ÝMISLEGT UM SKRIÐJÖKLA OG ENDURSKRIF

Nýjasta skrifstofan mín, með útsýni yfir Hólavallagarð

Ég stend í endurskrifum þessa dagana. Reyndar mætti segja að ég sé meira og minna búinn að vera í endurskrifum síðasta árið, eða jafnvel síðustu tvö árin; á sífelldu vappi í landslagi þar sem ég þekki hvern hól en er samt alltaf að velta við steinum í von um að finna eitthvað nýtt og nýtilegt.

Um daginn hlustaði ég á einlægt og fallegt viðtal við Nicholas Pearson, ritstjóra Hilary Mantel, þar sem hann lýsti samstarfi sínu við hana, sem fólst víst aðallega í því að lesa handritið hennar í stórum bútum og hvetja hana áfram frekar en að vera að eiga við textann hennar. (Lafði Hilary var víst ekki mikið í því að senda frá sér neitt sem hún var ekki búin að nostra við í töluverðan tíma einsömul.) Ég veit að margir höfundar velja þessa leið, að leyfa yfirlesurum sínum, hvort sem það eru vinir og kunningjar eða ritstjórar og agentar, að lesa kaflana sína jafnóðum á meðan verkið er í vinnslu. Sjálfur hef ég alltaf verið hálf hræddur við slíka opinberun, þótt ég hafi auðvitað aldrei hellt mér út í neitt af sömu stærðargráðu og Thomas Cromwell-þríleik Mantels, sem átti nú víst bara að vera ein bók upphaflega, þar til hún neyddist til að horfast í augu við það að hún var að detta í 400 blaðsíður og það var bara rétt búið að afhausa Thomas More og Hinrik áttundi varla byrjaður að gjóa augunum í átt að Jane Seymour.

Ég er búinn að vera frekar obsessed með Lafði Hilary undanfarið ár eða svo

Fyrir mér hafa skrifin nefnilega alltaf verið hálfgerður skriðjökull. Þau mjaka sér löturhægt framávið, knúin áfram af surgandi þrýstingi og fargi sem er samansett af einhvers konar bræðingi af viljastyrki og sjálfsblekkingu; þeirri trú að það sem verið er að reyna að fanga í orðum sé þess virði að leiða til lykta og koma í temmilega fast form. Þetta farg sem knýr skrifin áfram getur verið ansi duttlungafullt og lítið þarf til að allt stoppi, sérstaklega ef ég fer að rýna um of í það hvort ég stefni nú örugglega í rétta átt; hvort þetta sé ennþá sama bókin eða sama sagan og ég fór af stað með. Ég reyni því iðulega að klína einhvers konar enda á verkið áður en ég afhendi það til yfirlestrar, af ótta við að missa dampinn og ljúka verkinu aldrei ef ég gef mér færi á að líta upp og ná áttum.

Því miður þýðir þessi einstrengingsháttur að freistingin til að stytta sér leið í átt að endanum getur orðið mér um of, sérstaklega á seinni stigum þegar framvindan er farin að taka skýra stefnu. Á þeim tímapunkti er upplifunin oftar en ekki einmitt sú að ég fái engu ráðið um stefnuna sem sagan hefur tekið. Ég neyðist bara til að lúta að lögum frásagnarinnar og þóknast duttlungum hennar eftir bestu getu, eins og einhverskonar vanhæfur og óöruggur guð sem er bara að reyna að gera það besta úr málunum. Mantel vissi þetta. Í ritgerðinni „Persons from Porlock“, sem má finna í nýútkomnu greinasafni hennar Memoirs of my Former Self, gengst hún við því að rithöfundar séu í raun hálgerðir hræsnarar þegar þeir gefa fólki það ráð að slökkva á innri gagnrýnandanum og byrja bara að skrifa til að fylla blaðsíðuna af orðum sem hægt sé að lesa yfir og laga seinna:

You give this advice but you can’t always take it. You dread setting off down any one narrative path, because you know your choice will make most of the others impossible. Select one, write it and it begins to seem in some sense preordained, natural correct; the other options fade from memory. Fear of commitment lies behind the fear of writing.

