjúpun“ við lok bókar— líkt og í Smack My Bitch Up tónlistamyndbandinu með hljómsveitinni Prodigy, sem mér varð á að vísa til í umræðu minni við Gunnar.

Næst í bunkanum voru tvær bækur, eða í raun ein bók í tveimur útgáfum, önnur á færeysku og hin á íslensku. Ég kynntist færeyska ljóðskáldinu Beini Bergssyni þegar við vorum báðir gestir á nýliðanámskeiði norrænna rithöfunda á eyjunni Biskops Arnö í Svíþjóð í byrjun sumars. Þar heyrði ég hann fyrst lesa upp úr ljóðasafni sínu Tann lítli drongurinn og beinagrindin, sem kom út í Færeyjum árið 2017, þegar Beinir var tvítugur, og vann strax til nýstofnaðra færeyskra menningarverðlauna. Litli drengurinn og beinagrindin er nú komin út á íslensku hjá míkróútgáfunni Gin ljónsins og er þýðandi Guðrún Brjánsdóttir.

Í safninu finnur maður hvernig ljóðmælandinn styrkist og þroskast eftir því sem líður á bókina, en elstu ljóðin eru frá því þegar Beinir var um 15 ára gamall. Safnið hefst á þeim punkti í lífi hans þegar faðir hans var greindur með krabbamein, og varð að ferðast til Danmerkur í lengri tíma til að leita sér aðhlynningar. Ljóðin einkennast af trega og söknuði, og þá sérstaklega einkennilegri togstreitu við dauðann, þar sem barnið, litli drengurinn, getur ekki tekið þátt í dánarferli föður síns þar sem hann er svo langt í burtu frá honum. Þroskinn og sorgarferlið kemur inn frásögnina í formi beinagrindar sem rífur sig lausa úr drengnum og verður að annarlegri og hræðilegri veru sem flækist um smábæjarsamfélagið í Færeyjum.

Það sem snart mig mest við bókina er hvernig hún ávarpar þann hluta sorgarferlisins sem fólk vill hvað minnst tala um, þ.e.a.s. reiði. Reiði sem snýst jafnt að fjölskyldu og samfélagi og að sjálfum ástvininum sem fallið hefur frá og yfirgefið syrgjandann. Ljóðin eru angistarfull, líkamleg og reið, og eru t.a.m. lýsingar á því hvernig beinagrindin stingur höndunum upp í sig til að ná taki á óhljóðunum og rífa þau út úr sér svo að þau fossa út um munninn. Mér fannst íslenska þýðingin reyndar ekki alveg ná að fanga rödd Beinis, kannski sökum þess að Beinir er mjög góður upplesari og ég hef hlustað á hann lesa ljóðin sín á færeysku, og því mæli ég með að fólk nái sér í bæði eintökin og hafi færeyskuna til hliðsjónar, ef slíkt er í boði.

Þriðja bókin er fyrsta eiginlega „jólabókin“ í bunkanum og er það Málleysingjarnir eftir Pedro Gunnlaug Garcia, sem nýlega kom út í innbundinni útgáfu hjá Bjarti. Ég var viðstaddur þegar Pedro hlaut Nýræktarstyrk fyrir þessa bók fyrir að verða þremur árum—sama ár og Fríða Ísberg hlaut styrk fyrir Slitförin. Þar heyrði ég Pedro lesa upp úr handritinu, sem hann hafði þá unnið að undanfarin 3-4 ár, og vissi strax að hér var komið eitthvað alveg sérstakt. Málleysingjarnir er stór og þykk bók, yfir 400 blaðsíður, og held ég að þetta sé í fyrsta sinn í lengri tíma sem ég sé nýja íslenska skáldsögu sem reynir hvað hún getur að þrengja línubil og minnka spássíur til að koma sér fyrir, frekar en hitt sem verið hefur lenskan undanfarin ár, að „teygja eilítið á þessu“, eins og Ragnar Helgi orðar það í minningabókinni Bókasafn föður míns.

Bókin skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hluti gerist alfarið í Rúmeníu á árunum 1989-1995. Þar segir frá drengnum Mihail og þeirri atburðarás sem hefst þegar faðir hans, Octav, snýr aftur inn á heimilið eftir að hafa verið í pólitískur fangi Ceaușescu hjónanna árum saman, en þau stýrðu landinu með harðri hendi allt þar til þau voru tekin af lífi í uppreisninni árið 1989. Seinni hlutinn virðist svo í fljótu bragði engin tengsl hafa við þann fyrri, en þar erum við djúpt sokkin í hversdagsleika íslenskrar vísitölufjölskyldu upp úr aldamótunum síðustu, og er sjónum sérstaklega beint að systkinunum Bergþóru og Finni, sem eru að þróast í sitthvora áttina eftir að hafa verið einstaklega samrýnd sem börn. Salvör, móðir þeirra, daðrar í sífellu við þá hugmynd að finna sér frelsi og yfirgefa fjölskylduna fyrir fullt og allt, og kannski þá sérstaklega manninn sinn, strætóbílstjórann Hannes, sem virðist hreinlega vera farinn að liðast í sundur. Á meðan týnist Finnur í villta vestri hins tiltölulega nýja veraldarvefs, og vafrar þar á milli klámsíðna og gore-efnis, jafnt því að hann fræðist um skotvopn og heimagerðar sprengjur og hrellir konur í fjarlægum löndum með aðstoð annarra nettrölla. Eftir fallvaltar tilraunir sínar í listaheiminum er Bergþóra hins vegar loks að finna sína hillu í lífinu: innan hins nýlega einkarekna heilbrigðisgeira, þar sem hún vinnur sem „upplifunarhönnuður“ fyrir hið nýstofnaða IHCR (International Health Clinic Reykjavík). Þar sér hún um að viðburðastýra hinstu augnablikum og öðrum náðarstundum sjúklinganna á spítalanum. Þriðji hlutinn gerist síðan á árunum 2017-2019 og bindur saman þessar tvær ólíku fjölskyldusögur.

