#2: KANNSKI EITTHVAÐ

Ég lauk við handritið að nýju bókinni fyrir að verða tveimur vikum eða svo.

Þegar ég segi að ég hafi lokið við það, þá á ég í raun við að ég lauk við síðasta kaflann og setti niður síðustu línurnar. Þær höfðu verið að malla í hausnum á mér í einhvern tíma, eða frá því í kringum miðbik handritsins. Ég er haldinn hálfgerðri fóbíu við að setja niður á blað hluti sem ég er ekki ennþá tilbúinn til að skrifa. Flestar línurnar í lokakaflanum var ég búinn að ganga með í kollinum í nokkra mánuði og velta fyrir mér nokkrum sinnum í viku eða svo. Að minnsta kosti nógu oft til að gleyma þeim ekki.

Ég geri þetta stundum þegar ég dett niður á einhverja lausn á vandamálinu sem ég er að kljást við í handritinu eða eitthvað orðalag sem smellpassar við það sem ég er að reyna að koma til skila. Slíkar uppljómanir eiga sér yfirleitt stað þegar ég er að gera eitthvað allt annað en að skrifa; kannski að hjóla eða vaska upp eða úti í búð. Frekar en að hripa uppljómunina niður á post-it miða eða í stílabók, svo að ég geti hugsað um eitthvað annað, neyði ég mig til að leggja á minnið þetta tiltekna orðalag eða hreyfingu eða látbragð eða hvað-það-nú-er og held því þannig lifandi í huga mér.

Þegar ég byrjaði fyrst að skrifa af einhverri alvöru var ég haldinn þeirri vissu að plön og skemu dræpu allt flæði. Í hvert sinn sem ég reyndi að rissa upp einhverskonar beinagrind fyrir framvinduna áður en ég byrjaði að skrifa söguna þá brást ekki að ég missti umsvifalaust allan áhuga á sögunni sjálfri. Framan af reyndi ég að skrifa fyrsta uppkastið að hverri smásögu í einni lotu; setjast niður með óljósar hugmyndir eða tilfinningar í kollinum og neyða mig til að stoppa ekki fyrr en ég væri búinn að klína einhverskonar endi á söguna – sama hversu klisjulegur hann væri. (Það var hægt að laga það seinna.) Ef ég tók mér hlé þá dó sagan í höndunum á mér. Þegar ég opnaði skjalið næsta dag virkaði allt sem ég var kominn með svo líflaust og óspennandi, og mér tókst engan vegin að setja mig í sömu stellingar og daginn áður.

Það segir sig sjálft að þessi aðferðafræði hentar illa við skrif á lengri verkum – nema þá að maður geri eins og Kerouac, taki fullt af spítti og haldi sér vakandi dögum saman til að hamra á ritvélina. (Fyndið að 37 metra langa skrollan hans Jacks, sem þótti náttúrulega hálf galin árið 1951, á í raun margt sameiginlegt með ótæmandi Word-skjölunum sem við vinnum flest öll í í dag.) Ég skrifaði Stol í stigvaxandi lotum – skrifaði mig basically í strand og fór þá til baka á byrjunarreit og endurskrifaði og lagaði og fékk þannig nógu mikinn meðvind til að drífa eilítið lengra í hvert sinn.

Ég skrifaði fyrstu fimm kaflana í þessari nýju bók á jafn mörgum dögum í dvöl í Davíðshúsi haustið 2021 – eftir að hafa framkvæmt ýmsar æfingar og tilraunir með persónurnar þegar tími gafst árið áður. (Æfingar sem enduðu í nokkrum útkrotuðum stílabókum sem hefðu sómað sér vel í creepy íbúðinni hans Kevin Spacey í Se7ev.) Kaflar bókarinnar eru í lengra lagi og var ég hálf sprungin eftir þennan sprett og átti ekki meira við handritið fyrr en nokkrum mánuðum seinna, þegar ég hafði loksins tíma og efni til að sinna því daglega – þökk sé úthlutun úr launasjóði rithöfunda.

Að þessu sinni var ég aftur kominn í hversdegið og þurfti því að finna mér rólegri vinnuhraða. Þótt það sé ágætt að loka sig af með handritinu í smá tíma annað slagið þá er slíkt ekki beint hollt fyrir heimilislífið til lengri tíma. Í staðinn hafði ég nú næði til að opna handritið svo gott sem daglega og vinna í því í 2-4 tíma í senn og stundum heilu dagana.

Til að halda í flæðið í þessum styttri lotum setti ég mér þá reglu að lesa einungis yfir það sem ég hafði skrifað daginn áður í hvert sinn sem ég settist niður, og reyndi almennt að stilla mig um að leggjast í endurskrif eða nákvæmnislestur á handritinu sem heild. Til að gera mér erfiðara um vik við að svindla notaðist ég við einfalt línubil við skrifin. (Auðvitað svindlaði ég endrum og eins, einkum þegar ég þurfti að lesa yfir einhverja eldri hluta til að fá aftur tilfinningu fyrir persónunum, og notaði þá tækifærið og endurraðaði smá eða skipti út klisjulegu orðalagi.)

Svo, eins og ég segi, fyrir rúmum tveimur vikum síðan – seinna en ég hafi ætlað mér – kom að því og ég setti niður þessar setningar sem ég hafði verið að væflast með í huganum alla þessa mánuði. Daginn eftir skipti ég yfir í eitt og hálft línubil, gaf mér smá stund til að njóta ánægjuhrollsins sem ég fann fyrir við að sjá skjalið tvöfaldast að lengd, og hóf lesturinn. Markmiðið núna er að gera handritið klárt fyrir yfirlesara og útgáfuna. (Ég bíð yfirleitt ansi lengi með að hleypa öðrum í skjölin mín, en samkvæmt minni reynslu er fátt meiri tímaeyðsla, bæði fyrir þig og fyrir yfirlesarann, en að biðja einhvern að lesa yfir handrit sem ekki er tilbúið til yfirlesturs. Slíkt getur jafnvel ruglað mann svo rækilega í rýminu að handritið nær sér aldrei að fullu aftur. )

Ég er sirka hálfnaður núna og hingað til hefur mig ekki rekið í rogastans yfir neinu, þótt að það sé ýmislegt sem þarf að eiga við og færa til og ansi mikið óþarfa spik sem má snippa aftan af setningum eða inni í þeim miðjum. Þegar best gengur fá heilu málsgreinarnar að fjúka. Reyndar fjúka þær ekki lengra en inn í tiltekna möppu í tölvunni.

Mér er sagt að flestir rithöfundar eigi eina svona möppu. Þær eru yfirleitt titlaðar eitthvað á borð við „glefsur“ eða „pælingar“ eða „kannski eitthvað“ og tilgangur þeirra virðist vera að halda utan um búta úr skáldverkum í vinnslu sem höfundur treystir sér ekki til að eyða en mun aldrei nokkurn tímann lesa yfir aftur né gera neitt annað við.