#2: KANNSKI EITTHVAÐ

Ég lauk við handritið að nýju bókinni fyrir að verða tveimur vikum eða svo.

Þegar ég segi að ég hafi lokið við það, þá á ég í raun við að ég lauk við síðasta kaflann og setti niður síðustu línurnar. Þær höfðu verið að malla í hausnum á mér í einhvern tíma, eða frá því í kringum miðbik handritsins. Ég er haldinn hálfgerðri fóbíu við að setja niður á blað hluti sem ég er ekki ennþá tilbúinn til að skrifa. Flestar línurnar í lokakaflanum var ég búinn að ganga með í kollinum í nokkra mánuði og velta fyrir mér nokkrum sinnum í viku eða svo. Að minnsta kosti nógu oft til að gleyma þeim ekki.

Ég geri þetta stundum þegar ég dett niður á einhverja lausn á vandamálinu sem ég er að kljást við í handritinu eða eitthvað orðalag sem smellpassar við það sem ég er að reyna að koma til skila. Slíkar uppljómanir eiga sér yfirleitt stað þegar ég er að gera eitthvað allt annað en að skrifa; kannski að hjóla eða vaska upp eða úti í búð. Frekar en að hripa uppljómunina niður á post-it miða eða í stílabók, svo að ég geti hugsað um eitthvað annað, neyði ég mig til að leggja á minnið þetta tiltekna orðalag eða hreyfingu eða látbragð eða hvað-það-nú-er og held því þannig lifandi í huga mér.

Þegar ég byrjaði fyrst að skrifa af einhverri alvöru var ég haldinn þeirri vissu að plön og skemu dræpu allt flæði. Í hvert sinn sem ég reyndi að rissa upp einhverskonar beinagrind fyrir framvinduna áður en ég byrjaði að skrifa söguna þá brást ekki að ég missti umsvifalaust allan áhuga á sögunni sjálfri. Framan af reyndi ég að skrifa fyrsta uppkastið að hverri smásögu í einni lotu; setjast niður með óljósar hugmyndir eða tilfinningar í kollinum og neyða mig til að stoppa ekki fyrr en ég væri búinn að klína einhverskonar endi á söguna – sama hversu klisjulegur hann væri. (Það var hægt að laga það seinna.) Ef ég tók mér hlé þá dó sagan í höndunum á mér. Þegar ég opnaði skjalið næsta dag virkaði allt sem ég var kominn með svo líflaust og óspennandi, og mér tókst engan vegin að setja mig í sömu stellingar og daginn áður.

Það segir sig sjálft að þessi aðferðafræði hentar illa við skrif á lengri verkum – nema þá að maður geri eins og Kerouac, taki fullt af spítti og haldi sér vakandi dögum saman til að hamra á ritvélina. (Fyndið að 37 metra langa skrollan hans Jacks, sem þótti náttúrulega hálf galin árið 1951, á í raun margt sameiginlegt með ótæmandi Word-skjölunum sem við vinnum flest öll í í dag.) Ég skrifaði Stol í stigvaxandi lotum – skrifaði mig basically í strand og fór þá til baka á byrjunarreit og endurskrifaði og lagaði og fékk þannig nógu mikinn meðvind til að drífa eilítið lengra í hvert sinn.

Ég skrifaði fyrstu fimm kaflana í þessari nýju bók á jafn mörgum dögum í dvöl í Davíðshúsi haustið 2021 – eftir að hafa framkvæmt ýmsar æfingar og tilraunir með persónurnar þegar tími gafst árið áður. (Æfingar sem enduðu í nokkrum útkrotuðum stílabókum sem hefðu sómað sér vel í creepy íbúðinni hans Kevin Spacey í Se7ev.) Kaflar bókarinnar eru í lengra lagi og var ég hálf sprungin eftir þennan sprett og átti ekki meira við handritið fyrr en nokkrum mánuðum seinna, þegar ég hafði loksins tíma og efni til að sinna því daglega – þökk sé úthlutun úr launasjóði rithöfunda.

