#4 HAKKABUFF Í ÖLLUM REGNBOGANS LITUM

Ég er loksins að finna fæturna í endurskrifunum, seinna en ég hafði vonast eftir en þó er ekki eins og ég hafi tekið mér langa pásu frá handritinu á meðan ég beið eftir punktum frá ritstjóra og yfirlesurum. Líklega var þörf á því, jafnvel þótt það setji þeim mun meiri pressu á mig núna ef ég ætla að gera mér vonir um að koma bókinni út í ár. Punktarnir hafa hingað til verið í jákvæðri kantinum en þó líka mjög krítískir, með ábendingunum um eitt og annað sem þarf að vaða í. Einna helst er þar um að ræða veikleika sem að ég vissi svosem að væru til staðar en var of ragur til að takast á við – þurfti smá tíma til að herða upp hugann og einhvern til að reka mig í verkið.

Í svona handritaskrifum skiptast sífellt á óreiða og fínpúss. Maður byrjar á algjörri óreiðu og nýtur þess að grípa allt sem kraumar upp úr manni og setja niður á blað, allskyns óskunda og klisjur og léleg skrif sem maður hrúgar ofan á upphaflegu hugmyndina. Svo hefst maður handa við að slípa þetta til og pússa í von um að finna huggulegt harðviðargólf einhvers staðar undir öllu þessu teppalími og línólíumflísum. (Þessi myndlíking gengur nú varla upp en mér er skítsama.) Það getur því verið ansi erfitt þegar maður er búinn að vinna í handriti lengi og slípa það til að þurfa að rífa upp parketið og gólffjalirnar sem maður var komin niður á. (Hananú.) Dýfa sér að nýju í óreiðuna með útkrotað handrit og endalausar athugasemdafærslur og breytingatillögur sem breyta skjalinu í marglitt hakkabuff. Við því er þó ekkert að gera. Óreiðan er órjúfanlegur hluti af sköpuninni, og ég er smátt og smátt að uppgötva aftur gleðina sem felst í því að hleypa öllu í bál og brand; hrúga inn pælingum og hugmyndum sem ég mun reyna að flétta einhvern veginn inn í skjalið án þess að skemma það um of eða hreinlega ganga endanlega frá því. Kannski maður reyni næst að “write it clean”, eins og Stephen King talar um; reyna að koma þessu frá sér í sæmilega endanlegri mynd jafnóðum, frekar en að laga eftir á. Hingað til hafa allar tilraunir mínar til þess leitt af sér ekkert nema niðurrif og sjálfsefa, sem er einstaklega ógagnlegt þegar maður er að fara af stað með handrit, svo að í bili held ég mig við það að skrifa fyrst og lesa og laga eftir á.

Annars tók ég stóra ákvörðun um daginn og gekk í hlaupahóp og hitti nú hóp af fólki tvisvar til þrisvar í viku og fer út að hlaupa með þeim. Ég byrjaði fyrst að hlaupa einhvern tímann á þrítugsaldri, á meðan ég var í ritlistarnáminu í Glasgow. Það var mjög takmörkuð mætingarskylda í náminu (eins og allt háskólanám ætti að vera, ef þú spyrð mig) og því var ég meira og minna fastur heima allan daginn í skítkaldri skoskri Tenement-íbúð. Hlaupin voru þannig leið til þess að halda geðheilsu en líka til að halda á sér hita; að koma blóðinu á hreyfingu. Ég uppgötvaði skjótt að þau voru einstaklega gjöful þegar kom að þeim hluta allrar hugmyndavinnu sem fer fram í undirmeðvitundinni. Ef eitthvað var ekki að ganga upp í skrifunum um morguninn þá reddaðist það yfirleitt um eftirmiðdaginn, þegar ég var búinn að hlaupa einn hring í næsta almenningsgarði. Stundum lenti ég meira að segja í því að eitthvað poppaði upp í hugann sem þurfti að festa niður sem fyrst, og man ég sérstaklega eftir því þegar að ég fékk skyndilega hugmynd og varð að spretta heim þar sem ég skrifaði söguna „Marglyttur“ (sem er að finna í Smáglæpum) nánast í einum rykk, ennþá í hlaupagallanum.

