„EF ÞIÐ HEFÐUÐ HRINGT“ KEMUR ÚT Í ICELAND REVIEW

Í nýjasta hefti Iceland Review er að finna söguna „Ef þið hefðuð hringt“, sem upphaflega birtist í Smáglæpum árið 2017. Í blaðinu ber sagan titilinn „If only you‘d called“ og er í enskri þýðingu Larissu Kyzer. Larissa hefur getið sér gott orð fyrir enskar þýðingar á íslenskum skáldverkum, þar á meðal fyrir þýðingu sína á verlaunaskáldsögu Kristínar Eiríksdóttur Elín, ýmislegt, sem nýlega kom út hjá Amazon Crossing undir titlinum „A Fist or a Heart“.

Við Larissa þekkjumst og höfum áður unnið saman, meðal annars á PEN World Voices Festival í New York fyrr á árinu. Var því gaman að verða vitni að aðförum hennar við textann minn. Þótti mér vænt um þá natni sem hún sýndi við að leysa ýmisleg tæknileg atriði sögunnar, en „Ef þið hefðuð hringt“ er ein flóknasta sagan í safninu hvað varðar sjónarhorn, tímatilfærslur og sögufléttu. (Ásamt mögulega sögunum „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og „Rekald“, sem báðar vinna með sögufléttu og upplýsingaskömmtun til lesanda á álíka máta.)

Einnig finnst mér aðdáunarvert að Iceland Review, sem á sér langa útgáfusögu á Íslandi og erlendis, sé að skipa sér í flokk með þeim örfáu tímaritum á íslenska markaðinum sem reglulega gefa út skáldskap. Öll umgjörð við birtingu sögunnar er til fyrirmyndar, en fyrir utan að ráða þýðanda fékk blaðið einnig listakonuna Helgu Páley Friðþjófsdóttur til að myndskreyta söguna. Finnst mér henni hafi tekist að fanga anda sögunnar minnar engu síður en Larissu.

Að sjá aðra höfunda, þýðendur og/eða listamenn vinna með verk sín á þennan máta eru mikil forréttindi og vona ég að ég fái frekari tækifæri til þess í framtíðinni.

VEGGIR KEMUR ÚT Á ÞÝSKU

Í október 2017 hafði Hartmut Mittelstädt, íslensku kennari við Greifsvald háskóla í Þýskalandi, samband við mig með þá ósk að gefa út smásögu eftir mig á þýsku. Sagan sem um ræðir ber titilinn Veggir og kom upphaflega út hjá Tunglinu í nóvember 2015 í vefritinu Skíðblaðni, sem síðar var gefið út í heild sinni í tveggja hefta prentútgáfu á Tunglkvöldi í febrúar 2016.

Tveir nemenda norrænu deildarinnar, þær Claudia Nierste og Mareen Patzelt, stefndu þá á sjöttu útgáfu tímarits sem háskólinn hefur haldið úti og ber heitið Neue Nordische Novellen, eða „Nýr norrænn skáldskapur“, og átti þetta hefti að innihalda þýskar þýðingar nemenda skólans á smásögum eftir höfunda frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum—ritstýrt af Claudiu og Mareen með aðstoð frá kennurum deildarinnar.

Að sjálfsögðu var ég mjög upp með mér og bað þau um að gjöra svo vel og hafa sína hentisemi, og þurfti síðan lítið að hugsa um málið fyrr en núna, rúmu ári síðar, þegar ég fann tvö höfundaeintök í póstkassanum fyrir utan íbúðina okkar í Bay Ridge. Heftið er mun stærra og veglegra en mig hafði grunað og inniheldur fyrstu þýðingar á smásögum eftir tuttugu og þrjá höfunda frá ellefu löndum; þ.e. Færeyjum, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Eistlandi, Rússlandi, Póllandi, Úkraínu og Tékklandi. Ásamt sjálfum mér er að finna tvo aðra íslenska höfunda í heftinu, þær Bjargey Ólafsdóttur og Árný Stellu Gunnarsdóttur.

Það er mikill heiður að fá að fljóta með í þessa fallegu útgáfu, og sérstaklega gaman hvað útgáfan er ríkulega myndskreitt. Mín saga er þýdd af Sven Thiersch og vil ég þakka honum kærlega fyrir ómakið, sem og Mareen og Claudiu fyrir að hafa tekið þessa litlu sögu upp á arma sína.