SMÁGLÆPIR NÚ FÁANLEGIR Í INNBUNDNU BROTI

TIl að auka sölumöguleika Smáglæpa í jólabókaflóðinu, ákvað Sæmundur, útgefandinn minn, að endurprentunin af bókinni yrði í hörðu bandi. Auðvitað er þetta ógurlega spennandi fyrir mig, og þá sérstaklega að bókin muni vera á borði með öllum hinum jólabókunum. Það er samt ekki laust við að ég prísi mig sælan að hafa gefið bókina út í kiljubroti í sumar, núna þegar út eru að koma spennandi skáldverk eftir hverja kanónuna á fætur annarri, sem og eftir ýmsa nýja höfunda sem ég hlakka mikið til að kíkja á þegar ég kem heim. Ber þar kannski helst að nefna Millilendinguna hans Jónasar Reynis og Slitförin hennar Fríðu Ísberg, en bæði eru þau hjá mínum gamla útgefanda Partusi, sem er svo sannarlega að hrista vel upp í jólabókaflóðinu í ár (enda kominn tími til).

Sjálfur kem ég ekki heim á klakann fyrr en 4. desember, og vona ég að ekki verði alveg búið að gleyma Smáglæpum og sjálfum mér þá, þegar mesta jólaösin skellur á. Ég er núþegar búinn að bóka eitt upplestrarkvöld, í höfuðstöfum Sæmundar, Bókakaffinu á Selfossi, þann 14. desember, en vonandi tekst mér að bæta einhverjum fleirum viðburðum við þegar nær dregur. Hvernig sem fer þá held ég að þetta verði rokna jólabókaflóð og hlakka ég mikið til þess að taka þátt í því af fullum huga, að þessu sinni fyrir framan búðarborðið en ekki fyrir aftan það, þar sem ég hef staðið vaktina undanfarin ár. Þó er aldrei að vita nema ég betli í mínu gamla samstafsfólki í Eymundsson Austurstræti um að fá að taka smá vakt á Þorláksmessu, þar sem þá er mesta stuð ársins í bókabúðum og bjórinn sjaldan sætari en á miðnætti þann tuttugasta og þriðja, þegar loksins er búið að smala öllum út og gera upp kassana. Þó eru góðar líkur á einhverjum eilitlum hagsmunaárekstri í ár þar sem það er jú mynd af mér aftan á einni jólabókinni. Þá verð ég bara að betla út Þorláksmessuvakt næstu jól, nema að svo ólíklega vilji til að maður sé með eitthvað í þvögunni þá líka.

Ég sé ykkur allavega þann 4. desember þegar ég mæti heim frá Long Island, fúlskeggjaður og síðhærður þar sem ég treysti ekki rockabilly rökurunum hér út frá eftir síðustu útreið. Ekki veitir af þar sem kalt er orðið í kotinu og ég þurfti að fjárfesta í flannel-fóðruðum Carhartt buxum til að þola röku hafgoluna hér á eyjunni. Þangað til verð ég hérna á bókasafninu í Stony Brook að tikka inn í tölvuna eitthvað sem verður kannski einhvern tímann eitthvað.

BÓKADÓMUR UM SMÁGLÆPI Í KILJUNNI

 

Smáglæpir voru til umræðu í Kiljunni í gærkvöldi. Ég er bara býsna sáttur við það sem Kolbrún Bergþórs og Sigurður Valgeirsson höfðu fram að færa um bókina. Þau voru sammála um að sem fyrsta bók teljist þetta vera mjög vel gert. Sigurður minntist sérstaklega á söguna „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og hrósaði myndmáli hennar og sagði meðal annars:

„[Björn] sprettur fram sem mjög fær höfundur í þessari bók … Maður getur fullyrt að hann á eftir að skrifa fleiri og betri bækur.“

Kolbrún tók í sama streng og sagði meðal annars:

„Það er svo margt undir yfirborðinu. Það eru brotnar fjölskyldur, það er grimmd og það eru glæpir, og stundum engir smáglæpir … Honum tekst vel að lýsa fólki. Það er margt þarna sem er dálítið sjokkerandi. Þetta virðist vera frekar kyrrt á yfirborðinu en svo koma svona lítil atvik … og maður allt í einu hrekkur við og hugsar: „Hvað er ég að lesa!?““

SMÆGLÆPIR VÆNTANLEGIR Í INNBUNDNU BROTI

Nú styttist í að önnur prentun af Smáglæpum skili sér úr prentsmiðju. Þessi nýja útgáfa bókarinnar verður í innbundnu broti. Hún er væntanleg í búðir í lok október en auk þess að vera í nýju broti verður eftirfarandi umsögn frá Úlfari Þormóðssyni rithöfundi prentuð á kápuna:

„Þetta er besta efni sem ég hef séð um langa hríð; Björn er lágstemmdur, tilgerðarlaus, málsnjall og hugmyndaríkur; kann að nota íslenskt mál.“

Þakka ég Úlfari kærlega fyrir hólið, sem mér þykir alveg ógurlega vænt um. Ég kem aftur til Íslands 4. des til að taka þátt í jólabókaflóðinu en eins og venjulega er hægt að hafa beint samband í gegnum netfangið bjornhalldorssonis@gmail.com.

