#8 RÚTÍNUHUNDADAGAR

Engin ritlaun í ár, sem er auðvitað svolítið svekkjandi en það er erfitt að vera að fussa og sveia þegar maður sér marga kunningja sína gleðjast á samfélagsmiðlum yfir að fá úthlutun í fyrsta sinn. Þetta þýðir meira hark á komandi ári og minna svigrúm, en ég er blessunarlega ekki lengur í þeirri stöðu að öll mín egg séu í ritlaunakörfunni og árið ónýtt og einskis virði án þeirra. Þótt ritlaunin séu í raun eina leiðin sem flestir íslenskir höfundar hafa til að geta einbeitt sér að skrifum langtímum saman án þess að þurfa sífellt að rjúka frá til að sinna öðrum störfum þá er það algjörlega hræðileg staða þegar maður er farinn að treysta á þau. Sjóðurinn er það lítill og umsóknirnar það margar að það segir sig sjálft að það meikar ekkert sens að reikna með þeim ár eftir ár. Samt borgar það sig nú alltaf, finnst mér, að setja saman umsókn í von og óvon og geta þá kannski nýtt sér aukaefnið og drögin sem henni fylgja þegar maður stendur uppi ritlaunalaus og þarf að lauma skrifunum inn á milli vinnu og fjölskyldu. Eða kannski er ég bara einn af þessum margumræddu höfundum sem eru víst bara góðir í að skrifa umsóknir en ekki bækur, og fæ því einhverja blætiskennda Excell-nautn við að setjast niður og spá í því hvað ég ætli mér að gera á komandi ári, frekar en að mæta á kontórinn og treysta því að andinn taki völdin eins og alvöru bóhem.

Ójæja. Öll höfum við okkar djöful að draga.

Í raun reyni ég að feta milliveginn, setja mér stefnu og áfangastað en skilja eftir nægan tíma og pláss fyrir ýmiskonar útúrdúra og vegasjoppur, og frelsi til að skipta um skoðun hvenær sem ég vill og halda í þveröfuga átt.

Rútínan á eflaust eftir að verða eitthvað flóknari á komandi ári, en almennt reyni ég að hafa það markmið að eini munurinn á því að vera á ritlaunum og að vera ekki á ritlaunum sé að bókin kemur fyrr út ef maður er á þeim. Ég er annars í ágætri stöðu ákkúrat núna til að takast á við það ærna verkefni að skrifa samhliða fullri vinnu. Endurskrifin á handritinu eru að verða búin og ég ætla mér að verða tilbúinn að afhenda það ritstjóra þegar þau hjá Forlaginu ná andanum eftir jólavertíðina. Undanfarna mánuði hef ég verið að vakna klukkan sjö til að blússa niður í Gröndalshús og ná þar tveimur tímum af skrifum áður en ég hoppa aftur á hjólið til að vera mættur í vinnuna um tíuleytið. Auðvitað væri gott að ná lengri dögum inn á milli, en að hafa svona takmarkað svigrúm til að skrifa hefur þó þann kost að þegar maður sest loksins við lyklaborðið er aldrei neinn tími til að stara út í loftið og skrifa ekki neitt. Þegar maður finnur svo loksins næði til að renna yfir allt handritið kemur það síðan yfirleitt á óvart hve mikið hefur breyst síðan maður súmmaði síðast út og skoðaði heildarmyndina.

Blessunarlega hefur tíðarfarið líka verið þannig að ég get notað hjólið, sem er á góðum nagladekkjum. Án þess veit ég ekki hvort ég hefði tíma til að ná inn þessum lotum fyrir vinnu.

Þessi rígfasta rútína hefur skilið lítið rými eftir fyrir tónleika eða annað útstáelsi, en mér tókst samt að fara að sjá Bongripper á Gauknum um daginn ásamt Larissu Kyzer, sem er eina manneskjan í íslensku bókmenntalífi sem nennir að fara á metal-tónleika með mér. Bongripper voru vægast sagt stórkostlegir. Sögðu ekki stakt orð við crowdið, byrjuð bara að spila og litu varla upp fyrr en klukkutíma síðar, þegar þeir kipptu úr sambandi og löbbuðu af sviðinu og gáfu dolföllnum áheyrendaskaranum lítinn gaum, þar sem við stóðum dösuð eftir og klöppuðum og öskruðum eftir meira. Síðan þá hef ég mikið verið að spila live-plöturnar þeirra, en það er nokkuð ljóst að hér er um að ræða live-band og töluverður munur á stúdíóplötunum og samspilinu og grúvinu sem þeir detta í á tónleikum. Þess utan er ég búinn að vera að hlusta mikið á tónlistarmanninn dgoHn, sem rambaði inn á Spotify hjá mér um daginn. (Ú á Spotify, samt, btw. Er að vinna í að losa mig aftur undan ánauð þeirrar þrælakistu.) Ég veit nákvæmlega ekkert um manninn, né er ég einu sinni viss hvað á að kalla þessa tónlist, hvort þetta sé dubstep eða drum’n’base eða (sem ég sá þetta einhvers staðar kallað) drumfunk – hvað sem það nú er. Helst minnir þetta mig á gömlu Droopy Butt Begone! plötuna með 1-speed-bike, sem ég á einhverstaðar á vínyl og hefur lengi verið í miklu uppáhaldi. Læt hlekki fylgja hér að neðan.