Málleysingjarnir er einstaklega sérstök bók, kannski einkum vegna þess hve vítt og breytt hún leyfir sér að fara í persónusköpun. Þannig bindur hún sig ekki við tilteknar aðalpersónur heldur flakkar á milli, kafar ofan í sögu allra karakteranna og leyfir lesandanum að dvelja um stund með hverjum og einum þeirra og sjá heiminn frá þeirra sjónarhorni. Eins og ég minntist á við Gunnar þá sýnir Pedro einnig mikla natni við það að draga fram íbúa og götur hinnar fjarlægu Búkarest borgar, en slíkt er ekki á færi allra og eru mörg dæmi um íslenska höfunda sem ákveða að staðsetja bækur sínar í fjarlægum löndum og sökkva síðan í fen klisja og steríótýpa. Fyrir utan alla þá rannsóknarvinnu sem hann hefur augljóslega lagst í þá kemst Pedro hjá þessum örlögum með því að vera aðhaldssamur í götulýsingum og nota fáar en fínar línur frekar en breiða pensla. Í fyrirrúmi er þó hvernig hann gefur sér tíma við persónusköpunina og veitir fólkinu forsögu og innra líf, frekar en að beita þeim sem leiksoppum sem gegna litlu hlutverki öðru en að holdgera loðnar hugmyndir um framandleika eða endurkasta holri spegilmynd „Íslendingsins í útlöndum“. (Fyrir einstaklega fræðandi og hressandi greiningu á þessu tiltekna og algenga minni í íslenskum nútímabókmenntum mæli ég með grein Halldórs Xinyu Zhang í nýjasta heftir TMM; 3:2019.)

Neðst í bunkanum eru svo tvær nýlegar íslenskar ljóðabækur. Ég er í hálfgerðri herferð gegn sjálfum mér þessa dagana; er að reyna að vinna bug á ímugust mínum og afturhaldsemi þegar kemur að ljóðlist. Í einföldu máli sagt þá les ég ekki nógu mikið af ljóðum; hef aldrei vanið mér það þrátt fyrir að hafa kynnst ýmsum ljóðskáldum persónulega og í gegnum bækur á meðan á háskólanámi mínu stóð og annarstaðar. Ekki kann ég skýringu á því aðra en að ég tamdi mér mikið af mínum lesvenjum snemma í æsku, þegar ég las allt sem að kjafti kom og kippti mér þá lítið upp við hvort um væri að ræða klassík eða bara Bob Moran og unga uppfinningamanninn Tom Swift, en á þeim tíma lærði ég aldrei að lesa ljóð mér til afþreyingar eða upplifunar. Ég hef því tamið mér undanfarið að vera með ljóðabækur innan seilingar svo að ég geti litið í þær endrum og eins, lært af þeim og reynt að skilja hvað mér þykir vel gert og hvað illa, og hvernig ég greini þar á milli.

Auk Beinis eru ljóðabækurnar sem að þessu sinni þvælast um stofuna heima Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg, gefin út af Forlaginu, og Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur, gefin út af Unu útgáfuhúsi. Ég er ennþá að meðtaka Leðurjakkaveður. Hingað til hefur lestur minn á ljóðlist Fríðu svolítið verið á þann máta að alltaf þegar ég held að ég sé búinn að lesa ljóðið uppgötva ég eitthvað nýtt; einhverja nýja hlið eða tengingu sem ég hafði ekki séð móta fyrir áður og gerir það að verkum að ég sé ljóðið eða allt safnið í nýju ljósi. Þannig eru ljóðin hennar Fríðu algjör kvikindi; þau virðast ekki geta verið kyrr á blaðsíðunni heldur eru á sífelldu iði, svo að mér finnst þau hafa breyst eða skipt um ham í hvert sinn sem ég tek safnið upp til að fletta aftur í gegnum það.

Okfruman er hinsvegar bók sem mér þykir ekki hægt að blaða í heldur verður maður að teyga hana í sig í einni setu. Erindin eru svo listavel bundin saman frá byrjun til enda að ekki er hægt að leggja bókina frá sér í eitt augnablik til að kíkja á símann eða fara til dyra. Eins og ég nefndi kannski áður í tali mínu um Ali Smith þá hef alltaf kunnað að meta höfunda sem leyfa sér að taka áhættur; áhættur sem snúa ekki endilega að því að sjokkera heldur að því að hreinlega gera sig að fífli; með leik og gleði og jafnvel smá kæruleysi. (Þ.e.a.s. höfunda sem komast upp með hluti í sínum texta sem ég efast stórlega um að ég kæmist upp með í mínum.) Slík óskammfeilni sést meðal annars í því hvernig Brynja brýtur niður línurnar og leyfir þeim að leka á milli erinda, og hvernig hún leikur sér með típógrafíu, m.a. til að skipta safninu upp í hluta.

Þannig finnst mér þessi tvö söfn fara einstaklega vel saman vegna þess hve ólík þau eru: Leðurjakkaveður er hárnákvæm og öllu er haganlega fyrirkomið svo að maður greini vel háu nóturnar jafnt sem lágu nóturnar. Okfruman, hinsvegar, steypir línum og ljóðum saman svo að úr verður ein buna eða biða sem þarf jafnt á öllum sínum útlimum að halda.

Að lokum get ég ekki talið til þær ljóðabækur sem ég er að lesa án þess að minnast á Þvottadag eftir Jónas Reyni Gunnarsson, sem ég fékk ekki í hendurnar fyrr en eftir viðtalið. Í þessu safni heldur Jónas áfram á þeirri vegleið sem hann lagði af stað með í Leiðarvísir um þorp; landslag æsku og fortíðar í smábæ úti á landi. Engu að síður eru tónbrigðin sterkari en áður, sérstaklega hvað varðar endurtekningarnar sem draga lesandann sífellt aftur að tilteknum myndum eða atvikum.

