HEIMILI – PISTILL FYRIR UPPÁSTAND

Uppástand á Rás 1 bað mig um að skrifa smá pistil undir þemanu „Heimili“. Hægt að smella á myndina til að hlusta en ég læt líka textann fylgja hér að neðan.

HEIMILI

Ég keypti mína fyrstu íbúð árið 2014. Mér er sagt að ég hafi verið heppinn, að það hafi verið „góður tími til að kaupa“. Ekki að ég hafi verið sérstaklega meðvitaður um það þegar kaupin gengu í gegn. Eftir því sem ég best man botnaði ég hvorki upp né niður í skjölunum sem lögð voru fyrir framan mig og kvittaði undir þau með sömu glórulausu bjartsýninni og þegar ég skuldsetti mig um aldur og ævi með námslánum nokkrum árum áður.

Þannig álpaðist ég inn á íslenskan húsnæðismarkað án þess að gera mér á nokkurn hátt grein fyrir því hve lánsamur ég hafði verið. Ef einhver spurði mig út í íbúðarkaupin flýtti ég mér að útskýra að eina ástæða þess að ég gat keypt íbúðina (eða þann hluta í henni sem lánastofnunin átti ekki) væri að ég hefði fengið arf þegar pabbi minn dó úr krabbameini – eins og til að sýna fram á að ég væri í raun alls ekkert heppinn, kannski bara þvert á móti. Á þennan máta reyndi ég slá á stéttarsamviskubitið sem átti það til að narta í mig þegar ég og hinir húseigendurnir vorum að ræða dren eða baðherbergisflísar í partíum og ég tók eftir því að einhver í hópnum dró sig í hlé, setti upp þegjandalegt bros og beið eftir að skipt væri um umræðuefni. Einhver sem hafði greinilega ekki verið eins heppinn og við hin.

Heimurinn leit öðruvísi út eftir að ég var orðinn eignamaður. Ég talaði um aðra hluti, upplifði nýjar og framandi áhyggjur. Ég hugsaði til dæmis meira um vatn en nokkurn tímann áður. Ég sá það hvert sem ég leit. Í rakanum sem safnaðist á milli glerja í eldhúsglugganum, í fúanum í þakskegginu og í undna parketinu undir ofninum í stofunni. Var þetta svona í gær? spurði ég sjálfan mig í sífellu. Er þetta kannski eitthvað nýtt?

Ég kynntist líka í fyrsta sinn eirðarleysinu sem fylgir því að tilheyra húsfélagi; hinni eilífu bið eftir að einhver annar taki af skarið og boði til húsfundarins sem ætlunin var að halda síðasta vor. Ég var skyndilega orðinn meðeigandi með hópi fólks sem ég taldi mig ekki eiga nokkurn skapaðan hlut sameiginlegt með – að undanskildu ytra byrði hússins, garðinum og þessum örfáu fermetrum í þvottahúsinu. Öll áttum við það þó sameiginlegt að á einhverjum tímapunkti höfðum við verið heppin.

Ég er reyndar viss um að flestir af fyrrum meðeigendum mínum væru ósammála þessari skilgreiningu minni, og myndu gera mér grein fyrir öllu því sem þau lögðu á sig til að komast inn á markaðinn á sínum tíma, en af minni vissulega takmörkuðu reynslu af íslenskum fasteignamarkaði að dæma sýnist mér þó að dagurinn í gær hafi ætíð verið heppilegri tími til að kaupa en dagurinn á morgun. Öll hljótum við því að teljast að einhverju marki heppin, við sem keyptum í gær.

En hér er ég kominn langt út fyrir efni þessa pistils, sem átti að fjalla um heimili fólks, sem í mörgum eða jafnvel flestum tilvikum er ekki það sama og fasteignir þess. Sjálfur hef ég átt þó nokkur heimili bæði hérlendis og erlendis og er það einungis á síðustu tíu árum sem ég hef verið að bora í veggi án þess að spyrja kóng eða prest og láta áhyggjur um raka halda fyrir mér vöku.

