HEIMILI – PISTILL FYRIR UPPÁSTAND

Uppástand á Rás 1 bað mig um að skrifa smá pistil undir þemanu „Heimili“. Hægt að smella á myndina til að hlusta en ég læt líka textann fylgja hér að neðan.

HEIMILI

Ég keypti mína fyrstu íbúð árið 2014. Mér er sagt að ég hafi verið heppinn, að það hafi verið „góður tími til að kaupa“. Ekki að ég hafi verið sérstaklega meðvitaður um það þegar kaupin gengu í gegn. Eftir því sem ég best man botnaði ég hvorki upp né niður í skjölunum sem lögð voru fyrir framan mig og kvittaði undir þau með sömu glórulausu bjartsýninni og þegar ég skuldsetti mig um aldur og ævi með námslánum nokkrum árum áður.

Þannig álpaðist ég inn á íslenskan húsnæðismarkað án þess að gera mér á nokkurn hátt grein fyrir því hve lánsamur ég hafði verið. Ef einhver spurði mig út í íbúðarkaupin flýtti ég mér að útskýra að eina ástæða þess að ég gat keypt íbúðina (eða þann hluta í henni sem lánastofnunin átti ekki) væri að ég hefði fengið arf þegar pabbi minn dó úr krabbameini – eins og til að sýna fram á að ég væri í raun alls ekkert heppinn, kannski bara þvert á móti. Á þennan máta reyndi ég slá á stéttarsamviskubitið sem átti það til að narta í mig þegar ég og hinir húseigendurnir vorum að ræða dren eða baðherbergisflísar í partíum og ég tók eftir því að einhver í hópnum dró sig í hlé, setti upp þegjandalegt bros og beið eftir að skipt væri um umræðuefni. Einhver sem hafði greinilega ekki verið eins heppinn og við hin.

Heimurinn leit öðruvísi út eftir að ég var orðinn eignamaður. Ég talaði um aðra hluti, upplifði nýjar og framandi áhyggjur. Ég hugsaði til dæmis meira um vatn en nokkurn tímann áður. Ég sá það hvert sem ég leit. Í rakanum sem safnaðist á milli glerja í eldhúsglugganum, í fúanum í þakskegginu og í undna parketinu undir ofninum í stofunni. Var þetta svona í gær? spurði ég sjálfan mig í sífellu. Er þetta kannski eitthvað nýtt?

Ég kynntist líka í fyrsta sinn eirðarleysinu sem fylgir því að tilheyra húsfélagi; hinni eilífu bið eftir að einhver annar taki af skarið og boði til húsfundarins sem ætlunin var að halda síðasta vor. Ég var skyndilega orðinn meðeigandi með hópi fólks sem ég taldi mig ekki eiga nokkurn skapaðan hlut sameiginlegt með – að undanskildu ytra byrði hússins, garðinum og þessum örfáu fermetrum í þvottahúsinu. Öll áttum við það þó sameiginlegt að á einhverjum tímapunkti höfðum við verið heppin.

Ég er reyndar viss um að flestir af fyrrum meðeigendum mínum væru ósammála þessari skilgreiningu minni, og myndu gera mér grein fyrir öllu því sem þau lögðu á sig til að komast inn á markaðinn á sínum tíma, en af minni vissulega takmörkuðu reynslu af íslenskum fasteignamarkaði að dæma sýnist mér þó að dagurinn í gær hafi ætíð verið heppilegri tími til að kaupa en dagurinn á morgun. Öll hljótum við því að teljast að einhverju marki heppin, við sem keyptum í gær.

En hér er ég kominn langt út fyrir efni þessa pistils, sem átti að fjalla um heimili fólks, sem í mörgum eða jafnvel flestum tilvikum er ekki það sama og fasteignir þess. Sjálfur hef ég átt þó nokkur heimili bæði hérlendis og erlendis og er það einungis á síðustu tíu árum sem ég hef verið að bora í veggi án þess að spyrja kóng eða prest og láta áhyggjur um raka halda fyrir mér vöku.

Ég hef nefnilega líka verið svo heppinn að hafa alltaf átt mér heimili. Afdrep í heiminum þar sem ég get hengt upp myndir og lokað að mér, boðið fólki inn og jafnvel, í einhverjum tilvikum, skipað því að hypja sig á brott. Ég hef aldrei upplifað það að vera neyddur til að flýja heimili mitt, og ég hef heldur aldrei verið sviptur heimili mínu vegna duttlunga stjórnvalda. Kannski má segja að ég hafi verið „heppinn“ að þurfa ekki að þola slíkar raunir, en einhvern veginn kann ég ekki við það. Það gefur í skyn að fólkið í samfélagi okkar, sem nú stefnir hraðbyri á götuna sökum þess að íslenska kerfið hefur neitað því um heimili, hafi verið óheppið.

Því að þegar um er að ræða ákvarðanir og lagasetningar sem eiga sér stað á lýðræðislega kjörnu þingi og leiða af sér að fólk sem skortir rödd í samfélaginu – flóttafólk og öryrkjar, til að mynda – endar á götunni, þá þykir mér það á einhvern hátt ósmekklegt að tala um heppni og óheppni. Í besta falli er það einfeldni, eða ónærgætni. Í versta falli sviptir það okkur hin – þau heppnu – allri ábyrgð á því óréttlæti sem þetta fólk þarf að þola á líkama og sál við að vera neitað um afdrep í samfélagi okkar.