Líkt og Okfruman hennar Brynju lætur safnið það almennt vera að skipta sér upp í tiltekin ljóð heldur líður maður í gegnum það í einum rykk, en þessi endurteknu stef í textanum gerðu það að verkum að ég upplifði ljóðin eins og hálfgert hugflæði þar sem allt er að gerast á sama augnablikinu. Þannig minnti ljóðmælandinn mig á köflum næstum á Billy Pilgrim í Slaughterhouse 5 eftir Kurt Vonnegut, sem flosnast upp í tímans rás og ráfar viðstöðulaust fram og til baka um ævi sína. Nærtækara dæmi væri kannski sögukona smásögunnar „Story of Your Life“ eftir Ted Chiang. Eftir kynni sín við verur frá öðrum heimi sér sögukonan tímann á allt annan máta, allan í einu frekar en línulega, en samt er hún ófær um að hafa áhrif á atburðarás eigin lífs. (Efalaust hljómar þessi lýsing kunnuglega enda var kvikmyndin Arrival, sem skartaði tónlist Jóhanns Jóhannssonar, byggð á sögu Chiangs.) Geta má að Jónas er að gefa Þvottadag út undir merki Páskaeyjunnar, nýlegu litlu útgáfufélagi sem rekið er af Kristinni Árnasyni, sem gaf út ljóðabókina sína Regntímabilið undir sama merki núna í vor. Útgáfuhúsið er jafnframt jógastúdíó og mæli ég með því að hafa áhugasamir hafi samband við höfund eða útgefanda til að kaupa eintök beint af kúnni.

Þannig liggur jólalesturinn þessa stundina. Á morgun byrja ég vikudvöl mína á Hótel Egilsen á Stykkishólmi, þar sem ætlunin er að ljúka við skáldsöguhandritið sem ég hef verið að vinna í undanfarin 2-3 ár. Nokkrum dögum eftir að ég kem aftur í bæinn er ég síðan að fara að stýra pallborðsumræðum á Bókamessunni í Hörpu, þann 23. nóvember, en þar mun ég ræða við Auði Jóns, Pétur Gunnarsson og Björgu Guðrúnu Gunnarsdóttur um nýútkomnar bækur þeirra: Tilfinningabyltingin, HKL – ástarsaga og Skuggasól. Þykir mér því líklegt að þær bækur komi með mér til Stykkishólms.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA? – PISTILL Í STUNDINNI

Vinnudagurinn í gær fór eiginlega í vaskinn. Ég átti að vera að ljúka við einhverja bókadóma en svo álpaðist ég til að kíkja á fréttirnar, og las þar um albönsku fjölskylduna sem vísað var úr landi þótt eiginkonan væri komin níu mánuði á leið, og síðan aðra frétt um útrás í íslenskum bókmenntum. Úr varð pistill sem birtist fyrst á Stundin.is en ég endurbirti hér í góðri trú.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA?

Á bókmenntaviðburðum undanfarið hefur borið æ oftar við að ég heyri einhvern muldra út undan sér að þessi eða hinn íslenski höfundur sé „bara að skrifa fyrir einhverja útlendinga“.

Eins og gengur og gerist með slíkt baktal er erfitt að setja fingur á hvort um sé að ræða gagnrýni eða öfund. Tekjur íslenskra höfunda hafa alltaf verið tvísýnar og starfsöryggi takmarkað. Þau búdrýgindi sem fást fyrir útgáfur á erlendum markaði geta verið töluverð og séð til þess að höfundar geti einbeitt sér að fullu að iðju sinni, án þess að þurfa að fórna samverustundum fjölskyldunnar fyrir skrifin. Það er því heldur ósanngjarnt, finnst mér, að hnýta í fólk fyrir að reyna eftir bestu getu að finna leiðir til að geta haldið áfram að gefa út bækur reglulega án þess að þurfa að fórna heilsu eða lífsgæðum fyrir.

Sjálfur hef ég í gegnum tíðina haft tekjur af því að skrifa um íslenskar bækur í ýmsum fjölmiðlum sem ætlaðir eru fyrir erlenda lesendur. Þar hef ég gert mitt besta til að vinna samkvæmt eigin samvisku og sannfæringu en óneitanlega hefur eðli verksins í sumum tilvikum fallið undir það sem við myndum kalla „landkynningu“, og því ekki endilega verið rétti vettvangurinn fyrir gagnrýn skrif. Engu að síður hefur þessi lævísa spurning smogið að mér endrum og eins: Fyrir hvern er ég að skrifa?

Þegar ég opnaði netgáttina í gær spruttu fram tvær fréttir sem í fljótu bragði virtust alls ótengdar en komu engu að síður illa við mig þegar ég sá þær samsíða á skjánum. Annarsvegar var þar frétt um að íslensk stjórnvöld hafi vísað úr landi ófrískri albanskri konu ásamt fjölskyldu hennar. Konan er komin níu mánuði á leið og aðfarirnar virðast eins ómannúðlegar og hugsast getur. Hin fréttin var öllu gleðilegri: Útgáfa á íslenskum bókum í þýðingu hefur þrefaldast á undanförnum tíu árum. Hátt í fjörutíu bækur eftir íslenska höfunda eru nú nýútkomnar eða rétt óútkomnar í Bandaríkjunum og á Bretlandi, sem gefur þessum tilteknu höfundunum aðgang að þeim mikla fjölda lesenda sem er að finna á þessum málsvæðum.

Fyrir nokkrum árum mátti telja þá nýju íslensku titla sem komu út á ensku á annarri hendi. Gróskan er því umtalsverð og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann aukna fjölda skáldsagna eftir íslenska kvenhöfunda sem rata í enskar þýðingar. Í eina tíð var nær eingöngu hægt að finna í þeim flokki bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur—jafnvel þótt framlag hennar einnar hafi þá jafngilt ríflega 40% af nýlegum íslenskum skáldsögum á enskri tungu. Það má því færa rök fyrir því að íslenskir rithöfundar séu að upplifa ákveðið „tækifæri“.

