HVAÐ GET ÉG SAGT?

Þessi pistill birtist fyrst á vef Stundarinnar þann 15. september síðastliðinn, þegar þær fréttir bárust að vísa skyldi Khedr-fjölskyldunni úr landi daginn eftir.

Hvað get ég sagt?

Í morgun, á leiðinni á skrifstofuna mína í Borgartúninu, datt mér svolítið fyndið í hug. Það skiptir ekki máli hvað það var. Bara einhver spaugileg athugasemd um daginn og veginn; eitthvað sem gladdi mig í hversdeginum.

Eins og ég á til þá tók ég upp símann og hripaði niður tíst til að deila hugskotinu með því snefilmagni þjóðarsálarinnar sem fyrirfinnst á Twitter. Þar er ég með prófíl með huggulegri mynd af sjálfum mér og set oft inn eitt og annað sem mér þykir hnyttið, deili tónlistinni sem ég er að hlusta á hverju sinni og svo framvegis.

Ég hef ekki farið leynt með ástæður þess að ég byrjaði á forritinu. Ég, eins og margir í skapandi geiranum, hef gengist við þeirri hugmyndafræði að það sé mikilvægt að vera „sýnilegur“ á netinu, í von um aukna möguleika á að lifa á list minni (þótt ég velti oft fyrir mér hvort öllum tímanum sem fer í að viðhalda þessum sýnileika væri ekki betur varið í listsköpunina sjálfa). Vera mín á þessum samfélagsmiðli hefur frá byrjun verið stýrt af mínum eigin hagsmunum. Ég geri mér grillur um að með því að vera „virkur“ þarna og annars staðar á netinu séu auknar líkur á að fólk veiti því eftirtekt sem ég er að gera, lesi greinarnar mínar og kaupi jafnvel bækurnar mínar eða mæti að minnsta kosti á bókmenntaviðburði þar sem ég les úr þeim.

Þar sem ég stóð í Borgartúninu, við það að senda enn eina sniðuga og umfram allt meinlausa athugasemd út í ljósvakann, mundi ég að í dag ætla íslensk stjórnvöld að senda úr landi sex manna fjölskyldu sem hefur sest hér að og upplifað hér öryggi og von um bjartari framtíð. Ég hef fylgst með þessari fjölskyldu undanfarna daga. Þau hafa neyðst til að fara í fréttirnar til að biðla til þjóðarinnar og íslenska ríkisins um miskunn. Bænum þeirra hafa stjórnvöld svarað með sorgarsvip búrókratans sem telur sig eiga engra kosta völ, hristir höfuðið og kennir kerfinu um.

Ég get ekki sagt að mín viðbrögð hafi verið mikið betri. Ég hef setið í þögn og fylgst með fréttaflutningi af þessari sorgarsögu, eins og ég hef gert við aðrar slíkar sögur undafarin ár. Eins og áður er naumur tími til stefnu. Svona málum fylgir tifandi klukka sem telur niður dagana, klukkustundirnar, mínúturnar þar til fólkinu er vísað úr landi. Þess vegna er mikilvægt að taka umsvifalaust skýra afstöðu þegar svona mál ber á góma. Sjálfur hef ég hikað, farið undan í flæmingi og talið mér trú um að ég búi ekki að nægilegum skilningi. Ég hef sagt sjálfum mér að ég þurfi að kynna mér allar staðreyndir málsins áður en ég geti tjáð mig; þurfi tíma til að setja saman þaulhugsuð og óhrekjanleg rök sem færa skoðun mína til bókar.

Á meðan ég hef legið undir mínum sjálfhverfa feldi hefur fjölskyldum verið vísað úr landi. Aftur og aftur. Og ég hef gleymt þessum fjölskyldum, haldið áfram að senda frá mér orðgjálfur um ekki neitt eða jafnvel notað stöðu mína til að tjá mig um önnur bitbein samfélagsins. Hjólastíga, almenningssamgöngur, launamál og annað sem skarast á skýrari hátt við mína eigin hagsmuni en afdrif brúnnar, útlenskrar fjölskyldu sem er á barmi þess að tapa tilvist sinni.

