SÖGUR SEM BREYTA HEIMINUM

Í vor kom Þorsteinn J. að máli við mig varðandi það að taka þátt í nýju verkefni sem hann var með á prjónunum; viðtalsseríu við fólk sem hafði tekið ákvörðun sem breytti lífi þess og leiddi það inn á nýjar brautir. Við hittumst nokkrum sinnum yfir sumarið, heima, á skrifstofunni og á mínum gamla vinnustað í Eymundsson Austurstræti, og ræddum um það sem leiddi til þess að ég fór að skrifa skáldskap fyrir alvöru.

Það vildi svo til að á meðan á þessu ferli stóð fékk ég útgáfusamning við Forlagið fyrir mína fyrstu skáldsögu, sem kemur út í febrúar 2021. Þorsteinn náði því að fanga ansi merkilegt tímabil í mínu lífi og gerði það af einskærri natni og alúð. Viðtalsserían er reyndar einungis aðgengileg í gegnum áskrift að Sjónvarpi Símans en hér að neðan má sjá stiklu.