SMÁGLÆPIR NÚ FÁANLEGIR Í INNBUNDNU BROTI

TIl að auka sölumöguleika Smáglæpa í jólabókaflóðinu, ákvað Sæmundur, útgefandinn minn, að endurprentunin af bókinni yrði í hörðu bandi. Auðvitað er þetta ógurlega spennandi fyrir mig, og þá sérstaklega að bókin muni vera á borði með öllum hinum jólabókunum. Það er samt ekki laust við að ég prísi mig sælan að hafa gefið bókina út í kiljubroti í sumar, núna þegar út eru að koma spennandi skáldverk eftir hverja kanónuna á fætur annarri, sem og eftir ýmsa nýja höfunda sem ég hlakka mikið til að kíkja á þegar ég kem heim. Ber þar kannski helst að nefna Millilendinguna hans Jónasar Reynis og Slitförin hennar Fríðu Ísberg, en bæði eru þau hjá mínum gamla útgefanda Partusi, sem er svo sannarlega að hrista vel upp í jólabókaflóðinu í ár (enda kominn tími til).

Sjálfur kem ég ekki heim á klakann fyrr en 4. desember, og vona ég að ekki verði alveg búið að gleyma Smáglæpum og sjálfum mér þá, þegar mesta jólaösin skellur á. Ég er núþegar búinn að bóka eitt upplestrarkvöld, í höfuðstöfum Sæmundar, Bókakaffinu á Selfossi, þann 14. desember, en vonandi tekst mér að bæta einhverjum fleirum viðburðum við þegar nær dregur. Hvernig sem fer þá held ég að þetta verði rokna jólabókaflóð og hlakka ég mikið til þess að taka þátt í því af fullum huga, að þessu sinni fyrir framan búðarborðið en ekki fyrir aftan það, þar sem ég hef staðið vaktina undanfarin ár. Þó er aldrei að vita nema ég betli í mínu gamla samstafsfólki í Eymundsson Austurstræti um að fá að taka smá vakt á Þorláksmessu, þar sem þá er mesta stuð ársins í bókabúðum og bjórinn sjaldan sætari en á miðnætti þann tuttugasta og þriðja, þegar loksins er búið að smala öllum út og gera upp kassana. Þó eru góðar líkur á einhverjum eilitlum hagsmunaárekstri í ár þar sem það er jú mynd af mér aftan á einni jólabókinni. Þá verð ég bara að betla út Þorláksmessuvakt næstu jól, nema að svo ólíklega vilji til að maður sé með eitthvað í þvögunni þá líka.

Ég sé ykkur allavega þann 4. desember þegar ég mæti heim frá Long Island, fúlskeggjaður og síðhærður þar sem ég treysti ekki rockabilly rökurunum hér út frá eftir síðustu útreið. Ekki veitir af þar sem kalt er orðið í kotinu og ég þurfti að fjárfesta í flannel-fóðruðum Carhartt buxum til að þola röku hafgoluna hér á eyjunni. Þangað til verð ég hérna á bókasafninu í Stony Brook að tikka inn í tölvuna eitthvað sem verður kannski einhvern tímann eitthvað.