TÆKIFÆRIN TIL ÞESS AÐ SKRIFA EITTHVAÐ NÝTT

“I love it when you’re writing and you feel like you’ve hit this territory where there’s no one else around. It’s like being on a prairie. You think: Who else is writing this stuff? No one! There’s open skies and the horizon ahead of you and you’re thinking: I could just run for that horizon and write brand new stuff out there!”

Þessi orð lætur Russell T Davies falla í viðtalinu hér að neðan þegar hann er spurður út í stöðu sína sem höfundur sem skrifar nánast eingöngu um samkynhneigð og samkynhneygt fólk. Hann er maðurinn á bak við sjónvarpsþættina Cucumber, Queer as Folk og endurvakninguna á hinum klassísku Dr. Who þáttum sem átti sér stað árið 2005, m.a.

Mér finnst orð hans gott svar við áhyggjum sumra um að það sé of mikil áhersla lögð á fjölmenningu og minnihlutahópa í poppkúltúr nútímans. Þau segja samt einnig svo mikið um þennan drifkraft sem liggur á bak við hverskyns skáldskap sem brýtur blað og kemur með eitthvað alveg nýtt –hvort sem það er í “fagurbókmenntum” og ljóðlist eða í vísindaskáldskap og reyfurum.

Það er fátt meira spennandi fyrir rithöfund en að ramba allt í einu á hugmynd, karakter eða vettvang og fatta: “Nei, andskotin! Eru að djóka!? Það er enginn annar að skrifa um þetta!!”

HOLDIÐ OG VALDIÐ Á BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK

Han Kan, Kristín Eiríks, Aase Berg og ég. Af einhverjum ástæðum stendur á skjánum að Rosie Goldsmith sé stjórnandi kvöldsins en maður kippir sér svo sem ekki upp við svoleiðis smáatriði.

Ég tók að mér að stýra pallborðsumræðum á Bókmenntahátíð í Reykjavík í ár, líkt og ég gerði á síðustu hátíð fyrir tveimur árum þegar ég ræddi við höfundana Steinunni Sigurðar og David Nicholls. Titill samtalsins í ár var Holdið og valdið (Politics of Flesh) og voru viðmælendur mínir Kristín Eiríksdóttir, sem las úr væntanlega bók sinni Hendur & rætur, sænska súrrealista og femínista ljóðskáldið Aase Berg, en nýjasta bók hennar Hackers nýtir sér táknmyndir sníkjudýra og tölvuvírusa til að hvetja til árása gegn feðraveldinu, og Suður-Kóreski Man-Booker verðlaunahafinn Han Kang, höfundur bókarinnar Grænmetisætan, sem var nýlega gefin út hjá Bjarti, og hinnar mögnuðu Human Acts, sem fjallar um blóðuga uppreisn sem átti sér stað í borginni Gwangju í Suður-Kóreu árið 1980.

Kvöldið gekk vel og voru viðmælendur mínir einkar vel valdir til að ræða um verk sín og hugmyndafræði undir þessum titli. Því miður náði ég lítið að ræða við fólk í salnum eftir á til að heyra hvernig þetta kom allt saman út þar sem ég þurfti að fara beinustu leið heim að pakka. Ég átti flug til Bandaríkjanna snemma morguninn eftir og sökum mikils undirbúnings og álags vikuna fyrir viðburðinn var allt ógert fyrir ferðalagið.

Hægt er að horfa á samtal okkar Kristínar, Aase og Kang á streymisíðu bókmenntahátíðar en samtalið hefst um 1:20:00 bilið. Mér skilst að þau hjá Bókmennthátíðinni ætli að klippa öll viðtölin til og setja á netið og mun ég setja það hér inn þegar þar að kemur.

NOKKUR ORÐ UM DVÍNANDI BÓKSÖLU Á ÍSLANDI

mbl.is/Þ​órður Arn­ar Þórðar­son

Þessi litli pistill birtist upphaflega á Facebooksíðu minni þann 17. ágúst 2017 og var skrifaður sem andsvar við frétt á ruv.is um að sala á íslenskum bókum hefði fallið um 30% undanfarinn áratug.

