Nýræktarstyrkir 2016 – Smáglæpir, Einsamræður & Afhending

 

mynd3

c. Hólmfríður Jónsdóttir

Þann 2. júní síðastliðinn hlaut ég Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta ásamt Birtu Þórhallsdóttur og Vilhjálmi Bergmann Bragasyni. Styrkurinn er ætlaður til að stuðla að útgáfum nýrra höfunda, og sammæltumst við “ungu” höfundarnir um það hversu einstaklega gaman og spennandi það væri að verkin sem hlutu styrkina í ár væru jafn ólík og þau eru, en þau eru um leið mjög ólík þeim útgáfum sem hafa einkennt styrkina hingað til. Birta er með örsagnasafn sem ber titilinn Einsamræður, Vilhjálmur stefnir á að gefa út á prenti leikritið sitt Afhending og sjálfur er ég með smásögusafnið Smáglæpir sem mun koma út hjá Sæmundi næsta vor. Engar skáldsögur eða barnabækur hlutu styrkinn í ár.

styrkur

 

Ég er einstaklega þakklátur og stolltur yfir að vera úthlutað þessum styrki, og hvað sérstaklega er ég þakklátur fyrir að vera nú loks kominn með fasta lokadagsetningu fyrir Smáglæpi, sem ég hef verið að færa til kommur í ansi lengi. Enn þarf að sitja yfir efninu um sinn og sumar sögurnar sé ég fram á að endurrita frá byrjun en beinagrindina á ég inni í skáp og núna er ekki annað á dagskrá en að draga hana fram og klæða hana kjöti.

Ég læt fylgja hér með viðtal við mig, Birtu og Vilhjálm í Víðsjá daginn sem styrkirnir voru tilkynntir þar sem einnig má heyra okkur lesa úr væntanlegum útgáfum,  og að auki þá er að finna hér fyrir neðan umsagnirnar um verkin þrjú frá dómnefnd Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Þar segir eftirfarandi:

Birta Þórhallsdóttir – Einsamræður

Kröftugar örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl sem höfundur hefur einkar gott vald á. Textinn grípur lesandann með spennandi möguleikum og mótsögnum þar sem kunnuglegar aðstæður umbreytast og taka á sig hrífandi ævintýrablæ.

Björn Halldórsson – Smáglæpir

Vel skrifaðar og fagmannlega mótaðar smásögur. Höfundur þekkir smásagnaformið augsýnilega vel og kann þá list að segja ekki of mikið en skapa á sama tíma forvitnilega stemningu og andrúmsloft í sögum sem ná gríðarföstu taki á lesandanum.

Vilhjálmur Bergmann Bragason – Afhending

Athyglisverður og ögrandi leiktexti sem fyllir lesandann óhug og efasemdum um þá þróun sem er sýnd í samskiptum persónanna. Höfundurinn þekkir leikhúsið og leikritun og sýnir athyglisvert vald á forminu, eins og sést mætavel á snörpum og vel skrifuðum samtölum þar sem dansað er á mörkum súrrealisma og óþægilegs raunsæis.

umsagnir

 

Græna hjólið (minningargrein)

græna hjólið

Eftirfarandi pistill birtist fyrst í mars hefti Stundarinnar 2016 (6. tbl. 2. árg.)

Ég fékk græna hjólið í gegnum félaga minn. Það var víst búið að ílengjast mánuðum saman í vinnunni hjá honum. Einhver hafði fundið það úti og ætlað að gera það upp en svo varð aldrei neitt úr því. Þegar ég fékk það í hendurnar var það ein ryðhrúga, með stráum föstum í teinunum. Ég dröslaði því heim með mér, heim til mömmu. Þetta var stuttu eftir að ég var aftur fluttur heim til Íslands og annað hvort stuttu fyrir eða stuttu eftir að faðir minn dó. Maður myndi ætla að ég myndi muna hvort en dauðinn á það til að rugla tíma og minningar saman í einn bing sem ekki er svo auðvelt að greiða úr. Ég veit að ég bjó heima hjá mömmu þá, peningalaus og stefnulaus. Ég laumaðist með hjólið inn í geymsluna á sameigninni, sem ég var búinn að eigna mér lykilinn að. Faldi það þar þar til einhvern tímann.

