ÓKEYPIS OG OPIN ÖLLUM – BÓKMENNTAHÁTÍÐ 2023

Pics or didn’t happen..

Víðsjá bað mig um að hafa augun opin á nýafstaðinni Bókmenntahátíð og skrifa eitthvað um hana, sem leiddi til þess að ég fór að hugsa um mína fyrstu heimsókn á hátíðina. Pistillinn er nú kominn á Menningarvef RÚV en ég læt hann líka fylgja hér að neðan:

Í fyrsta sinn sem ég fór á Bókmenntahátíðina í Reykjavík mætti ég á hjólabretti. Árið var 2003 og ég bombaði niður Skólavörðustíg með eintakið mitt af Wind-Up Bird Chronicle í annarri hendi, á leiðinni að sjá Murakami. Ég var á síðasta ári í menntaskóla og nýbyrjaður að heimsækja bókabúðirnar í miðbænum, þar sem ég eyddi sumarvinnupeningunum mínum í bækur sem ég valdi úr erlendu deildinni – oft einmitt út frá kápunni. Þannig rambaði ég á Murakami. Ég hafði tekið upp eintak af Hard-Boiled Wonderland and the End of the World, byrjað að lesa hana í búðinni og hugsað: Vá, hérna er alveg nýtt sjónarhorn á veröldina! Eitthvað sem ég hugsaði æði oft þegar ég opnaði bók á þessum árum og geri enn af og til í dag.

Það var alveg stappað þegar ég mætti í Iðnó. Ég hélt hjólabrettinu fyrir framan mig eins og skildi og þræddi mér leið í gegnum þvöguna, tókst að finna mér pláss í gættinni á salnum þaðan sem ég fylgdist með Murakami lesa hæglátlega upp úr Spútnik-ástinni á japönsku. Eftir upplesturinn var sett upp borð fyrir áritanir og ég kom mér fyrir í röðinni og vonaði að honum myndi þykja mikið til þess koma hve þvæld og lesin kilju-útgáfan sem ég hafði tekið með mér var – allt annað en stífu, nýju kiljurnar sem verið var að selja í anddyrinu.

Á meðan ég beið, klæddur í skopparabuxur og hettupeysu, með hjólabrettið klemmt á milli lappanna, og fylgdist með fólki ganga að borðinu og segja eitthvað gáfulegt við Murakami og taka í höndina á honum, var ekki laust við að mér liði eins og ég ætti ekki heima þarna. Ég hafði gengið úr skugga um það áður en ég mætti að það væri frítt inn og atburðurinn opinn öllum, en engu að síður var ég sífellt að bíða eftir að einhver myndi stoppa mig og fylgja mér út. Eins og venjulega reyndi ég að fela óöryggið undir kæruleysislegum töffarasvip unglingsins en var þó við það að láta mig hverfa þegar röðin kom loks að mér. Ég minnist þess ekki að hafa sagt neitt við Murakami. Hann kinkaði kolli við mér, brosti kannski eilítið við að sjá hjólabrettið og hripaði nafn sitt á titilsíðu bókarinnar. Svo steig ég til hliðar svo að næsti kæmist að. Ætlunarverkinu var náð og ég dreif mig út, feginn að sleppa aftur undir bert loft.

Ég á erfitt með að meðtaka að síðan þá séu liðin 20 ár. Á þeim tíma hef ég nokkrum sinnum tekið þátt í Bókmenntahátíðinni á einn eða annan hátt. Fyrst um sinn aðallega sem bóksali, fastur frammi í anddyri á meðan upplestrarnir og samtölin fóru fram, á milli þess sem ég barðist við að endurræsa posann og reikna út í huganum rithöfundaafsláttinn sem kúnnarnir voru ekki á því að láta slæda þótt ég væri ekki á kassanum í Eymundsson. Seinna meir tók ég að fara sjálfur upp á svið og stýra umræðum höfunda hátíðarinnar, og á endanum kom að því að ég varð einn af fullorðna fólkinu sem stendur þarna í þvögunni í anddyrinu og malar við hitt bransaliðið – þrátt fyrir að enn votti stundum fyrir snefil af þessari gamalkunnu tilfinningu að maður sé kannski bara að þvælast fyrir.

