SMÁGLÆPIR KEMUR ÚT Á HEBRESKU

Nú stendur til að smásögusafnið Smágæpir, mín fyrsta bók sem kom út hjá Sæmundi árið 2017, verði gefin út á hebresku af ísraelska útgefandanum Lesa Books. Lesa gefur út bækur frá ýmsum löndum en eins og nafnið gefur til kynna sérhæfa þau sig þó í íslenskum bókum. Hefur útgáfan tryggt sér útgáfurétt á verkum eftir Oddný Eir, Einar Kárason, Guðmund Andra, Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Sigríði Hagalín o.fl. o.fl. Shai Sendik hefur yfirsýn með öllu starfi útgáfunnar og ritstýrir þýðingunni, en þýðandi er Shirley Levi.

Hér að neðan má sjá kápuna á hebresku útgáfu bókarinnar:

ÞÝÐING Á REBECCU SOLNIT Í 19. JÚNÍ

Í nýútkomnu ársriti Kvenréttindafélags íslands, 19. júní, er að finna þýðingu mína á grein eftir Rebeccu Solnit sem upphaflega birtist á bókmenntasíðunni Literary Hub.

Forsíða heftisins er eftir Rán Flygenring

Greinin ber titilinn „Þegar hetjan er vandamálið“ og fjallar um þær hættur sem stafa af einsleitri hetjudýrkun sem oft má finna í kvikmyndum og á samfélagsmiðlum. Í skemmtilega afslöppuðum ritstíl fer Solnit um víðan völl og dregur inn í umræðuna t.d. kvikmyndina Kona fer í stríð, Hungurleikana, Robert Mueller o.fl. o.fl. til að sýna hvernig þessi orðræða dregur úr hvata fólks til að bindast tryggðarböndum og nota mátt fjöldans til að hrinda jákvæðum samfélagslegum breytingum í framkvæmd.

Heftið í ár er stútfullt af merkisgreinum og pistlum um sagnfræði, loftslagmál og listir og þótti mér einstaklega gaman að fá að leggja mitt af mörkum við samsetningu þess.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA? – PISTILL Í STUNDINNI

Vinnudagurinn í gær fór eiginlega í vaskinn. Ég átti að vera að ljúka við einhverja bókadóma en svo álpaðist ég til að kíkja á fréttirnar, og las þar um albönsku fjölskylduna sem vísað var úr landi þótt eiginkonan væri komin níu mánuði á leið, og síðan aðra frétt um útrás í íslenskum bókmenntum. Úr varð pistill sem birtist fyrst á Stundin.is en ég endurbirti hér í góðri trú.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA?

Á bókmenntaviðburðum undanfarið hefur borið æ oftar við að ég heyri einhvern muldra út undan sér að þessi eða hinn íslenski höfundur sé „bara að skrifa fyrir einhverja útlendinga“.

Eins og gengur og gerist með slíkt baktal er erfitt að setja fingur á hvort um sé að ræða gagnrýni eða öfund. Tekjur íslenskra höfunda hafa alltaf verið tvísýnar og starfsöryggi takmarkað. Þau búdrýgindi sem fást fyrir útgáfur á erlendum markaði geta verið töluverð og séð til þess að höfundar geti einbeitt sér að fullu að iðju sinni, án þess að þurfa að fórna samverustundum fjölskyldunnar fyrir skrifin. Það er því heldur ósanngjarnt, finnst mér, að hnýta í fólk fyrir að reyna eftir bestu getu að finna leiðir til að geta haldið áfram að gefa út bækur reglulega án þess að þurfa að fórna heilsu eða lífsgæðum fyrir.

Sjálfur hef ég í gegnum tíðina haft tekjur af því að skrifa um íslenskar bækur í ýmsum fjölmiðlum sem ætlaðir eru fyrir erlenda lesendur. Þar hef ég gert mitt besta til að vinna samkvæmt eigin samvisku og sannfæringu en óneitanlega hefur eðli verksins í sumum tilvikum fallið undir það sem við myndum kalla „landkynningu“, og því ekki endilega verið rétti vettvangurinn fyrir gagnrýn skrif. Engu að síður hefur þessi lævísa spurning smogið að mér endrum og eins: Fyrir hvern er ég að skrifa?

Þegar ég opnaði netgáttina í gær spruttu fram tvær fréttir sem í fljótu bragði virtust alls ótengdar en komu engu að síður illa við mig þegar ég sá þær samsíða á skjánum. Annarsvegar var þar frétt um að íslensk stjórnvöld hafi vísað úr landi ófrískri albanskri konu ásamt fjölskyldu hennar. Konan er komin níu mánuði á leið og aðfarirnar virðast eins ómannúðlegar og hugsast getur. Hin fréttin var öllu gleðilegri: Útgáfa á íslenskum bókum í þýðingu hefur þrefaldast á undanförnum tíu árum. Hátt í fjörutíu bækur eftir íslenska höfunda eru nú nýútkomnar eða rétt óútkomnar í Bandaríkjunum og á Bretlandi, sem gefur þessum tilteknu höfundunum aðgang að þeim mikla fjölda lesenda sem er að finna á þessum málsvæðum.