Ég tók það ekki aftur út fyrr en ári seinna. Þá átti ég íbúð og kærustu, konu sem ég átti auðvelt með að sjá sjálfan mig eyða restinni af ævinni með. Við smullum svo vel saman, með sömu áherslur á hvað væri mikilvægt. Hlutir eins og morgunkaffi og lestrarstund. Sundferðir og vínilplötur. Mér fannst hún skemmtileg bæði í og úr glasi, sem var nýtt fyrir mér.

Snemma sumars dröslaði ég græna hjólinu heim í nýju íbúðina. Reiddi það á loftlausum dekkjum alla leiðina frá mömmu þar sem ég vildi ekki setja ryðbletti í sætin í bílnum (bílnum hennar mömmu). Nýja íbúðin mín, sú fyrsta sem ég átti frekar en leigði, var með útidyrahurð. Ég býst við að allar íbúðir séu með útidyrahurð en þessi var alvöru. Hún opnaðist út í garð. Ég hafði ekki átt svoleiðis útidyrahurð síðan ég var lítill og við bjuggum enn í Mosó. Þessa sumardaga sat ég oftar en ekki á tröppunum í sólinni og pússaði og pússaði ryðgað krómið og blettótt stellið. Ég tók hjólið allt í sundur og setti það aftur saman nokkrum sinnum í tilraunum mínum til að koma því í stand. Smurði keðjuna og tókst almennt að gera sjálfan mig grútskítugann í alla staði. Ég hafði mjög takmarkaða reynslu af hjólaviðgerðum og þurfti því oft að endurtaka hlutina, feta mig til baka og byrja upp á nýtt. Á endanum tókst mér að tjasla því öllu saman í ásættanlegt form og meira að segja tengja bæði gírana og bremsurnar svo að bæði virkuðu (þó eilítið eftir eigin hentugleika).

Ég gaf kærustunni minni hjólið og hún var himinlifandi þrátt fyrir að vera óvön hrútastýrinu og hálf hrædd um að fljúga fram fyrir sig þegar hún hemlaði. En þótt ég væri búinn að gefa henni hjólið, og ætti sjálfur mitt eigið hrútastýrishjól, silfraðann franskan Peugeot sem vinur minn hafði skilið eftir í bílskúrnum hjá foreldrum sínum áður en hann flutti til Bandaríkjanna, stóðst ég ekki mátið að stelast reglulega út í hjólatúra á græna hjólinu. Það var reyndar eiginlega of lítið fyrir mig og gaf mér furðulegar harðsperrur í hnésbæturnar og lét mig líta út eins og bjarndýr í sirkús sem neytt hefur verið til þess að læra að hjóla.

Fróunin sem fylgdi því að hjóla um nýja hverfið mitt á hjóli sem ég hafði lagað til og bjargað frá glötun upp á eigin spýtur var ólýsanleg. Það hefði mátt halda að ég hefði sjálfur grafið járnið úr jörðu, brætt það saman í stálið og soðið saman í stellið, krómað stýrið og þrætt teinanna, ræktað gúmmítrén fyrir hjólbarðana, skotið kúna og sútað leðrið í hnakkinn.

Í raun á ég voða lítinn þátt í tilkomu og tilvist græna hjólsins. Það stoppar ekki svo lengi hjá mér, býst ég við, og ekki veit ég hvar það endar þegar ég er búinn með það. Sögur okkar beggja lágu þó saman á alveg einstaklega merkilegum tíma í mínu lífi. Ég er búinn að geyma svolítið af mér í græna hjólinu. Smá skerf sem er svolítið þungt að rogast með alla daga, svo ég geymi hann þar. Í hjólinu. Tek það fram þegar mér þóknast og fer í hjólatúr meðfram Sæbrautinni. Það er voða gott að geta geymt eitthvað af sér í hlutunum sínum þótt að maður vilji kannski ekki dreifa sjálfum sér of víða, og maður verði að vita hvenær tímabært er að sleppa haldi á hlutunum og leifa þeim að halda áfram með sína sögu.

