#5 ÓÞARFA VESEN OG HIPSTERARÚNK

Ég setti nýtt batterí í ipodinn minn í gær. Ipodinn fékk ég að gjöf frá pabba í kringum 2004-5 og tók alfarið við af ferðageislaspilaranum sem ég var með í hliðartöskunni minni hvert sem ég fór á menntaskólaárunum – í þá daga þegar ég var ennþá of kúl til að nota bakpoka og of ungur til að fá bakverki. Ég man ekki hvað ég notaði ipodinn lengi. Í einhver ár, þar til hann hætti að virka. Einhvern tímann eftir að við Elín komum heim aftur frá Bandaríkjunum uppgötvaði ég hann ofan í kassa, og til gamans setti ég hann í hleðslu og fór enn einu sinni ég gegnum allar reset-leiðbeiningarnar sem ég fann á netinu. Mér til undrunar hrökk hann í gang, með þessu gamalkunna hvissi sem harði diskurinn gefur frá sér. Það var ansi sérstök tilfinning að renna yfir innihaldið; tímahylki fullt af allri tónlistinni sem ég hlustaði á upp úr aldamótum. Furðu mikið af poppi og lítið af metal – nema bara ISIS og Converge og auðvitað tímamótaplatan Behold the Fuck Thunder með The Great Redneck Hope.

Ég skemmti mér yfir þessari nostalgíu í dálitla stund en um leið og ég tók ipodinn úr sambandi dó hann aftur. Batteríið greinilega löngu kulnað. Upp á fönnið prófaði ég að panta nýtt batterí frá Ali Express – mín fyrstu samskipti við það bákn. Ég var ekki endilega að búast við miklu en tók sénsinn, borgaði ekki nema sirka 2000 kall fyrir batteríið og sendingarkostnaðinn, plús eitthvað álíka í tollinn og póstinn.

Batteríið skilaði sér mun fyrr en ég hafði vonað, kyrfilega falið á milli tveggja leikfangabíla sem höfðu verið teipaðir saman. Seljandinn ætlaði greinilega ekki að taka neina sénsa ef ske kynni að varan stæðist ekki evrópska staðla. Með þolinmæði, smjörhníf og góðu míkróskrúfjárni tókst mér að komast inn í ipodinn, fjarlægja gamla batteríið og koma því nýja fyrir án þess að skemma neitt. Hann virkar eins og hvers manns hugljúfi að nýju, og er ég nú þegar búinn að fylla hann af vel valinni tónlist. Einkum plötum sem ég hef verið að kaupa af Bandcamp undanfarin ár og hlaða niður af þeirri góðu síðu, og hef stundum dundað mér við að taka upp á kassettur til að hlusta á í gömlu græjunum í stofunni.

Einn af nokkrum uppáhalds Spotify-playlistum sem ég er að kasta eign minni á, þótt tæknilega sé sé ég bara að leigja þá af Spotify

Það eru góðar líkur á að ég missi allan áhuga á ipodinum, núna þegar ég er búinn að takast á við áskorunina við að skipta um batteríið í honum. Þannig vill það oft vera með svona dútl. Ég sá samt fyrir mér að ég gæti notað hann þegar mig langar að setjast niður í afskekktu horni með bók og vera ekki truflaður í einhvern tímann. Tónlistin sem ég valdi passar einkar vel við þá iðju. Lítið af hipphoppi og mikið af klassík, doom og electro stöffi sem dugar til þess að leggjast þykkt yfir heiminn í kringum mig, á meðan ég gleymi mér við lesturinn. Hellingur af Earth og Sunn O))) og Aphex Twin og annarri “heilatónlist”.

Ég er núþegar búinn að fara á Bandcamp og fjárfesta í nokkrum nýjum plötum sem ættu að passa vel við þá iðju. Tvær plötur frá Bell Witch, hin glænýja Future Shadow Part 1: Clandestine Gate og Four Phantoms frá 2015. Ef einhver tónlist á ekki heima á Spotify er það án efa hljóðverkin sem þeir í Bell Witch skapa. Plöturnar eru yfirleitt vel yfir klukkutími á lengd en samanstanda eingöngu af einu lagi. (Ætli þeir fái ekki borgað undir 50 kall per streymi, eins og við höfundarnir á Storytel?)

