HVENÆR ER EITTHVAÐ ÓGNVEKJANDI? – GREIN UM IAIN REID Í TMM

Nýjasta hefti TMM kynnir til leiks þá alþjóðlegu höfunda sem taka þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í ár

Í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar eru kynntir til leiks þeir alþjóðlegu höfundar sem taka þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í ár. Ég tók að mér að skrifa um kanadíska rithöfundinn Iain Reid og verk hans fyrir heftið. Þess ber að geta að ég tók líka viðtal við Reid sem birtist í nýjasta hefti Reykjavík Grapevine, en í því hefti tók ég einnig viðtal við tyrkneska höfundinn Hakan Günday, sem einnig tekur þátt í bókmenntahátíðinni í ár.

TMM gefur út smásögur, frumsamið efni og þýðingar eftir íslenska höfunda og greiðir þeim fyrir efnið sem birt er, en slíkt er einkar sjaldgæft á meðal þeirra fáu bókmenntatímarita sem þrífast á íslenskum útgáfumarkaði. Ég hvet ykkur til að styrkja TMM, sem ef eitthvað er hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarið, þrátt fyrir að hafa verið starfrækt nokkurn veginn samfellt síðan 1938.