Að þessu sinni var ég aftur kominn í hversdegið og þurfti því að finna mér rólegri vinnuhraða. Þótt það sé ágætt að loka sig af með handritinu í smá tíma annað slagið þá er slíkt ekki beint hollt fyrir heimilislífið til lengri tíma. Í staðinn hafði ég nú næði til að opna handritið svo gott sem daglega og vinna í því í 2-4 tíma í senn og stundum heilu dagana.

Til að halda í flæðið í þessum styttri lotum setti ég mér þá reglu að lesa einungis yfir það sem ég hafði skrifað daginn áður í hvert sinn sem ég settist niður, og reyndi almennt að stilla mig um að leggjast í endurskrif eða nákvæmnislestur á handritinu sem heild. Til að gera mér erfiðara um vik við að svindla notaðist ég við einfalt línubil við skrifin. (Auðvitað svindlaði ég endrum og eins, einkum þegar ég þurfti að lesa yfir einhverja eldri hluta til að fá aftur tilfinningu fyrir persónunum, og notaði þá tækifærið og endurraðaði smá eða skipti út klisjulegu orðalagi.)

Svo, eins og ég segi, fyrir rúmum tveimur vikum síðan – seinna en ég hafi ætlað mér – kom að því og ég setti niður þessar setningar sem ég hafði verið að væflast með í huganum alla þessa mánuði. Daginn eftir skipti ég yfir í eitt og hálft línubil, gaf mér smá stund til að njóta ánægjuhrollsins sem ég fann fyrir við að sjá skjalið tvöfaldast að lengd, og hóf lesturinn. Markmiðið núna er að gera handritið klárt fyrir yfirlesara og útgáfuna. (Ég bíð yfirleitt ansi lengi með að hleypa öðrum í skjölin mín, en samkvæmt minni reynslu er fátt meiri tímaeyðsla, bæði fyrir þig og fyrir yfirlesarann, en að biðja einhvern að lesa yfir handrit sem ekki er tilbúið til yfirlesturs. Slíkt getur jafnvel ruglað mann svo rækilega í rýminu að handritið nær sér aldrei að fullu aftur. )

Ég er sirka hálfnaður núna og hingað til hefur mig ekki rekið í rogastans yfir neinu, þótt að það sé ýmislegt sem þarf að eiga við og færa til og ansi mikið óþarfa spik sem má snippa aftan af setningum eða inni í þeim miðjum. Þegar best gengur fá heilu málsgreinarnar að fjúka. Reyndar fjúka þær ekki lengra en inn í tiltekna möppu í tölvunni.

Mér er sagt að flestir rithöfundar eigi eina svona möppu. Þær eru yfirleitt titlaðar eitthvað á borð við „glefsur“ eða „pælingar“ eða „kannski eitthvað“ og tilgangur þeirra virðist vera að halda utan um búta úr skáldverkum í vinnslu sem höfundur treystir sér ekki til að eyða en mun aldrei nokkurn tímann lesa yfir aftur né gera neitt annað við.

#1: ALLT ER DRASL

Ég byrjaði á ritlaunum núna fyrsta mars og af því tilefni ákvað ég að flikka aðeins upp á heimasíðuna.

Reyndar var meira sem kom til, þar sem ég uppgötvaði um daginn að heimasíðan mín var horfin. Þegar ég reyndi að opna hana var mér beint inn á síðu með huggulegri skjámynd og fyrirsögninni SUSPENDED PAGE. Ég fór umsvifalaust í panikk og gerði ráð fyrir að allt mitt slugs varðandi öpdeit og fleira hefði nú loks komið mér í koll. Ég hef nefnilega aldrei verið neitt sérstaklega fær í því að dútla við þessa síðu, þótt að hún sá að verða tíu ára á næsta ári. Lénið og síðan sjálf var gjöf frá systur minni, stuttu eftir að ég kom heim úr ritlistarnáminu í Glasgow.

