#3 SVO BREGÐAST KROSSTRÉ…

Linsan á símanum mínum er biluð og getur ekki fókusað, sem kemur sér einstaklega vel til að taka blörrí stærilætismyndir af útkrotuðu handriti án þess að gefa neitt uppi

Ég heyrði í útvarpinu um daginn mann sem talaði um að janúar væri uppáhalds mánuðurinn hans þar sem hann væri yfirleitt besta myndin af sjálfum sér í janúar; færi út að hlaupa, notaði tannþráð og hætti að stúta rauðvínsflöskum fyrir framan Netflix. (Ókei, bætti við þessu síðasta.) Ég tengdi mikið við þessi orð. Sjálfur hef ég alltaf haldið upp á hverskyns þáttaskil – klippingar, nýir skór, nýtt hlaupa-eða to-do-lista-app – og haft mikla trú á því að á morgun, eða í næstu viku, eða á komandi ári muni ég loks finna jafnvægið til að taka upp nýja og betri siði og finna þessa sirka tvo tíma sem mig virðist skorta á degi hverjum til að ná að klára allt sem ég ætla mér.

Á árunum 2018-2021 hélt ég dagbók upp á hvern dag, allt þar til skrifin breyttust í hálfgerða áráttu sem ég hafði ekki lengur neina ánægju af. Ég varð að setjast niður og hripa eina blaðsíðu sama hvað, jafnvel þegar mér fannst ég hafa ekkert að segja, og stundum missti ég úr nokkra daga og þurfti að feta mig aftur á bak og reyna að rifja upp hvað (ef eitthvað) hefði gerst síðan síðast. Ég ákvað því í janúar 2022 að leggja þessi áráttukenndu skrif til hliðar og reyna að uppgötva aftur ánægjuna sem ég hafði áður af því að halda dagbók. Héðan í frá myndi ég bara skrifa í dagbókina þegar mér fyndist ég þurfa á því að halda, þegar ég fyndi fyrir löngun til þess, eða ef eitthvað virkilega merkilegt gerðist.

Síðan þá hefur mér að gengið bölvanlega að halda dagbók. Þetta blogg átti að vera leið til að finna gefandi vettvang fyrir reglubundin skrif í léttari kantinum, en virðist stefna í sömu átt og dagbókarskrifin, og hef ég varla litið hingað inn undanfarna mánuði á meðan ég hef verið með hugann við handritið að bókinni minni.

Ég er annars búinn að vera í hálfgerðu spennufalli síðan ég sendi handritið á ritstjórann minn hjá Forlaginu. Á hverjum morgni í a.m.k. tvö ár hef ég annað hvort sest niður og krukkað aðeins í því eða verið með samviskubit yfir að hafa ekki sest niður og krukkað aðeins í því. Suma daga var ég með ákvæði í to-do listanum mínum þar sem stóð einfaldlega “opna handritið”, til að tryggja að ég missti ekki tengslin við það, þótt ég væri að sinna öðrum verkefnum eða hlaupa á eftir daglegu amstri og áhyggjum. Nú er ég búinn að fá nokkra punkta hjá ritstjóra og nokkrum öðrum og er að undirbúa mig undir annað áhlaup, og er líka með einn-tvo yfirlesara tilbúna á hliðarlínunni sem ég er að “spara” fyrir næsta holl.

Ég var spurður um daginn hvort mér þætti það ekki óþægilegt að láta marga lesa yfir á sama tíma, en mér þykir það einmitt ágætt að standa fyrir framan sundurleitan kór frekar en einsöngvara, kannski einkum þar sem það sýnir þér hve ólíka sýn hver og einn lesandi hefur. Kórinn nær sjaldnast að stilla saman strengi og einn fyrirlítur það sem annar hefur til skýjanna, og báðir hafa eitthvað til síns máls. (Að því sögðu þá er líka alltaf eitt og annað sem allir eru sammála um að megi missa sín eða þurfi sárlega að laga.) Auk þess borgar það sig að vera með sæmilegan hóp af lesurum því að það eru alltaf einhverjir sem komast síðan aldrei í handritið eða ná ekki að klára yfirlesturinn sökum anna. Ekkert að því, að sjálfsögðu, þar sem sá yfirlestur sem ég skiptist á við með flestum mínum yfirlesurum snýst um greiðvirkni og að borga þeim til baka í sömu mynt frekar en í beinhörðum peningum. Ég hef sjálfur lent í því oftar en ég vill viðurkenna að svíkja einhvern um endurgjöf sem ég hafði lofað þeim vegna þess að skyldurnar í hversdeginum (eða skrifin sjálf) þvældust fyrir.