Fólk segir að þau sem fara frá okkur lifi í minningunum og það er alveg satt, en við getum ekki rogast með minningarnar með okkur alla daga. Getum ekki alltaf tekið þær með í vinnuna og í sund og á kaffihús eða á barinn. Svo við geymum þær í því sem hendi er næst: í hlutunum þeirra. Hlutunum okkar. Í lítilli steinvölu eða gömlum hatti. Í gamalli hrærivél eða slitnu eintaki af Laxness með nafni og ártali hripuðu á titilsíðuna. Í ljósmyndum og lopapeysum. Sófaborðum og hægindastólum. Þannig pössum við upp á minningarnar. Við bindum þær fastar við eitthvað utan við okkur og ríghöldum síðan í það. Við hugsum um fólkið sem er okkur kærast og sem við fáum aldrei að hitta aftur þegar við búum til kaffi með kaffikönnunni þeirra, sitjum við skrifborðið þeirra, spilum plöturnar þeirra og vefjum teppunum þeirra utan um okkur. Við pössum að hlutirnir þeirra skemmist ekki og týnist ekki, og að þegar við þurfum að láta þá frá okkur lendi þeir hjá einhverjum sem veit hver átti þá fyrst. Fólk lifir áfram í minningunum okkar en það lifir líka áfram í hlutunum sem það skilur eftir í okkar fórum. Þegar við förum þá verða hlutirnir okkar eftir hjá þeim sem okkur þykir vænst um.

Og þá er komið að íþróttum: Hver er Keyser Söze?

Liberation_20160413_Paris-1_QUO_012Ég var í viðtali í franska blaðinu Liberation núna um daginn. VIðtalið var hluti af úttekt blaðsins á ástandinu á Íslandi á umrótatímum aprílmánaðar sem að nú virðast vera að falla í gleymsku. Þó að viðtalið væri stutt fór það um víðan völl. Ætlun þess var að taka púlsinn á nokkrum Íslendingum á ólíkum aldri og í ólíkum starfsstéttum um líðandi stund og þá sérstaklega um afhjúpun Panama skjalanna, mótmælin í kjölfarið og afsögn Sigmundar Davíðs, forsætisráðherra. Ég neyddist til að viðurkenna í viðtalinu að þrátt fyrir að hafa tekið þátt í mótmælunum þá væri ég yfir höfuð ekkert sérstaklega pólitískt þenkjandi, þó að ég væri núna að reyna að bæta úr því þar sem ég sæi það sem borgaralega skyldu mína að hugsa um þessi mál, mynda mér ígrundaða skoðun og taka afstöðu og ekki bara á umrótatímum þegar hlutirnir eru spennandi heldur líka þegar ekkert er að gerast og ræðurnar á Alþingi eru drepleiðinlegar.