En tækifæri til hvers?

Fyrir hvaða útlendinga viljum við skrifa? Þá sem koma hingað á skemmtiferðaskipum eða þá sem koma hingað á fölsuðum vegabréfum? Viljum við segja frá kynngimögnuðu landslagi uppfullu af stóísku bláeygðu fólki sem bugtar sig fyrir álfum og rígheldur í þá trú að „þetta reddist“, eða viljum við nota þetta tækifæri til að segja hinar sögurnar? Sögurnar sem við skömmumst okkur fyrir. Sögur um það sem betur má fara. Sögur sem draga fram vankantana á þeirri glansmynd sem okkur er tamt að halda uppi fyrir erlenda gesti. Sögur sem myndu seint teljast til landkynningar.

Auðvitað er hræðilega ósanngjarnt að bera slíka plikt upp á íslenska höfunda. Að hætta sér út á ritvöllinn er nógu flókið fyrir, þótt fólk fari ekki að kryfja öll sín skrif með réttvísina í huga eða blanda pólitík í málið. Það forarsvað er líklegt til að drepa góða bók umsvifalaust. Þetta vissi George Orwell. Hann gekkst við því að hafa sjálfur óviljugur breyst í hálfgerðan „bæklingahöfund“ vegna skrifa sinna um þá heimsatburði sem hann upplifði. Mér kemur þó til hugar tilsvar hans til gagnrýnanda sem sakaði hann um að hafa í skrifum sínum um Spánarstyrjöldina breytt einhverju sem hefði getað orðið góð bók í eintóma blaðamennsku. „Það er rétt sem hann segir, en ég hefði ekki getað gert þetta á annan veg,“ segir Orwell. „Ef ég hefði ekki verið reiður þá hefði ég aldrei lagt í að skrifa bókina.“

Með þetta í huga getum við kannski horft á þessa hvimleiðu spurningu á nýjan leik og séð hvernig áherslur hennar hafa breyst án þess að ég hafi svo mikið sem fært til einn staf eða bætt við kommu:

Fyrir hvern er ég að skrifa?

BISKOPS ARNÖ 2019

Í byrjun júní tók ég þátt í svokölluðu debutantseminar, eða nýliðanámskeiði, á eyjunni Biskops Arnö í Svíþjóð, ásamt hópi annarra norrænna höfunda. Námskeiðið er haldið ár hvert og er ætlað fyrir ljóðskáld og rithöfunda sem hafa nýlega sent frá sér sína fyrstu bók. Á meðan á námskeiðinu stendur fá þátttakendur tækifæri til að kynnast og læra af hvort öðru, ásamt því að vinna verkefni og hlýða á fyrirlesara sem skipuleggjendur hafa fengið til liðs við sig. Þannig skapar námskeiðið nýtt tengslanet ár hvert á meðal nýrra kynslóða norrænna höfunda; tengslanet sem oft varir áratugum saman. Fyrirlesararnir í ár voru danska ljóðskáldið Mette Moestrup, sænska listakonan og ljóðskáldið Makda Embaie og sænski rithöfundurinn Kristofer Folkhammar. Kajsa Sundin og Ida Linde sáu um að halda utan um námskeiðið og stýra því dag frá degi.

Íslenskt/færeyskt samstarf! Beinir Bergsson, Fríða Bonnie Andersen og ég. Fríða gaf út bókina „Að eilífu, ástin“ í fyrra og fyrsta ljóðasafn Beinis, „Tann lítli drongurin og beinagrindin“ er væntanlegt á íslensku í haust (mynd: Fríða Bonnie Andersen).

Það er Norðurlandaráð sem borgar brúsann en höfundarnir sem taka þátt ár hvert eru útnefndir af höfundafélögum hvers lands. Það er því Rithöfundasambandi Íslands að þakka að mér var boðið að vera með í ár—ásamt Fríðu Bonnie Andersen, sem gaf út sína fyrstu bók, Að eilífu ástin, í lok árs 2018. Aðrir gestir voru: Elin Wilows frá Finlandi; Beinir Bergsson frá Færeyjum; Balsam Karam, Nino Mick, Wera von Essen og Burcu Sahin frá Svíþjóð; Emma Bess, Andreas Eckhardt-Læssøe, Shosha Raymond og Tine Paludan frá Danmörku; Kristin Hauge, Martin Ingebrigtsen og Mads Rage frá Noregi; og Juvvá Pittja frá Lapplandi.

Villtir höfundar í skógarferð: Martin Ingebrigtsen, Nino Mick, Emma Bess, ég, Mads Rage og Elin Wilows (mynd: Fríða Bonnie Andersen).

Biskops Arnö er algjör paradís, og eru það mikil forréttindi að geta kúplað sig út í heila viku og ekki hugsað um neitt annað en að skrifa og ræða við aðra norræna höfunda um mismunandi aðferðafræði og hugmyndir. Námskeiðið sjálft var einstaklega krefjandi fyrir okkur útnárapésana, þar sem megnið af kennslunni og umræðunum fór fram á sænsku og dönsku—þótt hægt væri að grípa til enskunnar þegar til þurfti. Með einbeitningu og góðum vilja gat maður þó skilið megnið af því sem fram fór og jafnvel líka stundum tjáð sig á norðurlandamálunum. Gekk það æ betur eftir því sem leið á vikuna og gamla skóladanskan mín tók að krauma upp á yfirborðið, sem og sá slettingur af sænsku sem ég hef sankað að mér í seinni tíð.

Nokkra mismunandi baðstaði er að finna á eyjunni og var ljúft að láta sig fljóta í stöðuvatninu, þótt skandinavísku höfundarnir reyndu að skelfa mann með geddusögum.

