BÓKMENNTAVIÐBURÐIR Í JÓLABÓKAFLÓÐINU

ATH! HKL – ástarsaga eftir Pétur Gunnarsson er ennþá á leiðinni til landsins.

Þann 21. nóvember, daginn eftir að ég sný aftur til Reykjavíkur eftir vikudvöl á Stykkishólmi, mun ég stýra höfundakvöldi á Bókasafni Mosfellsbæjar. Kvöldið hefst klukkan 20:00 og þar munu stíga á stokk: Auður Jónsdóttir með Tilfinningabyltinguna; Dóri DNA með Kokkál; Eva Björg Ægisdóttir með Stelpur sem ljúga; Pétur Gunnarsson með HKL – ástarsaga; og Vigdís Grímsdóttir með Systa – bernskunnar vegna. Boðið verður upp á piparkökur, kaffi og rauðvín og munu höfundarnir lesa eilítið úr bókunum sínum og síðan taka þátt í léttu spjalli. Efalaust munu einhverjir sakna Katrínar Jakobsdóttur sem hefur stýrt þessum höfundakvöldum hingað til en vonandi á ég nægilega mikið inni hjá áheyrendum (verandi gamall Mosfellingur) til að mér sé treyst til verksins.

Tveimur dögum seinna, þann 23. nóvember, mun ég síðan vera á Bókamessunni í Hörpu og mun þar aftur ræða við Pétur og Auði auk Björgu Guðrúnu Gísladóttur, sem var að gefa út bókina Skuggasól – minningasaga. Samtalið fer fram í Rímu A klukkan 15:00 og munu höfundarnir lesa úr bókum sínum og ræða um mörkin á milli ævisögu og skáldskapar o.fl.

Vonandi sé ég einhver ykkar á þessum viðburðum. Gaman að fá að vera með í jólabókaflóðinu í ár, og það án þess að þurfa einu sinni að gefa út bók.