Í viðtalinu tek ég samt fram að í einfeldni minni sem pólitískur amatör læt ég mig aðallega dreyma um stjórnmálafólk sem hægt er að treysta til að standa við orð sín, er stýrt af siðferðiskennd og eru nógu sterk á velli sem einstaklingar til að kjósa eftir eigin sannfæringu, frekar en flokksins. Draumsýn mín er að inni á Alþingi sitji upp til hópa hugsjónamanneskjur sem eru þarna saman komnar til að reyna að mynda úrlausnir sem eru þjóðinni í heild í vil en ekki þeirra hagsmunaaðila sem flokkurinn þjónar. Án þess að ég geti endilega boðið upp á aðrar úrlausnir, þá sýnist mér að flokkakerfið sé að mörgu leyti meingallað fyrirbæri. Það hefur myndað á Alþingi stemmningu sem svipar meira til íþróttamóts en umræðu, þar sem öll liðin eru að keppa á móti hvor öðru og hver sá sem vinnur áskilur sér réttinn til að hlusta ekki á hin liðin eftir að á vinningspallinn er stigið. Við ætlumst til mikils af stjórnmálafólkinu okkar og því miður hefur það margt hvert ekki staðið undir væntingum undanfarið, en það sem er einna verst að mínu mati er það samskiptaleysi sem virðist vera orðið hluti af flokkamyndunum á Íslandi og endurspeglast í umræðunni í samfélaginu. Ákvarðanir  flokkanna virðast oft vera gagngert til þess fallnar að þóknast litlum en valdamiklum minnihlutahópum frekar en að vera ætlað að koma á sátt á milli ólíkra þjóðfélagshópa og taka ákvarðanir sem eru þjóðinni allri í hag. Þannig líta hlutirnir allavega út fyrir mér í dag, 32 ára bóksalanum og rithöfundinum með kaffibollann. Örugglega má afskrifa allt sem ég segi sem hreinann og klárann naívisma, en við því get ég bara borið þær varnir að ég er bara nýbyrjaður að reyna að vera pólitískt þenkjandi.

Í gæðaræmunni The Usual Suspects frá tíunda áratug síðustu aldar segir Verbal Kint (leikinn af Kevin Spacey) að stórkostlegasta afrek djöfulsins hafi verið að sannfæra heiminn um að hann væri ekki til. Stundum grunar mig að stórkostlegasta afrek pólitíkusa sem vilja nýta sér kerfið okkar í eigin þágu sé að þeim hefur tekist að sannfæra fólk eins og mig um að pólitík sé leiðinlegt og þreytugjarnt umræðuefni. Þannig látum við þau um það að stýra landinu, fegin að það séu ekki við í ræðupúltinu. Það gengur ekki lengur. Hinn meinlausi Verbal Kint reyndist síðan vera (spoilers) Keyser Söze sjálfur, svo guð má vita hvað leynist í alvöru á bak við ræðupúltið.

Meðgöngumál nr. 3 & 4 komið í bókabúðir

IMG_2124Meðgöngumál nr. 3 & 4, Vetrarhamur og Þjófasaga eftir Herthu Maríu og mig sjálfann, eru nú fáanlegar í Eymundsson og fleiri bókabúðum á skitnar 1.499 kr. Að sjálfsögðu stillti ég þeim upp við kassann niðri í Austurstræti svo fólk gæti gripið eintak með dönsku blöðunum sínum en ég get ekki endilega ábyrgst að aðrir bóksalar séu jafn samviskusamir í að passa að bækurnar séu það fyrsta og síðasta sem viðskiptavinurinn sér, svo endilega ekki hika við ónáða starfsfólkið ef þið sjáið ekki Partus standinn neinsstaðar. Fyrir hönd bókabúðarstarfsmanna get ég lofað að við elskum að vera ónáðuð.

Viðtal við Orð um bækur í heild sinni á Soundcloud

Fína og flotta fólkið hjá Partus útgáfunni tók sig til og vistaði viðtalið sem ég og Hertha María Richardt Úlfarsdóttir fórum í hjá Jórunni Sigurðardóttur í Orð um bækur í heild sinni á SoundCloud þannig að hægt væri að hlusta á það lengur en Sarpurinn á RUV.is segir til um. Takk fyrir það, Partus. VIð förum mikinn í þessu viðtali og strengjum saman myndlíkingar hingað og þangað, frá steinvölum til hafragrauts. Það var gaman að komast að því að við Hertha María deilum áherslum okkar á samvinnuna og traustið til annars fólks sem þarf að vera til staðar á bak við hverja útgefna sögu, sem og gleðina yfir bessaleyfunum sem maður getur tekið sér í fyrsta uppkasti. Mjög gaman að fá að taka þátt í umræðunni um gildi íslenskra smásagna núna þegar þær eru smám saman að finna vægi sitt í menningarlífinu í staðinn fyrir að vera eingöngu álitnar upphitun fyrir fyrstu skáldsögu höfundar.