Margir vilja tengja þessa þróun við minnkandi lestur barna og unglinga. Ég er ekki alveg seldur á þá hugmynd. Í þau ár sem ég hef starfað í erlendu deildinni í Eymundsson hefur einn stærsti kúnnahópurinn minn alltaf verið unglingar. Fáir viðskiptavinir eru jafn einlægir og spenntir yfir bókunum sem þau eru að kaupa og þessir krakkar, og maður gleðst svo innilega þegar þau koma til manns og biðja um meðmæli. Maður man nefnilega hvernig þetta var. Það var á þessum aldri sem maður sjálfur kynntist þeim bókum sem mótuðu mann hve mest. Sjálfur byrjaði ég að lesa mjög mikið af bókum á ensku á unglingsárum, enda var í þá daga ekki til neitt á íslensku sem jafnaðist á við Terry Pratchett, Frank Herbert, Douglas Adams o.fl. o.fl. Það voru varla einu sinni til íslenskar glæpasögur, þótt vissulega gleypti maður líka í sig allar þær Jack Higgins og Alistair MacLean þýðingar sem maður fann á bókasafninu. (Já, ég er hræddur um að ég hafi eiginlega bara lesið karla sem unglingur, fyrir utan náttúrulega Lindgren og Blyton.)

Þónokkur nýbreytni hefur átt sér stað í íslenskum bókastefnum síðan þá. Ungir höfundar hafa sérstaklega verið duglegir að koma inn á markaðinn með nýja bókaflokka í ætt við þá sem þau sjálf uppgötvuðu á sínum tíma í Austurstrætinu, Máli og menningu, Bókabúðinni á Hlemmi, Nexus og fleiri bókabúðum sem staðið hafa í ströngu við að bjóða úrval erlendra bóka síðustu þrjátíu ár eða svo. Því miður hefur það samt tíðkast allt of lengi að þær íslensku bækur sem þessi markhópur ungs fólk hefur áhuga á að lesa eru settar beint í barnadeild bókabúða, innan um bangsa og leikföng og nagbækur. Ekki hefði ég treyst mér til að ganga þangað inn í leit að einhverju að lesa á mínum eigin brothættu unglingsárum.

Ef við ætlumst til að krakkar haldi áfram að lesa, og sérstaklega að lesa á íslensku, þá þurfum við að upphefja og halda að þeim þeim bókum sem þau sjálf hafa áhuga á að lesa, í staðinn fyrir að vera sífellt að slá á puttana á þeim og segja: “Nei, þú ert að gera þetta vitlaust, lestu þetta frekar!” Þannig sköpum við þá venju hjá þeim að sækja sér afþreyingu, spennu og skemmtun í bækur. Látum í það skína að við virðum þær bækur sem þau kjósa sjálf að lesa, finnum þeim öndvegissess í íslenskum bókabúðum og veitum þeim bókum þá fjölmiðlaumfjöllun sem þær svo sárlega þarfnast. Síðan getum við farið að hafa áhyggjur af því að þau eigi eftir að lesa Njálu og Laxness.

ÚTGÁFUFÖGNUÐUR Í EYMUNDSSON AUSTURSTRÆTI

Núna á fimmtudaginn var blásið til mikillar uppskeruhátíðar í Eymundsson í Austurstræti til að fagna útgáfu Smáglæpa og Pínulítillar kenopsíu. Það var boðið upp á léttar veitingar og Harpa Rún Kristjánsdóttir sá um að kynna bækurnar fyrir hönd Sæmundar, en síðan lásum við Jóhanna María upp úr bókunum okkar. Ég vill þakka öllum sem sáu sér fært að mæta, og sérstaklega vill ég þakka Jóhanni A. Kristjánssyni, tengdaföður mínum, fyrir að taka þessar skemmtilegu myndir af gleðinni.

Höfundarnir tveir með útgefanda sínum, Bjarna Harðarsyni

 

VIÐTAL Í SÍÐDEGISÚTVARPINU MEÐ JÓHÖNNU MARÍU EINARSDÓTTUR

Ég og Jóhanna María Einarsdóttir vorum í viðtali hjá Björgu Magnúsdóttur í Síðdegisútvarpinu í vikunni. Þar ræddum við um bækurnar okkar, Smáglæpi og Pínulitla kenopsíu, sem og um útgáfu á Íslandi í dag og hinn háa meðalaldur íslenskra rithöfunda sem gerir það að verkum að nýir höfundar komast upp með að vera kallaðir “ungir” fram yfir þrítugt, svo eitthvað sé nefnt.

VIÐTAL Í SUNNUDAGSMOGGANUM

Í Sunnudagsmogga helgarinnar er að finna viðtal sem Árni Matt tók við mig. Viðtalið snertir á hinu og þessu en snýst aðallega um Smáglæpi og starfið sem liggur á bak við bókina. Viðtalið var ánægjuleg upplifun og er ég mjög sáttur við útkomuna en þarf þó að taka fram að ég hef aldrei útskrifast frá Háskóla Íslands né nokkurn tímann lagt stund á neitt nám þar. BA gráðan mín í enskum og amerískum bókmenntum er frá UEA, Háskóla East-Anglia héraðs í Norwich, Englandi. Það hefur eitthvað skolast til, en skiptir svosem ekki miklu máli.