Ég eyddi meinlausa, fyndna tístinu mínu og lokaði símanum. Það sem eftir var leiðarinnar fann ég að ég skammaðist mín, bæði fyrir framferði íslenskra stjórnvalda en ekki síst fyrir mína eigin þögn; fyrir hik mitt og kjarkleysi. Það rann upp fyrir mér að í eðli sínu eru þessi mál ekkert flókin, eða að minnsta kosti ekki svo flókin að ég sé ekki fullfær um að standa upp og taka afstöðu. Jafnvel þótt það sé það minnsta sem ég geti gert, þótt orð mín kosti mig ekki neitt, breyti engu og enginn gefi þeim gaum, þá verð ég að gera skyldu mína sem þegn í þessu landi og segja hátt og snjallt: Þetta er ranglæti sem ég vill ekki að sé framkvæmt í mínu nafni.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA? – PISTILL Í STUNDINNI

Vinnudagurinn í gær fór eiginlega í vaskinn. Ég átti að vera að ljúka við einhverja bókadóma en svo álpaðist ég til að kíkja á fréttirnar, og las þar um albönsku fjölskylduna sem vísað var úr landi þótt eiginkonan væri komin níu mánuði á leið, og síðan aðra frétt um útrás í íslenskum bókmenntum. Úr varð pistill sem birtist fyrst á Stundin.is en ég endurbirti hér í góðri trú.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA?

Á bókmenntaviðburðum undanfarið hefur borið æ oftar við að ég heyri einhvern muldra út undan sér að þessi eða hinn íslenski höfundur sé „bara að skrifa fyrir einhverja útlendinga“.

Eins og gengur og gerist með slíkt baktal er erfitt að setja fingur á hvort um sé að ræða gagnrýni eða öfund. Tekjur íslenskra höfunda hafa alltaf verið tvísýnar og starfsöryggi takmarkað. Þau búdrýgindi sem fást fyrir útgáfur á erlendum markaði geta verið töluverð og séð til þess að höfundar geti einbeitt sér að fullu að iðju sinni, án þess að þurfa að fórna samverustundum fjölskyldunnar fyrir skrifin. Það er því heldur ósanngjarnt, finnst mér, að hnýta í fólk fyrir að reyna eftir bestu getu að finna leiðir til að geta haldið áfram að gefa út bækur reglulega án þess að þurfa að fórna heilsu eða lífsgæðum fyrir.

Sjálfur hef ég í gegnum tíðina haft tekjur af því að skrifa um íslenskar bækur í ýmsum fjölmiðlum sem ætlaðir eru fyrir erlenda lesendur. Þar hef ég gert mitt besta til að vinna samkvæmt eigin samvisku og sannfæringu en óneitanlega hefur eðli verksins í sumum tilvikum fallið undir það sem við myndum kalla „landkynningu“, og því ekki endilega verið rétti vettvangurinn fyrir gagnrýn skrif. Engu að síður hefur þessi lævísa spurning smogið að mér endrum og eins: Fyrir hvern er ég að skrifa?

Þegar ég opnaði netgáttina í gær spruttu fram tvær fréttir sem í fljótu bragði virtust alls ótengdar en komu engu að síður illa við mig þegar ég sá þær samsíða á skjánum. Annarsvegar var þar frétt um að íslensk stjórnvöld hafi vísað úr landi ófrískri albanskri konu ásamt fjölskyldu hennar. Konan er komin níu mánuði á leið og aðfarirnar virðast eins ómannúðlegar og hugsast getur. Hin fréttin var öllu gleðilegri: Útgáfa á íslenskum bókum í þýðingu hefur þrefaldast á undanförnum tíu árum. Hátt í fjörutíu bækur eftir íslenska höfunda eru nú nýútkomnar eða rétt óútkomnar í Bandaríkjunum og á Bretlandi, sem gefur þessum tilteknu höfundunum aðgang að þeim mikla fjölda lesenda sem er að finna á þessum málsvæðum.

