Tag Archives: útgáfa

Nýræktarstyrkir 2016 – Smáglæpir, Einsamræður & Afhending

 

mynd3

c. Hólmfríður Jónsdóttir

Þann 2. júní síðastliðinn hlaut ég Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta ásamt Birtu Þórhallsdóttur og Vilhjálmi Bergmann Bragasyni. Styrkurinn er ætlaður til að stuðla að útgáfum nýrra höfunda, og sammæltumst við “ungu” höfundarnir um það hversu einstaklega gaman og spennandi það væri að verkin sem hlutu styrkina í ár væru jafn ólík og þau eru, en þau eru um leið mjög ólík þeim útgáfum sem hafa einkennt styrkina hingað til. Birta er með örsagnasafn sem ber titilinn Einsamræður, Vilhjálmur stefnir á að gefa út á prenti leikritið sitt Afhending og sjálfur er ég með smásögusafnið Smáglæpir sem mun koma út hjá Sæmundi næsta vor. Engar skáldsögur eða barnabækur hlutu styrkinn í ár.

styrkur

 

Ég er einstaklega þakklátur og stolltur yfir að vera úthlutað þessum styrki, og hvað sérstaklega er ég þakklátur fyrir að vera nú loks kominn með fasta lokadagsetningu fyrir Smáglæpi, sem ég hef verið að færa til kommur í ansi lengi. Enn þarf að sitja yfir efninu um sinn og sumar sögurnar sé ég fram á að endurrita frá byrjun en beinagrindina á ég inni í skáp og núna er ekki annað á dagskrá en að draga hana fram og klæða hana kjöti.

Ég læt fylgja hér með viðtal við mig, Birtu og Vilhjálm í Víðsjá daginn sem styrkirnir voru tilkynntir þar sem einnig má heyra okkur lesa úr væntanlegum útgáfum,  og að auki þá er að finna hér fyrir neðan umsagnirnar um verkin þrjú frá dómnefnd Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Þar segir eftirfarandi:

Birta Þórhallsdóttir – Einsamræður

Kröftugar örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl sem höfundur hefur einkar gott vald á. Textinn grípur lesandann með spennandi möguleikum og mótsögnum þar sem kunnuglegar aðstæður umbreytast og taka á sig hrífandi ævintýrablæ.

Björn Halldórsson – Smáglæpir

Vel skrifaðar og fagmannlega mótaðar smásögur. Höfundur þekkir smásagnaformið augsýnilega vel og kann þá list að segja ekki of mikið en skapa á sama tíma forvitnilega stemningu og andrúmsloft í sögum sem ná gríðarföstu taki á lesandanum.

Vilhjálmur Bergmann Bragason – Afhending

Athyglisverður og ögrandi leiktexti sem fyllir lesandann óhug og efasemdum um þá þróun sem er sýnd í samskiptum persónanna. Höfundurinn þekkir leikhúsið og leikritun og sýnir athyglisvert vald á forminu, eins og sést mætavel á snörpum og vel skrifuðum samtölum þar sem dansað er á mörkum súrrealisma og óþægilegs raunsæis.

umsagnir

 

Meðgöngumál nr. 3 & 4 komið í bókabúðir

IMG_2124Meðgöngumál nr. 3 & 4, Vetrarhamur og Þjófasaga eftir Herthu Maríu og mig sjálfann, eru nú fáanlegar í Eymundsson og fleiri bókabúðum á skitnar 1.499 kr. Að sjálfsögðu stillti ég þeim upp við kassann niðri í Austurstræti svo fólk gæti gripið eintak með dönsku blöðunum sínum en ég get ekki endilega ábyrgst að aðrir bóksalar séu jafn samviskusamir í að passa að bækurnar séu það fyrsta og síðasta sem viðskiptavinurinn sér, svo endilega ekki hika við ónáða starfsfólkið ef þið sjáið ekki Partus standinn neinsstaðar. Fyrir hönd bókabúðarstarfsmanna get ég lofað að við elskum að vera ónáðuð.

Meðgöngumál nr. 3 & 4 komið út (Vetrarhamur & Þjófasaga)

12841204_1528334487468144_7254710431119128443_o (1)Kærar þakkir til allra þeirra sem sáu sér fært að mæta í gærkveldi, hlýða á upplestur og tónlist og fjárfesta í Meðgöngumáli nr. 3 og Meðgöngumáli nr. 4. Þið sem ekki komust í gærkvöldi skuluð ekki örvænta þar sem mér skilst á Valgerði hjá Partus útgáfunni að Meðgöngumál muni nú fara að finna sér leið í bókabúðir og aðrar slíkar sjoppur (með strikamerki og öllu!). Sérstakar þakkir til ritsjórnarteymisins á bak við Meðgöngumál: Elínu Eddu Pálsdóttur sem ritstýrði sögunni minni, Þjófasögu, og Brynjari Jóhannessyni og Fríðu Ísberg sem ritstýrðu Vetrarhami eftir Herthu Maríu Richardt Úlfarsdóttur. Líka vill ég þakka hönnunarteyminu hjá Partus Press og Grétu Þorkellsdóttur sem sá um umbrotið. Öll umgjörð þessarar útgáfu er svo til fyrirmyndar og alveg einstakt hvernig þeim hefur tekist að gera bækurnar að jafn fallegri vöru og eigulegum grip og þær eru en á sama tíma halda framleiðslukostnaði og verði í algeru lágmarki. Takk fyrir mig, og líka þakkir til York og Sóleyjar fyrir hetjulegar myndir af kvöldinu.

12841260_10154300548384381_3141732287710805154_o

Myndataka York Underwood

1497011_10153951502444351_5195276118397500028_n

Myndataka Sóley

12419285_1528666480768278_6597893661456708044_o

Hertha að lesa (myndataka Partus Press)

IMG_2051

0,2 cm viðbót við höfundaeintakabunkann

IMG_2046 (1) IMG_2047 IMG_2048 IMG_2050

Þjófasaga gefin út hjá Meðgöngumáli

12806125_1526280154340244_2879454409424998964_nNúna á fimmtudaginn koma út hjá Meðgöngumáli örbækurnar Vetrarhamur eftir Herthu Maríu Richardt Úlfarsdóttur og Þjófasaga eftir mig. Meðgöngumál er undirforlag Partus Press sem einbeitir sér að smásöguútgáfu, en í stað þess að gefa út smásögusöfn gefa þau út stakar smásögur í ódýru prenti, svipað og Meðgönguljóð hafa gert við ljóðasöfn. Þjófasaga var unnin í samvinnu við ritstjórann minn hjá Meðgöngumáli, Elínu Eddu Pálsdóttur. Þetta er í raun örævisaga byggð á svipuðum stílfærslum og Níu Líkamar sem var gefin út hjá Tímaritinu Stínu í vetur og þar áður hjá Valve Journal í Glasgow þar sem reynt er að ramma inn heila mannsævi í þeim brotum sem hægt er að raða saman innan í jafn takmörkuðu rými og smásagnaformið er. Það er mikill heiður fyrir mig að fá mína eigin prentútgáfu og vonast ég til að sjá sem flest ykkar á Loft Hostel á fimmtudaginn. Kvöldið hefst klukkan 20:00 og verður afsláttur á barnum fyrir þá sem fjárfesta í bókunum.