Ég hef nefnilega líka verið svo heppinn að hafa alltaf átt mér heimili. Afdrep í heiminum þar sem ég get hengt upp myndir og lokað að mér, boðið fólki inn og jafnvel, í einhverjum tilvikum, skipað því að hypja sig á brott. Ég hef aldrei upplifað það að vera neyddur til að flýja heimili mitt, og ég hef heldur aldrei verið sviptur heimili mínu vegna duttlunga stjórnvalda. Kannski má segja að ég hafi verið „heppinn“ að þurfa ekki að þola slíkar raunir, en einhvern veginn kann ég ekki við það. Það gefur í skyn að fólkið í samfélagi okkar, sem nú stefnir hraðbyri á götuna sökum þess að íslenska kerfið hefur neitað því um heimili, hafi verið óheppið.

Því að þegar um er að ræða ákvarðanir og lagasetningar sem eiga sér stað á lýðræðislega kjörnu þingi og leiða af sér að fólk sem skortir rödd í samfélaginu – flóttafólk og öryrkjar, til að mynda – endar á götunni, þá þykir mér það á einhvern hátt ósmekklegt að tala um heppni og óheppni. Í besta falli er það einfeldni, eða ónærgætni. Í versta falli sviptir það okkur hin – þau heppnu – allri ábyrgð á því óréttlæti sem þetta fólk þarf að þola á líkama og sál við að vera neitað um afdrep í samfélagi okkar.

ÓKEYPIS OG OPIN ÖLLUM – BÓKMENNTAHÁTÍÐ 2023

Pics or didn’t happen..

Víðsjá bað mig um að hafa augun opin á nýafstaðinni Bókmenntahátíð og skrifa eitthvað um hana, sem leiddi til þess að ég fór að hugsa um mína fyrstu heimsókn á hátíðina. Pistillinn er nú kominn á Menningarvef RÚV en ég læt hann líka fylgja hér að neðan:

Í fyrsta sinn sem ég fór á Bókmenntahátíðina í Reykjavík mætti ég á hjólabretti. Árið var 2003 og ég bombaði niður Skólavörðustíg með eintakið mitt af Wind-Up Bird Chronicle í annarri hendi, á leiðinni að sjá Murakami. Ég var á síðasta ári í menntaskóla og nýbyrjaður að heimsækja bókabúðirnar í miðbænum, þar sem ég eyddi sumarvinnupeningunum mínum í bækur sem ég valdi úr erlendu deildinni – oft einmitt út frá kápunni. Þannig rambaði ég á Murakami. Ég hafði tekið upp eintak af Hard-Boiled Wonderland and the End of the World, byrjað að lesa hana í búðinni og hugsað: Vá, hérna er alveg nýtt sjónarhorn á veröldina! Eitthvað sem ég hugsaði æði oft þegar ég opnaði bók á þessum árum og geri enn af og til í dag.

Það var alveg stappað þegar ég mætti í Iðnó. Ég hélt hjólabrettinu fyrir framan mig eins og skildi og þræddi mér leið í gegnum þvöguna, tókst að finna mér pláss í gættinni á salnum þaðan sem ég fylgdist með Murakami lesa hæglátlega upp úr Spútnik-ástinni á japönsku. Eftir upplesturinn var sett upp borð fyrir áritanir og ég kom mér fyrir í röðinni og vonaði að honum myndi þykja mikið til þess koma hve þvæld og lesin kilju-útgáfan sem ég hafði tekið með mér var – allt annað en stífu, nýju kiljurnar sem verið var að selja í anddyrinu.

Á meðan ég beið, klæddur í skopparabuxur og hettupeysu, með hjólabrettið klemmt á milli lappanna, og fylgdist með fólki ganga að borðinu og segja eitthvað gáfulegt við Murakami og taka í höndina á honum, var ekki laust við að mér liði eins og ég ætti ekki heima þarna. Ég hafði gengið úr skugga um það áður en ég mætti að það væri frítt inn og atburðurinn opinn öllum, en engu að síður var ég sífellt að bíða eftir að einhver myndi stoppa mig og fylgja mér út. Eins og venjulega reyndi ég að fela óöryggið undir kæruleysislegum töffarasvip unglingsins en var þó við það að láta mig hverfa þegar röðin kom loks að mér. Ég minnist þess ekki að hafa sagt neitt við Murakami. Hann kinkaði kolli við mér, brosti kannski eilítið við að sjá hjólabrettið og hripaði nafn sitt á titilsíðu bókarinnar. Svo steig ég til hliðar svo að næsti kæmist að. Ætlunarverkinu var náð og ég dreif mig út, feginn að sleppa aftur undir bert loft.

