VEGGIR KEMUR ÚT Á ÞÝSKU

Í október 2017 hafði Hartmut Mittelstädt, íslensku kennari við Greifsvald háskóla í Þýskalandi, samband við mig með þá ósk að gefa út smásögu eftir mig á þýsku. Sagan sem um ræðir ber titilinn Veggir og kom upphaflega út hjá Tunglinu í nóvember 2015 í vefritinu Skíðblaðni, sem síðar var gefið út í heild sinni í tveggja hefta prentútgáfu á Tunglkvöldi í febrúar 2016.

Tveir nemenda norrænu deildarinnar, þær Claudia Nierste og Mareen Patzelt, stefndu þá á sjöttu útgáfu tímarits sem háskólinn hefur haldið úti og ber heitið Neue Nordische Novellen, eða „Nýr norrænn skáldskapur“, og átti þetta hefti að innihalda þýskar þýðingar nemenda skólans á smásögum eftir höfunda frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum—ritstýrt af Claudiu og Mareen með aðstoð frá kennurum deildarinnar.

Að sjálfsögðu var ég mjög upp með mér og bað þau um að gjöra svo vel og hafa sína hentisemi, og þurfti síðan lítið að hugsa um málið fyrr en núna, rúmu ári síðar, þegar ég fann tvö höfundaeintök í póstkassanum fyrir utan íbúðina okkar í Bay Ridge. Heftið er mun stærra og veglegra en mig hafði grunað og inniheldur fyrstu þýðingar á smásögum eftir tuttugu og þrjá höfunda frá ellefu löndum; þ.e. Færeyjum, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Eistlandi, Rússlandi, Póllandi, Úkraínu og Tékklandi. Ásamt sjálfum mér er að finna tvo aðra íslenska höfunda í heftinu, þær Bjargey Ólafsdóttur og Árný Stellu Gunnarsdóttur.

Það er mikill heiður að fá að fljóta með í þessa fallegu útgáfu, og sérstaklega gaman hvað útgáfan er ríkulega myndskreitt. Mín saga er þýdd af Sven Thiersch og vil ég þakka honum kærlega fyrir ómakið, sem og Mareen og Claudiu fyrir að hafa tekið þessa litlu sögu upp á arma sína.

VIÐTAL Í MANNLEGA ÞÆTTINUM Á RÁS 1 (VARÚÐ: SPOILERS!)

Ég fór í viðtal hjá Lísu Páls í Mannlega þættinum á Rás 1 að því tilefni að verið var að gefa út Smáglæpi, mína fyrstu bók, í vikunni. Við ræddum ritstarfið og feluleikina sem því fylgja, útlegðina til Long Island, smásögur og hvers þær eru megnugar og ýmislegt fleira. Tekið skal fram fyrir þá sem ekki hafa lesið fyrstu söguna í Smáglæpum, Barnalæti, að í viðtalinu leynast einhverjir spoilerar, og því kannski betra að kíkja á hana fyrst. Ef ykkur vantar eintak skulið þið ekki hika við að hafa samband. Þátturinn birtist upphaflega á Sarpinum, vef Ríkisútvarpsins, þann 28. júní 2017 og ætti að vera aðgengilegur þar í heild sinni enn um sinn.

SMÁGLÆPIR ER KOMIN ÚT

Það eru mikil gleðitíðindi að segja frá því að um þessar mundir er verið er að dreifa bókinni Smáglæpir eftir sjálfan mig í allar betri bókaverslanir.

Smáglæpir er gefin út af útgáfufélaginu Sæmundi og samanstendur af sjö sögum úr úthverfum Reykjavíkur þar sem skoðaðar eru ákvarðanir sem ekki verða aftur teknar og eftirsjá sem varir út ævina. Persónurnar bera sekt sína í einrúmi þar til hún er orðin að þráhyggju sem hvorki er hægt að gangast við né leita sér aflausnar á. Þetta eru smáglæpirnir: tilfinningasárin sem við völdum, tækifærin til að breyta rétt sem við misstum af, orðin sem við létum ósögð.

Tvær af sögunum hafa áður birst í TMM, þó ekki í alveg sömu mynd, en hinar fimm hafa ekki komið út áður. Allar deila sögurnar ákveðnum efnistökum. Það er mikill léttir að vera loks að senda þær frá sér, enda hef ég lengi verið að rogast með þær og sérstaklega lagt til mikla nákvæmnisvinnu í lokahnykkinum undanfarið ár.

Efnt verður til háleynilegs útgáfuhófs á næstunni til að fagna útgáfu bókarinnar. Svo verður líka stærri útgáfuhátíð í lok júlí og mun sú uppskeruhátíð einnig snúa að útgáfu bókarinnar Pínulítil kenopsía: Varúð, hér leynast krókódílar eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur sem Sæmundur er líka að dreifa í búðir núna í vikunni.

Þeir sem vilja tryggja sér eintök skulu hafa samband í gegnum netfangið bjornhalldorssonis@gmail.com eða senda mér prívat skilaboð á Facebook, en einnig verður bókin til sölu í útgáfuhófinu og í Eymundsson og öðrum bókabúðum.

 

Viðtal við Orð um bækur um Þjófasögu

Fína og flotta fólkið hjá Partus útgáfunni tók sig til og vistaði viðtalið sem ég og Hertha María Richardt Úlfarsdóttir fórum í hjá Jórunni Sigurðardóttur í Orð um bækur í heild sinni á SoundCloud þannig að hægt væri að hlusta á það lengur en Sarpurinn á RUV.is segir til um. Takk fyrir það, Partus. VIð förum mikinn í þessu viðtali og strengjum saman myndlíkingar hingað og þangað, frá steinvölum til hafragrauts. Það var gaman að komast að því að við Hertha María deilum áherslum okkar á samvinnuna og traustið til annars fólks sem þarf að vera til staðar á bak við hverja útgefna sögu, sem og gleðina yfir bessaleyfunum sem maður getur tekið sér í fyrsta uppkasti. Mjög gaman að fá að taka þátt í umræðunni um gildi íslenskra smásagna núna þegar þær eru smám saman að finna vægi sitt í menningarlífinu í staðinn fyrir að vera eingöngu álitnar upphitun fyrir fyrstu skáldsögu höfundar.