Fyrir nokkrum árum mátti telja þá nýju íslensku titla sem komu út á ensku á annarri hendi. Gróskan er því umtalsverð og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann aukna fjölda skáldsagna eftir íslenska kvenhöfunda sem rata í enskar þýðingar. Í eina tíð var nær eingöngu hægt að finna í þeim flokki bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur—jafnvel þótt framlag hennar einnar hafi þá jafngilt ríflega 40% af nýlegum íslenskum skáldsögum á enskri tungu. Það má því færa rök fyrir því að íslenskir rithöfundar séu að upplifa ákveðið „tækifæri“.

En tækifæri til hvers?

Fyrir hvaða útlendinga viljum við skrifa? Þá sem koma hingað á skemmtiferðaskipum eða þá sem koma hingað á fölsuðum vegabréfum? Viljum við segja frá kynngimögnuðu landslagi uppfullu af stóísku bláeygðu fólki sem bugtar sig fyrir álfum og rígheldur í þá trú að „þetta reddist“, eða viljum við nota þetta tækifæri til að segja hinar sögurnar? Sögurnar sem við skömmumst okkur fyrir. Sögur um það sem betur má fara. Sögur sem draga fram vankantana á þeirri glansmynd sem okkur er tamt að halda uppi fyrir erlenda gesti. Sögur sem myndu seint teljast til landkynningar.

Auðvitað er hræðilega ósanngjarnt að bera slíka plikt upp á íslenska höfunda. Að hætta sér út á ritvöllinn er nógu flókið fyrir, þótt fólk fari ekki að kryfja öll sín skrif með réttvísina í huga eða blanda pólitík í málið. Það forarsvað er líklegt til að drepa góða bók umsvifalaust. Þetta vissi George Orwell. Hann gekkst við því að hafa sjálfur óviljugur breyst í hálfgerðan „bæklingahöfund“ vegna skrifa sinna um þá heimsatburði sem hann upplifði. Mér kemur þó til hugar tilsvar hans til gagnrýnanda sem sakaði hann um að hafa í skrifum sínum um Spánarstyrjöldina breytt einhverju sem hefði getað orðið góð bók í eintóma blaðamennsku. „Það er rétt sem hann segir, en ég hefði ekki getað gert þetta á annan veg,“ segir Orwell. „Ef ég hefði ekki verið reiður þá hefði ég aldrei lagt í að skrifa bókina.“

Með þetta í huga getum við kannski horft á þessa hvimleiðu spurningu á nýjan leik og séð hvernig áherslur hennar hafa breyst án þess að ég hafi svo mikið sem fært til einn staf eða bætt við kommu:

Fyrir hvern er ég að skrifa?

Græna hjólið (minningargrein)

græna hjólið

Eftirfarandi pistill birtist fyrst í mars hefti Stundarinnar 2016 (6. tbl. 2. árg.)

Ég fékk græna hjólið í gegnum félaga minn. Það var víst búið að ílengjast mánuðum saman í vinnunni hjá honum. Einhver hafði fundið það úti og ætlað að gera það upp en svo varð aldrei neitt úr því. Þegar ég fékk það í hendurnar var það ein ryðhrúga, með stráum föstum í teinunum. Ég dröslaði því heim með mér, heim til mömmu. Þetta var stuttu eftir að ég var aftur fluttur heim til Íslands og annað hvort stuttu fyrir eða stuttu eftir að faðir minn dó. Maður myndi ætla að ég myndi muna hvort en dauðinn á það til að rugla tíma og minningar saman í einn bing sem ekki er svo auðvelt að greiða úr. Ég veit að ég bjó heima hjá mömmu þá, peningalaus og stefnulaus. Ég laumaðist með hjólið inn í geymsluna á sameigninni, sem ég var búinn að eigna mér lykilinn að. Faldi það þar þar til einhvern tímann.

Ég tók það ekki aftur út fyrr en ári seinna. Þá átti ég íbúð og kærustu, konu sem ég átti auðvelt með að sjá sjálfan mig eyða restinni af ævinni með. Við smullum svo vel saman, með sömu áherslur á hvað væri mikilvægt. Hlutir eins og morgunkaffi og lestrarstund. Sundferðir og vínilplötur. Mér fannst hún skemmtileg bæði í og úr glasi, sem var nýtt fyrir mér.

