Húsbruni á tuttugustu og fyrstu öldinni

Þessi pistill var upphaflega birtur á Stundin.is þann 10. mars 2016

bruniÁ horninu á Hverfisgötu verður mér starsýnt upp Snorrabrautina. Það liggur þykk þoka yfir götunni og götuljósin hanga í lausu lofti eins og fljúgandi furðuhlutir. Þokan mött eins og Instagram filter. Í andartak handfjatla ég símann og hugsa mér að taka mynd en ég á bara 1% eftir af batteríinu og er að hlusta á hlaðvarpsþátt sem ég er að vonast til að dugi mér alla leiðina heim. Ég hristi af mér störuna og lít niður til sjós. Þar er engin þoka. Það er brunalykt í loftinu. Ég legg af stað upp Snorrabrautina þó að það sé ekki í leiðinni heim. Fyrr en varir eru blá ljós að blikka og sírenur að væla. Skuggamyndir af fólki í gluggunum að skima eftir upptökum þokunnar sem er nú augljóslega þéttur reykur sem svíður í augu.

Við gömlu Bíóborgina stoppa ég, tek upp símann og slekk á airplane mode sem ég hafði kveikt á til að láta hlaðvarpið merja það alla leið heim. Hlaðvarpið malar enn í eyrum mínum með sírenurnar í bakgrunni og ég slekk á því líka. Gatan flöktir öll í bláu ljósunum á löggu- og sjúkrabílunum. Það standa logar upp úr þakinu á vöruskemmunni í portinu á milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs. Ég passa mig að vera ekki fyrir neinum, kveiki á SnapChat og tek upp nokkurra sekúndu myndskeið af gulu eldtungunum og flöktandi bláu ljósunum sem endurkastast af blautri götunni. „Eldur á Grettisgötu“ skrifa ég og sendi í My Story og á nokkra aðra vini sem ég skiptist reglulega á myndskeiðum við. Það er ekki svo mikið að sjá og mér líður hálf vandræðalega þarna á horninu, sérstaklega þegar tveir menn stíga út úr hvítum skutbíl sem er augljóslega einhverskonar óeinkennisklæddur eitthvað, opna skottið og byrja að tosa á sig gula og bláa galla með endurskynsmerkjum með þjálfuðum handatökum þeirra sem eiga sér alvöru erindi við eldsvoða.

Ég sting símanum aftur inn á mig og labba til baka niður Snorrabrautina og fyrir hornið inn á Laugaveg. Hér er enginn reykur og fólk að reykja sígarettur úti á gangstétt og borða samlokur í glugganum á 10-11. Í Víetnömsku búðinni á móti Hlemmi eru tvær konur að tala saman og þrífa eftir lokun og ég stilli mig um að banka á glerið og segja þeim hvað sé í gangi hinum megin við húsið þótt þær séu augljóslega ekki í neinni hættu. Á Rauðarárstíg bíð ég á rauðu ljósi á meðan umferðin silast framhjá, fólkið í bílunum að líta aftur fyrir sig og í fullum samræðum um eldsvoðann. Ég feta mig til baka að eldsvoðanum og stoppa hinum megin við götuna frá kösinni af bláum ljósum og fólki í gulum göllum. Það eru komnir tveir slökkviliðsbílar, að ég sjái. Sjúkrabíll kemur á fullu upp kantinn og ég hörfa að blómapottunum fyrir utan Utanríkisráðuneytið þó að bílinn stoppi langt í burtu frá mér. Tveir menn í viðbót í gulum göllum stökkva út úr bílnum og bæta sér í þvöguna. Slökkviliðsmaður skrúfar frá brunahana með stórum skiptilykli, athöfn sem ég hef aldrei séð áður og lítur svolítið út eins og verið sé að trekkja upp götuna. Gildar brunaslöngur liggja þvers og kruss.

Ég tek upp símann og smelli af nokkrum myndum. Reykur kúgast í bylgjum út undan þakskegginu á gamla vöruhúsinu en það eina sem sést á myndunum eru blá ljós og gulur bjarmi á bak við reykinn. Það er fleira fólk í kringum mig. Aðallega túristar í hlífðarfatnaði sem eru þó flest hinu megin götunnar. Kannski af því að blá ljós þýða ekki meira fyrir þeim en afgirtu slóðarnir í kringum Gullfoss en þó líklegast af því að þau eru öll að gista á Fosshótel Lind hinu megin við götuna. Mín megin er bara einn Íslendingur að reykja og mig langar mest að nýta þessa sameiginlegu upplifun okkar til að sníkja af honum sígarettu. Að fá sér sígarettu virkar eins og akkúrat það sem maður á að vera að gera á meðan maður horfir á húsbruna.

Eftir að hafa horft í dágóða stund sný ég mér við og held heim á leið. Síminn er ennþá í höndinni á mér og ég reyni að vera fyrstur með fréttirnar og senda kærustunni minni Facebook skilaboð. „Það er rosa bruni á…“ skrifa ég en þá klárast batteríið og skjárinn verður svartur. Ég labba heim hlaðvarpslaus. Heima kíki ég á fréttasíðurnar, á DV og Vísi, og kemst að því að í vöruhúsinu er rekið réttingaverkstæði en þar er líka að finna listamannastúdíó og lítinn líkamsræktarsal. Eldurinn er víst töluvert meiri en slökkviliðið fæst við dags daglega og fjórir dælubílar eru komnir á vettvang. Slökkvuliðstjórinn ráðleggur íbúum í kring að loka gluggum og hækka í ofnum til að halda reyknum úti, sem er ný eðlisfræði fyrir mér og ég legg það á minnið sem þjóðráð til að halda reyk úti ef ég þarf einhverntíman á því að halda. Það er ný nektamynd af Kim Kardashian á DV og ég klikka á fréttina, ef frétt mætti kalla, hálf ómeðvitað. Hún setti myndina sjálf á Instagram og fólk er víst sjokkerað yfir því að ekkert sjáist á henni einungis þrettán vikum eftir að hún eignaðist soninn Saint með eiginmanni sínum, Kanye West. Sumir eru voða glaðir fyrir hennar hönd, aðrir ósáttir. Líklega yfir því að hún sé að monta sig svona. Ég loka glugganum og sé umsvifalaust eftir klikkinu, að hafa gefið þessu hégómaslúðri atkvæði mitt. Það verður víst ekki aftur tekið. Eldsvoðinn er farinn að berast í tal í tístunum á Twitter, með emojis af eldglærum, myndum af vettvangi og stöku bröndurum. Ég hendi einni af myndunum sem ég tók inn í hringrásina. Segi ekkert hnyttið svosem. Bara „Úff!“. Læt það nægja en fæ engin læk, enda bara með 51 fylgjendur.

Daginn eftir les ég ávítanir Lögreglunnar til vegfarenda sem komu á vettvang og virtu lokanir að vettugi og trufluðu störf björgunaraðila. „Slíkt er með öllu ólíðandi og raunar skammarlegt“ segir, réttilega, á heimasíðu Lögreglunnar. Ég vona innilega að ekki sé verið að tala um mig. Ég hélt mig nú allan tíman hinu megin götunnar og passaði eftir fremsta megni að vera ekki fyrir neinum, þótt ég hafi reyndar kannski smellt af nokkrum myndum, tístað smá og hent einhverju á SnapChat og Facebook. Það er ekki laust við að ég skammist mín svolítið en á erfitt með að koma auga á hvar nákvæmlega ég missteig mig. Ég legg frá mér símann og velti fyrir mér: „Hver nákvæmlega ætli séu réttu viðbrögðin við húsbruna á tuttugustu og fyrstu öldinni?“