HELGIDAGAR – NÝ SMÁSAGA Í TMM

Útgáfa smásögu fær, skiljanlega, hvorki sömu athygli né gagnrýni og skáldsaga eða bók. Því ætla ég að taka mér það bessaleyfi að segja sjálfur nokkur orð um söguna „Helgidagar“ sem kom út í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar.

Eins og flest sem ég sendi frá mér er „Helgidagar“ alls ekki ný saga heldur hefur legið ofan í skúffu lengi og gerjast. Ég sendi söguna fyrst á TMM einhvern tímann í kringum 2017 og fékk höfnun, enda var sagan ekki nógu sterk þá. Frekar en að ergja mig á því yppti ég öxlum, stakk sögunni ofan í skúffu og hófst aftur handa við skáldsöguna Stol – sem kom út hjá Forlaginu í byrjun þessa árs. Þegar Stol var svo komin úr prentun, og ég búinn að fylgja henni eftir hvað ég gat á ljósvaka- og samfélagsmiðlum, gerði ég það sem ég geri alltaf þegar ég er búinn að skila af mér, dró skúffuna mína út á gólf og rótaði í henni í leit að einhverju sem mér þótti geta staðist aðra atlögu.

Ég fann loks sómasamlegan titil á söguna og endurvann hana frá grunni, hélt þó söguþræðinum nokkurn veginn eins og áður en styrkti og víkkaði persónurnar og breytti ýmsum áherslum. Í því starfi naut ég góðs af fyrsta flokks yfirlestri frá Pedro Gunnlaugi Garcia og Sigurjóni Bergþóri Daðasyni, sem hjálpuðu mér að að fá skýrari sýn á söguna og slípa verkið til, og neyddu mig til að svara fyrir, breyta eða fjarlægja eitt og annað. (Eins og alltaf gáfu þeir mér líka nokkur mjög góð og skynsamleg ráð sem ég harðneitaði að hlusta á eða einu sinni taka til umhugsunar).

Helgidagar á sér rót í sögunni „Reunion“ eftir John Cheever, þar sem sögumaður á stefnumót við föður sinn á Grand Central-lestarstöðinni í New York-borg, þar sem sonurinn er staddur í stuttu stoppi á milli lesta. Feðgarnir hafa ekki sést í mörg ár og er ætlunin að eiga huggulega stund saman í þessu stutta stoppi en í hvert sinn sem þeir setjast niður á veitingastað eða bar endar faðirinn á að móðga eða ganga fram af þjónunum og starfsfólkinu svo að þeim er vísað á dyr. Að lokum er tími þeirra uppurinn. Sonurinn þarf að halda ferð sinni áfram og þeir feðgar hittast aldrei aftur. (Ég veit það fyrir víst að Sverrir Norland hefur einnig gert sér mat úr þessari tilteknu sögu Cheevers í hinni gamansömu „Heimafólk“ sem birtist í samnefndu smásögusafni hans. Mér rennur einnig í grun að smásagan „In the Islands“ eftir Bret Easton Ellis, sem birtist í safninu The Informers, eigi sér einhverskonar tengingu við „Reunion“.)

Saga Cheevers sat lengi í mér, þá sérstaklega þetta ofsafengna framferði föðursins sem virðist gera hvað hann getur til að skemma samverustund þeirra feðga og koma í veg fyrir að þeir fái það næði sem þeir þurfa til að eiga í alvöru samtali. Það er auðvelt að lesa söguna og sjá föðurinn eingöngu sem tilfinningalausan hrotta og dóna en mér þótti stærilæti hans og ósvífni fyrir framan son sinn einnig bera merki um óöryggi; óttann við að standa ekki undir væntingum sem faðir. Það voru tilfinningarnar sem ég reyndi að kafa ofan í í Helgidögum.

Fyrir þá sem ekki eru áskrifendur má nú lesa Helgidaga á vefsvæði TMM.