Snemma sumars dröslaði ég græna hjólinu heim í nýju íbúðina. Reiddi það á loftlausum dekkjum alla leiðina frá mömmu þar sem ég vildi ekki setja ryðbletti í sætin í bílnum (bílnum hennar mömmu). Nýja íbúðin mín, sú fyrsta sem ég átti frekar en leigði, var með útidyrahurð. Ég býst við að allar íbúðir séu með útidyrahurð en þessi var alvöru. Hún opnaðist út í garð. Ég hafði ekki átt svoleiðis útidyrahurð síðan ég var lítill og við bjuggum enn í Mosó. Þessa sumardaga sat ég oftar en ekki á tröppunum í sólinni og pússaði og pússaði ryðgað krómið og blettótt stellið. Ég tók hjólið allt í sundur og setti það aftur saman nokkrum sinnum í tilraunum mínum til að koma því í stand. Smurði keðjuna og tókst almennt að gera sjálfan mig grútskítugann í alla staði. Ég hafði mjög takmarkaða reynslu af hjólaviðgerðum og þurfti því oft að endurtaka hlutina, feta mig til baka og byrja upp á nýtt. Á endanum tókst mér að tjasla því öllu saman í ásættanlegt form og meira að segja tengja bæði gírana og bremsurnar svo að bæði virkuðu (þó eilítið eftir eigin hentugleika).

Ég gaf kærustunni minni hjólið og hún var himinlifandi þrátt fyrir að vera óvön hrútastýrinu og hálf hrædd um að fljúga fram fyrir sig þegar hún hemlaði. En þótt ég væri búinn að gefa henni hjólið, og ætti sjálfur mitt eigið hrútastýrishjól, silfraðann franskan Peugeot sem vinur minn hafði skilið eftir í bílskúrnum hjá foreldrum sínum áður en hann flutti til Bandaríkjanna, stóðst ég ekki mátið að stelast reglulega út í hjólatúra á græna hjólinu. Það var reyndar eiginlega of lítið fyrir mig og gaf mér furðulegar harðsperrur í hnésbæturnar og lét mig líta út eins og bjarndýr í sirkús sem neytt hefur verið til þess að læra að hjóla.

Fróunin sem fylgdi því að hjóla um nýja hverfið mitt á hjóli sem ég hafði lagað til og bjargað frá glötun upp á eigin spýtur var ólýsanleg. Það hefði mátt halda að ég hefði sjálfur grafið járnið úr jörðu, brætt það saman í stálið og soðið saman í stellið, krómað stýrið og þrætt teinanna, ræktað gúmmítrén fyrir hjólbarðana, skotið kúna og sútað leðrið í hnakkinn.

Í raun á ég voða lítinn þátt í tilkomu og tilvist græna hjólsins. Það stoppar ekki svo lengi hjá mér, býst ég við, og ekki veit ég hvar það endar þegar ég er búinn með það. Sögur okkar beggja lágu þó saman á alveg einstaklega merkilegum tíma í mínu lífi. Ég er búinn að geyma svolítið af mér í græna hjólinu. Smá skerf sem er svolítið þungt að rogast með alla daga, svo ég geymi hann þar. Í hjólinu. Tek það fram þegar mér þóknast og fer í hjólatúr meðfram Sæbrautinni. Það er voða gott að geta geymt eitthvað af sér í hlutunum sínum þótt að maður vilji kannski ekki dreifa sjálfum sér of víða, og maður verði að vita hvenær tímabært er að sleppa haldi á hlutunum og leifa þeim að halda áfram með sína sögu.

Fólk segir að þau sem fara frá okkur lifi í minningunum og það er alveg satt, en við getum ekki rogast með minningarnar með okkur alla daga. Getum ekki alltaf tekið þær með í vinnuna og í sund og á kaffihús eða á barinn. Svo við geymum þær í því sem hendi er næst: í hlutunum þeirra. Hlutunum okkar. Í lítilli steinvölu eða gömlum hatti. Í gamalli hrærivél eða slitnu eintaki af Laxness með nafni og ártali hripuðu á titilsíðuna. Í ljósmyndum og lopapeysum. Sófaborðum og hægindastólum. Þannig pössum við upp á minningarnar. Við bindum þær fastar við eitthvað utan við okkur og ríghöldum síðan í það. Við hugsum um fólkið sem er okkur kærast og sem við fáum aldrei að hitta aftur þegar við búum til kaffi með kaffikönnunni þeirra, sitjum við skrifborðið þeirra, spilum plöturnar þeirra og vefjum teppunum þeirra utan um okkur. Við pössum að hlutirnir þeirra skemmist ekki og týnist ekki, og að þegar við þurfum að láta þá frá okkur lendi þeir hjá einhverjum sem veit hver átti þá fyrst. Fólk lifir áfram í minningunum okkar en það lifir líka áfram í hlutunum sem það skilur eftir í okkar fórum. Þegar við förum þá verða hlutirnir okkar eftir hjá þeim sem okkur þykir vænst um.