Ég á erfitt með að meðtaka að síðan þá séu liðin 20 ár. Á þeim tíma hef ég nokkrum sinnum tekið þátt í Bókmenntahátíðinni á einn eða annan hátt. Fyrst um sinn aðallega sem bóksali, fastur frammi í anddyri á meðan upplestrarnir og samtölin fóru fram, á milli þess sem ég barðist við að endurræsa posann og reikna út í huganum rithöfundaafsláttinn sem kúnnarnir voru ekki á því að láta slæda þótt ég væri ekki á kassanum í Eymundsson. Seinna meir tók ég að fara sjálfur upp á svið og stýra umræðum höfunda hátíðarinnar, og á endanum kom að því að ég varð einn af fullorðna fólkinu sem stendur þarna í þvögunni í anddyrinu og malar við hitt bransaliðið – þrátt fyrir að enn votti stundum fyrir snefil af þessari gamalkunnu tilfinningu að maður sé kannski bara að þvælast fyrir.

Hátíðinni í ár lauk eins og venjulega með trylltum dansi á Bókaballinu í Iðnó. Dagskráin var með sama sniði og áður. Höfundar skiptust á að stíga á svið og lesa úr verkum sínum og ræða um þá list að drattast í gegnum langa ferlið sem liggur á milli þess að fá óljósa hugmynd og að gefa út bók. Sumar pallborðsumræðurnar voru hlaðnar samfélagslegum þunga. Colson Whitehead og Natasha S. ræddu um pólitísku kringumstæðurnar í heimalöndum sínum sem verk þeirra eru sprottin úr. Aðrir lýstu yfir hollustu sinni gagnvart listinni sjálfri, líkt og Gyrðir Elíasson sem sagði um þá kröfu að list þurfi að hafa samfélagslegt gildi: „…það er líkt með það og plottið – ég er ekki sannfærður.“ Sumar samræðurnar vöktu mann til vitundar um bilið á milli þessara tveggja póla, líkt og þegar portúgalski höfundurinn Gonçalo Tavares talaði um skáldskapinn sem helsta vopn okkar gegn „ómeðvituðu einræði“ samfélagsmiðladrifinna fjölmiðla, sem segja til um hvað okkur ber að hugsa um hverju sinni, líkt og trúarbrögð gerðu áður fyrr. Aðrir viðburðir voru svo galsafullir að salurinn engdist um af hlátri, líkt og þegar Vigdis Hjorth lék með tilþrifum fyrstu kynlífsreynslu sína, sem hún lýsti sem vonbrigðum af verstu sort en upplifun sem hefði engu að síður kennt henni margt um mátt skáldskapsins, eða þegar Pedro Gunnlaugur Garcia reyndi að fá allan salinn til að syngja Abba-lag í miðjum panel til að draga athygli áhorfenda frá því að stjórnandi umræðunnar (undirritaður) væri gjörsamlega búinn að missa tökin á atburðarásinni á sviðinu.