Annars er ég núna að lesa Mantel Pieces (mjög gott pönn) eftir Hilary Mantel; safn af gagnrýni hennar og skrifum fyrir London Review of Books, og er aðallega að hlusta á plötuna Suffocating Hallucination, sem er samstarfsverkefni death/sludge/doom hljómsveitarinnar Primitive Man og grindcore/noise hljómsveitarinnar Full of Hell.

Ég hef verið að vinna mig í gegnum slatta af Mantel undanfarið og átta mig á að ég er kannski heldur seinn á svæðið. Kláraði um árið Beyond Black, dásamlega gróteska skáldsögu hennar um draugagang og miðla. Hún er bæði húmorísk og hræðileg og full af ótrúlega skemmtilegum og ósympatískum persónum sem virka engu að síður svo breiskar og mannlegar. Það er eitthvað alveg sérstakt við það hvernig Mantel skrifar um ofbeldi, og sérstaklega kynferðisofbeldi í þeirri bók. Aðalpersónan neitar að skilgreina sig út frá hræðilegu kynferðisofbeldi sem hún mátti þola í æsku, en neitar jafnframt að takast almennilega á við ofbeldið og segir söguna af því á sama hátt og við myndum kannski lýsa því hve mikið við hötuðum að fara í leikfimi í barnaskóla. Bókin kom út 2005 og það er ansi merkilegt að skoða hana í dag, í samhengi við metoo-augnablikið sem við erum annað hvort ennþá í eða komin út úr eða loksins sloppin undan eða rétt byrjuð að takast á við – eftir því hvern þú spyrð. Mantel er líka einn af þessum höfundum – ekki ólíkt Jonathan Franzen og David Foster Wallace – sem mér finnst gaman að lesa skáldsögur eftir en sem ég hef hreina unun af að lesa þegar þau skrifa non-fiction. Þegar hún beitir eigin rödd til að takast á við bækur eða kryfja breska kóngafólkið er hún svo hárbeitt og óhrædd og um fram allt kýrskýr að maður fær gæsahúð

Talandi um gæsahúð: Primitive Man áttu að spila á Íslandi í fyrra á vegum Doomcember-hátíðarinnar, sem hafa einnig flutt inn stórgóð bönd eins og Conan og Vile Creature o.fl. Ég var búinn að tryggja mér miða og hlakkaði mikið til, en á síðustu stundu féll það í gegn út af einhverju Covid-klúðri. Mjög svekkjandi. Full of Hell gæfi ég líka mikið fyrir að sjá einhvern daginn á sviði. Einstaklega góðir og huggulegir strákar sem spila alveg hræðilega gróteska og ofsafengna tónlist. Samspil þessara tveggja banda – annað þeirra löturhægt og níðþungt og hitt yfirleitt á þvílíkri gandreið að maður finnur hreinlega til með þeim að leggja á sig aðra eins spilamennsku í þágu listar sinnar – er algjörlega magnþrungið; einhver ómennskur og Lovecraft-legur kraftur sem leystur er úr læðingi, handan við tungumál og hverskyns stæla. (Ef það er eitthvað sem gerir mig afhuga tónlist þá eru það stælar.) Læt ég lag af plötunni fylgja hér að neðan ásamt vídeóum með viðtölum við báðar hljómsveitir þar sem sést greinilega hve krúttulegt liðið sem spilar svona þunga og erfiða tónlist er yfirleitt í raun og veru, og hve vítt og breytt það sækir innblástur sinn, úr djassi og synth-tónlist og hipphoppi og bara hvaðan sem er.