Húsbruni á 21. öldinni / pistill á Stundin.is

bruni
Mynd sem ég tók á vettvangi

Ég var með lítinn pistil í Stundinni í dag um húsbrunann sem átti sér stað við Grettisgötu í fyrradag. Ég var fyrir tilviljun á staðnum, á leið heim eftir vinnu, og fylgdist með slökkviliðinu athafna sig. Það var ekki fyrr en ég kom heim að ég horfði yfir atburðarás kvöldsins og það vaknaði með mér óhugur yfir því hve brengluð viðbrögð mín hefðu verið við þessum harmleik. Helst hafði ég áhyggjur af því að ég, og kannski við öll, værum búin að fjarlægjast svo svakalega atburði líðandi stundar með því að horfa sífellt á heiminn, í bæði fegurð sinni og ljótleika, í gegnum þann fjarræna glugga sem símaskjárinn er. Ekki varð skömmin minni daginn eftir þegar ég las ávítanir Lögreglunnar til vegfarenda sem höfðu tafið björgunaraðgerðir og flækkst fyrir í von um að ná flottum myndum á símann sinn og hlaða upp á hinar ýmsu samfélagssíður, og hvað þá þegar ég komst að því að fólk nákomið mér sem ég hef oft eitt kvöldstund með á barnum hafði tapað nær öllum eigum sínum og verkum í brunanum. Nú er svo komið að það er varla hætt að rjúka úr rústunum og strax er farið að skoða gróðamöguleika þess að byggja íbúðir á reitnum. (Þótt talað sé um “íbúðir” er ég nokkuð viss um að ég er ekki einn um að heyra í staðinn “hótel”.) Það kemur kannski ekki á óvart og verður að teljast eðlileg þróun eins og hlutirnir eru í dag en engu að síður fer maður að óttast um viðhorf okkar þegar fyrstu viðbrögð við eldsvoða er að deila honum á Twitter og athöfn númer tvö er að byrja að skoða möguleika á að græða á rústunum. Það var fullt af sögu og menningu í þessu húsi en enginn virðist hafa tíma til syrgja það. Þessi viðbrögð eru að segja okkur eitthvað um hvar við erum í dag og það ber að rannsaka.