Þó var líka eitthvað nýtt í loftinu í ár. Það er alltaf sægur af erlendum höfundum á hátíðinni en að þessu sinni var stór hluti þeirra með skráð aðsetur eða ríkisfang á Íslandi. Stuttu fyrir setningu hátíðarinnar mátti finna á efri hæðinni í Iðnó útgáfuhóf fyrir ritgerðasafnið Skáldreki (Writers adrift) sem gefið er út bæði á ensku og íslensku og inniheldur skrif eftir hóp aðfluttra höfunda á Íslandi. Þar mátti hlýða á höfunda á borð við Jakub Stachowiak og Ewu Marcinek lesa um upplifanir sínar af því að skapa sér rödd og rými á Íslandi. Einnig tók ég eftir að það var meira en oft áður af fólki með hreyfihamlanir á meðal áheyrendaskarans í Iðnó – sem þrátt fyrir allan sinn sjarma verður seint talið sérlega aðgengilegt hús fyrir fólk sem notar hjólastóla eða önnur stuðningstæki. Fremst í salnum var búið að reisa stæðilegan ramp svo að Jan Grue – einn af gestahöfundunum – gæti ekið hjólastól sínum upp á sviðið. Grue reyndist vera einn af eftirminnilegustu höfundum hátíðarinnar í ár. Sérstaklega sitja í mér orð hans við Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur um kröfuna sem samfélagið setur á fólk sem býr við fötlun um að segja „innspírandi“ sögu, áður en það fær leyfi til að segja söguna um allar þær sligandi áskoranir, þjark og fyrirhyggjusemi sem þau þurfa að takast á við á degi hverjum – ósýnilegu vinnuna sem fólk með fötlun vinnur alla daga. Vá, hérna er alveg nýtt sjónarhorn á veröldina, hugsaði ég þá, eins og forðum.

Í viðtali hér á Rás 1 við setningu hátíðarinnar síðasta miðvikudag velti einn af höfundunum á hátíðinni upp þörfum spurningum um elítisma og klíkur. Hvort Bókmenntahátíðin væri yfir höfuð ætluð fyrir „Jón og Gunnu úti í bæ“, heldur væri kannski bara fyrir okkur höfundana og bransafólkið til að hella í okkur og slúðra og komast í tæri við erlenda kollega og útgefendur. Hátíðin sjálf hefur í raun ekki breyst mikið síðan ég heimsótti hana fyrst. Aðgangur er ókeypis og hver sem er á að geta labbað inn og hlýtt á upplestur og samræður höfundanna – líkt og ég gerði sjálfur fyrir tuttugu árum. Það að hún sé „opin öllum“ þýðir þó að sjálfsögðu ekki að öllum finnist þeir eiga rétt á að ganga inn í salinn, eða standa í þvögunni í anddyrinu og taka pláss frá öðrum. Þó er ekki laust við að mér finnist eilítið fjölbreyttari hópur hafa nýtt sér þann rétt í ár heldur en þá, þegar ég stóð þarna í gættinni sem óharðnaður unglingur og fannst ég vera að þvælast fyrir öllu alvöru fólkinu. Og það hlýtur að teljast góðs viti fyrir afkomu og áframhaldandi þróun íslenskra bókmennta.

PISTILL Í VÍÐSJÁ: (MÖGULEGAR) ÁSTÆÐUR ÞESS AÐ ÉG SKRIFA

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer sex er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um pólitísk skrif og ópólitísk skrif og um George Orwell.

„Þannig hef ég reynt að bera fyrir mig að skrifin séu andsvar mitt við þeim áleitnu spurningum sem hvíla á okkur í dag, og að markmið mitt sem höfundur sé að sýna hvernig mannskepnan lifir og hrærist undir því álagi. Ég hef oft haft eftir orð George Orwell, sem sagði: „engin bók er í raun og veru laus við pólitíska slagsíðu.“ Gott og vel, hugsa ég, ég þarf þá ekki að hafa frekari áhyggjur af því.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: HÉR ER BANNAÐ AÐ TAKA MYNDIR

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer fimm er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um myndatökur og dyravörslu og sundlaugar.

„Myndatökur hafa að einhverju leyti tapað hátíðleika sínum, núna þegar við erum umkringd myndavélum á alla kanta, og þær er að finna innbyggðar í ólíklegustu heimilistæki, en að sama skapi er líkt og myndavélarlinsan hafi breyst í enn eitt skynfæri sem við notum til að meðtaka heiminn og staðsetja okkur innan hans – skynfæri sem breytist í tjáningarfæri þegar við notum það til að miðla í gegnum samfélagsmiðla upplifun okkar á heiminum og okkur sjálfum.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: HVENÆR ER EITTHVAÐ „KAFKAÍSKT“ OG HVENÆR EKKI?

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer fjögur er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um Kafka og frásagnir.

