Og þá er komið að íþróttum: Hver er Keyser Söze?

Liberation_20160413_Paris-1_QUO_012Ég var í viðtali í franska blaðinu Liberation núna um daginn. VIðtalið var hluti af úttekt blaðsins á ástandinu á Íslandi á umrótatímum aprílmánaðar sem að nú virðast vera að falla í gleymsku. Þó að viðtalið væri stutt fór það um víðan völl. Ætlun þess var að taka púlsinn á nokkrum Íslendingum á ólíkum aldri og í ólíkum starfsstéttum um líðandi stund og þá sérstaklega um afhjúpun Panama skjalanna, mótmælin í kjölfarið og afsögn Sigmundar Davíðs, forsætisráðherra. Ég neyddist til að viðurkenna í viðtalinu að þrátt fyrir að hafa tekið þátt í mótmælunum þá væri ég yfir höfuð ekkert sérstaklega pólitískt þenkjandi, þó að ég væri núna að reyna að bæta úr því þar sem ég sæi það sem borgaralega skyldu mína að hugsa um þessi mál, mynda mér ígrundaða skoðun og taka afstöðu og ekki bara á umrótatímum þegar hlutirnir eru spennandi heldur líka þegar ekkert er að gerast og ræðurnar á Alþingi eru drepleiðinlegar.

Í viðtalinu tek ég samt fram að í einfeldni minni sem pólitískur amatör læt ég mig aðallega dreyma um stjórnmálafólk sem hægt er að treysta til að standa við orð sín, er stýrt af siðferðiskennd og eru nógu sterk á velli sem einstaklingar til að kjósa eftir eigin sannfæringu, frekar en flokksins. Draumsýn mín er að inni á Alþingi sitji upp til hópa hugsjónamanneskjur sem eru þarna saman komnar til að reyna að mynda úrlausnir sem eru þjóðinni í heild í vil en ekki þeirra hagsmunaaðila sem flokkurinn þjónar. Án þess að ég geti endilega boðið upp á aðrar úrlausnir, þá sýnist mér að flokkakerfið sé að mörgu leyti meingallað fyrirbæri. Það hefur myndað á Alþingi stemmningu sem svipar meira til íþróttamóts en umræðu, þar sem öll liðin eru að keppa á móti hvor öðru og hver sá sem vinnur áskilur sér réttinn til að hlusta ekki á hin liðin eftir að á vinningspallinn er stigið. Við ætlumst til mikils af stjórnmálafólkinu okkar og því miður hefur það margt hvert ekki staðið undir væntingum undanfarið, en það sem er einna verst að mínu mati er það samskiptaleysi sem virðist vera orðið hluti af flokkamyndunum á Íslandi og endurspeglast í umræðunni í samfélaginu. Ákvarðanir  flokkanna virðast oft vera gagngert til þess fallnar að þóknast litlum en valdamiklum minnihlutahópum frekar en að vera ætlað að koma á sátt á milli ólíkra þjóðfélagshópa og taka ákvarðanir sem eru þjóðinni allri í hag. Þannig líta hlutirnir allavega út fyrir mér í dag, 32 ára bóksalanum og rithöfundinum með kaffibollann. Örugglega má afskrifa allt sem ég segi sem hreinann og klárann naívisma, en við því get ég bara borið þær varnir að ég er bara nýbyrjaður að reyna að vera pólitískt þenkjandi.

Í gæðaræmunni The Usual Suspects frá tíunda áratug síðustu aldar segir Verbal Kint (leikinn af Kevin Spacey) að stórkostlegasta afrek djöfulsins hafi verið að sannfæra heiminn um að hann væri ekki til. Stundum grunar mig að stórkostlegasta afrek pólitíkusa sem vilja nýta sér kerfið okkar í eigin þágu sé að þeim hefur tekist að sannfæra fólk eins og mig um að pólitík sé leiðinlegt og þreytugjarnt umræðuefni. Þannig látum við þau um það að stýra landinu, fegin að það séu ekki við í ræðupúltinu. Það gengur ekki lengur. Hinn meinlausi Verbal Kint reyndist síðan vera (spoilers) Keyser Söze sjálfur, svo guð má vita hvað leynist í alvöru á bak við ræðupúltið.