Til viðbótar forpantaði ég Systemic, nýju plötuna með áströlsku noise-sludge-stöllunum í Divide and Dissolve. Platan kemur reyndar ekki út fyrr en 30. júní, en miðað við þessi tvö lög sem eru nú aðgengileg er von á góðu. Fyrri plötuna þeirra, Gas Lit, keypti ég á vínyl og spila stundum í botni þegar ég er einn heima og finn loksins smá næði til að lesa á sófanum. Hnausþykkt og fallegt og níðþungt og alfarið orðalaust, ef undanskilið er ljóð frá Brooklyn-ljóðskáldinu Minori Sanchez-Fung, sem flutti líka ljóð á fyrstu plötunni þeirra, Abomination, og á efalaust líka eitt lag á nýju plötunni.

Ég er stundum inntur eftir því hvernig ég nenni öllu þessu veseni. Að brasa við kassettur og ipoda og eltast við plötur á Bandcamp og svo framvegis. Þetta er þó ekki neitt ólíkt og grúskið sem flestir á mínum aldri stunduðu í gamla daga, til að útvega sér tónlist. Spotify hefur gert okkur kleift að hugsa voða lítið um tónlistina sem við njótum. Við þurfum hvorki að fara út í búð að kaupa hana né hafa fyrir því að taka hana upp á spólu eða skrifa hana á diska og krota lagalistann á miðann í hulstrinu. Hvað þá að liggja yfir iTunes (sem heitir víst núna Music) til að gæta þess að lögin séu í réttri röð og allir hástafir á réttum stöðum, tengja síðan mp3-spilarana okkar við tölvuna með forneskjulegri snúru og stara út í loftið eins og idíótar í einhverjar mínútur á meðan tónlistin er afrituð. Við þurfum varla einu sinni að tala um tónlist lengur, rífast um hana, fá meðmæli frá vinum okkar. Hún er bara þarna þegar við þurfum hana, eins og vatnið í kalda krananum. Skrúfa frá, láta renna, skrúfa fyrir. Ég man ekki hvenær ég heyrði síðast spurninguna „á hvað ertu að hlusta núna?“ Fólk í dag er líklegra til að spyrja: „á hvað ertu að horfa?“.

Auðvitað er það í eðli sínu óttalegt hipsterarúnk að reyna að nýtast við svona úrelta tækni eins vínylplötur, kassettur og jafnvel ipoda – sem eru núna komnir með alveg jafn mikinn nostalgíublæ og úrelta tæknin sem þeim var ætlað að koma í staðinn fyrir. Ég átta mig alveg á því. Ég gæti allt eins farið að hjóla um bæinn á penny farthing-reiðhjóli og reynt að halda því fram að það sé bara hreinlega einfaldara og ánægjulegra farartæki en reiðhjól með jafn stórum dekkjum. Það breytir því ekki að það er eitthvað huggulegt við að eiga og spila tónlist á físísku formi. Einhver svona hugguleg mótþróaröskun. Mér finnst oft einmitt eins og flest það sem fær á sig stimpilinn “hipsterískt” í dag snúist að mestu um þá huggulegu mótþróaröskun sem fylgir svona óþarfa veseni.

Megin ástæðan fyrir ipodinum og kassettunum er þó sú sama og ástæðan fyrir því að ég fór aftur að ganga með úr og notast við vekjaraklukku fyrir nokkrum árum. Ég hef ekki trú á því að það sé hollt að láta símann sjá um allt fyrir mann, sérstaklega ekki mikilvægar þarfir á borð við svefn, tíma og tónlist. Þegar ég sest niður til að lesa og set tónlist yfir eyrun til að ekkert trufli mig – líkt og ég hef gert frá því ég var polli og fékk afhent mitt fyrsta vasadiskó (sem ég á líka ennþá, btw, og nota stundum) – þá vill ég helst geta gert það án þess að þurfa að hafa símann við höndina. Snjallsímar ganga út á truflanir. Jafnvel þegar maður er búinn að slökkva á öllum tilkynningum og stilla á do not disturb þá er erfitt að gleyma stað og stund með síma innan seilingar. Og fyrir mér hefur tónlist (líkt og lestur) alltaf að einhverju leyti snúist um að gleyma stað og stund.

Mestmegnis er þetta þó líklega bara hipsterarúnk.

Geturðu séð af einum og hálfum klukkutíma?
Af annarri plötu þeirra, Gas Lit. Hávaðinn kemur eftir smá.