STOL – BÓKMENNTAVEFURINN

Árni Davíð Magnússon skrifaði nýverið bókadóm um Stol sem var birtur á Bókmenntavefnum. Hef ég afritað skrif Árna og birti hér að neðan til varðveislu, en dóminn má einnig lesa á Bókmenntavefnum, þar sem hægt er að nálgast ýmiskonar gagnlegar og skemmtilegar umfjallanir um íslenskar bókmenntir.

Árni skrifar:

SÍÐASTA FERÐALAGIÐ

Hvernig förum við að því að kveðja okkar nánustu? Segjum við allt sem okkur hefur áður langað að segja, gerum við upp fortíðina, eða er kannski best að segja ekki neitt og dvelja í síðustu andartökunum? Stol er fyrsta skáldsaga Björns Halldórssonar og í henni er fjallað um kveðjustundina í sambandi föður og sonar. Björn hefur áður sent frá sér smásagnasafnið Smáglæpi, sem voru ísmeygilegar sögur og lofuðu góðu fyrir framhaldið. Það voru jafnframt afar raunsæislegar sögur og heldur höfundur sig við þann stíl í Stol.

Flétta sögunnar er einföld: Baddi er ungur, verðandi rithöfundur í ástarsorg sem er kominn heim til Íslands frá New York til þess að kveðja föður sinn, Hörð, sem er illa haldinn af heilaæxli og á stutt eftir ólifað. Þeir feðgar hafa ákveðið að fara í síðasta ferðalagið saman, tjaldútilegu, sem þeir hafa talað lengi um en ekki látið verða af þar til það er nánast orðið of seint. Þeir hafa ekki verið sérstaklega nánir og er ferðalagið í aðra röndina síðasta tækifæri þeirra til að ná saman. Tenging þeirra í ferðinni verður hins vegar á annan veg en þeir bjuggust við og snemma er ljóst að hún er enginn vettvangur fyrir einhvers konar uppgjör eða ósvaraðar spurningar. Því veldur sjúkdómur Harðar sem er óðum að ræna hann máli og sjálfstjórn.

Í það vísar titill sögunnar öðrum þræði en hún fjallar einnig um ‚stol‘ í víðfeðmari skilningi, stol á samveru, í samskiptum o.fl. Ferðin verður þess vegna óneitanlega svolítið torkennileg fyrir þá báða, fyndin á köflum, en kannski væri réttast að kalla hana angurværa, þar sem höfundi tekst vel að lýsa átakanlegum aðstæðum og sorg án þess að það verði yfirþyrmandi fyrir lesandann.

Stol er fyrstu persónu frásögn sem er vitaskuld takmarkað og persónulegt sjónarhorn, og jafnvel mætti á köflum segja að frásögnin sé í annarri persónu þar sem Baddi ávarpar föður sinn löngum stundum. Þetta er nokkuð sjaldséð frásagnaraðferð en vel heppnuð þegar henni bregður fyrir í Stoli. Sérstaklega má nefna byrjunina í þessu samhengi, en hún fangar með ágætum hlutverkaskipti feðganna í sögunni þar sem Baddi er lentur í umönnunarhlutverki gagnvart föður sínum. Myndirnar sem dregnar eru upp eru í senn broslegar og hlýlegar, angurværar eins og öll stemmning bókarinnar:

Við erum varla komnir út úr bænum þegar þú þarft að pissa.
[…]
Ég set stöðuljósin á. Stekk út og ríf upp hurðina þín megin. Losa sætisbeltið, sem þú átt alltaf svo erfitt með. Þú reynir að renna niður buxnaklaufinni en endar á að rykkja buxunum niður á hné. Ég rétt næ að víkja mér undan bununni. Þú ert valtur í brattanum við vegöxlina og ég bregð mér á bak við þig og held þér uppréttum. Við stöndum þarna í faðmlögum við þjóðveginn dálitla stund. (9)

Fyrsta orð sögunnar, „við“, er lýsandi fyrir þá hlýju sem ríkir á milli feðganna í sögunni sem er síðan  undirstrikuð með faðmlagi þeirra í síðustu málsgreininni að ofan. Orðið kallast sömuleiðis á við kápumynd bókarinnar þar sem bregður fyrir tveimur mannverum hlið við hlið í fjarska, innan í hring sem umlykur þær.

Þar sem sagan er sögð af Badda í fyrstu persónu (eða annarri eftir atvikum), er persóna hans auðvitað fyrirferðarmest, ásamt Herði. Fleiri aukapersónur koma við sögu, svo sem Magnea núverandi kona Harðar, móðir Badda og kærasti hennar og svo Ava, fyrrverandi kærasti Badda. Sagan tekur nokkur hliðarspor sem hefðu sum e.t.v. mátt missa sín, til dæmis um dvöl Badda í New York og samband hans við fyrrum kærasta, og nokkrum svipmyndum úr barnæsku hans bregður sömuleiðis fyrir. Þetta á auðvitað allt að eiga sinn þátt í að dýpka persónu Badda, en ég er ekki endilega viss um að brýn þörf hafi verið á því að gefa Badda mikla forsögu, enda fær persóna hans svo fjarska vel að njóta sín í ferðalaginu með Herði sem er mun sterkari saga.

Það er blátt áfram heillandi að fylgja feðgunum eftir á ferðalaginu, þar sem þeir líða hljóðlega um þjóðveginn og landið einir og yfirgefnir. Áhrifamesti hluti sögunnar er sviðsettur í þögulli kyrrð óbyggða, sem er vel við hæfi enda er máttur þagnarinnar eitt leiðarstef bókarinnar. Samskipti feðganna einkennast af löngum, merkingarþrungnum þögnum, enda á Hörður erfitt með að halda þræði í samræðum og svo hafa þeir oft og tíðum ekki um neitt sérstakt að ræða. Enda er annar og áhrifameiri strengur en samræðulist sem tengir feðgana saman,  eða eins og Baddi kemst að orði „að kannski skipti það ekki máli hvað við segjum lengur; hvort við skiljum hvor annan eður ei. Ég er að minnsta kosti hérna, sama hvernig það kom til. Kannski er það nóg“ (137).

Ferðalag Badda og Harðar í stórbrotnu en eyðilegu landslagi kallar einnig fram hugrenningartengsl við eina áhrifamestu „feðgasögu“ undanfarinna ára, Veginn (The Road) eftir bandaríska rithöfundinn Cormac McCarthy sem ég held að sé ekki alveg fráleitur samanburður. Í Veginum ferðast feðgar saman um rústir jarðar eftir heimsendi, eins konar eyðimörk, og eins og í Stoli þarf sonurinn að annast föður sinn í sögulok sem liggur þá fyrir dauðanum. Eins og feðgarnir í Veginum þurfa að fóta sig í nýrri heimsmynd þarf Baddi að læra það sama eftir að faðir hans er fallinn frá. Þótt heimsendirinn í Stoli sé ekki bókstaflegur þá er hann persónulegur.

Þögnin er sömuleiðis ríkjandi í Veginum eins og í Stoli; orð hafa glatað tengslum við merkingu sína því heimurinn er að hverfa allt í kringum feðgana sem kallast aftur á við málstol Harðar sem framandgerir fyrir honum þekkta hluti og mótar öll samskipti hans við Badda á ferðalaginu. Það verður þá kærleikurinn á milli feðganna sem hefur sig upp yfir mælt mál og fylgir þeim allt til söguloka þessarar fallegu bókar.
 

Árni Davíð Magnússon, febrúar 2021