Auðvitað gerir það manni erfitt um vik að geta ekki áreynslulaust lagt orð í belg hvenær sem maður vill, en líklega hafði ég þó gott af því að neyðast til að einbeita mér dálítið og leggja vel við hlustir. Ég á það til að vera óttaleg blaðurskjóða á svona samkomum, og stundum hef ég jafnvel fallið í þá gryfju að bera fram „spurningar“ sem snúa frekar að því að gera mig breiðan en að leggja eitthvað nauðsynlegt fram í umræðuna. („Hóhó! Stundum!?“ heyri ég einhvern muldra.) Er ég að reyna að venja mig af þeim ósið.

Upplestur í Biskopsköket (mynd: Fríða Bonnie Andersen).

Á síðasta degi á eyjunni skiptist ég á bókum við aðra höfunda. Hef ég undanfarinn mánuð verið að bisast við að liðka gömul málbein sem legið í hafa í dvala síðan einhvern tímann á síðustu öld með því að feta mig hægt og bítandi í gegnum þær bækur. Í flugvélinni á leiðinni heim tók ég pásu frá þessu púli og tók fram glósubók til að hripa niður nokkra punkta um hvað ég hefði lært eða uppgötvað á meðan ég var eyjarskeggi á Biskops Arnö. Eins og gengur og gerist voru flestar þær hugljómanir heldur augljósar eftir á, hvað þá þegar ég hafði sett þær niður á blað, en ég læt þær engu að síður fylgja hér á eftir.

Beðið eftir brottför: Juvvá Pittja, Shosha Raymond, Beinir Bergsson, ég, Emma Bess, Tine Paludan og Kristin Hauge.

NOKKUR PERSÓNULEG LÆRDÓMSKORN FRÁ BISKOPS ARNÖ 2019

  • Það örlar enn á þeim vöðvum sem ég þarf til að lesa bækur á aðalnorðurlandamálunum þremur. Þessir vöðvar eru slakir og gamlir, með lélegt viðbragð, en þeir eru þó þarna. Með dálítilli þolinmæði og æfingu ætti ég að geta þjálfað þá upp að nýju.
  • Síðan á unglingsárum, þegar ég byrjaði að lesa á ensku, á hnotskóg eftir vísindaskáldsögum og annarri bókmenntaflóru sem ekki var í boði á íslensku í þá daga, hef ég verið einum of bundinn hinum enskumælandi bókaheimi. Hef ég þannig alfarið leitt hjá mér það sem er að gerast í norrænni bókaútgáfu (og íslenskri bókaútgáfu líka, a.m.k. framan af). Það er löngu kominn tími á að lagfæra þetta.
  • Þrátt fyrir það ætti ég að hætta að skammast mín fyrir færni mína í enskri tungu, sem mér hefur í gegnum tíðina verið talin trú um að sé hálfgert „spilliefni“, sem eigi á hættu að eitra eða útþynna íslenskuna mína. Ég er fullfær um að valda báðum þessum tungumálum og nota ólíka styrkleika þeirra eftir því hvaða verkfæri hentar best hverju sinni. Auk þess gerir enskufærni mín mér kleyft að tjá mig og eiga í samskiptum, skriflegum og munnlegum, við höfunda og annað fólk hvaðanæva úr heiminum.
  • Það eru til tvær tegundir af norsku skrifmáli: bokmål, sem er að miklu leyti byggt á dönsku, og nynorsk, sem er nátengdara gammelnorsk, og þar af leiðandi Íslensku. Þetta vissi ég ekki. Þegar norska ljóðskáldið Martin Ingebrigtsen las upp á fyrsta upplestrarkvöldinu í eyjunni skyldi ég ekki bofs í ljóðunum hans (líklega einkum sökum Þrándheimska framburðarins hans) en eftir að ég fékk að skoða ljóðabókina hans, Riv av seg ansiktet, sem og skáldsögu norska höfundarins Mads Rage, Og skibet siglar vidare, gekk mér mun betur að skilja þá báða, bæði í talanda og upplestri, og gat fikrað mig nokkuð vel í gegnum texta þeirra á blaði. Báðir gefa þeir út hjá norska forlaginu Samlaget, sem eingöngu gefur út bækur á nynorsk. Bokmåltextar reyndust mér hinsvegar töluvert torveldari.
  • Af samtali mínu við Martin fékk ég nýja sýn af Noregi, þessu stóra landi þar sem mismunandi þjóðarbrot hafast við, oft í mikilli einangrun og með litlu samneyti á milli bæjarfélaga (fyrr á öldum, allavega). Eitthvað við alla þessa víðáttu og einangrun, sem og staða þeirra sem fyrrum Dananýlenda (sem ég hafði steingleymt), útskýrði fyrir mér ýmislegt varðandi kirkjubrennurnar og ofsann í norsku black metal senunni á 9. áratugnum. Ég hef lengi verið áhugasamur um sögu þessarar senu og svolgrað í mig bækur og heimildarmyndir um Mayhem og Darkthrone o.fl. (sem og auðvitað allskyns svartamálmstónlist) en alltaf átt erfitt með að skilja hvernig allt þetta ofstæki spratt fram í Noregi, af öllum stöðum.
  • Hrökkkex er herrans morgunmatur, og dugar í raun sæmilega í og með öllum máltíðum.
  • Ég hef hingað til verið of spéhræddan við ljóðformið. Orðin eru eitthvað svo nakin á blaðsíðunni. Maður getur hvergi falið sig á meðal þeirra, líkt og maður getur í orðaflaumi prósatextans. Það er hollur ávani að gefa sjálfum sér leyfi til að leika sér og/eða mistakast með því að hripa niður styttri texta og tilraunir, sama hvort slíkt sé ætlað fyrir bækur og aðra útgáfu eða ekki. Slík hugarleikfimi getur verið jafn mikilvæg og að standa upp frá skrifborðinu og teygja úr sér, eða fara út í göngutúr. Þess utan þá saknar maður gífurlega fróunarinnar sem því fylgir að leggja lokahönd á eitthvað (eða að minnsta kosti að leggja það frá sér í bili) þegar maður er djúpt í viðjum stórs prósatexta, og ætti því ekki að láta sér úr greipum ganga tækifæri til að „rumpa af einu ljóði“.
  • Talandi um spéhræðslu og feluleik, þá virðist það vera mér tamt að fela mig í textanum, hvort sem er á bak við skáldskap eða með ýmiskonar leikjum og hömlum. Það þarf ekki endilega að vera slæmt; að setja sér takmarkanir til að vinna út frá gefur manni sterkan byrjunarpunkt og eitthvað til að spyrna á móti, og oft á tíðum sprettur út frá slíkum skollaleik eitthvað nýtt og ótamið. Engu að síður verður því ekki neitað að það er viss orka í einlægni. Textar sem sigla lygnan sjó og taka engar áhættur sem stefna höfundinum í voða eru oft á tíðum hrútleiðinlegir. Mér kemur til hugar það sem Kristofer Folkhammar sagði í fyrirlestri sínum: „Þegar þú skrifar út frá einlægni frekar en kaldhæðni, þá ertu berskjaldaður fyrir skömm.“
  • Þú skalt ekki sofa með opinn glugga í skóglendi Svíþjóðar að sumri, sama hversu heitt er úti. Opnaðu frekar gluggann að morgni og loftaðu út yfir daginn en lokaðu honum þegar líður á eftirmiðdag og moskítóflugurnar fara á stjá.
  • Ekki baða þig í sænskum stöðuvötnum þar sem er mikið af sefgrasi í kringum baðstaðinn. Inni í því geta leynst geddur sem liggja í felum og bíða eftir bráð. Ef þær bíta þig í tánna þá sleppa þær ekki.
Fyrir utan Biskopsköket, þar sem flest upplestrarkvöldin fóru fram (mynd: Fríða Bonnie Andersen).

