DVÖL Á HÓTEL EGILSEN

Ég var svo heppinn að vera úthlutað vinnudvöl á Hótel Egilsen á Stykkishólmi, núna í nóvember. Þar ætla ég að ljúka við skáldsöguhandritið sem ég hef verið að vinna í undanfarin tvö til þrjú ár. Mér þykir einkar vænt um að fá að klára þessa lokavinnu þarna á Stykkishólmi þar sem hugmyndin að bókinni fæddist að miklu leiti í ferð um Snæfellsnesið árið 2013—þótt ég hafi reyndar seinna fært sögusviðið til svo að ég hefði rúm og næði til að móta og skapa heim bókarinnar.

Hótel Egilsen hefur haft það til siðs undanfarin ár að bjóða rithöfundum og öðru iðjusömu fólki að dveljast á hótelinu í viku í senn yfir vetrartímann og þannig nýta sér kyrrðina á Stykkishólmi til að vinna að verkefnum sínum. Er þetta fyrirkomulag til algjörrar fyrirmyndar og er aldrei að vita nema fleiri íslensk hótel taki upp þennan sið á næstu árum—allavega miðað við það offramboð á hótelherbergjum sem allt virðist stefna í í Reykjavík.