HVAÐ GET ÉG SAGT?

Þessi pistill birtist fyrst á vef Stundarinnar þann 15. september síðastliðinn, þegar þær fréttir bárust að vísa skyldi Khedr-fjölskyldunni úr landi daginn eftir.

Hvað get ég sagt?

Í morgun, á leiðinni á skrifstofuna mína í Borgartúninu, datt mér svolítið fyndið í hug. Það skiptir ekki máli hvað það var. Bara einhver spaugileg athugasemd um daginn og veginn; eitthvað sem gladdi mig í hversdeginum.

Eins og ég á til þá tók ég upp símann og hripaði niður tíst til að deila hugskotinu með því snefilmagni þjóðarsálarinnar sem fyrirfinnst á Twitter. Þar er ég með prófíl með huggulegri mynd af sjálfum mér og set oft inn eitt og annað sem mér þykir hnyttið, deili tónlistinni sem ég er að hlusta á hverju sinni og svo framvegis.

Ég hef ekki farið leynt með ástæður þess að ég byrjaði á forritinu. Ég, eins og margir í skapandi geiranum, hef gengist við þeirri hugmyndafræði að það sé mikilvægt að vera „sýnilegur“ á netinu, í von um aukna möguleika á að lifa á list minni (þótt ég velti oft fyrir mér hvort öllum tímanum sem fer í að viðhalda þessum sýnileika væri ekki betur varið í listsköpunina sjálfa). Vera mín á þessum samfélagsmiðli hefur frá byrjun verið stýrt af mínum eigin hagsmunum. Ég geri mér grillur um að með því að vera „virkur“ þarna og annars staðar á netinu séu auknar líkur á að fólk veiti því eftirtekt sem ég er að gera, lesi greinarnar mínar og kaupi jafnvel bækurnar mínar eða mæti að minnsta kosti á bókmenntaviðburði þar sem ég les úr þeim.

Þar sem ég stóð í Borgartúninu, við það að senda enn eina sniðuga og umfram allt meinlausa athugasemd út í ljósvakann, mundi ég að í dag ætla íslensk stjórnvöld að senda úr landi sex manna fjölskyldu sem hefur sest hér að og upplifað hér öryggi og von um bjartari framtíð. Ég hef fylgst með þessari fjölskyldu undanfarna daga. Þau hafa neyðst til að fara í fréttirnar til að biðla til þjóðarinnar og íslenska ríkisins um miskunn. Bænum þeirra hafa stjórnvöld svarað með sorgarsvip búrókratans sem telur sig eiga engra kosta völ, hristir höfuðið og kennir kerfinu um.

Ég get ekki sagt að mín viðbrögð hafi verið mikið betri. Ég hef setið í þögn og fylgst með fréttaflutningi af þessari sorgarsögu, eins og ég hef gert við aðrar slíkar sögur undafarin ár. Eins og áður er naumur tími til stefnu. Svona málum fylgir tifandi klukka sem telur niður dagana, klukkustundirnar, mínúturnar þar til fólkinu er vísað úr landi. Þess vegna er mikilvægt að taka umsvifalaust skýra afstöðu þegar svona mál ber á góma. Sjálfur hef ég hikað, farið undan í flæmingi og talið mér trú um að ég búi ekki að nægilegum skilningi. Ég hef sagt sjálfum mér að ég þurfi að kynna mér allar staðreyndir málsins áður en ég geti tjáð mig; þurfi tíma til að setja saman þaulhugsuð og óhrekjanleg rök sem færa skoðun mína til bókar.

Á meðan ég hef legið undir mínum sjálfhverfa feldi hefur fjölskyldum verið vísað úr landi. Aftur og aftur. Og ég hef gleymt þessum fjölskyldum, haldið áfram að senda frá mér orðgjálfur um ekki neitt eða jafnvel notað stöðu mína til að tjá mig um önnur bitbein samfélagsins. Hjólastíga, almenningssamgöngur, launamál og annað sem skarast á skýrari hátt við mína eigin hagsmuni en afdrif brúnnar, útlenskrar fjölskyldu sem er á barmi þess að tapa tilvist sinni.

Ég eyddi meinlausa, fyndna tístinu mínu og lokaði símanum. Það sem eftir var leiðarinnar fann ég að ég skammaðist mín, bæði fyrir framferði íslenskra stjórnvalda en ekki síst fyrir mína eigin þögn; fyrir hik mitt og kjarkleysi. Það rann upp fyrir mér að í eðli sínu eru þessi mál ekkert flókin, eða að minnsta kosti ekki svo flókin að ég sé ekki fullfær um að standa upp og taka afstöðu. Jafnvel þótt það sé það minnsta sem ég geti gert, þótt orð mín kosti mig ekki neitt, breyti engu og enginn gefi þeim gaum, þá verð ég að gera skyldu mína sem þegn í þessu landi og segja hátt og snjallt: Þetta er ranglæti sem ég vill ekki að sé framkvæmt í mínu nafni.