VIÐTAL Á BBC RADIO 4

Núna í vikunni var ég gestur í þættinum „Open Book“ á BBC Radio 4, sem stýrt er af Mariella Frostrup. Þar var mér ætlað að útkljá um hvort að íslenska jólabókaflóðið væri hrein og klár mýta og þannig veita innsýn í raunverulegar aðstæður íslenskra rithöfunda og bókaútgefanda. Ég reyndi að sinna því verki hvað best ég gat, slá á einhverjar rósrauðar ranghugmyndir en um leið benda á allt það sem gerir jólabókaflóðið að því skemmtilega og einstaka fyrirbæri sem það er. Að sjálfsögðu notaði ég líka tækifærið og reyndi að troða inn nokkrum titlum eftir þá höfunda sem tóku þátt í jólabókaflóðinu í ár. Megnið af því efni endaði hinsvegar ekki í lokaútgáfu þáttarins, líklega þar sem breskir hlustendur hafa kannski lítið að gera við höfunda sem eru enn sem komið er ófáanlegir á enskri tungu. Það mátti þó reyna.

VIÐTAL Í SÍÐDEGISÚTVARPINU MEÐ JÓHÖNNU MARÍU EINARSDÓTTUR

Ég og Jóhanna María Einarsdóttir vorum í viðtali hjá Björgu Magnúsdóttur í Síðdegisútvarpinu í vikunni. Þar ræddum við um bækurnar okkar, Smáglæpi og Pínulitla kenopsíu, sem og um útgáfu á Íslandi í dag og hinn háa meðalaldur íslenskra rithöfunda sem gerir það að verkum að nýir höfundar komast upp með að vera kallaðir “ungir” fram yfir þrítugt, svo eitthvað sé nefnt.

VIÐTAL Í SUNNUDAGSMOGGANUM

Í Sunnudagsmogga helgarinnar er að finna viðtal sem Árni Matt tók við mig. Viðtalið snertir á hinu og þessu en snýst aðallega um Smáglæpi og starfið sem liggur á bak við bókina. Viðtalið var ánægjuleg upplifun og er ég mjög sáttur við útkomuna en þarf þó að taka fram að ég hef aldrei útskrifast frá Háskóla Íslands né nokkurn tímann lagt stund á neitt nám þar. BA gráðan mín í enskum og amerískum bókmenntum er frá UEA, Háskóla East-Anglia héraðs í Norwich, Englandi. Það hefur eitthvað skolast til, en skiptir svosem ekki miklu máli.

 

VIÐTAL Í MANNLEGA ÞÆTTINUM Á RÁS 1 (VARÚÐ: SPOILERS!)

Ég fór í viðtal hjá Lísu Páls í Mannlega þættinum á Rás 1 að því tilefni að verið var að gefa út Smáglæpi, mína fyrstu bók, í vikunni. Við ræddum ritstarfið og feluleikina sem því fylgja, útlegðina til Long Island, smásögur og hvers þær eru megnugar og ýmislegt fleira. Tekið skal fram fyrir þá sem ekki hafa lesið fyrstu söguna í Smáglæpum, Barnalæti, að í viðtalinu leynast einhverjir spoilerar, og því kannski betra að kíkja á hana fyrst. Ef ykkur vantar eintak skulið þið ekki hika við að hafa samband. Þátturinn birtist upphaflega á Sarpinum, vef Ríkisútvarpsins, þann 28. júní 2017 og ætti að vera aðgengilegur þar í heild sinni enn um sinn.

Viðtal í Orð um bækur um bóksalastarfið

Hér má finna viðtal sem Jórunn Sigurðardóttir tók við mig nýlega í þætti sínum Orð um bækur um bóksalastarfið, erlendar bækur, fantasíu skáldsögur og unga lesendur. Einstaklega gaman að eiga þetta viðtal að núna þegar ég hef hætt störfum hjá Pennanum Eymundsson og látið öðrum í hendur umsjón með minni heitt elskuðu erlendu deild í Eymundsson Austurstræti. Þátturinn var upphaflega fluttur á Rás 1 undir titlinum Orð um ljóð og sölu bóka íslenskra sem erlendra þann 22. ágúst 2016 og má hlusta á hann í heild sinni á Sarpinum á ruv.is.

Story Island – Photo Essay

I was honoured to be asked to take part in Sophie Butcher and Martin Diegelman’s collaborative photo essay Story Island about the Icelandic literary scene, and it didn’t hurt to get such a snazzy and thoughtful photo portrait of yours truly. Do have a look at the link as Sophie and Martin interviewed a lot of current and emerging authors for the piece and it gives an interesting perspective on some of the changes imminent in Icelandic literature while also containing lots of nice portrait and landscape photography. Further works by Martin and Sophie can be found on their websites, sophiebutcher.com and martindiegelman.com.

Photo by Martin Diegelman
Photo by Martin Diegelman

Og þá er komið að íþróttum: Hver er Keyser Söze?