Húsbruni á tuttugustu og fyrstu öldinni

Þessi pistill var upphaflega birtur á Stundin.is þann 10. mars 2016

bruniÁ horninu á Hverfisgötu verður mér starsýnt upp Snorrabrautina. Það liggur þykk þoka yfir götunni og götuljósin hanga í lausu lofti eins og fljúgandi furðuhlutir. Þokan mött eins og Instagram filter. Í andartak handfjatla ég símann og hugsa mér að taka mynd en ég á bara 1% eftir af batteríinu og er að hlusta á hlaðvarpsþátt sem ég er að vonast til að dugi mér alla leiðina heim. Ég hristi af mér störuna og lít niður til sjós. Þar er engin þoka. Það er brunalykt í loftinu. Ég legg af stað upp Snorrabrautina þó að það sé ekki í leiðinni heim. Fyrr en varir eru blá ljós að blikka og sírenur að væla. Skuggamyndir af fólki í gluggunum að skima eftir upptökum þokunnar sem er nú augljóslega þéttur reykur sem svíður í augu.

Við gömlu Bíóborgina stoppa ég, tek upp símann og slekk á airplane mode sem ég hafði kveikt á til að láta hlaðvarpið merja það alla leið heim. Hlaðvarpið malar enn í eyrum mínum með sírenurnar í bakgrunni og ég slekk á því líka. Gatan flöktir öll í bláu ljósunum á löggu- og sjúkrabílunum. Það standa logar upp úr þakinu á vöruskemmunni í portinu á milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs. Ég passa mig að vera ekki fyrir neinum, kveiki á SnapChat og tek upp nokkurra sekúndu myndskeið af gulu eldtungunum og flöktandi bláu ljósunum sem endurkastast af blautri götunni. „Eldur á Grettisgötu“ skrifa ég og sendi í My Story og á nokkra aðra vini sem ég skiptist reglulega á myndskeiðum við. Það er ekki svo mikið að sjá og mér líður hálf vandræðalega þarna á horninu, sérstaklega þegar tveir menn stíga út úr hvítum skutbíl sem er augljóslega einhverskonar óeinkennisklæddur eitthvað, opna skottið og byrja að tosa á sig gula og bláa galla með endurskynsmerkjum með þjálfuðum handatökum þeirra sem eiga sér alvöru erindi við eldsvoða.

Ég sting símanum aftur inn á mig og labba til baka niður Snorrabrautina og fyrir hornið inn á Laugaveg. Hér er enginn reykur og fólk að reykja sígarettur úti á gangstétt og borða samlokur í glugganum á 10-11. Í Víetnömsku búðinni á móti Hlemmi eru tvær konur að tala saman og þrífa eftir lokun og ég stilli mig um að banka á glerið og segja þeim hvað sé í gangi hinum megin við húsið þótt þær séu augljóslega ekki í neinni hættu. Á Rauðarárstíg bíð ég á rauðu ljósi á meðan umferðin silast framhjá, fólkið í bílunum að líta aftur fyrir sig og í fullum samræðum um eldsvoðann. Ég feta mig til baka að eldsvoðanum og stoppa hinum megin við götuna frá kösinni af bláum ljósum og fólki í gulum göllum. Það eru komnir tveir slökkviliðsbílar, að ég sjái. Sjúkrabíll kemur á fullu upp kantinn og ég hörfa að blómapottunum fyrir utan Utanríkisráðuneytið þó að bílinn stoppi langt í burtu frá mér. Tveir menn í viðbót í gulum göllum stökkva út úr bílnum og bæta sér í þvöguna. Slökkviliðsmaður skrúfar frá brunahana með stórum skiptilykli, athöfn sem ég hef aldrei séð áður og lítur svolítið út eins og verið sé að trekkja upp götuna. Gildar brunaslöngur liggja þvers og kruss.