Hátíðinni í ár lauk eins og venjulega með trylltum dansi á Bókaballinu í Iðnó. Dagskráin var með sama sniði og áður. Höfundar skiptust á að stíga á svið og lesa úr verkum sínum og ræða um þá list að drattast í gegnum langa ferlið sem liggur á milli þess að fá óljósa hugmynd og að gefa út bók. Sumar pallborðsumræðurnar voru hlaðnar samfélagslegum þunga. Colson Whitehead og Natasha S. ræddu um pólitísku kringumstæðurnar í heimalöndum sínum sem verk þeirra eru sprottin úr. Aðrir lýstu yfir hollustu sinni gagnvart listinni sjálfri, líkt og Gyrðir Elíasson sem sagði um þá kröfu að list þurfi að hafa samfélagslegt gildi: „…það er líkt með það og plottið – ég er ekki sannfærður.“ Sumar samræðurnar vöktu mann til vitundar um bilið á milli þessara tveggja póla, líkt og þegar portúgalski höfundurinn Gonçalo Tavares talaði um skáldskapinn sem helsta vopn okkar gegn „ómeðvituðu einræði“ samfélagsmiðladrifinna fjölmiðla, sem segja til um hvað okkur ber að hugsa um hverju sinni, líkt og trúarbrögð gerðu áður fyrr. Aðrir viðburðir voru svo galsafullir að salurinn engdist um af hlátri, líkt og þegar Vigdis Hjorth lék með tilþrifum fyrstu kynlífsreynslu sína, sem hún lýsti sem vonbrigðum af verstu sort en upplifun sem hefði engu að síður kennt henni margt um mátt skáldskapsins, eða þegar Pedro Gunnlaugur Garcia reyndi að fá allan salinn til að syngja Abba-lag í miðjum panel til að draga athygli áhorfenda frá því að stjórnandi umræðunnar (undirritaður) væri gjörsamlega búinn að missa tökin á atburðarásinni á sviðinu.

Þó var líka eitthvað nýtt í loftinu í ár. Það er alltaf sægur af erlendum höfundum á hátíðinni en að þessu sinni var stór hluti þeirra með skráð aðsetur eða ríkisfang á Íslandi. Stuttu fyrir setningu hátíðarinnar mátti finna á efri hæðinni í Iðnó útgáfuhóf fyrir ritgerðasafnið Skáldreki (Writers adrift) sem gefið er út bæði á ensku og íslensku og inniheldur skrif eftir hóp aðfluttra höfunda á Íslandi. Þar mátti hlýða á höfunda á borð við Jakub Stachowiak og Ewu Marcinek lesa um upplifanir sínar af því að skapa sér rödd og rými á Íslandi. Einnig tók ég eftir að það var meira en oft áður af fólki með hreyfihamlanir á meðal áheyrendaskarans í Iðnó – sem þrátt fyrir allan sinn sjarma verður seint talið sérlega aðgengilegt hús fyrir fólk sem notar hjólastóla eða önnur stuðningstæki. Fremst í salnum var búið að reisa stæðilegan ramp svo að Jan Grue – einn af gestahöfundunum – gæti ekið hjólastól sínum upp á sviðið. Grue reyndist vera einn af eftirminnilegustu höfundum hátíðarinnar í ár. Sérstaklega sitja í mér orð hans við Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur um kröfuna sem samfélagið setur á fólk sem býr við fötlun um að segja „innspírandi“ sögu, áður en það fær leyfi til að segja söguna um allar þær sligandi áskoranir, þjark og fyrirhyggjusemi sem þau þurfa að takast á við á degi hverjum – ósýnilegu vinnuna sem fólk með fötlun vinnur alla daga. Vá, hérna er alveg nýtt sjónarhorn á veröldina, hugsaði ég þá, eins og forðum.