„En þannig er það líka með sögur Franz Kafka. Þær veita svo takmarkaða sýn af heimunum sem þær gerast í og persónunum sem þær hverfast um að lesandanum er frjálst að sjá í þeim nánast hvað sem hugurinn girnist og móta þær þannig að eigin túlkunum.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: TÍMINN OG NATNIN

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer þrjú er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um tímann.

„Mér skildist á foreldrum mínum að úr væri bara eitthvað sem þú þurftir að ganga með, ekki ósvipað húslyklinum sem hékk í ól um hálsinn á mér. Líkt og húslykillinn var úrið tákn um bæði fríðindi og ábyrgð; lykillinn gerði mér kleift að vera einn heima eftir skóla, og úrið veitti mér rétt til að fara út að leika eftir kvöldmat – með því skilyrði að ég fylgdist með klukkunni og kæmi heim á skikkanlegum tíma.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: KARLAR SEM LESA EKKI KONUR

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer tvö er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um ómeðvitaða fordóma og lestur.

„Að uppgötva að ég læsi ekki konur var í alla staði óskiljanlegt. Það var eins og að uppgötva að ég læsi ekki bækur sem væru með oddatölufjölda af blaðsíðum; fáránlegt skilyrði sem ég hafði enga hugmynd um og gat ekki gefið neina rökrétta ástæðu fyrir“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: TILFINNINGAR Á TORGUM SAMFÉLAGSMIÐLA

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Fyrsti pistillinn í seríunni er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um tilfinningarými og Angelu Merkel.

„Hvað gerist þá þegar rýmið til að halda hamingju og harmi í hjarta okkar, þetta tilfinningarými sem við hleypum eingöngu okkar nánustu inn í, tekur að skreppa saman, samhliða því að líf okkar fer að sístækkandi hluta fram á opinberum vettvangi?“

HVAÐ GET ÉG SAGT?

Þessi pistill birtist fyrst á vef Stundarinnar þann 15. september síðastliðinn, þegar þær fréttir bárust að vísa skyldi Khedr-fjölskyldunni úr landi daginn eftir.

Hvað get ég sagt?

Í morgun, á leiðinni á skrifstofuna mína í Borgartúninu, datt mér svolítið fyndið í hug. Það skiptir ekki máli hvað það var. Bara einhver spaugileg athugasemd um daginn og veginn; eitthvað sem gladdi mig í hversdeginum.

Eins og ég á til þá tók ég upp símann og hripaði niður tíst til að deila hugskotinu með því snefilmagni þjóðarsálarinnar sem fyrirfinnst á Twitter. Þar er ég með prófíl með huggulegri mynd af sjálfum mér og set oft inn eitt og annað sem mér þykir hnyttið, deili tónlistinni sem ég er að hlusta á hverju sinni og svo framvegis.

Ég hef ekki farið leynt með ástæður þess að ég byrjaði á forritinu. Ég, eins og margir í skapandi geiranum, hef gengist við þeirri hugmyndafræði að það sé mikilvægt að vera „sýnilegur“ á netinu, í von um aukna möguleika á að lifa á list minni (þótt ég velti oft fyrir mér hvort öllum tímanum sem fer í að viðhalda þessum sýnileika væri ekki betur varið í listsköpunina sjálfa). Vera mín á þessum samfélagsmiðli hefur frá byrjun verið stýrt af mínum eigin hagsmunum. Ég geri mér grillur um að með því að vera „virkur“ þarna og annars staðar á netinu séu auknar líkur á að fólk veiti því eftirtekt sem ég er að gera, lesi greinarnar mínar og kaupi jafnvel bækurnar mínar eða mæti að minnsta kosti á bókmenntaviðburði þar sem ég les úr þeim.

Þar sem ég stóð í Borgartúninu, við það að senda enn eina sniðuga og umfram allt meinlausa athugasemd út í ljósvakann, mundi ég að í dag ætla íslensk stjórnvöld að senda úr landi sex manna fjölskyldu sem hefur sest hér að og upplifað hér öryggi og von um bjartari framtíð. Ég hef fylgst með þessari fjölskyldu undanfarna daga. Þau hafa neyðst til að fara í fréttirnar til að biðla til þjóðarinnar og íslenska ríkisins um miskunn. Bænum þeirra hafa stjórnvöld svarað með sorgarsvip búrókratans sem telur sig eiga engra kosta völ, hristir höfuðið og kennir kerfinu um.