Húsbruni á tuttugustu og fyrstu öldinni

Þessi pistill var upphaflega birtur á Stundin.is þann 10. mars 2016

bruniÁ horninu á Hverfisgötu verður mér starsýnt upp Snorrabrautina. Það liggur þykk þoka yfir götunni og götuljósin hanga í lausu lofti eins og fljúgandi furðuhlutir. Þokan mött eins og Instagram filter. Í andartak handfjatla ég símann og hugsa mér að taka mynd en ég á bara 1% eftir af batteríinu og er að hlusta á hlaðvarpsþátt sem ég er að vonast til að dugi mér alla leiðina heim. Ég hristi af mér störuna og lít niður til sjós. Þar er engin þoka. Það er brunalykt í loftinu. Ég legg af stað upp Snorrabrautina þó að það sé ekki í leiðinni heim. Fyrr en varir eru blá ljós að blikka og sírenur að væla. Skuggamyndir af fólki í gluggunum að skima eftir upptökum þokunnar sem er nú augljóslega þéttur reykur sem svíður í augu.

Við gömlu Bíóborgina stoppa ég, tek upp símann og slekk á airplane mode sem ég hafði kveikt á til að láta hlaðvarpið merja það alla leið heim. Hlaðvarpið malar enn í eyrum mínum með sírenurnar í bakgrunni og ég slekk á því líka. Gatan flöktir öll í bláu ljósunum á löggu- og sjúkrabílunum. Það standa logar upp úr þakinu á vöruskemmunni í portinu á milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs. Ég passa mig að vera ekki fyrir neinum, kveiki á SnapChat og tek upp nokkurra sekúndu myndskeið af gulu eldtungunum og flöktandi bláu ljósunum sem endurkastast af blautri götunni. „Eldur á Grettisgötu“ skrifa ég og sendi í My Story og á nokkra aðra vini sem ég skiptist reglulega á myndskeiðum við. Það er ekki svo mikið að sjá og mér líður hálf vandræðalega þarna á horninu, sérstaklega þegar tveir menn stíga út úr hvítum skutbíl sem er augljóslega einhverskonar óeinkennisklæddur eitthvað, opna skottið og byrja að tosa á sig gula og bláa galla með endurskynsmerkjum með þjálfuðum handatökum þeirra sem eiga sér alvöru erindi við eldsvoða.

Ég sting símanum aftur inn á mig og labba til baka niður Snorrabrautina og fyrir hornið inn á Laugaveg. Hér er enginn reykur og fólk að reykja sígarettur úti á gangstétt og borða samlokur í glugganum á 10-11. Í Víetnömsku búðinni á móti Hlemmi eru tvær konur að tala saman og þrífa eftir lokun og ég stilli mig um að banka á glerið og segja þeim hvað sé í gangi hinum megin við húsið þótt þær séu augljóslega ekki í neinni hættu. Á Rauðarárstíg bíð ég á rauðu ljósi á meðan umferðin silast framhjá, fólkið í bílunum að líta aftur fyrir sig og í fullum samræðum um eldsvoðann. Ég feta mig til baka að eldsvoðanum og stoppa hinum megin við götuna frá kösinni af bláum ljósum og fólki í gulum göllum. Það eru komnir tveir slökkviliðsbílar, að ég sjái. Sjúkrabíll kemur á fullu upp kantinn og ég hörfa að blómapottunum fyrir utan Utanríkisráðuneytið þó að bílinn stoppi langt í burtu frá mér. Tveir menn í viðbót í gulum göllum stökkva út úr bílnum og bæta sér í þvöguna. Slökkviliðsmaður skrúfar frá brunahana með stórum skiptilykli, athöfn sem ég hef aldrei séð áður og lítur svolítið út eins og verið sé að trekkja upp götuna. Gildar brunaslöngur liggja þvers og kruss.