Keypti þessa bakpjötlu til minningar en veit þó ekki hvaða jakka ég fórna undir hana, kannski bara taupoka.

Jólabækur: Búinn með MEN, DEUS og Serratónínendurupptökuhemla og er að klára Armeló. Hæastánægður með þær allar og hissa að sjá engar þeirra tilnefndar, en hef auðvitað ekki enn haft tíma né fjárráð til að demba mér í tilnefndu bækurnar og á því erfitt með að fara í samanburð. Að öðrum ólöstuðum þótti mér MEN og Serratónínendurupptökuhemlarnir standa sérstaklega upp úr, kannski þar sem þar vottar fyrir einhverju nýju og fersku í höfundarverki beggja höfunda, en ég held ég hafi lesið allar bækur þeirra beggja til þessa (eða amk allar skáldsögur Sigrúnar). MEN býr að lúmskum húmor sem dregur þó engan veginn úr hættunum, siðferðislegum sem líkamlegum, sem steðja að aðalsöguhetjunni, uppgjafaflautuleikara sem gerist menningarblaðamaður til að koma sér undan þeirri kunnuglegu streitu sem fylgir skapandi líferni, og heldur svo áfram að gefa sjálfum sér afslátt á hugsjónir sínar af góðum og gildum ástæðum þar til hann endar á heljarþröm. (Það hefur líka verið einkar ánægjulegt að ræða bókina við fólk sem er eldra en ég og býr að meira slúðri um íslensk utanríkismál í kringum aldamótin en ég sjálfur, sem var að útskrifast úr menntaskóla á þeim tíma.) Í Serratónínendurupptökuhemlunum er minna um húmor en oft áður í verkum Friðgeirs. Sagan er lítil og lágstemmd, og segir frá venjulegri millistéttarfjölskyldu í Reykjavík þar sem allir eru bara einhvern veginn að reyna að gera sitt besta. Það er æði sérstakt andrúmsloft í bókinni.  Undirliggjandi þunglyndi heimilisföðurins (og fleiri, kannski) litar öll samskipti fjölskyldunnar og setur svip sinn á allt í umhverfi þeirra. Ógnin sem þunglyndinu fylgir er einhvern vegin svo ægileg og óstöðvandi að ég upplifði hana næstum eins og vonadakalla-týpuna sem oft má finna í kvikmyndum Coen-bræðra, ef það er ekki of einkennileg samlíking. Eitthvað óútskýranlegt og óumflýjanlegt afl sem sem eltir persónurnar á röndum og virðist fært um að slá þær í hel á hverri stundu.

Annars verð ég með glæpasögukviss þann þrettánda desember hjá Sölku á Hverfisgötu klukkan 20:00 og vonast til að sjá einhver ykkar þar – þótt auðvitað beri ég fullan skilning á því að kvissið er á sama tíma og Ljóð og vinir í Mengi og kannski er fólk spenntara að sjá Gyrði og kompaní stíga á stokk á þessum einstaklega huggulegu upplestrarkvöldum en að hlusta á hnyttnar spurningar um mínar uppáhalds glæpasögur. Kvissið átti reyndar upphaflega að vera off-venue viðburður á vegum Sölku í tengslum við Iceland Noir, en blessunarlega mætti enginn í það skiptið, hvort sem það var einhverri sniðgöngu að þakka eða bara almennri þreytu gesta eftir langan dag af olnboganuddi og orðræðu. Ég slapp því að einhverju marki við að þurfa að vinda mér í viðlíka naflaskoðun og sumir samhöfundar mínir yfir þessari blessuðu hátíð, þótt ég væri í raun bara þarna sem launaður verktaki á vegum Sölku en ekki hátíðarinnar. Ég er enn að reyna að átta mig á því hvernig sauð svona hræðilega upp úr pottinum á íslenskum menningarsamfélagsmiðlum í kjölfar hennar. Það var einkennilegt hvernig sumum virtist þykja aðgerðirnar beinast gegn sjálfum sér persónulega, þegar mér þótti höfundarnir sem stóðu að upphaflegu sniðgöngunni ansi skýr í framsetningu sinni í fjölmiðlum, og kunni að meta að þau létu ekki glepjast til að dragast inn í samfélagsmiðlaumræðu sem fór skjótt að snúast um eitthvað allt annað en Hillary Clinton og þjóðarmorð í Gaza. Ég hef ekki komist að neinni niðurstöðu hvað þetta varðar annarri en þeirri að það sé ekki endilega hollt að horfa á umheiminn og orðræðuna eingöngu í gegnum prisma samfélagsmiðla, þar sem það er í eðli þeirra að magna upp allt það sem setur mann úr jafnvægi eða vekur viðbrögð í von um að halda manni eilítið lengur í auglýsingaumhverfi sínu. Ég hugsa að á komandi ári muni ég slökkva á facebook og öðrum samfélagsmiðlum í einhvern tíma og sjá til hvaða áhrif það hefur á heimssýn mína og andlega líðan. Ég viðurkenni þó fúslega að ég er engan veginn viss um hvort það sé í þeim tilgangi gert að gæta að geðheilsunni og efla samveru með mínum nánustu, frekar en bara í von um að stinga höfðinu í sandinn og kóa með átakafælninni. Örugglega smá af bæði, grunar mig.