Ég get ekki sagt að mín viðbrögð hafi verið mikið betri. Ég hef setið í þögn og fylgst með fréttaflutningi af þessari sorgarsögu, eins og ég hef gert við aðrar slíkar sögur undafarin ár. Eins og áður er naumur tími til stefnu. Svona málum fylgir tifandi klukka sem telur niður dagana, klukkustundirnar, mínúturnar þar til fólkinu er vísað úr landi. Þess vegna er mikilvægt að taka umsvifalaust skýra afstöðu þegar svona mál ber á góma. Sjálfur hef ég hikað, farið undan í flæmingi og talið mér trú um að ég búi ekki að nægilegum skilningi. Ég hef sagt sjálfum mér að ég þurfi að kynna mér allar staðreyndir málsins áður en ég geti tjáð mig; þurfi tíma til að setja saman þaulhugsuð og óhrekjanleg rök sem færa skoðun mína til bókar.

Á meðan ég hef legið undir mínum sjálfhverfa feldi hefur fjölskyldum verið vísað úr landi. Aftur og aftur. Og ég hef gleymt þessum fjölskyldum, haldið áfram að senda frá mér orðgjálfur um ekki neitt eða jafnvel notað stöðu mína til að tjá mig um önnur bitbein samfélagsins. Hjólastíga, almenningssamgöngur, launamál og annað sem skarast á skýrari hátt við mína eigin hagsmuni en afdrif brúnnar, útlenskrar fjölskyldu sem er á barmi þess að tapa tilvist sinni.

Ég eyddi meinlausa, fyndna tístinu mínu og lokaði símanum. Það sem eftir var leiðarinnar fann ég að ég skammaðist mín, bæði fyrir framferði íslenskra stjórnvalda en ekki síst fyrir mína eigin þögn; fyrir hik mitt og kjarkleysi. Það rann upp fyrir mér að í eðli sínu eru þessi mál ekkert flókin, eða að minnsta kosti ekki svo flókin að ég sé ekki fullfær um að standa upp og taka afstöðu. Jafnvel þótt það sé það minnsta sem ég geti gert, þótt orð mín kosti mig ekki neitt, breyti engu og enginn gefi þeim gaum, þá verð ég að gera skyldu mína sem þegn í þessu landi og segja hátt og snjallt: Þetta er ranglæti sem ég vill ekki að sé framkvæmt í mínu nafni.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA? – PISTILL Í STUNDINNI

Vinnudagurinn í gær fór eiginlega í vaskinn. Ég átti að vera að ljúka við einhverja bókadóma en svo álpaðist ég til að kíkja á fréttirnar, og las þar um albönsku fjölskylduna sem vísað var úr landi þótt eiginkonan væri komin níu mánuði á leið, og síðan aðra frétt um útrás í íslenskum bókmenntum. Úr varð pistill sem birtist fyrst á Stundin.is en ég endurbirti hér í góðri trú.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA?

Á bókmenntaviðburðum undanfarið hefur borið æ oftar við að ég heyri einhvern muldra út undan sér að þessi eða hinn íslenski höfundur sé „bara að skrifa fyrir einhverja útlendinga“.

Eins og gengur og gerist með slíkt baktal er erfitt að setja fingur á hvort um sé að ræða gagnrýni eða öfund. Tekjur íslenskra höfunda hafa alltaf verið tvísýnar og starfsöryggi takmarkað. Þau búdrýgindi sem fást fyrir útgáfur á erlendum markaði geta verið töluverð og séð til þess að höfundar geti einbeitt sér að fullu að iðju sinni, án þess að þurfa að fórna samverustundum fjölskyldunnar fyrir skrifin. Það er því heldur ósanngjarnt, finnst mér, að hnýta í fólk fyrir að reyna eftir bestu getu að finna leiðir til að geta haldið áfram að gefa út bækur reglulega án þess að þurfa að fórna heilsu eða lífsgæðum fyrir.

