PEN WORLD VOICES BÓKMENNTAHÁTÍÐIN

Í maí tók ég þátt í PEN World Voices bókmenntahátíðinni í New York. Hátíðin er á vegum PEN America og var verið að halda hana í 15. sinn. Viðburðurinn sem ég tók þátt í var svokallað „þýðingaslamm“, þar sem tveir þýðendur fá í hendur texta eftir höfund og þurfa að þýða hann á sem skemmstum tíma. Á kvöldinu sjálfu koma saman höfundurinn og báðir þýðendurnir fyrir framan áheyrendur og er upprunatextanum og þýðingunum varpað á skjá og ásetningur höfundar og ákvarðanir þýðendanna ræddar í þaula. Mitt hlutverk var að stýra viðræðunum, en ég hef áður tekið að mér slík störf fyrir Bókmenntahátíðina í Reykjavík og annarsstaðar.

Ég, Kara B. Thors, Gerður Kristný og Larissa Kyzer að bera saman frumtexta og þýðingar á sviði á The Nuyorican Poets Cafe í East Village

Ég var heldur heppinn með viðmælendur. Þýðendurnir voru Larissa Kyzer, en þýðing hennar á Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríks er væntanleg í september frá Amazon Crossing undir titlinum A Fist or a Heart, og Kara B. Thors, sem nýlega þýddi ljóðasafnið Stormviðvörun eftir Kristínu Svövu, en þýðingin var í ár tilnefnd til PEN verðlaunanna fyrir þýdda ljóðlist. Þær tókust hvor um sig á við ljóðið „Atlantis“ eftir Gerði Kristný, og var Gerður mætt á svæðið til að sjá hvernig þeim tókst til.

Dagskránni var einstaklega vel tekið og var gaman að heyra allar spurningarnar úr áheyrendaskaranum, sem var samansettur af allskyns áhugafólki um þýðingar. Þýðendur í New York eru samheldin hópur, og mæli ég með því fyrir alla höfunda sem eru staddir í borginni að gera sér ferð á t.d. upplestrarkvöldin Us and Them og Another Way to Say, sem bæði eru haldin reglulega í bókakaffinu Molasses Books í Bushwick. Eru þessir reglulegu viðburðir ætlaðir fyrir þýðendur að lesa úr verkum sínum og ræða störf sín. Ég fékk gestamiða á hátíðina fyrir giggið og var duglegur að nýta mér það þar sem ég vissi að ég ætti takmarkaðan tíma eftir í New York.

Inmaculada Lara Bonilla, Rodrigo Rey Rosa, Rodrigo Fresán og Claudiu Salazar Jiménez á sviði á SubCulture í SoHo

Á fyrsta degi hátíðarinnar fór ég á pallborðsumræðurnar „The Library of Borges“ þar sem höfundarnir Rodrigo Rey Rosa frá Guatemala og Rodrigo Fresán frá Argentínu ræddu um áhrif Jorge Luis Borges á Suður-Amerískar bókmenntir undir stjórn Inmaculada Lara Bonilla og Claudiu Salazar Jiménez. Var sérstaklega merkilegt að heyra Rey Rosa ræða um Guatemala og flókna stöðu sína sem höfundur frá landi þar sem lítið er um læsi, og hvernig Guatemala og fleiri Suður-Amerísk lönd sem skortir innlenda bókmenntaarfleið hafa handvalið sér sínar kanónur út frá Borges og öðrum höfundum álfunnar. Rodrigo Fresán sagði skondna sögu af því þegar hann sem ungur maður, í miðju rifrildi við kærustu sína, rakst utan í aldinn Borges úti á götu, svo illa að sá síðarnefndi datt í stéttina. Fólk flykktist að til að hjálpa og skamma Fresán, sem sá fram á að verða aldrei frægur rithöfundur heldur verða í staðinn þekktur sem maðurinn sem drap Borges. Einnig töluðu þeir um það að Borges væri lokað kerfi; að þú gætir lært að elska lestur og skrif með því að lesa Borges en aldrei lært að skrifa eins og hann, þar sem, eins og Fresán sagði: „Ef þú reynir að skrifa eins og Borges þá hljómarðu bara eins og fífl!“