PEN WORLD VOICES BÓKMENNTAHÁTÍÐIN

Í maí tók ég þátt í PEN World Voices bókmenntahátíðinni í New York. Hátíðin er á vegum PEN America og var verið að halda hana í 15. sinn. Viðburðurinn sem ég tók þátt í var svokallað „þýðingaslamm“, þar sem tveir þýðendur fá í hendur texta eftir höfund og þurfa að þýða hann á sem skemmstum tíma. Á kvöldinu sjálfu koma saman höfundurinn og báðir þýðendurnir fyrir framan áheyrendur og er upprunatextanum og þýðingunum varpað á skjá og ásetningur höfundar og ákvarðanir þýðendanna ræddar í þaula. Mitt hlutverk var að stýra viðræðunum, en ég hef áður tekið að mér slík störf fyrir Bókmenntahátíðina í Reykjavík og annarsstaðar.

Ég, Kara B. Thors, Gerður Kristný og Larissa Kyzer að bera saman frumtexta og þýðingar á sviði á The Nuyorican Poets Cafe í East Village

Ég var heldur heppinn með viðmælendur. Þýðendurnir voru Larissa Kyzer, en þýðing hennar á Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríks er væntanleg í september frá Amazon Crossing undir titlinum A Fist or a Heart, og Kara B. Thors, sem nýlega þýddi ljóðasafnið Stormviðvörun eftir Kristínu Svövu, en þýðingin var í ár tilnefnd til PEN verðlaunanna fyrir þýdda ljóðlist. Þær tókust hvor um sig á við ljóðið „Atlantis“ eftir Gerði Kristný, og var Gerður mætt á svæðið til að sjá hvernig þeim tókst til.

Dagskránni var einstaklega vel tekið og var gaman að heyra allar spurningarnar úr áheyrendaskaranum, sem var samansettur af allskyns áhugafólki um þýðingar. Þýðendur í New York eru samheldin hópur, og mæli ég með því fyrir alla höfunda sem eru staddir í borginni að gera sér ferð á t.d. upplestrarkvöldin Us and Them og Another Way to Say, sem bæði eru haldin reglulega í bókakaffinu Molasses Books í Bushwick. Eru þessir reglulegu viðburðir ætlaðir fyrir þýðendur að lesa úr verkum sínum og ræða störf sín. Ég fékk gestamiða á hátíðina fyrir giggið og var duglegur að nýta mér það þar sem ég vissi að ég ætti takmarkaðan tíma eftir í New York.

Inmaculada Lara Bonilla, Rodrigo Rey Rosa, Rodrigo Fresán og Claudiu Salazar Jiménez á sviði á SubCulture í SoHo

Á fyrsta degi hátíðarinnar fór ég á pallborðsumræðurnar „The Library of Borges“ þar sem höfundarnir Rodrigo Rey Rosa frá Guatemala og Rodrigo Fresán frá Argentínu ræddu um áhrif Jorge Luis Borges á Suður-Amerískar bókmenntir undir stjórn Inmaculada Lara Bonilla og Claudiu Salazar Jiménez. Var sérstaklega merkilegt að heyra Rey Rosa ræða um Guatemala og flókna stöðu sína sem höfundur frá landi þar sem lítið er um læsi, og hvernig Guatemala og fleiri Suður-Amerísk lönd sem skortir innlenda bókmenntaarfleið hafa handvalið sér sínar kanónur út frá Borges og öðrum höfundum álfunnar. Rodrigo Fresán sagði skondna sögu af því þegar hann sem ungur maður, í miðju rifrildi við kærustu sína, rakst utan í aldinn Borges úti á götu, svo illa að sá síðarnefndi datt í stéttina. Fólk flykktist að til að hjálpa og skamma Fresán, sem sá fram á að verða aldrei frægur rithöfundur heldur verða í staðinn þekktur sem maðurinn sem drap Borges. Einnig töluðu þeir um það að Borges væri lokað kerfi; að þú gætir lært að elska lestur og skrif með því að lesa Borges en aldrei lært að skrifa eins og hann, þar sem, eins og Fresán sagði: „Ef þú reynir að skrifa eins og Borges þá hljómarðu bara eins og fífl!“