Liberation_20160413_Paris-1_QUO_012Ég var í viðtali í franska blaðinu Liberation núna um daginn. VIðtalið var hluti af úttekt blaðsins á ástandinu á Íslandi á umrótatímum aprílmánaðar sem að nú virðast vera að falla í gleymsku. Þó að viðtalið væri stutt fór það um víðan völl. Ætlun þess var að taka púlsinn á nokkrum Íslendingum á ólíkum aldri og í ólíkum starfsstéttum um líðandi stund og þá sérstaklega um afhjúpun Panama skjalanna, mótmælin í kjölfarið og afsögn Sigmundar Davíðs, forsætisráðherra. Ég neyddist til að viðurkenna í viðtalinu að þrátt fyrir að hafa tekið þátt í mótmælunum þá væri ég yfir höfuð ekkert sérstaklega pólitískt þenkjandi, þó að ég væri núna að reyna að bæta úr því þar sem ég sæi það sem borgaralega skyldu mína að hugsa um þessi mál, mynda mér ígrundaða skoðun og taka afstöðu og ekki bara á umrótatímum þegar hlutirnir eru spennandi heldur líka þegar ekkert er að gerast og ræðurnar á Alþingi eru drepleiðinlegar.

Í viðtalinu tek ég samt fram að í einfeldni minni sem pólitískur amatör læt ég mig aðallega dreyma um stjórnmálafólk sem hægt er að treysta til að standa við orð sín, er stýrt af siðferðiskennd og eru nógu sterk á velli sem einstaklingar til að kjósa eftir eigin sannfæringu, frekar en flokksins. Draumsýn mín er að inni á Alþingi sitji upp til hópa hugsjónamanneskjur sem eru þarna saman komnar til að reyna að mynda úrlausnir sem eru þjóðinni í heild í vil en ekki þeirra hagsmunaaðila sem flokkurinn þjónar. Án þess að ég geti endilega boðið upp á aðrar úrlausnir, þá sýnist mér að flokkakerfið sé að mörgu leyti meingallað fyrirbæri. Það hefur myndað á Alþingi stemmningu sem svipar meira til íþróttamóts en umræðu, þar sem öll liðin eru að keppa á móti hvor öðru og hver sá sem vinnur áskilur sér réttinn til að hlusta ekki á hin liðin eftir að á vinningspallinn er stigið. Við ætlumst til mikils af stjórnmálafólkinu okkar og því miður hefur það margt hvert ekki staðið undir væntingum undanfarið, en það sem er einna verst að mínu mati er það samskiptaleysi sem virðist vera orðið hluti af flokkamyndunum á Íslandi og endurspeglast í umræðunni í samfélaginu. Ákvarðanir  flokkanna virðast oft vera gagngert til þess fallnar að þóknast litlum en valdamiklum minnihlutahópum frekar en að vera ætlað að koma á sátt á milli ólíkra þjóðfélagshópa og taka ákvarðanir sem eru þjóðinni allri í hag. Þannig líta hlutirnir allavega út fyrir mér í dag, 32 ára bóksalanum og rithöfundinum með kaffibollann. Örugglega má afskrifa allt sem ég segi sem hreinann og klárann naívisma, en við því get ég bara borið þær varnir að ég er bara nýbyrjaður að reyna að vera pólitískt þenkjandi.

Í gæðaræmunni The Usual Suspects frá tíunda áratug síðustu aldar segir Verbal Kint (leikinn af Kevin Spacey) að stórkostlegasta afrek djöfulsins hafi verið að sannfæra heiminn um að hann væri ekki til. Stundum grunar mig að stórkostlegasta afrek pólitíkusa sem vilja nýta sér kerfið okkar í eigin þágu sé að þeim hefur tekist að sannfæra fólk eins og mig um að pólitík sé leiðinlegt og þreytugjarnt umræðuefni. Þannig látum við þau um það að stýra landinu, fegin að það séu ekki við í ræðupúltinu. Það gengur ekki lengur. Hinn meinlausi Verbal Kint reyndist síðan vera (spoilers) Keyser Söze sjálfur, svo guð má vita hvað leynist í alvöru á bak við ræðupúltið.

Viðtal við Orð um bækur um Þjófasögu

Fína og flotta fólkið hjá Partus útgáfunni tók sig til og vistaði viðtalið sem ég og Hertha María Richardt Úlfarsdóttir fórum í hjá Jórunni Sigurðardóttur í Orð um bækur í heild sinni á SoundCloud þannig að hægt væri að hlusta á það lengur en Sarpurinn á RUV.is segir til um. Takk fyrir það, Partus. VIð förum mikinn í þessu viðtali og strengjum saman myndlíkingar hingað og þangað, frá steinvölum til hafragrauts. Það var gaman að komast að því að við Hertha María deilum áherslum okkar á samvinnuna og traustið til annars fólks sem þarf að vera til staðar á bak við hverja útgefna sögu, sem og gleðina yfir bessaleyfunum sem maður getur tekið sér í fyrsta uppkasti. Mjög gaman að fá að taka þátt í umræðunni um gildi íslenskra smásagna núna þegar þær eru smám saman að finna vægi sitt í menningarlífinu í staðinn fyrir að vera eingöngu álitnar upphitun fyrir fyrstu skáldsögu höfundar.