Í viðtali hér á Rás 1 við setningu hátíðarinnar síðasta miðvikudag velti einn af höfundunum á hátíðinni upp þörfum spurningum um elítisma og klíkur. Hvort Bókmenntahátíðin væri yfir höfuð ætluð fyrir „Jón og Gunnu úti í bæ“, heldur væri kannski bara fyrir okkur höfundana og bransafólkið til að hella í okkur og slúðra og komast í tæri við erlenda kollega og útgefendur. Hátíðin sjálf hefur í raun ekki breyst mikið síðan ég heimsótti hana fyrst. Aðgangur er ókeypis og hver sem er á að geta labbað inn og hlýtt á upplestur og samræður höfundanna – líkt og ég gerði sjálfur fyrir tuttugu árum. Það að hún sé „opin öllum“ þýðir þó að sjálfsögðu ekki að öllum finnist þeir eiga rétt á að ganga inn í salinn, eða standa í þvögunni í anddyrinu og taka pláss frá öðrum. Þó er ekki laust við að mér finnist eilítið fjölbreyttari hópur hafa nýtt sér þann rétt í ár heldur en þá, þegar ég stóð þarna í gættinni sem óharðnaður unglingur og fannst ég vera að þvælast fyrir öllu alvöru fólkinu. Og það hlýtur að teljast góðs viti fyrir afkomu og áframhaldandi þróun íslenskra bókmennta.

BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK 2021

Ég mætti í fyrsta sinn á Bókmenntahátíðina í Reykjavík árið 2003 til að sjá Haruki Murakami, man að ég bombaði niður Bankastrætið á hjólabrettinu mínu með eintakið mitt af Wind-up Bird Chronicle klemmt í handarkrikann. Ég þekkti engan þarna og hefði örugglega aldrei mætt nema af því að bókmenntahátíðin er öllum opin og það er frítt inn. Þannig gat ég bara valsað inn í Iðnó í hettupeysunni minni og fengið áritun í bókina mína þegar Murakami var búinn að lesa.

Það er ótrúlega mikilvægt fyrir framtíð bókmennta að búa til staði þar sem fólk sem langar að skrifa getur gengið að og hitt fólk sem er að skrifa. Bókmenntahátíðin er þannig staður.

Image

HOLDIÐ OG VALDIÐ Á BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK

Han Kan, Kristín Eiríks, Aase Berg og ég. Af einhverjum ástæðum stendur á skjánum að Rosie Goldsmith sé stjórnandi kvöldsins en maður kippir sér svo sem ekki upp við svoleiðis smáatriði.

Ég tók að mér að stýra pallborðsumræðum á Bókmenntahátíð í Reykjavík í ár, líkt og ég gerði á síðustu hátíð fyrir tveimur árum þegar ég ræddi við höfundana Steinunni Sigurðar og David Nicholls. Titill samtalsins í ár var Holdið og valdið (Politics of Flesh) og voru viðmælendur mínir Kristín Eiríksdóttir, sem las úr væntanlega bók sinni Hendur & rætur, sænska súrrealista og femínista ljóðskáldið Aase Berg, en nýjasta bók hennar Hackers nýtir sér táknmyndir sníkjudýra og tölvuvírusa til að hvetja til árása gegn feðraveldinu, og Suður-Kóreski Man-Booker verðlaunahafinn Han Kang, höfundur bókarinnar Grænmetisætan, sem var nýlega gefin út hjá Bjarti, og hinnar mögnuðu Human Acts, sem fjallar um blóðuga uppreisn sem átti sér stað í borginni Gwangju í Suður-Kóreu árið 1980.

Kvöldið gekk vel og voru viðmælendur mínir einkar vel valdir til að ræða um verk sín og hugmyndafræði undir þessum titli. Því miður náði ég lítið að ræða við fólk í salnum eftir á til að heyra hvernig þetta kom allt saman út þar sem ég þurfti að fara beinustu leið heim að pakka. Ég átti flug til Bandaríkjanna snemma morguninn eftir og sökum mikils undirbúnings og álags vikuna fyrir viðburðinn var allt ógert fyrir ferðalagið.

Hægt er að horfa á samtal okkar Kristínar, Aase og Kang á streymisíðu bókmenntahátíðar en samtalið hefst um 1:20:00 bilið. Mér skilst að þau hjá Bókmennthátíðinni ætli að klippa öll viðtölin til og setja á netið og mun ég setja það hér inn þegar þar að kemur.