Victor LaValle og Marlon James á sviði í CUNY Graduate Center

Daginn eftir fór ég í CUNY Graduate Center að hlusta á Victor LaValle ræða við Jamaíska höfundinn Marlon James um nýútkomna bók hans: Black Leopard, Red Wolf. Báru pallborðsumræðurnar yfirskriftina „A Game of Leopards and Wolves“, en titillinn snýr að fyrirætlun James um að skapa viðlíka fantasíuheim fyrir Afríkuríkin og til er fyrir hinn vestræna heim í verkum höfunda á borð við George R.R. Martin og J.R.R. Tolkien. Sérstaklega var gaman að heyra James ræða áhrifavalda sína í æsku og tala um ást sína á teiknimyndasögum, reyfurum, rauðum seríum og öðrum bókmenntaafsprengjum popp-menningar, og taldi hann þar m.a. upp skáldsögur Jackie Collins og X-Men teiknimyndasögur Chris Claremonts. Hann sagði líka sögu af því þegar hann missti af eigin áritunarviðburði á bókmenntahátíð þar sem hann stóð í röð til að fá Mike Mignola til að árita eintakið sitt af Hellboy teiknimyndasögu. Einnig talaði hann um mikilvægi þess fyrir sig sem karlhöfund að lesa eins marga kvenhöfunda og mögulegt er í von um að geta skapað sannfærandi og heilræna kvenkaraktera. James, sem vann Man-Booker verlaunin árið 2015 fyrir bókina A Brief History of Seven Killings, talaði um það að höfundar sem hætta sér inn í fantasíu- eða vísindaskáldsöguformið seinna á ferli sínum verði að bera haldbæra þekkingu á þessum bókmenntagreinum og sýna þeim þá virðingu sem þær eiga skilið, ella eiga á hættu að gera sjálfa sig að fífli. Þrátt fyrir strangt bókakaupabann sökum yfirvofandi flutninga til Íslands endaði ég á að kaupa eintak af Black Leopard, Red Wolf, og fékk James til að árita það fyrir mig. Ég er að lesa hana núna og er kominn á flug, þrátt fyrir að það hafi tekið mig dálítinn tíma að bindast rödd sögumannsins, sem er æði svæsin.

Garrard Conley, Colm Tóibín og Édouard Louis á sviði á SubCulture

Þriðja daginn fór ég að sjá írska höfundinn Colm Tóibín ræða við hinn unga, franska höfund Édouard Louis undir handleiðslu Garrard Conley, höfund Boy Erased. Yfirskrift umræðunnar var „Our Fathers“, og ræddi Tóibín um skrif sín um feður Oscars Wilde og W.B. Yates, sem báðir voru hálfgerðir vandræðagripir. Einnig talaði hann um fangelsisvist Oscars Wilde í Reading fangelsinu, en Tóibín fékk að dveljast við skriftir læstur inni í klefa Wilde í fangelsinu, þar sem Wilde hafði ofan af fyrir sér með því að skrifa langt bréf til fyrrum ástmanns síns, Lord Alfred Douglas, sem bar að vissu leiti ábyrgð á því hvernig fyrir Wilde var komið. Er þetta bréf kallað De Profundis og var hálfgerð fangelsisdagbók fyrir Wilde.