Victor LaValle og Marlon James á sviði í CUNY Graduate Center

Daginn eftir fór ég í CUNY Graduate Center að hlusta á Victor LaValle ræða við Jamaíska höfundinn Marlon James um nýútkomna bók hans: Black Leopard, Red Wolf. Báru pallborðsumræðurnar yfirskriftina „A Game of Leopards and Wolves“, en titillinn snýr að fyrirætlun James um að skapa viðlíka fantasíuheim fyrir Afríkuríkin og til er fyrir hinn vestræna heim í verkum höfunda á borð við George R.R. Martin og J.R.R. Tolkien. Sérstaklega var gaman að heyra James ræða áhrifavalda sína í æsku og tala um ást sína á teiknimyndasögum, reyfurum, rauðum seríum og öðrum bókmenntaafsprengjum popp-menningar, og taldi hann þar m.a. upp skáldsögur Jackie Collins og X-Men teiknimyndasögur Chris Claremonts. Hann sagði líka sögu af því þegar hann missti af eigin áritunarviðburði á bókmenntahátíð þar sem hann stóð í röð til að fá Mike Mignola til að árita eintakið sitt af Hellboy teiknimyndasögu. Einnig talaði hann um mikilvægi þess fyrir sig sem karlhöfund að lesa eins marga kvenhöfunda og mögulegt er í von um að geta skapað sannfærandi og heilræna kvenkaraktera. James, sem vann Man-Booker verlaunin árið 2015 fyrir bókina A Brief History of Seven Killings, talaði um það að höfundar sem hætta sér inn í fantasíu- eða vísindaskáldsöguformið seinna á ferli sínum verði að bera haldbæra þekkingu á þessum bókmenntagreinum og sýna þeim þá virðingu sem þær eiga skilið, ella eiga á hættu að gera sjálfa sig að fífli. Þrátt fyrir strangt bókakaupabann sökum yfirvofandi flutninga til Íslands endaði ég á að kaupa eintak af Black Leopard, Red Wolf, og fékk James til að árita það fyrir mig. Ég er að lesa hana núna og er kominn á flug, þrátt fyrir að það hafi tekið mig dálítinn tíma að bindast rödd sögumannsins, sem er æði svæsin.

Garrard Conley, Colm Tóibín og Édouard Louis á sviði á SubCulture

Þriðja daginn fór ég að sjá írska höfundinn Colm Tóibín ræða við hinn unga, franska höfund Édouard Louis undir handleiðslu Garrard Conley, höfund Boy Erased. Yfirskrift umræðunnar var „Our Fathers“, og ræddi Tóibín um skrif sín um feður Oscars Wilde og W.B. Yates, sem báðir voru hálfgerðir vandræðagripir. Einnig talaði hann um fangelsisvist Oscars Wilde í Reading fangelsinu, en Tóibín fékk að dveljast við skriftir læstur inni í klefa Wilde í fangelsinu, þar sem Wilde hafði ofan af fyrir sér með því að skrifa langt bréf til fyrrum ástmanns síns, Lord Alfred Douglas, sem bar að vissu leiti ábyrgð á því hvernig fyrir Wilde var komið. Er þetta bréf kallað De Profundis og var hálfgerð fangelsisdagbók fyrir Wilde.

Ég hafði fengið mikinn áhuga á Édouard Louis eftir að ég las ítarlega grein um hann og bækur hans í New York Review of Books. Hann hefur skrifað mikið um föður sinn, fyrst í bókinni The End of Eddy, þar sem hann lýsir reynslu sinni sem samkynhneigður drengur sem elst upp í fátækri franskri verkamannafjölskyldu. „Fyrir móður mína og föður, var samkynhneigð eins og vofa sem umkringdi okkur,“ útskýrði hann og lýsti hvernig faðir hans og aðrir karlmenn í þorpinu voru uppteknir við að gæta að karlmennsku sinni og pössuðu sig að gefa ekki höggstað á sér með því að gera neitt sem talist gæti „teprulegt“ eða „hommalegt“. Í nýjustu bók sinni, Who Killed My Father, hittir Louis föður sinn í fyrsta sinn eftir mörg ár og kynnist honum á nýjan leik, nú sem farlama manni, öldnum langt fyrir aldur fram, með laskaðan líkama sem hefur verið fórnað í púl og hættulega erfiðisvinnu í verksmiðjum. Þessi upplifun leiðir Louis til þess að beina gagnrýnu auga að stéttarskiptingu Frakklands. Í bókinni ásakar hann og nefnir á nafn franska stjórnmálamenn sem hann álítur persónulega ábyrga fyrir því hvernig komið sé fyrir föður sínum. Á sviðinu með Tóibín ræddi hann mikið um hvernig efri stéttirnar horfa á pólitík sem hálfgerða afþreyingu, á meðan pólitík hefur bein áhrif á líkama og heilsu fátækasta fólksins í landinu, sem fær lítið sem ekkert að segja um pólitískar ákvarðanir. Við að hlusta á hann tala varð mér oft hugsað til orðræðunnar í veraklíðsbaráttunni hér heima undanfarið ár. Louis talaði einnig um reynslu sína í franska réttarkerfinu, eftir að honum var nauðgað af karlmanni sem hann bauð heim með sér, en önnur bók hans, History of Violence, segir frá verknaðinum og eftirköstum hans. Ég lét til leiðast að fá áritað eintak af bók Louis, sem er hvort eð er í þynnra lagi, og því ekki eins tvísýnt að koma henni í tösku og doðrantinum hans Marlon James.