Ég man að ég var með miklar pælingar fyrst eftir að ég gerði síðuna public, eftir að hafa tekist að skjögra í gegnum uppsetningarferlið og bæta við einhverju template-i sem fylgdi frítt með. Ég ætlaði að byrja að blogga og vera með sérstakan flipa fyrir hverskyns örsögur og tilraunamennsku. Ég fylgdi engu af þessu eftir. Þess í stað breyttist síðan í einskonar ítarlega ferilskrá, þar sem ég hélt utan um nýjustu vendingar og það sem mér hafði tekist að gefa út eða koma í verk í gegnum tíðina. Það hefur reynst ágætt að hafa allt það efni á einum stað til að fletta í gegnum, ekki síst þegar ég er í viðjum septembers sálarinnar og efast um allt sem ég geri. Meginástæða þess að ég fór aldrei að pósta reglulega á þessa síðu er þó að ég er, og hef alltaf verið, óöruggur þegar kemur að því að tjá mig í rituðu máli á íslensku. Ég veit að þetta hljómar asnalega. Ég hef meira og minna fengist við nákvæmlega það síðustu árin, en þetta óöryggi er eitthvað sem hefur óneitanlega mótað mig og stíl minn sem höfundur.

Ég fór ungur að lesa á ensku. Pabbi narraði mig í það með því að segja mér alla bestu brandarana í Hitchhiker’s Guide to the Galaxy og láta mig síðan hafa slitna eintakið sitt svo ég gæti spreitt mig við enska textann. Þetta var nóta bene áður Kristján Kristmannsson tók sig til og þýddi bókina og gaf út með titlinum Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina. Ég hef verið svona kannski þrettán ára gamall þegar ég stautaði mig í fyrsta sinn í gegnum þessa frægustu bók Douglas Adams. Fyrir utan bækurnar sem mér var úthlutað í skólanum – Djöflaeyjan, Fátækt fólk og auðvitað Innansveitarkronika, sem var skyldulestur fyrir 9. bekk í Gaggó Mos – man ég varla eftir að hafa lesið bók á íslensku næstu tíu árin eða svo. Líklega hafði það eitthvað að gera með þá sérstöku blöndu af óöryggi og besservissma sem einkennir unglinga/ungt fólk – og sérstaklega stráka. Ég taldi víst og sannað að íslenskar bækur væru leim og leiðinlegar og að engir íslenskir höfundar jöfnuðust á við Palahniuk, Irwine Welsh, Italo Calvino, Neal Stephenson og William Gibson. (Já, ég las bara karla á þessum árum, eins og ég hef skrifað um áður). Ég kláraði menntaskóla, og las þar nokkrar íslendingasögur og meiri Laxness, en eftir það fór ég beint í nám í breskum og bandarískum bókmenntum í Englandi, og síðan, eftir nokkur góð auðnuleysingjaár þar sem ég fékkst mestmegnis við þjónustustörf og djamm, í ritlistarnám við háskólann í Glasgow. Það var ekki mikið um íslenskar bækur í þessu námi öllu.

Þegar ég sneri aftur heim til Íslands að náminu loknu og hugðist loks byrja að skrifa á íslensku þurfti ég því að byrja á núlli; taka sögurnar sem ég hafði haft svo mikið fyrir að pússa og slípa með ritlistarhópnum mínum í Glasgow og snara þeim yfir á óvandaða og kommuþvælda íslensku. Með hjálp frá vinum og vandamönnum og fleiri yfirlesurum tókst mér á endanum að koma ypsilonum á réttan stað og ná kommusetningunni, ja svona nokkurn veginn. Sögurnar enduðu að lokum í Smáglæpum, minni fyrstu bók, sem hlaut nýræktarstyrk og ég er ennþá mjög stoltur af, ekki síst vegna þess að ég veit hve ótrúlega langan tíma það tók að koma efni bókarinnar í útgáfuhæft form. Reyndar er ég viss um þetta fyrsta heila uppkast af Smáglæpum, sem ég handskrifaði upp úr ensku Word-skjölunum til að reyna að rjúfa algjörlega tengslin á milli tungumálanna, var efalaust ekki eins hræðilegt og ég upplifði það þá. Óöryggi mitt gagnvart íslenskunni lét allt líta út fyrir að vera tífalt verra en það var.

