Bókamessan 2022

Bókamessan var loksins haldin aftur í Hörpu í ár, í fyrsta sinn eftir Covid. Það var synd að þessi árlegi viðburður, sem virtist vera rækilega kominn á kortið þegar ég mætti þar síðast, virtist aðeins hafa dottið út úr haustrútínunni hjá fólki, og maður heyrði oft kvartað á básunum um að það væri ekki eins góð mæting og síðast. Engu að síður var fullt af fólki þarna og mikil stemmning. Ég náði þó einungis að njóta hennar litlum hluta þar sem helgin reyndist vera hálfgerð vinnutörn fyrir mig.

Á laugardaginn ræddi ég við heilann flota af höfundum og leikurum/lesurum fyrir Storytel á básnum þeirra, þ.á.m. Júlíu Margréti, Emil Hjörvar og sjálfan Ólaf Ragnar Grímsson. Þetta var um þriggja tíma törn með tuttugu mínútna spjalli eða svo við hvern höfund og lesara, og segja má að ég hafi verið alveg útkjaftaður í lok dags. Ég þurfti þó að hrista það af mér og mæta aftur daginn eftir til að sjá um smásögupanel fyrir Bókmenntaborgina, þar sem ég ræddi við höfundana Maríu Elísabet Bragadóttur, Örvar Smárason og Guðjón Baldursson, sem öll hafa nýlega gefið út smásögusöfn, og Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur, sem hefur þýtt fjöldann allan af smásögum og ritstýrt söfnum og sýnisbókum um smá- og örsögur frá öðrum menningarheimum. Panellinn gekk vel og fór vel á með okkur, en hægt er að horfa á hann í heild sinni á Facebook.