
Ég keypti bók um helgina. Kaupin voru ákveðið viðbragð við þeirri skelfilegu uppgötvun að ég var bókarlaus og umkringdur fólki sem ég þekkti ekki. Ég var staddur á Worship Fest-tónleikunum á Bird, einstaklega huggulegri lítilli rokkbúllu sem opnaði fyrir ekki svo löngu á horninu á móti Gauknum og er mögulega síðasta vígið í Reykjavík þar sem enn er hægt að fá bjór í 0,5 lítra glösum.

Ég beið ekki boðana, lagði glasamottu yfir bjórglasið mitt (ég endurtek, 0,5) og skaust yfir í Eymundsson Austurstræti. Á standi í erlendu deildinni fann ég Miss Brill, litla Penguin-útgáfu með þremur smásögum eftir Katherine Mansfield á 999 kr. Reyndar eru þessar sögur líklega allar í safninu hennar sem ég á heima en það skiptir ekki máli og bókin var þar að auki í fullkominni stærð fyrir rassvasann. Ég andaði léttar og hélt aftur á Bird og las sögur Mansfield um frík og listafólk á öðrum áratug síðasta aldar þar til hátalarnir byrjuðu að snarka þegar fyrsta hljómsveitin, Gubba Hori, steig á svið.
Auk Gubba Hors voru Svartþoka líka að spila og svo bandaríska stóner-hljómsveitin Hippie Death Cult, en ef satt skal segja var aðal ástæða mín fyrir að kaupa miðann – fyrir utan bara að styðja fólk sem leggur á sig það þarfaverk að flytja inn erlendar hljómsveitir til Íslands – vonin um að fá loksins að sjá World Narcosis, sem er ein af þessum stórkostlegu íslensku hljómsveitum sem ég bara missti alveg af því ég var í einni af mínum útlegðum á erlendri grundu á þeim árum þegar þær voru að spila hvað mest, og hef því aldrei séð live. Það sama á við um til dæmis Plastic Gods, Svartadauða, Logn, og fleiri og fleiri merkisbönd, fæst hver eru ennþá að spila.

Ég hef verið að fara einn á tónleika alveg síðan ég var svona 15-16 ára, þegar ég uppgötvaði fyrst íslensku harðkjarnasenuna, á svipuðum tíma og flestir vinir mínir voru akkúrat að vaxa upp úr svona öskri. Ég gat sjaldnast fundið neinn til að koma með mér og eftir að ég fékk bílprófið keyrði ég oft einn úr Mosó og lagði Daewoo-bifreið fjölskyldunnar á gamla malarstæðinu við Bæjarins bestu (þar sem Hafnartorg stendur núna) til að komast í pittinn á Kakóbarnum við Aðalstræti og seinna í Hinu húsinu í Austurstræti, þar sem maður þurfti að hlaupa upp fjórar hæðir til að sjá hljómsveitirnar. Á þessum stöðum sá ég Mínus, SnaFu, Citizen Bob, Changer, Spildog, Lunchbox, Sólstafi, Myrk, Fighting Shit, Gavin Portland, Forgarð Helvítis, Dys, Innvortis, Celestine, Gone Postal og fleiri og fleiri hljómsveitir sem ég er löngu búinn að gleyma nöfnunum á, sumar hverjar entust líklega ekki lengur en eitt-tvö gigg. Blessunarlega er þó ennþá hægt að sjá margar þeirra á Youtube-rásinni hans Valla dordinguls, sem við stöndum öll í þakkarskuld við fyrir að hafa tekið að sér að vera stofnanaminni íslenskrar öfgatónlistar.
Ég man að á Kakóbarnum var biti í loftinu beint fyrir framan sviðið og þar tyllti ég gleraugunum mínum á meðan vindmyllurnar voru hvað mestar á gólfinu. Ég ætlaði mér ekki að endurtaka mistökin sem ég gerði á Length of Time tónleikunum í gömlu hlöðunni í Grafavoginum, þegar ég fékk Bóas í Vígspá í andlitið í miðju crowd-sörfi og gleraugun flugu eitthvert út í buskann. Restina af tónleikunum sá ég bara í móðu. Það sama átti sér stað á Rammstein tónleikunum í höllinni þegar einhver choko með gelað og aflitað hár sparkaði, líklega óvart, í andlitið á mér með hnausþykku Buffalo-skónum sínum.
Mig grunar sterklega að ég hafi líka verið með bók á mér í þá daga, í gömlu leðurskólatöskunni hennar mömmu sem ég eignaði mér og eyðilagði síðan gjörsamlega með því að tússa hana alla út í hljómsveitarnöfnum og jafnvel skrúfa nokkra stálgadda í hana líka. Líklega hefur það þá verið Fight Club eða Invisible Monsters eftir Chuck Palahniuk sem var í töskunni, eða Hard Boiled Wonderland and the End of the World eftir Murakami, eða Shampoo Planet eða Life After God eftir Douglas Coupland, eða einhver greinasöfn eftir Hunter S. Thompson. Þetta var í þá daga þegar maður var ennþá sífellt að finna bækur sem manni fannst mind-blowing og öðruvísi en allt sem maður hafði lesið áður, annað en í dag þar sem maður á það til að detta stundum í þann leiðindagír að finnast maður hafa séð þetta allt.
Bækurnar í hliðartöskunni voru afþreying, eitthvað til að drepa tímann með þegar maður beið eftir strætó eða á meðan næsta hljómsveit var að stilla upp og skipta út gítarstrengjum, en þær voru líka ákveðin feimnisbrynja. Varnarveggur á milli mín og heimsins sem gerði mér kleift að komast hjá því að þurfa að tala við einn né neinn nema ég væri ávarpaður af fyrra bragði, hvað þá að þurfa að sitja með hendur í skauti og stara út í loftið eins og kríp eða lúser.
Einhver minnti mig á það um daginn hvernig það var þegar enn mátti reykja inni á börunum, hvernig maður endaði á að keðjureykja ef maður sat einn til borðs til að virðast hafa eitthvað að gera. Svo komu Nokia-símarnir og Snake og heimurinn breyttist. Í dag höfum við símana okkar. Kannski betra fyrir lungun, en það er spurning með geðheilsuna? Fyrir mitt leyti tel ég allaveganna að af þessum þremur feimnishækjum sem maður getur stutt sig við til að komast hjá því að tala við ókunnuga og líta út eins og lúser séu bækurnar heilsusamlegri og ódýrari til lengdar en bæði símarnir og sígaretturnar.