Þetta sama óöryggi gerði það að verkum að mér hraus hugur við að hrista saman smá texta á íslensku og henda honum sísvona út í algleymið. Í hvert sinn sem ég settist niður til að sjóða saman eitthvað sem kalla mætti “blogg” var ég svo hræddur um að það kæmist upp um mig sem “ekki nógu góðan íslensku mann” að ég eyddi jafn miklum tíma í yfirlestur og lagfæringar og ég gerði við sögurnar sem ég var að reyna að koma inn í TMM. Ég var skíthræddur við að skrifa illa. Sem er fyndið, þar sem ég hef oft básúnað mikilvægi þess að skrifa illa. Allt er drasl til að byrja með. Eini munurinn á höfundinum sem klárar handritið og höfundinum sem yfirgefur það er að sá fyrri þorði að skrifa illa lengur.

Ég hef því ákveðið að fari í dálítið átak við að skrifa illa á næstu mánuðum og æfa mig í að rumpa hlutum af. Mér er nú þegar að mistakast það herfilega. Ég er búinn að lesa textann hér að ofan allt of oft yfir og slá upp hinum og þessum orðum í BÍN og nútímamálsorðabókinni og eyða þannig góðum skerf af þeirri takmörkuðu orku sem ég hef í mér til að skrifa á degi hverjum. Orku sem hefði efalaust verið betur varið í yfirlestur á handritinu að nýju skáldsögunni sem ég er að vonast til að geta lagt inn til Forlagsins á næstu vikum.

Hér finnst mér ég knúin til að setja inn einhverja niðurstöðu; einhvern punkt sem mér þykir draga snyrtilega saman allt sem ég hef verið að impra á hér að ofan.

En ég ætla ekki að gera það.

Græna hjólið (minningargrein)

græna hjólið

Eftirfarandi pistill birtist fyrst í mars hefti Stundarinnar 2016 (6. tbl. 2. árg.)

Ég fékk græna hjólið í gegnum félaga minn. Það var víst búið að ílengjast mánuðum saman í vinnunni hjá honum. Einhver hafði fundið það úti og ætlað að gera það upp en svo varð aldrei neitt úr því. Þegar ég fékk það í hendurnar var það ein ryðhrúga, með stráum föstum í teinunum. Ég dröslaði því heim með mér, heim til mömmu. Þetta var stuttu eftir að ég var aftur fluttur heim til Íslands og annað hvort stuttu fyrir eða stuttu eftir að faðir minn dó. Maður myndi ætla að ég myndi muna hvort en dauðinn á það til að rugla tíma og minningar saman í einn bing sem ekki er svo auðvelt að greiða úr. Ég veit að ég bjó heima hjá mömmu þá, peningalaus og stefnulaus. Ég laumaðist með hjólið inn í geymsluna á sameigninni, sem ég var búinn að eigna mér lykilinn að. Faldi það þar þar til einhvern tímann.

Ég tók það ekki aftur út fyrr en ári seinna. Þá átti ég íbúð og kærustu, konu sem ég átti auðvelt með að sjá sjálfan mig eyða restinni af ævinni með. Við smullum svo vel saman, með sömu áherslur á hvað væri mikilvægt. Hlutir eins og morgunkaffi og lestrarstund. Sundferðir og vínilplötur. Mér fannst hún skemmtileg bæði í og úr glasi, sem var nýtt fyrir mér.

Snemma sumars dröslaði ég græna hjólinu heim í nýju íbúðina. Reiddi það á loftlausum dekkjum alla leiðina frá mömmu þar sem ég vildi ekki setja ryðbletti í sætin í bílnum (bílnum hennar mömmu). Nýja íbúðin mín, sú fyrsta sem ég átti frekar en leigði, var með útidyrahurð. Ég býst við að allar íbúðir séu með útidyrahurð en þessi var alvöru. Hún opnaðist út í garð. Ég hafði ekki átt svoleiðis útidyrahurð síðan ég var lítill og við bjuggum enn í Mosó. Þessa sumardaga sat ég oftar en ekki á tröppunum í sólinni og pússaði og pússaði ryðgað krómið og blettótt stellið. Ég tók hjólið allt í sundur og setti það aftur saman nokkrum sinnum í tilraunum mínum til að koma því í stand. Smurði keðjuna og tókst almennt að gera sjálfan mig grútskítugann í alla staði. Ég hafði mjög takmarkaða reynslu af hjólaviðgerðum og þurfti því oft að endurtaka hlutina, feta mig til baka og byrja upp á nýtt. Á endanum tókst mér að tjasla því öllu saman í ásættanlegt form og meira að segja tengja bæði gírana og bremsurnar svo að bæði virkuðu (þó eilítið eftir eigin hentugleika).

