VIÐTAL Á BBC RADIO 4

Núna í vikunni var ég gestur í þættinum „Open Book“ á BBC Radio 4, sem stýrt er af Mariella Frostrup. Þar var mér ætlað að útkljá um hvort að íslenska jólabókaflóðið væri hrein og klár mýta og þannig veita innsýn í raunverulegar aðstæður íslenskra rithöfunda og bókaútgefanda. Ég reyndi að sinna því verki hvað best ég gat, slá á einhverjar rósrauðar ranghugmyndir en um leið benda á allt það sem gerir jólabókaflóðið að því skemmtilega og einstaka fyrirbæri sem það er. Að sjálfsögðu notaði ég líka tækifærið og reyndi að troða inn nokkrum titlum eftir þá höfunda sem tóku þátt í jólabókaflóðinu í ár. Megnið af því efni endaði hinsvegar ekki í lokaútgáfu þáttarins, líklega þar sem breskir hlustendur hafa kannski lítið að gera við höfunda sem eru enn sem komið er ófáanlegir á enskri tungu. Það mátti þó reyna.