LOBSTER GIRL Í ÓS #3

Í þriðja og nýjasta heftinu af Ós: The Journal á ég litla sögu sem ber titilinn „Lobster Girl“. Þetta er í annað sinn sem ég gef út sögu hjá Ós pressunni og er auk þess fyrsta sagan sem ég hef sent frá mér lengi á enskri tungu. Ég er einstaklega hreykinn af því að fá aftur að taka þátt í því flotta starfi sem fólkið á bak við Ós stendur að og finnst mér framtak þeirra vaxa og dafna með hverju eintaki.

Á Íslandi er sár vöntun á tímaritum og öðrum útgáfuleiðum fyrir höfunda sem hafa ekki viðjað að sér nægilegu efni til að hyggja á bókaútgáfu, sem og fyrir útgefna höfunda sem langar að finna farveg fyrir ýmiskonar minni verkefni og tilraunamennsku. Ós hefur auk þess lagt sig fram um að skapa rými fyrir raddir sem eiga undir högg að sækja þegar kemur að því að finna vettvang innan íslenska útgáfubransans—sem sökum smæðar og óstöðugleika getur oft ekki leyft sér að vera eins áhættusækinn og margir vildu óska.

Í Ós #3 er að finna 30 höfunda, ljóðskáld og myndlistarfólk hvaðanæva úr heiminum. Allir sem leggja tímaritinu til efni eða vinnu annað hvort búa eða hafa búið á Íslandi eða eiga í einhverskonar sambandi við landið og eru textarnir á fimm mismunandi tungumálum. Hægt er að nálgast tímaritið í öllum betri bókabúðum og hvet ég ykkur til að ná ykkur í eintak, bæði til yndisauka og til að styðja Ós pressuna í þeirra þarfa starfi.