Ég hafði fengið mikinn áhuga á Édouard Louis eftir að ég las ítarlega grein um hann og bækur hans í New York Review of Books. Hann hefur skrifað mikið um föður sinn, fyrst í bókinni The End of Eddy, þar sem hann lýsir reynslu sinni sem samkynhneigður drengur sem elst upp í fátækri franskri verkamannafjölskyldu. „Fyrir móður mína og föður, var samkynhneigð eins og vofa sem umkringdi okkur,“ útskýrði hann og lýsti hvernig faðir hans og aðrir karlmenn í þorpinu voru uppteknir við að gæta að karlmennsku sinni og pössuðu sig að gefa ekki höggstað á sér með því að gera neitt sem talist gæti „teprulegt“ eða „hommalegt“. Í nýjustu bók sinni, Who Killed My Father, hittir Louis föður sinn í fyrsta sinn eftir mörg ár og kynnist honum á nýjan leik, nú sem farlama manni, öldnum langt fyrir aldur fram, með laskaðan líkama sem hefur verið fórnað í púl og hættulega erfiðisvinnu í verksmiðjum. Þessi upplifun leiðir Louis til þess að beina gagnrýnu auga að stéttarskiptingu Frakklands. Í bókinni ásakar hann og nefnir á nafn franska stjórnmálamenn sem hann álítur persónulega ábyrga fyrir því hvernig komið sé fyrir föður sínum. Á sviðinu með Tóibín ræddi hann mikið um hvernig efri stéttirnar horfa á pólitík sem hálfgerða afþreyingu, á meðan pólitík hefur bein áhrif á líkama og heilsu fátækasta fólksins í landinu, sem fær lítið sem ekkert að segja um pólitískar ákvarðanir. Við að hlusta á hann tala varð mér oft hugsað til orðræðunnar í veraklíðsbaráttunni hér heima undanfarið ár. Louis talaði einnig um reynslu sína í franska réttarkerfinu, eftir að honum var nauðgað af karlmanni sem hann bauð heim með sér, en önnur bók hans, History of Violence, segir frá verknaðinum og eftirköstum hans. Ég lét til leiðast að fá áritað eintak af bók Louis, sem er hvort eð er í þynnra lagi, og því ekki eins tvísýnt að koma henni í tösku og doðrantinum hans Marlon James.

Elissa Schappel, Inêz Pedrosa, Elif Shafak og Jennifer Egan á sviði á SubCulture.

Þá um kvöldið fórum við Elín saman á pallborðsumræður undir yfirskriftinni „Women Uninterrupted“, þar sem komu saman höfundarnir Jennifer Egan frá Bandaríkjunum, Elif Shafak frá Tyrklandi og Inêz Pedrosa frá Portúgal, undir handleiðslu Elissu Schappel. Þær ræddu hvernig orðið „kvenhöfundur“ hefur breyst úr því að vera leiðinda merkimiði yfir í hálfgert pólitískt baráttuslagorð. Merkilegt var að heyra hvernig Egan hafði upphaflega byrjað að skrifa mestmegnis karlkaraktera til þess að sannfæra sjálfa sig (og aðra) um að hún væri í raun ekki að skrifa út frá sjálfri sér. Shafak talaði líka um það að þá sjaldan sem eitthvað af henni sé að finna í karakterum sínum þá séu það yfirleitt karlkarakterarnir sem hún felur sig á bak við. Í báðum tilvikum töluðu þær um hvernig þær hafa þurft að berjast gegn því að bækur þeirra séu lesnar sem „reynslusögur“, sem er stimpill sem þeim finnst æði oft vera skellt á skáldsögur kvenna—eða eins og Pedrosa orðaði það: „Öllum er skítsama þótt Philip Roth sé augljóslega allir sínir karlkarakterar.“

Þannig talaði Egan líka um þá kröfu sem oft er haldið að höfundum um þeir skuli skrifa það sem þeir þekkja („write what you know“), sem henni finnst allt of takmarkandi. Hefur hún í staðinn valið að skrifa langt út fyrir sitt þæginda- og þekkingarsvið—t.d. með því að skrifa um kafara í nýjustu bók sinni, Manhattan Beach. Ég minnist þess að hafa heyrt svipaðar skoðanir í ritgerðasafni Ann Patchett, This is the Story of a Happy Marriage. Það var frískandi að heyra nánari pælingar um þessa hugmynd, þar sem að ég man að ég fylltist skelfingu við lýsingar Patchett á því hvernig hún hefði hafist handa við að skrifa skáldsögur sem snúa að genafræði eða óperum án þess að búa að neinni sértækri þekkingu um þá heima—þótt hún væri auðvitað orðinn algjör sérfræðingur þegar hún var búin að skrifa bækurnar.