Ég tek upp símann og smelli af nokkrum myndum. Reykur kúgast í bylgjum út undan þakskegginu á gamla vöruhúsinu en það eina sem sést á myndunum eru blá ljós og gulur bjarmi á bak við reykinn. Það er fleira fólk í kringum mig. Aðallega túristar í hlífðarfatnaði sem eru þó flest hinu megin götunnar. Kannski af því að blá ljós þýða ekki meira fyrir þeim en afgirtu slóðarnir í kringum Gullfoss en þó líklegast af því að þau eru öll að gista á Fosshótel Lind hinu megin við götuna. Mín megin er bara einn Íslendingur að reykja og mig langar mest að nýta þessa sameiginlegu upplifun okkar til að sníkja af honum sígarettu. Að fá sér sígarettu virkar eins og akkúrat það sem maður á að vera að gera á meðan maður horfir á húsbruna.

Eftir að hafa horft í dágóða stund sný ég mér við og held heim á leið. Síminn er ennþá í höndinni á mér og ég reyni að vera fyrstur með fréttirnar og senda kærustunni minni Facebook skilaboð. „Það er rosa bruni á…“ skrifa ég en þá klárast batteríið og skjárinn verður svartur. Ég labba heim hlaðvarpslaus. Heima kíki ég á fréttasíðurnar, á DV og Vísi, og kemst að því að í vöruhúsinu er rekið réttingaverkstæði en þar er líka að finna listamannastúdíó og lítinn líkamsræktarsal. Eldurinn er víst töluvert meiri en slökkviliðið fæst við dags daglega og fjórir dælubílar eru komnir á vettvang. Slökkvuliðstjórinn ráðleggur íbúum í kring að loka gluggum og hækka í ofnum til að halda reyknum úti, sem er ný eðlisfræði fyrir mér og ég legg það á minnið sem þjóðráð til að halda reyk úti ef ég þarf einhverntíman á því að halda. Það er ný nektamynd af Kim Kardashian á DV og ég klikka á fréttina, ef frétt mætti kalla, hálf ómeðvitað. Hún setti myndina sjálf á Instagram og fólk er víst sjokkerað yfir því að ekkert sjáist á henni einungis þrettán vikum eftir að hún eignaðist soninn Saint með eiginmanni sínum, Kanye West. Sumir eru voða glaðir fyrir hennar hönd, aðrir ósáttir. Líklega yfir því að hún sé að monta sig svona. Ég loka glugganum og sé umsvifalaust eftir klikkinu, að hafa gefið þessu hégómaslúðri atkvæði mitt. Það verður víst ekki aftur tekið. Eldsvoðinn er farinn að berast í tal í tístunum á Twitter, með emojis af eldglærum, myndum af vettvangi og stöku bröndurum. Ég hendi einni af myndunum sem ég tók inn í hringrásina. Segi ekkert hnyttið svosem. Bara „Úff!“. Læt það nægja en fæ engin læk, enda bara með 51 fylgjendur.

Daginn eftir les ég ávítanir Lögreglunnar til vegfarenda sem komu á vettvang og virtu lokanir að vettugi og trufluðu störf björgunaraðila. „Slíkt er með öllu ólíðandi og raunar skammarlegt“ segir, réttilega, á heimasíðu Lögreglunnar. Ég vona innilega að ekki sé verið að tala um mig. Ég hélt mig nú allan tíman hinu megin götunnar og passaði eftir fremsta megni að vera ekki fyrir neinum, þótt ég hafi reyndar kannski smellt af nokkrum myndum, tístað smá og hent einhverju á SnapChat og Facebook. Það er ekki laust við að ég skammist mín svolítið en á erfitt með að koma auga á hvar nákvæmlega ég missteig mig. Ég legg frá mér símann og velti fyrir mér: „Hver nákvæmlega ætli séu réttu viðbrögðin við húsbruna á tuttugustu og fyrstu öldinni?“