HELGIDAGAR – NÝ SMÁSAGA Í TMM

Útgáfa smásögu fær, skiljanlega, hvorki sömu athygli né gagnrýni og skáldsaga eða bók. Því ætla ég að taka mér það bessaleyfi að segja sjálfur nokkur orð um söguna „Helgidagar“ sem kom út í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar.

Eins og flest sem ég sendi frá mér er „Helgidagar“ alls ekki ný saga heldur hefur legið ofan í skúffu lengi og gerjast. Ég sendi söguna fyrst á TMM einhvern tímann í kringum 2017 og fékk höfnun, enda var sagan ekki nógu sterk þá. Frekar en að ergja mig á því yppti ég öxlum, stakk sögunni ofan í skúffu og hófst aftur handa við skáldsöguna Stol – sem kom út hjá Forlaginu í byrjun þessa árs. Þegar Stol var svo komin úr prentun, og ég búinn að fylgja henni eftir hvað ég gat á ljósvaka- og samfélagsmiðlum, gerði ég það sem ég geri alltaf þegar ég er búinn að skila af mér, dró skúffuna mína út á gólf og rótaði í henni í leit að einhverju sem mér þótti geta staðist aðra atlögu.

Ég fann loks sómasamlegan titil á söguna og endurvann hana frá grunni, hélt þó söguþræðinum nokkurn veginn eins og áður en styrkti og víkkaði persónurnar og breytti ýmsum áherslum. Í því starfi naut ég góðs af fyrsta flokks yfirlestri frá Pedro Gunnlaugi Garcia og Sigurjóni Bergþóri Daðasyni, sem hjálpuðu mér að að fá skýrari sýn á söguna og slípa verkið til, og neyddu mig til að svara fyrir, breyta eða fjarlægja eitt og annað. (Eins og alltaf gáfu þeir mér líka nokkur mjög góð og skynsamleg ráð sem ég harðneitaði að hlusta á eða einu sinni taka til umhugsunar).

Helgidagar á sér rót í sögunni „Reunion“ eftir John Cheever, þar sem sögumaður á stefnumót við föður sinn á Grand Central-lestarstöðinni í New York-borg, þar sem sonurinn er staddur í stuttu stoppi á milli lesta. Feðgarnir hafa ekki sést í mörg ár og er ætlunin að eiga huggulega stund saman í þessu stutta stoppi en í hvert sinn sem þeir setjast niður á veitingastað eða bar endar faðirinn á að móðga eða ganga fram af þjónunum og starfsfólkinu svo að þeim er vísað á dyr. Að lokum er tími þeirra uppurinn. Sonurinn þarf að halda ferð sinni áfram og þeir feðgar hittast aldrei aftur. (Ég veit það fyrir víst að Sverrir Norland hefur einnig gert sér mat úr þessari tilteknu sögu Cheevers í hinni gamansömu „Heimafólk“ sem birtist í samnefndu smásögusafni hans. Mér rennur einnig í grun að smásagan „In the Islands“ eftir Bret Easton Ellis, sem birtist í safninu The Informers, eigi sér einhverskonar tengingu við „Reunion“.)

Saga Cheevers sat lengi í mér, þá sérstaklega þetta ofsafengna framferði föðursins sem virðist gera hvað hann getur til að skemma samverustund þeirra feðga og koma í veg fyrir að þeir fái það næði sem þeir þurfa til að eiga í alvöru samtali. Það er auðvelt að lesa söguna og sjá föðurinn eingöngu sem tilfinningalausan hrotta og dóna en mér þótti stærilæti hans og ósvífni fyrir framan son sinn einnig bera merki um óöryggi; óttann við að standa ekki undir væntingum sem faðir. Það voru tilfinningarnar sem ég reyndi að kafa ofan í í Helgidögum.

Fyrir þá sem ekki eru áskrifendur má nú lesa Helgidaga á vefsvæði TMM.