(Manneskjan frá Porlock sem ritgerðin dregur titilinn sinn af er vísun í dularfullan gest frá þorpinu Porlock sem heimsótti Samuel Taylor Coleridge í einhverjum ónefndum erindagjörðum mitt í því að hann var að hripa niður magnum ópus sinn um Kubla Kahn, sem birtist honum í heild sinni í draumi eða (líklega) í ópíumvímu. Þessi ónefndi gestur olli því að Coleridge komst aldrei í að klára ljóðið, sem fyllir þó heilar 54 línur.)

Lafði Hilary úti að spóka sig, örugglega að skoða einhverjar rústir

Það er einmitt á þessu stigi, þegar frásögnin virðist vita upp á hár hvað hún vill fá frá mér, sem ég byrja að reyna að víkja mér undan ákalli hennar, stytta mér leið og skrifa mig framhjá hinu og þessu. Senum og þemum sem ég veit að ég er bara hreinlega ekki nógu góður höfundur til að takast á við enn. Ég kann nefnilega í raun bara eina leið til að skrifa, og það er að ráðast í verkefni eða bók sem ég veit að ég ræð ekki við, í þeirri von að á meðan á skrifunum stendur takist mér að vaxa nægilega sem höfundur til að standa á endanum uppi sem höfundurinn sem var fær um að skrifa þessa bók. Þannig byrjaði ég fyrst að skrifa og þannig skrifa ég enn í dag: án þess að vera alveg viss um að ég geti það.

Þessi tilhneiging til að „klína enda á handritið“ gerir það að verkum að oftast þarf ég að leggjast í umtalsverð endurskrif eftir að ég fer að hleypa yfirlesurum inn í verkið, og þeir taka að benda á allar gloppurnar og helgidagana sem mér yfirsást. Yfirleitt erum við sammála um að þessi afsláttur sem ég reyndi að gefa sjálfum mér á lokaspretti mínum í átt að endanum sé ekki sögunni samboðinn; að bókin eigi skilið betri höfund en svo.

Á nýafstaðinni bókmenntahátíð gaf Claire Keegan skrifandi fólki það ráð að senda aldrei verkin sín til yfirlestrar þegar þau væru spennt og hæstánægð með skrifin, því þá væri augljóslega ennþá ýmislegt sem ætti eftir að laga. Það væri ekki fyrr en þú værir dauðuppgefinn og kominn með nóg sem þú gætir verið viss um að þú værir búinn að gera allt sem í eigin valdi stendur. Ég hef oftar en einu sinni brotið þessa reglu og upplifað svekkelsið sem því fylgir að fá aftur í hausinn útkrotað handrit sem þú hélst að væri meira og minna tilbúið. Vikuna á eftir, þegar þú meikar loksins að skoða hrafnaspark yfirlesarans almennilega, neyðistu iðulega til að viðurkenna að ábendingarnar eiga algjörlega rétt á sér og að það er ekki boðlegt að skauta framhjá þeim. Kannski væri best að vera bara eilítið blíðari við sjálfan sig, að sættast við það að þetta svekkelsi og það að komast yfir það sé á einn eða annan hátt bara hluti af ferlinu. Ferlinu mínu, að minnsta kosti.

Ég stend mig einmitt stundum að dagdraumum um að vera annarskonar rithöfundur en ég er. Þá á ég ekki við það að vera höfundur sem skrifar eitthvað allt annað, per se, heldur frekar að vera með eitthvað allt annað ferli á bak við skrifin. Kannski ferli sem myndi innihalda glás af póst-it miðum, hóp af yfirlesurum og skýrar beinagrindur sem fylgt er eftir samkvæmt hárnákvæmri tímalínu. Líklega er þetta einhver gamall dagdraumur frá því þegar ég las í fyrsta sinn That Crafty Feeling ritgerðina hennar Zadie Smith, þar sem hún skiptir höfundum niður í annað hvort Macro Planners eða Micro Managers. Hugmyndafræði sem mig grunar að ég hafi tekið full bókstaflega þegar ég las þessi skrif fyrst sem ritlistarnemi með ekkert í farteskinu nema handfylli af 3-4000 orða smásögum.