Hlaupin hafa haldið áfram með hléum síðan, en ætíð frekar á forsendum andlegrar heilsu og afkasta, frekar en keppnisskaps eða líkamlegrar atorku. Þannig hef ég aldrei reynt að fá  yfirsýn yfir hluti eins og “pace” eða annað slíkt, heldur verið þeim mun meira umhugað að koma aftur inn með einhverjar nýjar hugmyndir og í betra skapi. Mig minnir að ég hafi byrjað á þessu áður en ég las maraþonsbókina hans Murakami en hver veit. Kannski er ég bara enn einn klisjukjáninn sem tók þá bók sem heilagt gospel og keypti sér hlaupaskó í von um að það myndi redda öllu veseninu sem þessu skriflífi fylgir. 

Ég þoldi aldrei liðsíþróttir í æsku og vildi helst bara fá að vera í friði, kannski einmitt út af því að fólk átti það til að setja samasemmerki á milli þess hve ég var stór miðað við bekkjarfélaga mína og því að ég hlyti að vera góður í íþróttum, t.a.m. á línunni eða undir körfunni. Sú var aldrei raunin. Blessunarlega var ég þó skikkaður í sund sem barn þar sem ég var svo mikill sláni og fann mig þar. Sund er víst einkar gott til þess að kenna slánakrökkum að rétta almennilega úr sér, og er þar að auki ein sú mesta einstaklingsíþrótt sem þú getur stundað. Þú þarft ekki einu sinni að tala við neinn, því þú ert mest allan tíma á kafi. Þar undi ég mér vel fyrir utan þegar reynt var að fá mig til að keppa á sundmótum. Mér fannst ég hafa mikilvægari hnöppum að hneppa um helgar heldur en að hírast undir handklæði á framandi sundlaugarbakka og bíða eftir riðlinum mínum. Það þurfti til dæmis að lesa Hitch-hiker’s Guide to the Galaxy í fjórða sinn, eða panta kryddbrauð og Pepsi Twist á Pizza-bæ og leigja eina nýja og eina gamla í Bónusvídeó.

Hingað til hefur eina liðsíþróttin sem mér hefur hugnast verið að hjálpa fólki að flytja, og myndi ég glaður keppa í þeirri íþrótt, enda einkar fær um að koma sófum í gegnum dyragættir. Kannski er þó að verða einhver breyting þar á og ég að verða félagslyndari með aldrinum. Það hefur allavega verið huggulegt að fara út og hlaupa einn hring með öðru fólki og byrja í fyrsta sinn að pæla í hlutum eins og sprettum og hvíld og álíka. Mín eigin markmið í hlaupum (fyrir utan að koma kyrrð á hugann) hafa yfirleitt eingöngu snúist um að gæta þess að halda mér á skokki allan tímann og fara aldrei að ganga, líkt og okkur var skipað í útihlaupum í leikfimi forðum. Svo komst ég að því á minni annarri æfingu með hlaupahópnum þarna að það er víst voða hollt og gott að ganga inn á milli, og í raun mun betri æfing fyrir líkamann en að halda sér á stöðugu brokki langtímum saman.

Annars er ég núna að skoða bókahillurnar heima og vinna mig í gegnum ólesnar bækur. Ég er kominn sæmilega inn í Libra eftir Don DeLillo, sem ég tók á sínum tíma í kúrsinum The Great American Novel í UEA, þar sem kennarinn var Sarah Churchwell. Ég hélt mikið upp á þennan kúrs og allar bækurnar sem ég kynntist þar, og því hefur það alltaf setið í mér að vikuna sem við áttum að lesa DeLillo náði ég ekki að klára bókina í tæka tíð, annað hvort út af skiladag á einhverri ritgerð eða út af djammi – ég man ekki hvort. Bókin segir mjög skáldaða sögu af Lee Harvey Oswald og samsæri innan CIA sem leiðir til morðsins á JFK. Ég fór að hugsa um þessa ókláruðu bók eftir að við hjónin fórum á Prinsessuleikana í vikunni sem leið, þar sem Sólveig Arnarsdóttir leikur Jackie Kennedy með alveg svakalegum þunga sem sat í mér að sýningu lokinni og varð til þess að alla vikuna hef ég verið að raula gamla headbanger-slagarann Tire Me með Rage Against the Machine, af plötunni Evil Empire. Nánar tiltekið línurnar:

I wanna be Jackie Onassis
I wanna wear a pair of dark sunglasses
I wanna be Jackie O, oh, oh, oh, oh please don’t die!