HÖFUNDAEINTAK AF EFFE NUMERO SETTE KOMIÐ Í HÚS

Það vakti mikla lukku á heimilinu um daginn þegar höfundaeintakið mitt af sjöunda hefti ítalska bókmenntatímaritsins Effe barst í bósti, en í sögunni er að finna ítalska þýðingu smásögunnar “Þjófasaga” sem ég gaf út í Meðgöngumálaseríu Partus útgáfunnar í mars 2016. Þýðingin ber heitið “Storia di una ladra” og er eftir Francescu Ritu di Berardino en sögunni fylgdi einni falleg myndskreyting eftir Sunnu Rún Pétursdóttur. Það er augljóst að Effe er einstaklega metnaðarfullt blað hvað varðar hönnun og framsetningu hins ritaða efnis og er það mér mikill heiður að fá að vera með.

BARNALÆTI Í TMM

tmm 1.17
Ég á söguna Barnalæti í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. Sagan er ein af sjö smásögum sem verða í bók minni Smáglæpir sem mun koma út hjá bókaútgáfunni Sæmundi núna í haust. Útgáfa bókarinnar er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta en smásagnasafnið hlaut Nýræktarstyrk árið 2016. Hér að neðan má finna brot úr sögunni.


BARNALÆTI

Þetta var sumarið þegar ég varð tíu ára og við vorum nýflutt í Hafnarfjörð. Löngu áður en þau skildu og allt gerðist sem á undan því fór. Nýja húsið var hvítt tveggja hæða raðhús, spánnýtt og úr steypu svo að það brakaði ekki í því eins og gamla húsinu okkar. Skólinn var ekki byrjaður og ég hafði ekkert að gera og þekkti engan í hverfinu. Þau voru strax farin að rífast meira. Höfðu verið svo viss um að allt myndi batna í borginni. Bæði komin með vinnu og mamma alltaf að tala um gamlar vinkonur sem höfðu flust í bæinn á undan henni. Svo frestaðist eitthvað fyrsti dagurinn hennar í nýju vinnunni svo að hún var föst heima með mér, innan um allt dótið sem átti eftir að koma fyrir. Þau höfðu misreiknað stærðina á húsinu. Öll herbergin voru full af kössum og húsgögnum. Búslóðin miklu stærri en hægt var að koma fyrir í litlu raðhúsi. Þetta var eins og að búa í geymslu. Það höfðu líka verið fleiri veggir í gamla húsinu okkar og myndir og málverk hölluðu að veggjunum þar sem ætlunin var að hengja þau upp. Þau rifust mikið um hvaða mynd ætti að hanga hvar. Í gamla húsinu fóru þau alltaf inn á skrifstofuna hans pabba til að rífast en það var ekkert aukaherbergi hér svo að í staðinn fór ég inn í mitt herbergi eða út í garð.

Garðurinn var lítill og ferkantaður með hárri girðingu sitt hvoru megin til að skýla manni fyrir nágrönnunum, en við garðshornið hafði girðingin lotið í lægra haldi fyrir náttúrunni sem virtist vera á góðri leið með að taka yfir allan garðinn og kannski húsið sjálft ef ekkert yrði að gert. Þetta var þétt trjáþykkni, illgresi, fíflar, runnar, þyrnar og brenninetlur. Fyrst eftir að við fluttum talaði pabbi mikið um að taka garðinn í gegn, hreinsa burt runnana, snyrta trén og setja upp nýja girðingu, en hann dreif aldrei í því á meðan við bjuggum þar. Í staðinn lét hann sér nægja að slá þráðbeina línu fyrir framan óreiðuna við garðshornið.

