#7 LISTAMANNALAUN SCHRÖDINGERS

Myndin tengist skrifunum ekki beint

Jæja, þá er ég búinn að senda inn umsókn um listamannalaun fyrir 2024.

Þetta er auðvitað fyrir löngu orðin fastur liður í árinu hjá manni. Ég kíki yfirleitt á formið um leið og pósturinn berst frá RANNÍS í byrjun september, til að svona mjaka mér af stað en líka til að ganga úr skugga um hvort einhverju hafi verið breytt frá því árið áður. Ég hef einu sinni lent í því að skrifa heila umsókn inni í Word-skjal (treysti aldrei RANNÍS-vefsvæðinu alveg) út frá umsókn sem ég gerði árið áður og uppgötva síðan á síðustu stundu að formið var gjörbreytt. Mér sýnist umsóknarformið í ár vera nokkuð svipað og í fyrra og minnir að það hafi verið eins í hitt í fyrra líka, svo kannski er þetta komið í fastar skorður hjá þeim.

Í fyrra var einnig sú góða nýbreytni tekin upp að úthlutunin var tilkynnt í desember, sem ég vona að verði endurtekið í ár. Mér þykir það mun þægilegra en áður, þegar maður þurfti jafnvel að bíða fram í miðjan janúar með að segja vinnuveitendum sínum hvernig maður ætlaði sér að haga komandi ári. Ekki var verra að með því að tilkynna úthlutunina rétt fyrir jól sá RANNÍS við vatnsglasstorminum sem skellur venjulega á í gúrkutíðinni í byrjun árs, þegar vefmiðlarnir sjá sér leik á borði að hala inn nokkrum smellum með fyrirsögnum á borð við ÞESSIR [DJÖFULS AUÐNULEYSINGJAR] FÁ LISTAMANNALAUN Í ÁR, svo að þeir sem hlotið hafa úthlutun ná varla að kætast og hringja í mömmu áður en þeir eru komnir í gapastokka kommentakerfa fyrir að hafa fé af öryrkjum.

Ég reyni yfirleitt að vera í fyrra fallinu og forðast þannig heimasíðukrassið hjá RANNÍS á síðasta degi, en 13. september er nýtt met! Ég hef aldrei áður komið umsókninni frá mér svona snemma. Líklega skýrist það þó að einhverju leyti af allri vinnunni sem fór í síðustu umsókn, sem tók mig mánuð að ljúka við, sérstaklega allt aukaefnið og viðhengin sem snúa að nýju verkefni sem ennþá á ansi langt í land. Umsóknirnar mínar eru oftast einskonar framhaldsskrif, með milliköflum í formi áfanga- og lokaskýrsla. Hver umsókn inniheldur yfirleitt tvær bækur: bókina sem ég er að reyna að klára og bókina sem ég ætla að byrja á um leið og hin er búin.

Öll þessi bjúrókrasía er náttúrulega óttalegt maus en ég verð samt að viðurkenna að skrifin sjálf gera verið svo mikil þokuganga hjá mér að ég hef líklega gott af því að vera neyddur til að setjast niður einu sinni á ári til að reyna að átta mig á því hvað ég er að gera og hvað mig langar að gera. Þannig hafa umsóknirnar mínar oft breyst í einskonar vegvísa sem ég nýti mér þegar ég villist af leið og man ekkert lengur af hverju mér þótti þetta efni svona spennandi til að byrja með. Þá getur verið gott að fletta upp síðustu umsókn og sjá hverju ég lofaði þar; hversu stórhuga ég var síðasta september þegar veturinn var enn ekki skollinn á að fullu og ég var búinn að steingleyma hvernig bévítis reiknaða endurgjaldið gleypir megnið af upphæðinni.