Fyrir nokkrum árum mátti telja þá nýju íslensku titla sem komu út á ensku á annarri hendi. Gróskan er því umtalsverð og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann aukna fjölda skáldsagna eftir íslenska kvenhöfunda sem rata í enskar þýðingar. Í eina tíð var nær eingöngu hægt að finna í þeim flokki bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur—jafnvel þótt framlag hennar einnar hafi þá jafngilt ríflega 40% af nýlegum íslenskum skáldsögum á enskri tungu. Það má því færa rök fyrir því að íslenskir rithöfundar séu að upplifa ákveðið „tækifæri“.

En tækifæri til hvers?

Fyrir hvaða útlendinga viljum við skrifa? Þá sem koma hingað á skemmtiferðaskipum eða þá sem koma hingað á fölsuðum vegabréfum? Viljum við segja frá kynngimögnuðu landslagi uppfullu af stóísku bláeygðu fólki sem bugtar sig fyrir álfum og rígheldur í þá trú að „þetta reddist“, eða viljum við nota þetta tækifæri til að segja hinar sögurnar? Sögurnar sem við skömmumst okkur fyrir. Sögur um það sem betur má fara. Sögur sem draga fram vankantana á þeirri glansmynd sem okkur er tamt að halda uppi fyrir erlenda gesti. Sögur sem myndu seint teljast til landkynningar.

Auðvitað er hræðilega ósanngjarnt að bera slíka plikt upp á íslenska höfunda. Að hætta sér út á ritvöllinn er nógu flókið fyrir, þótt fólk fari ekki að kryfja öll sín skrif með réttvísina í huga eða blanda pólitík í málið. Það forarsvað er líklegt til að drepa góða bók umsvifalaust. Þetta vissi George Orwell. Hann gekkst við því að hafa sjálfur óviljugur breyst í hálfgerðan „bæklingahöfund“ vegna skrifa sinna um þá heimsatburði sem hann upplifði. Mér kemur þó til hugar tilsvar hans til gagnrýnanda sem sakaði hann um að hafa í skrifum sínum um Spánarstyrjöldina breytt einhverju sem hefði getað orðið góð bók í eintóma blaðamennsku. „Það er rétt sem hann segir, en ég hefði ekki getað gert þetta á annan veg,“ segir Orwell. „Ef ég hefði ekki verið reiður þá hefði ég aldrei lagt í að skrifa bókina.“

Með þetta í huga getum við kannski horft á þessa hvimleiðu spurningu á nýjan leik og séð hvernig áherslur hennar hafa breyst án þess að ég hafi svo mikið sem fært til einn staf eða bætt við kommu:

Fyrir hvern er ég að skrifa?

„EF ÞIÐ HEFÐUÐ HRINGT“ KEMUR ÚT Í ICELAND REVIEW

Í nýjasta hefti Iceland Review er að finna söguna „Ef þið hefðuð hringt“, sem upphaflega birtist í Smáglæpum árið 2017. Í blaðinu ber sagan titilinn „If only you‘d called“ og er í enskri þýðingu Larissu Kyzer. Larissa hefur getið sér gott orð fyrir enskar þýðingar á íslenskum skáldverkum, þar á meðal fyrir þýðingu sína á verlaunaskáldsögu Kristínar Eiríksdóttur Elín, ýmislegt, sem nýlega kom út hjá Amazon Crossing undir titlinum „A Fist or a Heart“.

Við Larissa þekkjumst og höfum áður unnið saman, meðal annars á PEN World Voices Festival í New York fyrr á árinu. Var því gaman að verða vitni að aðförum hennar við textann minn. Þótti mér vænt um þá natni sem hún sýndi við að leysa ýmisleg tæknileg atriði sögunnar, en „Ef þið hefðuð hringt“ er ein flóknasta sagan í safninu hvað varðar sjónarhorn, tímatilfærslur og sögufléttu. (Ásamt mögulega sögunum „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og „Rekald“, sem báðar vinna með sögufléttu og upplýsingaskömmtun til lesanda á álíka máta.)

Einnig finnst mér aðdáunarvert að Iceland Review, sem á sér langa útgáfusögu á Íslandi og erlendis, sé að skipa sér í flokk með þeim örfáu tímaritum á íslenska markaðinum sem reglulega gefa út skáldskap. Öll umgjörð við birtingu sögunnar er til fyrirmyndar, en fyrir utan að ráða þýðanda fékk blaðið einnig listakonuna Helgu Páley Friðþjófsdóttur til að myndskreyta söguna. Finnst mér henni hafi tekist að fanga anda sögunnar minnar engu síður en Larissu.

Að sjá aðra höfunda, þýðendur og/eða listamenn vinna með verk sín á þennan máta eru mikil forréttindi og vona ég að ég fái frekari tækifæri til þess í framtíðinni.