Ég fór svo einnig að hlusta á nokkra þætti sem ég hafði misst af með Backlisted Podcast, þar sem þau ræða merkisbækur sem eru gleymdar eða við það að falla í gleymsku og orðnar svo gott sem ófáanlegar. Eftir að hafa hlustað á þáttinn þeirra um The Inheritors eftir William Golding endaði ég á að snúa heimilinu á hvolf í leit að eintakinu sem pabbi keypti handa mér á sínum tíma þegar við fórum tveir saman í ferð til Norwich svo að ég kæmist í viðtal hjá UEA og gæti skoðað mig um áður en myndi hefja nám þar árið eftir. Ég hafði lesið Lord of the Flies fyrir enskutíma í MS og verið algjörlega heillaður, en einhvern veginn náði ég aldrei að tengja nið Neanderdalsmennina í The Inheritors, sem á yfirborðinu að minnsta kosti virðast eiga lítið sameiginlegt við skólastrákana í Lord of the Flies. Því miður virðist þetta eintak hafa tapast eða endað í gjafakassa á einhverjum tímapunkti en ég held í vonina um að það muni dúkka upp að nýju. Ef svo ólíklega vill til að það hafi ratað á gjafaborðið með bókum sem við Elín stilltum upp til að saxa á búslóðina á Kirkjuteignum á sínum tíma, í garðveislunni sem var um leið brúðkaups- og kveðjuveislan áður en við fluttum til USA, og einhver hafi haft það á brott með sér og eigi hjá sér upp í hillu, þá myndi ég gefa mikið fyrir að endurheimta bókina. Kannski ekki fúlgur fjár en að minnsta kosti einlægar þakkir.

Hún lítur svona út.

Þau í Backlisted-pod voru sammála um að það mætti án efa segja að Golding væri vísindaskáldsagnahöfundur út frá lestri þessarar bókar og ekki síður útfrá lestri The Spire, sem kom á eftir henni, en einnig er auðvitað margt í Lord of the Flies sem er ansi vísindaskáldsögulegt – eða a.m.k. heimsendasögu-legt. Gerir það hann að einum af að minnsta þremur vísindaskáldsagnahöfundum sem ég man eftir í fljótu bragði sem hlotið hafa Nóbelsverðlaunin, en hinir tveir eru Kazuo Ishiguro og að sjálfsögðu Doris Lessing. Þó er ég viss um að margir muldri nú með sjálfum sér: „Ja… ég veit nú ekki alveg hvort þau teljast sem vísindaskáldsagnahöfundar…“ líkt og lesendur sem hafa talið sér trú um að þeir lesi ekki vísindaskáldsögur segja alltaf þegar vísindaskáldsaga fær nógu mikla athygli til að hljóta viðurkenningu og verðlaun á vettvangi „fagurbókmennta“. Ég heyrði þetta sagt bara núna síðast um Merkingu eftir Fríðu Ísberg, sem ég myndi alveg hundrað og tíu prósent telja til vísindaskáldsagna.

Hvað varðar tónlist þá er ég núna að enduruppgötva hina stórkostlegu Nightmare Traversal með hollensku death metal minimalistunum í CRYPTAE; einstaklega gagnleg plata þegar þú ert í yfirlestri og endurskrifum og vantar eitthvað þungt og þykkt til að leggjast yfir öll skilningarvitin og skyggja á heiminn. Þeim félögum er margt til listanna lagt en ég held einnig mikið upp á systurhljómsveit þeirra, Dead Neanderthals (viðeigandi að láta þá fylgja hér, samanber skáldsögu Golding). Ég læt Click, nýjustu plötu (eða „verk“) þeirra, fylgja hér að neðan líka; einhverskonar fútúrískt-synth-psychadelia-trance-death metal bræðingur sem enginn leið er að fitta í tiltekið form. René Aquarius, sem trommar að ég held í báðum hljómsveitum, er einnig með mjög djúsí bandcamp síðu þar sem má finna hverskyns ambient, synth og sóló-trommu-project.

Jæja. Komið gott af blaðri. Núna dýfi ég mér aftur í óreiðuna í handritinu.