Þannig reyni ég að fá eitthvað gagn úr allri þessari vinnu sem fer í umsóknina á hverju ári, sama hvort ég hljóti á endanum laun fyrir hana eða ekki. Það fyndna er að yfirleitt enda ég á að nýta þetta allt; öll uppköstin og fögru loforðin og persónulýsingarnar og hálfkláruðu beinagrindurnar sem ég hengi við umsóknina til að reyna að sýna fram á að ég sé nú voða duglegur strákur og traustsins verður. Ekki að ég sé endilega með þetta til hliðsjónar á meðan ég er að skrifa, en það er ágætt að glugga í þetta af og til, jafnvel bara til að sanna fyrir sjálfum sér að það sé nú alveg eitt og annað búið að gerast í handritinu síðan síðast og að það sé orðið lengra en það var.

Eða styttra. Það getur líka verið ansi gott stundum.

Ég gæti auðvitað eytt hér nægum orðum í allt það sem vantar upp á í þessu kerfi okkar, sem er langt því frá að vera fullkomið, en mér hefur þótt aðrir vera betri í því en ég, sem á oft og tíðum erfitt með að átta mig á því hvernig listageirinn gengur upp yfir höfuð hér á landi. Í lok hvers árs skil ég ekki hvernig mér tókst enn einu sinni að þrauka án þess að segja það gott og fá mér eina af þessum margumtöluðu “alvöru vinnum”. (Ég er nú reyndar með eina svoleiðis líka.) Þannig enda ég yfirleitt bara á því að umla eitthvað um að þetta sé nú bara það sem er í boði og lítið við því að gera, á meðan samhöfundar mínir steyta hnefann og útlista fyrir mér hvernig hlutirnir ættu að vera. Auðvitað er ég meira og minna sammála hnefasteyturunum og þakklátur þeim fyrir að standa í þessu pexi fyrir mig, en í gegnum tíðina hefur það ekki reynst mér neitt sérstaklega hollt að hugsa of mikið út í ritlaunin á meðan ég er ekki annað hvort að sækja um þau eða þiggja þau. Ég reyni helst að setja þau í sama flokk og veðrið; ég hef enga stjórn yfir því en get þó að minnst kosti reynt að búa mig vel.

Og núna er einmitt runninn upp sá ljúfi tími árs sem ég kalla “Schrödinger-mánuðina”. Þessir þrír mánuðir í lok árs þegar ég þarf ekkert að hugsa um listamannalaunin. Umsóknin er send og málið er úr mínum höndum. Ég veit ekki hvort ég verð með ritlaun á næsta ári eða ekki, og er þannig bæði með þau og ekki. (Eða eitthvað svoleiðis. Þekking mín á kettinum hans Schrödinger er mestmegnis fengin í gegnum einhverjar poppkúltúr hjáleiðir.) Þar til svar berst í desember (eða janúar) er ekkert sem ég get gert nema halda mínu striki og reyna að koma mér í góða stöðu til að koma bókinni út á næsta ári – hvort sem það verður gert með hjálp ritlauna eða ekki.

Annars hef ég undanfarið verið að reyna að taka upp heilbrigðari símavenjur. Síðan ég losaði mig við alla samfélagsmiðla af símanum hef ég staðið mig að því að opna visir.is í sífellu og lesa fréttir um minniháttar drama í hverfisgrúbbum á Facebook og daglegt líf hjá íslenskum selebum sem ég kann engin skil á. Til að reyna að gera eitthvað uppbyggilegra þegar ég finn að það eina sem geðheilsa mín vill er að ég gleymi mér um stund við að dútla í símanum náði ég mér í einfalt teikniforrit og hef verið að leika mér að því að rissa teiknimyndasögur. Ég er nokkuð ánægður með þessa. Hún heitir „Nýir vinir“.

Þeir eru sko báðir með monobrow, þúst..

Hvað varðar tónlist þá er ég aðallega að hlusta á Cloud Rat þessa dagana og naga mig í handarbökin yfir að hafa misst af þeim þegar þau spiluðu á Húrra fyrir nokkrum árum. Vonandi koma þau einhvern tímann aftur. Madison Marshall er með svakalegustu söngrödd sem ég hef heyrt lengi. Grindcore-band sem sprengir utan af sér alla þá kassa og stefnur sem reynt er að slá upp utan um þau. Set smá tveggja-mínútna-sturlun frá þeim hér undir fyrir þá sem nenna svoleiðis.