Sumarið sem við fluttum var mjög hlýtt. Grasið í garðinum var gul sina sem lá á jörðinni eins og henni hefði verið dreift með sópi til að fela þurra moldina. Ég var úti að bíða eftir að enn eitt rifrildið rynni sitt skeið og dundaði mér við að teikna munstur í þurran jarðveginn með skósólunum, og reyndi að herma eftir flóknu merkjunum sem ég hafði lesið um í Ótrúlegt en satt og birtast stundum á kornökrum í Bandaríkjunum eftir strandaðar geimverur að reyna að senda SOS skilaboð til vina sinna úti í geimi. Litli garðurinn var allur orðinn útstrikaður og mig var farið að gruna að ég myndi lenda í vandræðum þegar pabbi og mamma sæju sköpunarverkið. Það var þá sem ég heyrði fyrst hljóðið handan við óræktina við garðshornið. Það var einhver þar að bölva af mikilli innlifun. Ég gekk á hljóðið og reyndi að gægjast á milli kræklóttra trjánna. Raddirnar sem bárust út um bakdyrnar voru orðnar háværari og af einskærum vilja til að komast í burtu frá þeim hóf ég að brjóta mér leið í gegnum gróðurþykknið. Brátt voru sköflungarnir orðnir rauðir eftir brenninetlurnar og ég var með frækorn í hárinu og fingurna klístraða af fíflamjólk. Blótsyrðin handan við trén höfðu þagnað en þegar ég smeygði mér undir síðustu greinarnar stóð fyrir framan mig strákur á mínu reki sem horfði á mig með eftirvæntingu, eins og hann hefði heyrt mig nálgast og verið að bíða eftir mér.

„Hæ!“ sagði hann.

„Hæ,“ sagði ég.

„Geturðu hjálpað mér?“ spurði hann.

„Með hvað?“ spurði ég varfærnislega. Hann lyfti hendi til að sýna mér. Svört rafmagnssnúra var vafin þétt um hana og yfir hnúana. Hvít rafmagnskló danglaði við úlnliðinn. Hann kippti til hendinni eins og hann væri með svipu og rafmagnssnúran bugðaðist eftir jörðinni og ég sá að hún var tengd við afturendann á gömlu sjónvarpi sem lá í grasinu skammt frá okkur. Hann tók báðum höndum um snúruna og hallaði sér aftur til að toga, kom henni síðan fyrir yfir öxlina og streittist við. Sjónvarpið ruggaði, dróst aðeins eftir jörðinni en sat svo fast. Hann togaði af öllum kröftum og gaf frá sér runu af blótsyrðum en sjónvarpið haggaðist ekki. Á endanum rétti hann úr sér og henti frá sér snúrunni. Klóin lenti í miðjum skjánum svo að söng í. Hann hrækti.

„Æi, það skiptir svo sem ekki máli. Við eigum aldrei eftir að geta borið það alla leið,“ sagði hann, vonsvikinn.

„Hvert ætlarðu með það?“ spurði ég og gekk að sjónvarpinu. Skjárinn virtist heill en kassinn var allur rispaður og skemmdur eftir tilraunir hans til að draga það á eftir sér. „Ætlarðu að láta laga það?“ spurði ég.

Hann leit á mig eins og hann hefði aldrei heyrt neitt vitlausara. „Nei, ég ætla að sprengja það.“

Það fór um mig fiðringur. „Í alvöru?“ spurði ég.

„Það kemur hljóð þegar skjárinn brotnar.“ Hann þrýsti lófunum saman, kippti þeim svo í sundur og gaf frá sér hljóð eins og þegar pabbi kveikti á gasgrillinu okkar. „Stundum kemur blossi líka en ég held að það sé bara ef það er í sambandi.“

„Hvernig ætlarðu að brjóta skjáinn?“ spurði ég. Ég svipaðist um og sá ekkert í grenndinni sem mér sýndist hægt að nota. Við vorum stödd í einskismannslandi sem lá á milli garðanna í götunni okkar og næstu götu. Líklega hafði einhverntímann verið stígur í gegn en honum hafði verið lokað í sitthvorn endann með úrsérgenginni vírgirðingu öðru megin og runnum hinu megin. Fólki hafði sennilega ekki litist á tilhugsunina um að hægt væri að sniglast um bakatil hjá þeim.