Ég tek upp símann og smelli af nokkrum myndum. Reykur kúgast í bylgjum út undan þakskegginu á gamla vöruhúsinu en það eina sem sést á myndunum eru blá ljós og gulur bjarmi á bak við reykinn. Það er fleira fólk í kringum mig. Aðallega túristar í hlífðarfatnaði sem eru þó flest hinu megin götunnar. Kannski af því að blá ljós þýða ekki meira fyrir þeim en afgirtu slóðarnir í kringum Gullfoss en þó líklegast af því að þau eru öll að gista á Fosshótel Lind hinu megin við götuna. Mín megin er bara einn Íslendingur að reykja og mig langar mest að nýta þessa sameiginlegu upplifun okkar til að sníkja af honum sígarettu. Að fá sér sígarettu virkar eins og akkúrat það sem maður á að vera að gera á meðan maður horfir á húsbruna.

Eftir að hafa horft í dágóða stund sný ég mér við og held heim á leið. Síminn er ennþá í höndinni á mér og ég reyni að vera fyrstur með fréttirnar og senda kærustunni minni Facebook skilaboð. „Það er rosa bruni á…“ skrifa ég en þá klárast batteríið og skjárinn verður svartur. Ég labba heim hlaðvarpslaus. Heima kíki ég á fréttasíðurnar, á DV og Vísi, og kemst að því að í vöruhúsinu er rekið réttingaverkstæði en þar er líka að finna listamannastúdíó og lítinn líkamsræktarsal. Eldurinn er víst töluvert meiri en slökkviliðið fæst við dags daglega og fjórir dælubílar eru komnir á vettvang. Slökkvuliðstjórinn ráðleggur íbúum í kring að loka gluggum og hækka í ofnum til að halda reyknum úti, sem er ný eðlisfræði fyrir mér og ég legg það á minnið sem þjóðráð til að halda reyk úti ef ég þarf einhverntíman á því að halda. Það er ný nektamynd af Kim Kardashian á DV og ég klikka á fréttina, ef frétt mætti kalla, hálf ómeðvitað. Hún setti myndina sjálf á Instagram og fólk er víst sjokkerað yfir því að ekkert sjáist á henni einungis þrettán vikum eftir að hún eignaðist soninn Saint með eiginmanni sínum, Kanye West. Sumir eru voða glaðir fyrir hennar hönd, aðrir ósáttir. Líklega yfir því að hún sé að monta sig svona. Ég loka glugganum og sé umsvifalaust eftir klikkinu, að hafa gefið þessu hégómaslúðri atkvæði mitt. Það verður víst ekki aftur tekið. Eldsvoðinn er farinn að berast í tal í tístunum á Twitter, með emojis af eldglærum, myndum af vettvangi og stöku bröndurum. Ég hendi einni af myndunum sem ég tók inn í hringrásina. Segi ekkert hnyttið svosem. Bara „Úff!“. Læt það nægja en fæ engin læk, enda bara með 51 fylgjendur.

Daginn eftir les ég ávítanir Lögreglunnar til vegfarenda sem komu á vettvang og virtu lokanir að vettugi og trufluðu störf björgunaraðila. „Slíkt er með öllu ólíðandi og raunar skammarlegt“ segir, réttilega, á heimasíðu Lögreglunnar. Ég vona innilega að ekki sé verið að tala um mig. Ég hélt mig nú allan tíman hinu megin götunnar og passaði eftir fremsta megni að vera ekki fyrir neinum, þótt ég hafi reyndar kannski smellt af nokkrum myndum, tístað smá og hent einhverju á SnapChat og Facebook. Það er ekki laust við að ég skammist mín svolítið en á erfitt með að koma auga á hvar nákvæmlega ég missteig mig. Ég legg frá mér símann og velti fyrir mér: „Hver nákvæmlega ætli séu réttu viðbrögðin við húsbruna á tuttugustu og fyrstu öldinni?“

