BEE BOOK CLUB – AMERICAN PSYCHO / RULES OF ATTRACTION

Nýlega bað York Underwood mig um að taka þátt í ævintýri sem hann hafði álpast út í. Hann hafði tekið að sér að stýra þáttaröð á YouTube þar sem bækur Bret Easton Ellis væru ræddar, ein á eftir annarri. Ég tók að mér að ræða við hann um tvær af bókum Ellis: Rules of Attraction, sem ég las fyrir mörgum árum og held mikið upp á, og hina alræmdu American Psycho, sem ég hafði aldrei lesið áður. Þættirnir voru teknir upp live á bandarískum tíma, sem þýddi að við þurftum að taka þá upp um miðja nótt, og voru síðan sendir út í gegnum YouTube-stöð Ellis sjálfs.

Þetta er ekki lítið flott framtak hjá York og þótti mér aðdáunarvert hve faglega hann stóð að allri umgjörð þáttanna, en ásamt mér mættu Hallgrímur Helgason og danski grínistinn og félagsfræðingurinn Mette Kousholt til að ræða um bækurnar, en einnig bauð hann upp á Zoom-viðtöl sem hann hafði sjálfur tekið upp við m.a. Irvine Welsh, höfund Trainspotting og Porno o.fl., Roger Avery, sem leikstýrði kvikmyndagerðinni af Rules of Attraction, James Van Der Beek, sem lék aðalhlutverk í þeirri mynd, Guinevere Turner, annan handritshöfund handritsins að American Psycho kvikmyndinni, o.fl. o.fl.

Hægt er að horfa á viðtölin í heild sinni hér að neðan.

SÖGUR SEM BREYTA HEIMINUM

Í vor kom Þorsteinn J. að máli við mig varðandi það að taka þátt í nýju verkefni sem hann var með á prjónunum; viðtalsseríu við fólk sem hafði tekið ákvörðun sem breytti lífi þess og leiddi það inn á nýjar brautir. Við hittumst nokkrum sinnum yfir sumarið, heima, á skrifstofunni og á mínum gamla vinnustað í Eymundsson Austurstræti, og ræddum um það sem leiddi til þess að ég fór að skrifa skáldskap fyrir alvöru.

Það vildi svo til að á meðan á þessu ferli stóð fékk ég útgáfusamning við Forlagið fyrir mína fyrstu skáldsögu, sem kemur út í febrúar 2021. Þorsteinn náði því að fanga ansi merkilegt tímabil í mínu lífi og gerði það af einskærri natni og alúð. Viðtalsserían er reyndar einungis aðgengileg í gegnum áskrift að Sjónvarpi Símans en hér að neðan má sjá stiklu.

VIÐTAL Á BBC RADIO 4

Núna í vikunni var ég gestur í þættinum „Open Book“ á BBC Radio 4, sem stýrt er af Mariella Frostrup. Þar var mér ætlað að útkljá um hvort að íslenska jólabókaflóðið væri hrein og klár mýta og þannig veita innsýn í raunverulegar aðstæður íslenskra rithöfunda og bókaútgefanda. Ég reyndi að sinna því verki hvað best ég gat, slá á einhverjar rósrauðar ranghugmyndir en um leið benda á allt það sem gerir jólabókaflóðið að því skemmtilega og einstaka fyrirbæri sem það er. Að sjálfsögðu notaði ég líka tækifærið og reyndi að troða inn nokkrum titlum eftir þá höfunda sem tóku þátt í jólabókaflóðinu í ár. Megnið af því efni endaði hinsvegar ekki í lokaútgáfu þáttarins, líklega þar sem breskir hlustendur hafa kannski lítið að gera við höfunda sem eru enn sem komið er ófáanlegir á enskri tungu. Það mátti þó reyna.

VIÐTAL Í SÍÐDEGISÚTVARPINU MEÐ JÓHÖNNU MARÍU EINARSDÓTTUR

Ég og Jóhanna María Einarsdóttir vorum í viðtali hjá Björgu Magnúsdóttur í Síðdegisútvarpinu í vikunni. Þar ræddum við um bækurnar okkar, Smáglæpi og Pínulitla kenopsíu, sem og um útgáfu á Íslandi í dag og hinn háa meðalaldur íslenskra rithöfunda sem gerir það að verkum að nýir höfundar komast upp með að vera kallaðir “ungir” fram yfir þrítugt, svo eitthvað sé nefnt.

VIÐTAL Í SUNNUDAGSMOGGANUM

Í Sunnudagsmogga helgarinnar er að finna viðtal sem Árni Matt tók við mig. Viðtalið snertir á hinu og þessu en snýst aðallega um Smáglæpi og starfið sem liggur á bak við bókina. Viðtalið var ánægjuleg upplifun og er ég mjög sáttur við útkomuna en þarf þó að taka fram að ég hef aldrei útskrifast frá Háskóla Íslands né nokkurn tímann lagt stund á neitt nám þar. BA gráðan mín í enskum og amerískum bókmenntum er frá UEA, Háskóla East-Anglia héraðs í Norwich, Englandi. Það hefur eitthvað skolast til, en skiptir svosem ekki miklu máli.

 

VIÐTAL Í MANNLEGA ÞÆTTINUM Á RÁS 1 (VARÚÐ: SPOILERS!)

Ég fór í viðtal hjá Lísu Páls í Mannlega þættinum á Rás 1 að því tilefni að verið var að gefa út Smáglæpi, mína fyrstu bók, í vikunni. Við ræddum ritstarfið og feluleikina sem því fylgja, útlegðina til Long Island, smásögur og hvers þær eru megnugar og ýmislegt fleira. Tekið skal fram fyrir þá sem ekki hafa lesið fyrstu söguna í Smáglæpum, Barnalæti, að í viðtalinu leynast einhverjir spoilerar, og því kannski betra að kíkja á hana fyrst. Ef ykkur vantar eintak skulið þið ekki hika við að hafa samband. Þátturinn birtist upphaflega á Sarpinum, vef Ríkisútvarpsins, þann 28. júní 2017 og ætti að vera aðgengilegur þar í heild sinni enn um sinn.

Viðtal í Orð um bækur um bóksalastarfið

Hér má finna viðtal sem Jórunn Sigurðardóttir tók við mig nýlega í þætti sínum Orð um bækur um bóksalastarfið, erlendar bækur, fantasíu skáldsögur og unga lesendur. Einstaklega gaman að eiga þetta viðtal að núna þegar ég hef hætt störfum hjá Pennanum Eymundsson og látið öðrum í hendur umsjón með minni heitt elskuðu erlendu deild í Eymundsson Austurstræti. Þátturinn var upphaflega fluttur á Rás 1 undir titlinum Orð um ljóð og sölu bóka íslenskra sem erlendra þann 22. ágúst 2016 og má hlusta á hann í heild sinni á Sarpinum á ruv.is.