„Ég ætla ekki að gera það hér,“ sagði hann. „Ég er búinn að finna stað. Það er samt svolítið langt í burtu og fyrst verðum við að koma því þangað.“ Hann setti annan fótinn ofan á sjónvarpið eins og veiðimaður í Afríku að stilla sér upp fyrir ljósmynd við skrokkinn á nýskotnu dýri. „Þetta væri ekkert mál ef við værum með hjólbörur. Á pabbi þinn hjólbörur?“

„Nei,“ sagði ég og bætti svo við, „við erum nýflutt hingað,“ til að afsaka mig.

„Við verðum að redda hjólbörum,“endurtók hann. „Veistu hvort einhver nágranni ykkar á hjólbörur?“

Ég hristi hausinn. Ég hafði gert ráð fyrir að hann væri úr hverfinu en það var ólíklegt úr því að hann var að spyrja út í nágrannana. Á sumum görðunum voru há grindverk með hliði eða hurð og hann hóf að ganga á milli og gægjast í gegnum rifurnar.

„Hjálpaðu mér að leita,“ sagði hann. „Ef þú sérð hjólbörur þá get ég klifrað yfir og sótt þær. Við skilum þeim seinna.“

Ég gerði eins og hann sagði og hljóp á milli girðinganna mín megin í von um að finna hjólbörurnar á undan honum. Loks sá ég glitta í stál í háu grasinu og gaf frá mér óp af spenningi. „Ég fann þær!“ kallaði ég. Hann kom á harðahlaupum til mín og ýtti mér til hliðar til að gægjast í gegnum glufuna á dyrunum. Svo sneri hann sér að mér, skælbrosandi. „Fullkomið!“ sagði hann. Hann ýtti öxlinni í hurðina en hún haggaðist ekki. „Gefðu mér fótstig.“ Ég beygði mig niður og fléttaði greipar. Hann setti annan fótinn í lófann og studdi sig með báðar hendur á bakinu á mér. Þegar hann steig í rétti ég úr mér og ýtti á eftir af öllum kröftum og honum tókst að ná taki efst á girðingunni og krafsa sig upp yfir toppinn. Ég heyrði hann lenda með dynki hinu megin. Það var andartaks þögn og svo heyrði ég að boltinn á hliðinu var dreginn til baka. Hurðin opnaðist og hann kom út, labbandi aftur á bak og með hjólbörurnar í eftirdragi.

„Núna verður þú að hjálpa mér,“ sagði hann.

 

Meðgöngumál nr. 3 & 4 komið í bókabúðir

IMG_2124Meðgöngumál nr. 3 & 4, Vetrarhamur og Þjófasaga eftir Herthu Maríu og mig sjálfann, eru nú fáanlegar í Eymundsson og fleiri bókabúðum á skitnar 1.499 kr. Að sjálfsögðu stillti ég þeim upp við kassann niðri í Austurstræti svo fólk gæti gripið eintak með dönsku blöðunum sínum en ég get ekki endilega ábyrgst að aðrir bóksalar séu jafn samviskusamir í að passa að bækurnar séu það fyrsta og síðasta sem viðskiptavinurinn sér, svo endilega ekki hika við ónáða starfsfólkið ef þið sjáið ekki Partus standinn neinsstaðar. Fyrir hönd bókabúðarstarfsmanna get ég lofað að við elskum að vera ónáðuð.