Sjálfur hef ég í gegnum tíðina haft tekjur af því að skrifa um íslenskar bækur í ýmsum fjölmiðlum sem ætlaðir eru fyrir erlenda lesendur. Þar hef ég gert mitt besta til að vinna samkvæmt eigin samvisku og sannfæringu en óneitanlega hefur eðli verksins í sumum tilvikum fallið undir það sem við myndum kalla „landkynningu“, og því ekki endilega verið rétti vettvangurinn fyrir gagnrýn skrif. Engu að síður hefur þessi lævísa spurning smogið að mér endrum og eins: Fyrir hvern er ég að skrifa?

Þegar ég opnaði netgáttina í gær spruttu fram tvær fréttir sem í fljótu bragði virtust alls ótengdar en komu engu að síður illa við mig þegar ég sá þær samsíða á skjánum. Annarsvegar var þar frétt um að íslensk stjórnvöld hafi vísað úr landi ófrískri albanskri konu ásamt fjölskyldu hennar. Konan er komin níu mánuði á leið og aðfarirnar virðast eins ómannúðlegar og hugsast getur. Hin fréttin var öllu gleðilegri: Útgáfa á íslenskum bókum í þýðingu hefur þrefaldast á undanförnum tíu árum. Hátt í fjörutíu bækur eftir íslenska höfunda eru nú nýútkomnar eða rétt óútkomnar í Bandaríkjunum og á Bretlandi, sem gefur þessum tilteknu höfundunum aðgang að þeim mikla fjölda lesenda sem er að finna á þessum málsvæðum.

Fyrir nokkrum árum mátti telja þá nýju íslensku titla sem komu út á ensku á annarri hendi. Gróskan er því umtalsverð og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann aukna fjölda skáldsagna eftir íslenska kvenhöfunda sem rata í enskar þýðingar. Í eina tíð var nær eingöngu hægt að finna í þeim flokki bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur—jafnvel þótt framlag hennar einnar hafi þá jafngilt ríflega 40% af nýlegum íslenskum skáldsögum á enskri tungu. Það má því færa rök fyrir því að íslenskir rithöfundar séu að upplifa ákveðið „tækifæri“.

En tækifæri til hvers?

Fyrir hvaða útlendinga viljum við skrifa? Þá sem koma hingað á skemmtiferðaskipum eða þá sem koma hingað á fölsuðum vegabréfum? Viljum við segja frá kynngimögnuðu landslagi uppfullu af stóísku bláeygðu fólki sem bugtar sig fyrir álfum og rígheldur í þá trú að „þetta reddist“, eða viljum við nota þetta tækifæri til að segja hinar sögurnar? Sögurnar sem við skömmumst okkur fyrir. Sögur um það sem betur má fara. Sögur sem draga fram vankantana á þeirri glansmynd sem okkur er tamt að halda uppi fyrir erlenda gesti. Sögur sem myndu seint teljast til landkynningar.

Auðvitað er hræðilega ósanngjarnt að bera slíka plikt upp á íslenska höfunda. Að hætta sér út á ritvöllinn er nógu flókið fyrir, þótt fólk fari ekki að kryfja öll sín skrif með réttvísina í huga eða blanda pólitík í málið. Það forarsvað er líklegt til að drepa góða bók umsvifalaust. Þetta vissi George Orwell. Hann gekkst við því að hafa sjálfur óviljugur breyst í hálfgerðan „bæklingahöfund“ vegna skrifa sinna um þá heimsatburði sem hann upplifði. Mér kemur þó til hugar tilsvar hans til gagnrýnanda sem sakaði hann um að hafa í skrifum sínum um Spánarstyrjöldina breytt einhverju sem hefði getað orðið góð bók í eintóma blaðamennsku. „Það er rétt sem hann segir, en ég hefði ekki getað gert þetta á annan veg,“ segir Orwell. „Ef ég hefði ekki verið reiður þá hefði ég aldrei lagt í að skrifa bókina.“

Með þetta í huga getum við kannski horft á þessa hvimleiðu spurningu á nýjan leik og séð hvernig áherslur hennar hafa breyst án þess að ég hafi svo mikið sem fært til einn staf eða bætt við kommu:

Fyrir hvern er ég að skrifa?