LISTAMANNALAUN 2020

Þar sem ég sit hér og hjakka í tækniþýðingum til að eiga salt í grautinn fæ ég þær fréttir að mér hafi verið úthlutaðir 3 mánuðir úr Launasjóði rithöfunda fyrir árið 2020. Ég þakka sýnt traust.

Þessi styrkur mun koma að góðum notum við þau verkefni sem framundan eru. Skipulagsvinnan er þegar hafin: Að ákvarða hvenær og hvernig best sé að taka út styrkinn, sem og allskyns bókhaldspælingar um hvernig maður láti þetta allt ganga upp þannig að maður fái þetta ekki allt í bakið í reiknuðu endurgjaldi á næsta ári. Hvað sjálf skrifin varðar bý ég að góðri undirbúningsvinnu í því efni sem ég setti saman fyrir umsóknina í nóvember á síðasta ári. Þar er að finna textabrot og ýmiskonar yfirlitsgögn um stórt nýtt verkefni sem ég stefni á að byrja á í ár, á meðan handritið að minni fyrstu skáldsögu er í yfirlestri.

Mig hlakkar mikið til að hefjast handa enda hefur fátt annað komist að undanfarin þrjú ár en áðurnefnd skáldsaga. Tilhugsunin um að skrifa eitthvað „nýtt“ er orðin æði heillandi. Ég sendi hamingjuóskir til bæði þeirra sem fengu úthlutað og líka þeirra sem fengu ekki neitt ár. Ég hlakka til að fylgjast með afrakstrinum hjá báðum hópum á næstu misserum.