Ég gaf kærustunni minni hjólið og hún var himinlifandi þrátt fyrir að vera óvön hrútastýrinu og hálf hrædd um að fljúga fram fyrir sig þegar hún hemlaði. En þótt ég væri búinn að gefa henni hjólið, og ætti sjálfur mitt eigið hrútastýrishjól, silfraðann franskan Peugeot sem vinur minn hafði skilið eftir í bílskúrnum hjá foreldrum sínum áður en hann flutti til Bandaríkjanna, stóðst ég ekki mátið að stelast reglulega út í hjólatúra á græna hjólinu. Það var reyndar eiginlega of lítið fyrir mig og gaf mér furðulegar harðsperrur í hnésbæturnar og lét mig líta út eins og bjarndýr í sirkús sem neytt hefur verið til þess að læra að hjóla.

Fróunin sem fylgdi því að hjóla um nýja hverfið mitt á hjóli sem ég hafði lagað til og bjargað frá glötun upp á eigin spýtur var ólýsanleg. Það hefði mátt halda að ég hefði sjálfur grafið járnið úr jörðu, brætt það saman í stálið og soðið saman í stellið, krómað stýrið og þrætt teinanna, ræktað gúmmítrén fyrir hjólbarðana, skotið kúna og sútað leðrið í hnakkinn.

Í raun á ég voða lítinn þátt í tilkomu og tilvist græna hjólsins. Það stoppar ekki svo lengi hjá mér, býst ég við, og ekki veit ég hvar það endar þegar ég er búinn með það. Sögur okkar beggja lágu þó saman á alveg einstaklega merkilegum tíma í mínu lífi. Ég er búinn að geyma svolítið af mér í græna hjólinu. Smá skerf sem er svolítið þungt að rogast með alla daga, svo ég geymi hann þar. Í hjólinu. Tek það fram þegar mér þóknast og fer í hjólatúr meðfram Sæbrautinni. Það er voða gott að geta geymt eitthvað af sér í hlutunum sínum þótt að maður vilji kannski ekki dreifa sjálfum sér of víða, og maður verði að vita hvenær tímabært er að sleppa haldi á hlutunum og leifa þeim að halda áfram með sína sögu.

Fólk segir að þau sem fara frá okkur lifi í minningunum og það er alveg satt, en við getum ekki rogast með minningarnar með okkur alla daga. Getum ekki alltaf tekið þær með í vinnuna og í sund og á kaffihús eða á barinn. Svo við geymum þær í því sem hendi er næst: í hlutunum þeirra. Hlutunum okkar. Í lítilli steinvölu eða gömlum hatti. Í gamalli hrærivél eða slitnu eintaki af Laxness með nafni og ártali hripuðu á titilsíðuna. Í ljósmyndum og lopapeysum. Sófaborðum og hægindastólum. Þannig pössum við upp á minningarnar. Við bindum þær fastar við eitthvað utan við okkur og ríghöldum síðan í það. Við hugsum um fólkið sem er okkur kærast og sem við fáum aldrei að hitta aftur þegar við búum til kaffi með kaffikönnunni þeirra, sitjum við skrifborðið þeirra, spilum plöturnar þeirra og vefjum teppunum þeirra utan um okkur. Við pössum að hlutirnir þeirra skemmist ekki og týnist ekki, og að þegar við þurfum að láta þá frá okkur lendi þeir hjá einhverjum sem veit hver átti þá fyrst. Fólk lifir áfram í minningunum okkar en það lifir líka áfram í hlutunum sem það skilur eftir í okkar fórum. Þegar við förum þá verða hlutirnir okkar eftir hjá þeim sem okkur þykir vænst um.