#9 ÚTI Í KULDANUM

Ég lokaði Facebook og Instagram rétt fyrir jól. Markmiðið var að setja aðgangana mína á pásu þar til í haust, þegar ég verð (vonandi) með í jólabókaflóðinu. Þá ætlaði ég mér að kveikja aftur og hamast við sprellið í von um að einhver tæki yfir höfuð eftir því að ég væri að gefa út bók. Þið vitið: eitthvað quality content við undirritun samningsins, titla-reveal, kápu-reveal, kokteil drykkur þegar bókin er farin í prentun, Spotify-playlistinn af tónlistinni sem ég hlustaði á á meðan ég var að skrifa, auðmjúkur þakkarpistill, flipp í útgáfufögnuði, í fína jakkanum að lesa upp einhvers staðar o.s.frv. o.s.frv. Stemmning stemmning stemmning. Svo þegar ég væri orðinn viss um að bókin væri komin í huggulegan farveg, kannski í byrjun febrúar eða svo, þá var ætlunin að slökkva á þessu aftur, þangað til næst þegar ég þyrfti að ræsa út kóklestina.

(Ég er löngu búinn að eyða Twitter, btw. Twitter selur ekki bækur. A.m.k. ekki íslenska Twitter. Og ég nennti ekki öllu Musk-egó-rúnk-contentinu.)

Reyndar misfórst þetta eitthvað hjá mér. Á einhverjum tímapunkti loggaði ég mig inn í Messenger í browser (er ennþá að nota það fyrir vini og fjölskyldu) og Facebook hefur greinilega túlkað það þannig að ég væri mættur að nýju. Ég uppgötvaði ekki fyrr en löngu seinna að prófíllinn minn hefði birst aftur. Ég hef leyft honum að vera í friði síðan en hef ekkert opnað Facebook.

Staðan.

Ég get ekki annað sagt en að breytingin hafi verið til batnaðar. Það er eilítið meiri tími afgangs á hverjum degi til þess að lesa bækur, renna yfir to do listana, skrifa einhverja vitleysu (eins og þetta raus hér, og stundum kannski eitthvað merkilegra) og jafnvel bara stara út í loftið. Best af öllu er að mér hefur loksins tekist að venja mig af þeim leiða ávana að vera með símann við höndina þegar ég er að horfa á sjónvarp, og er aftur farinn að horfa á bíómyndir í einni lotu og standa upp þegar ég nenni ekki lengur því sem er á skjánum. 

Það er náttúrulega hálfgerð klisja að gera svona mikið mál úr þessu. Það minnir mig á gamla brandarann: Hvernig veistu að einhver á ekki sjónvarp? (Svar: Hann segir þér það.) Líklega er kominn tími á að uppfæra þennan brandara og spyrja frekar: Hvernig veistu að einhver er ekki á Facebook? Að minnsta kosti ætti það betur við á Íslandi.

Það er eiginlega ótrúlegt hvað þessi miðill er alltumlykjandi í menningunni okkar. Ekki bara í menningarumræðunni, heldur líka þegar kemur þörfum upplýsingum eins og tímasetningunni á barnaafmæli frænda þíns eða opnunartímanum í búðinni sem þú ætlar að reyna að ná í eftir vinnu. Í hvert sinn sem ég opna forritið í leit að einhverjum svoleiðis krúsjal smáatriðum sem ég get því miður ekki fundið neins staðar annars staðar finnst mér eins og algóritmarnir séu að gera allt sem þeir geta til að afvegaleiða mig. Þeir vilja miklu frekar sýna mér vídeó af bílum og dude-bros að lyfta og éta prótínstykki.

Í sannleika sagt þá var það einmitt þessi sjálfspilandi vídeófítus sem var síðasta hálmstráið. Ég þoli ekki að hafa svona takmarkaða stjórn á því hvað skellur á sjónhimnunni þegar ég opna miðilinn. Ég reyndi allt hvað ég gat að slökkva á vídeóunum en Facebook tók það ekki í mál. Ég veit ekki hvað ég hef gert af mér á internetinu til að eiga þetta content skilið, nema kannski bara að vera karl og hafa orðið fertugur um árið. Markmiðið er augljóslega að fá mig til gleyma hvað ég ætlaði mér að gera og eyða í staðinn meiri tíma í ráf og skroll. Ráf + skroll = auglýsingatekjur.

Þar fyrir utan verð ég að segja að ég er farinn að vera hálf móðgaður yfir því hverskonar týpa algóritmarnir virðast halda að ég sé. Þeir eru sífellt að bjóða mér upp á að versla ljótustu og hallærislegustu föt allra tíma.

Nei takk.
WTF!?

Síðan ég uppgötvaði að prófíllinn minn er ennþá á sínum stað hef ég sætt mig við það að líklega þurfi ég á honum að halda og hef leyft honum að hanga uppi. Ég fæ stundum skilaboð á Messenger frá fólki sem hefur fundið mig í gegnum Facebook um upplestra eða viðtöl eða álíka fjör sem ég vil ekki missa af. Kannski set ég þennan bloggpóst þangað inn líka, þótt að tilhugsunin um að halda úti bloggi sem enginn les eða veit af þar sem það er hvergi sjáanlegt á samfélagsmiðlum kitli mig vissulega smávegis. (Það er samt subscribe-takki þarna uppi í hægra horninu einhver staðar, nóta bene.)

Mest óttast ég samt að þetta sé allt saman bara einhver roluháttur hjá mér, að ég sé að stinga höfðinu í sandinn, fara undan flæmingi, koma mér undan því að þurfa að taka þátt í umræðunni. Það er mikið tilkall til þess að maður taki afstöðu þessa dagana, sem er gott og blessað og eitthvað sem ég vill glaður gera. Mér þykir bara leitt að stundum er eins og samfélagsmiðlarnir séu eini vettvangurinn sem er í boði til þess. Þegar manni líður þannig er eins gott að gefa sér tíma til að drífa sig út að mótmæla, eða gefa fé í góðan málstað, eða taka gott kaffistofuspjall um málefni líðandi stundar, eða leggjast í einhverja álíka jaðarstarfsemi. Kannski er það ekki eins áhrifaríkt og að koma með harðorða yfirlýsingu á Facebook, en að minnsta kosti finnst mér þá eins og ég sé á staðnum sjálfur, frekar en að þarna úti einhvers staðar sé avatar af sjálfum mér sem ég er tilneyddur til að vakta og endurhugsa í sífellu. Sú furðulega tilfinning á það til að fokka gjörsamlega upp vinnudeginum mínum, eins og ég eigi mér hliðarsjálf sem ég hef bara takmarkaða stjórn á og er í þokkabót í eigu bandarísks stórfyrirtækis.

Líklega er ég þó að ofhugsa þetta. Ég á það til.

Að minnsta kosti á ég þó alltaf þann örlitla skika internetsins sem er þessi heimasíða, sem ég borga fyrir í beinhörðum en ekki með skrolli og ráfi. Hér get ég þó tekið afstöðu í friði frá öllum algóritmum, eins tilgangslaust og það er hér í eyðimerkurlendum veraldarvefsins.

Kannski er ég líka bara búinn að vera að hlusta á of mikið Godspeed og Silver Mt. Zion undanfarið.