Viðtal í Orð um bækur í dag

IMG_2052Ég og Hertha María vorum í viðtali í gær fyrir þáttinn Orð um bækur á Rás 1 sem verður útvarpað klukkan 16:05 í dag. Jórunn Sigurðardóttir ræddi við okkur og var farið um víðann völl; rætt um vald og beitingu íslenskrar tungu, smásöguformið og gagnasöfnunina á bak við útgefna sögu, en einnig kynntum við og lásum eilítið úr sögunum okkar tvemur sem komu út hjá Meðgöngumáli í fyrradag. Eins og venjulega stígur maður út úr svona viðtölum hálf-ringlaður og óviss um hvort maður hafi nú misst eitthvað hræðilegt út úr sér svo við skulum bara öll krossa fingur og vona að okkur Herthu hafi tekist að hljóma sæmilega gáfulega. Sögurnar tvær, Vetrarhamur og Þjófasaga, verða fáanlegar í bókabúðum innan skamms. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hérna.

Þjófasaga gefin út hjá Meðgöngumáli

12806125_1526280154340244_2879454409424998964_nNúna á fimmtudaginn koma út hjá Meðgöngumáli örbækurnar Vetrarhamur eftir Herthu Maríu Richardt Úlfarsdóttur og Þjófasaga eftir mig. Meðgöngumál er undirforlag Partus Press sem einbeitir sér að smásöguútgáfu, en í stað þess að gefa út smásögusöfn gefa þau út stakar smásögur í ódýru prenti, svipað og Meðgönguljóð hafa gert við ljóðasöfn. Þjófasaga var unnin í samvinnu við ritstjórann minn hjá Meðgöngumáli, Elínu Eddu Pálsdóttur. Þetta er í raun örævisaga byggð á svipuðum stílfærslum og Níu Líkamar sem var gefin út hjá Tímaritinu Stínu í vetur og þar áður hjá Valve Journal í Glasgow þar sem reynt er að ramma inn heila mannsævi í þeim brotum sem hægt er að raða saman innan í jafn takmörkuðu rými og smásagnaformið er. Það er mikill heiður fyrir mig að fá mína eigin prentútgáfu og vonast ég til að sjá sem flest ykkar á Loft Hostel á fimmtudaginn. Kvöldið hefst klukkan 20:00 og verður afsláttur á barnum fyrir þá sem fjárfesta í bókunum.

Annar sentimeter í höfundaeintakabunkann (4,6 cm allt í allt)

Ég vill þakka kærlega fyrir að hafa fengið að vera með í útgáfunni á Skíðblaðni fyrsta og Skíðblaðni öðrum á mánudagskvöldið, þar sem safnað var í prentformi þeim sögum sem kFullSizeRenderomið hafa út hjá Skíðblaðni síðasta árið.

Skíðblaðnir er nettímarit (og nú líka prenttímarit) gefið út af Tunglinu sem sérhæfir sig í smásögum. Svo ótrúlega fallegar bækur og flott framtak hjá þeim Sverri, Degi og Ragnari.

Gaman að loksins er að myndast einhver vettvangur að ráði á Íslandi þar sem fólk getur prufað sig áfram með smásagnaformið opinberlega og þannig þróað og styrkt ritstíl sinn í stuttum skrefum í samvinnu við aðra höfunda og lesendur. Hvet alla sem luma á smásögum, hvort sem þið eruð tilbúin til að kalla ykkur rithöfunda eða ekki, til að senda þeim línu á tunglidforlag@gmail.com og freista þess að koma sögunum ykkar í útgáfu. Það er svo miklu betra að gefa smásögur út frekar en að pukrast með þær ofan í skúffum eða í möppum á tölvunni dulbúnum með boring titlum eins og “sumarfrísplön 2013” eða “djok”. Betra bara að reyna að fá þetta birt einhverstaðar í staðinn fyrir að dunda sér við að færa kommur til og frá og skipta á nútíð og þátíð árum saman.

Allt faglegt umstang þessarar útgáfu, hvort sem var á netinu eða í prenti, var algerlega til fyrirmyndar en einnig var yfirlesturinn og uppástungurnar sem ég fékk frá þeim á meðan á ritstjórnarferlinu stóð ómetanlegt og hafði veruleg áhrif á loka mynd sögunnar. Takk fyrir mig.