Elissa Schappel, Inêz Pedrosa, Elif Shafak og Jennifer Egan á sviði á SubCulture.

Þá um kvöldið fórum við Elín saman á pallborðsumræður undir yfirskriftinni „Women Uninterrupted“, þar sem komu saman höfundarnir Jennifer Egan frá Bandaríkjunum, Elif Shafak frá Tyrklandi og Inêz Pedrosa frá Portúgal, undir handleiðslu Elissu Schappel. Þær ræddu hvernig orðið „kvenhöfundur“ hefur breyst úr því að vera leiðinda merkimiði yfir í hálfgert pólitískt baráttuslagorð. Merkilegt var að heyra hvernig Egan hafði upphaflega byrjað að skrifa mestmegnis karlkaraktera til þess að sannfæra sjálfa sig (og aðra) um að hún væri í raun ekki að skrifa út frá sjálfri sér. Shafak talaði líka um það að þá sjaldan sem eitthvað af henni sé að finna í karakterum sínum þá séu það yfirleitt karlkarakterarnir sem hún felur sig á bak við. Í báðum tilvikum töluðu þær um hvernig þær hafa þurft að berjast gegn því að bækur þeirra séu lesnar sem „reynslusögur“, sem er stimpill sem þeim finnst æði oft vera skellt á skáldsögur kvenna—eða eins og Pedrosa orðaði það: „Öllum er skítsama þótt Philip Roth sé augljóslega allir sínir karlkarakterar.“

Þannig talaði Egan líka um þá kröfu sem oft er haldið að höfundum um þeir skuli skrifa það sem þeir þekkja („write what you know“), sem henni finnst allt of takmarkandi. Hefur hún í staðinn valið að skrifa langt út fyrir sitt þæginda- og þekkingarsvið—t.d. með því að skrifa um kafara í nýjustu bók sinni, Manhattan Beach. Ég minnist þess að hafa heyrt svipaðar skoðanir í ritgerðasafni Ann Patchett, This is the Story of a Happy Marriage. Það var frískandi að heyra nánari pælingar um þessa hugmynd, þar sem að ég man að ég fylltist skelfingu við lýsingar Patchett á því hvernig hún hefði hafist handa við að skrifa skáldsögur sem snúa að genafræði eða óperum án þess að búa að neinni sértækri þekkingu um þá heima—þótt hún væri auðvitað orðinn algjör sérfræðingur þegar hún var búin að skrifa bækurnar.

Matt Gallagher, Rodrigo Rey Rosa, Tommy Orange og Mohammed Hanif.

Síðasta kvöldið sat Rogrigo Rey Rosa aftur fyrir svörum, ásamt blaðamanninum og rithöfundinum Mohammed Hanif frá Pakistan og Tommy Orange, höfundi af ættum Cheyenne-indíána. Hann gaf nýlega út skáldsöguna There, There, sem gerist á meðal fátæks fólks af indíánaættum í borginni Oakland í Kaliforníu. Stjórnandi samtalsins var rithöfundurinn og fyrrum hermaðurinn Matt Gallagher. Ræddu viðmælendur um hvernig ekki væri hægt að segja sögu sinna mismunandi þjóða og þjóðarbrota án þess að inn í það spinnist saga ofbeldis. Það var rætt um hvernig stofnanavædd valdbeiting og ofbeldi þýðir í raun að yfirvöld leyfi fólki að þjást og deyja án þess að því sé sýnd samkennd eða umhyggja. Hanif kom einnig með öflugar blammeringar á það hvernig vestrænt samfélag hefur markaðssett stríð og ofbeldi. Hann talaði tæpitungulaust um þreytu sína á almennum borgurum sem afsala sér ábyrgð á stríði þrátt fyrir að greiða skatta til yfirvaldanna sem standa að stríðinu, sem og allri þeirri rómantík og samúð sem hermenn sem snúa heim úr stríði eru sveipaðir í, á meðan lítilli athygli er beint að íbúum landanna þar sem stríðið er háð.

Eftir viðburðinn rölti ég yfir götuna frá Cooper Square, þar sem seinasti panellinn fór fram, og drakk einn ljósan og einn dökkan á McSorley‘s Old Ale House. Þrátt fyrir allan túristaflauminn þar inni, sem mættur er til að bera augum (að því að mér er sagt) elstu knæpu New York borgar, er McSorley‘s engu að síður einn af mínum uppáhaldsstöðum á Manhattan. Reyndist þessi heimsókn vera fyrsta skiptið af nokkrum þennan maímánuð, þar sem ég lagði krók á leið mína til að kveðja McSorley‘s „í síðasta sinn“.

HVENÆR ER EITTHVAÐ ÓGNVEKJANDI? – GREIN UM IAIN REID Í TMM

Nýjasta hefti TMM kynnir til leiks þá alþjóðlegu höfunda sem taka þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í ár

Í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar eru kynntir til leiks þeir alþjóðlegu höfundar sem taka þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í ár. Ég tók að mér að skrifa um kanadíska rithöfundinn Iain Reid og verk hans fyrir heftið. Þess ber að geta að ég tók líka viðtal við Reid sem birtist í nýjasta hefti Reykjavík Grapevine, en í því hefti tók ég einnig viðtal við tyrkneska höfundinn Hakan Günday, sem einnig tekur þátt í bókmenntahátíðinni í ár.

TMM gefur út smásögur, frumsamið efni og þýðingar eftir íslenska höfunda og greiðir þeim fyrir efnið sem birt er, en slíkt er einkar sjaldgæft á meðal þeirra fáu bókmenntatímarita sem þrífast á íslenskum útgáfumarkaði. Ég hvet ykkur til að styrkja TMM, sem ef eitthvað er hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarið, þrátt fyrir að hafa verið starfrækt nokkurn veginn samfellt síðan 1938.