Í seinni tíð hef ég lært að kunna að meta eigin ferli og fundið leiðir til að gera það skilvirkara og öruggara, bæði fyrir skrifin og fyrir lífið, því eitthvað verður maður líka að gera, hugsa, borða og elska þegar maður er ekki að skrifa. Mér er þó ennþá tamt að koma mér upp ýmiskonar „stillönsum“, eins og Z.S. kallar það, til að príla í og styðja mig við við skrifin; reglum sem ég tel mér trú um að skipti sköpum til að bókin gangi upp. Sumt er efnislegt: þetta margir kaflar í svona mörgum hlutum, þetta mikill orðafjöldi hver og þessi og þessi tilvísun í þennan og þennan höfund. Flest snýr þó meira að venjum mínum á bak við skrifborðið: að fá mér sama morgunmatinn á hverjum morgni og ganga sömu leiðina á skrifstofuna, vera mættur þar á tilsettum tíma og skrifa sama orðafjölda í hvert sinn. Ég hef þó rekið mig á að mikið af þessari dogmatík gerir lítið annað en að þvælast fyrir, eða gefa mér ærnar afsakanir til að skrifa ekki neitt af því að rútínan var bara „eitthvað off“ í dag.

Á meðan ég var að skrifa fyrsta uppkastið að bókinni sem ég er að vinna að núna sannfærði ég sjálfan mig t.a.m. um að ég mætti alls ekki lesa neitt yfir þar til ég væri búinn að skrifa endann á bókina, og var því með einfalt línubil allan tímann á meðan ég var að skrifa. Dópamínrössið þegar ég skipti yfir í tvöfalt línubil og blaðsíðufjöldinn rauk upp um helming var vissulega ansi dásamlegt, en síðan þá hef ég þurft að súpa seyðið af þessari sérvisku og fara til baka og laga ýmislegt sem ég hefði örugglega rekið augun í fyrr ef ég hefði gefið sjálfum mér aðeins meiri tíma til að dútla við skrifin.

Þannig þarf ég sífellt að minna sjálfan mig á að himnan á milli skrifstofunnar og heimsins er í raun mun þynnri en ég hef talið mér trú um. Vinnan sem felst í því að skrifa bók á sér stað úti um víðan völl, ekki bara á bak við skrifborðið. Einhvers staðar á ég einmitt miða sem ég hripaði á þessa áminningu frá Umberto Eco, sem kemur úr Paris Review viðtalinu hans, og það væri kannski ekki vitlaust að hengja miðann þann fyrir ofan skrifborðið mitt, ef ég finn hann aftur:

Our lives are full of interstices. This morning you rang, but then you had to wait for the elevator, and several seconds elapsed before you showed up at the door. During those seconds, waiting for you, I was thinking of this new piece I’m writing. I can work in the water closet, in the train. While swimming I produce a lot of things, especially in the sea. Less so in the bathtub, but there too.

Eco með geggjað kaskeiti

Eco var náttúrulega svo lánsamur að lifa og hrærast í heimi þar sem allir gengu ekki um með sinn persónulega, óþrjótandi skemmtara í vasanum. Skemmtara sem hægt er að draga fram hvenær sem er til að fylla upp í hverja einustu litlu glufu í deginum með einhverju skemmtilegu sem fangar athygli okkar og sér til þess að við séum ekki að sóa orku í óþarfa heilabrot. Eina reglan sem ég hef reynt að halda í og hef óbilandi trú á er að vera ekki með neina samfélagsmiðla á símanum mínum og skilja heyrnatólin mín eftir heima á meðan ég er djúpt sokkinn í skrif, svo að ég freistist ekki til að setja hlaðvarp í gang frekar en að leyfa huganum að reika á göngutúrum mínum til og frá skrifstofunni.

Auðvitað enda ég oftar en ekki á að brjóta þessa reglu og stinga einhverju hjákátlegu mali í eyrun í von um að yfirgnæfa áhyggjurnar yfir því hvernig í ósköpunum ég eigi að skrifa mig út úr senunni sem ég veit að bíður mín á skrifstofunni. Maður er ekki agaðari eða heilagri en svo. En þá hugga ég mig við það að kannski sé ég bara eftir allt saman ekki ennþá orðinn höfundurinn sem er nógu snjall til að skrifa þá senu. Að kannski verði ég ekki sá höfundur fyrr en á morgun eða hinn daginn.

Þannig mjakast skriðjökullinn áfram, ár frá ári, einn þumlung í einu.

Sjáumst!