Matt Gallagher, Rodrigo Rey Rosa, Tommy Orange og Mohammed Hanif.

Síðasta kvöldið sat Rogrigo Rey Rosa aftur fyrir svörum, ásamt blaðamanninum og rithöfundinum Mohammed Hanif frá Pakistan og Tommy Orange, höfundi af ættum Cheyenne-indíána. Hann gaf nýlega út skáldsöguna There, There, sem gerist á meðal fátæks fólks af indíánaættum í borginni Oakland í Kaliforníu. Stjórnandi samtalsins var rithöfundurinn og fyrrum hermaðurinn Matt Gallagher. Ræddu viðmælendur um hvernig ekki væri hægt að segja sögu sinna mismunandi þjóða og þjóðarbrota án þess að inn í það spinnist saga ofbeldis. Það var rætt um hvernig stofnanavædd valdbeiting og ofbeldi þýðir í raun að yfirvöld leyfi fólki að þjást og deyja án þess að því sé sýnd samkennd eða umhyggja. Hanif kom einnig með öflugar blammeringar á það hvernig vestrænt samfélag hefur markaðssett stríð og ofbeldi. Hann talaði tæpitungulaust um þreytu sína á almennum borgurum sem afsala sér ábyrgð á stríði þrátt fyrir að greiða skatta til yfirvaldanna sem standa að stríðinu, sem og allri þeirri rómantík og samúð sem hermenn sem snúa heim úr stríði eru sveipaðir í, á meðan lítilli athygli er beint að íbúum landanna þar sem stríðið er háð.

Eftir viðburðinn rölti ég yfir götuna frá Cooper Square, þar sem seinasti panellinn fór fram, og drakk einn ljósan og einn dökkan á McSorley‘s Old Ale House. Þrátt fyrir allan túristaflauminn þar inni, sem mættur er til að bera augum (að því að mér er sagt) elstu knæpu New York borgar, er McSorley‘s engu að síður einn af mínum uppáhaldsstöðum á Manhattan. Reyndist þessi heimsókn vera fyrsta skiptið af nokkrum þennan maímánuð, þar sem ég lagði krók á leið mína til að kveðja McSorley‘s „í síðasta sinn“.

TRANSLATION SLAM AT THE PEN WORLD VOICES FESTIVAL

On May 9th, I’ll be hosting a translation slam at the Nuyorican Poets Cafe as a part of the PEN World Voices Festival. Translators Larissa Kyzer and K.B. Thors will meet with Icelandic poet and novelist Gerður Kristný and present their translations of one of her poems.

Larissa Kyzer is the translator of “Birds” by Rán Flygenring and Hjörleifur Hjartarson and the forthcoming translation of Kristín Eiríksdóttir‘s novel A Fist or a Heart (“Elín, ýmislegt”), which won the 2017 Icelandic Literary Prize and is nominated for this year’s Nordic Council Literature Prize.

K.B. Thors is the translator of Kristín Svava Tómasdóttir’s poetry collection Stormwarning (“Stormviðvörun”), which was longlisted for the 2019 PEN America Poetry in Translation Literary Award. I interviewed Kristín last year about the book and her and Kara’s cooperation.

Gerður Kristný is a novelist and poetess and a former journalist. In 2010, she won the Icelandic Literature Prize for her poetic novel Bloodhoof (“Blóðhófnir”), a retelling of an Old Norse poem in the Skaldic verse style. I interviewed her last year when her poetic novel Drápa was published in English.