Viðtal í Orð um bækur í dag

IMG_2052Ég og Hertha María vorum í viðtali í gær fyrir þáttinn Orð um bækur á Rás 1 sem verður útvarpað klukkan 16:05 í dag. Jórunn Sigurðardóttir ræddi við okkur og var farið um víðann völl; rætt um vald og beitingu íslenskrar tungu, smásöguformið og gagnasöfnunina á bak við útgefna sögu, en einnig kynntum við og lásum eilítið úr sögunum okkar tvemur sem komu út hjá Meðgöngumáli í fyrradag. Eins og venjulega stígur maður út úr svona viðtölum hálf-ringlaður og óviss um hvort maður hafi nú misst eitthvað hræðilegt út úr sér svo við skulum bara öll krossa fingur og vona að okkur Herthu hafi tekist að hljóma sæmilega gáfulega. Sögurnar tvær, Vetrarhamur og Þjófasaga, verða fáanlegar í bókabúðum innan skamms. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hérna.

Meðgöngumál nr. 3 & 4 komið út (Vetrarhamur & Þjófasaga)

12841204_1528334487468144_7254710431119128443_o (1)Kærar þakkir til allra þeirra sem sáu sér fært að mæta í gærkveldi, hlýða á upplestur og tónlist og fjárfesta í Meðgöngumáli nr. 3 og Meðgöngumáli nr. 4. Þið sem ekki komust í gærkvöldi skuluð ekki örvænta þar sem mér skilst á Valgerði hjá Partus útgáfunni að Meðgöngumál muni nú fara að finna sér leið í bókabúðir og aðrar slíkar sjoppur (með strikamerki og öllu!). Sérstakar þakkir til ritsjórnarteymisins á bak við Meðgöngumál: Elínu Eddu Pálsdóttur sem ritstýrði sögunni minni, Þjófasögu, og Brynjari Jóhannessyni og Fríðu Ísberg sem ritstýrðu Vetrarhami eftir Herthu Maríu Richardt Úlfarsdóttur. Líka vill ég þakka hönnunarteyminu hjá Partus Press og Grétu Þorkellsdóttur sem sá um umbrotið. Öll umgjörð þessarar útgáfu er svo til fyrirmyndar og alveg einstakt hvernig þeim hefur tekist að gera bækurnar að jafn fallegri vöru og eigulegum grip og þær eru en á sama tíma halda framleiðslukostnaði og verði í algeru lágmarki. Takk fyrir mig, og líka þakkir til York og Sóleyjar fyrir hetjulegar myndir af kvöldinu.

12841260_10154300548384381_3141732287710805154_o

Myndataka York Underwood

1497011_10153951502444351_5195276118397500028_n

Myndataka Sóley

12419285_1528666480768278_6597893661456708044_o

Hertha að lesa (myndataka Partus Press)

IMG_2051

0,2 cm viðbót við höfundaeintakabunkann

IMG_2046 (1) IMG_2047 IMG_2048 IMG_2050

Þjófasaga gefin út hjá Meðgöngumáli

12806125_1526280154340244_2879454409424998964_nNúna á fimmtudaginn koma út hjá Meðgöngumáli örbækurnar Vetrarhamur eftir Herthu Maríu Richardt Úlfarsdóttur og Þjófasaga eftir mig. Meðgöngumál er undirforlag Partus Press sem einbeitir sér að smásöguútgáfu, en í stað þess að gefa út smásögusöfn gefa þau út stakar smásögur í ódýru prenti, svipað og Meðgönguljóð hafa gert við ljóðasöfn. Þjófasaga var unnin í samvinnu við ritstjórann minn hjá Meðgöngumáli, Elínu Eddu Pálsdóttur. Þetta er í raun örævisaga byggð á svipuðum stílfærslum og Níu Líkamar sem var gefin út hjá Tímaritinu Stínu í vetur og þar áður hjá Valve Journal í Glasgow þar sem reynt er að ramma inn heila mannsævi í þeim brotum sem hægt er að raða saman innan í jafn takmörkuðu rými og smásagnaformið er. Það er mikill heiður fyrir mig að fá mína eigin prentútgáfu og vonast ég til að sjá sem flest ykkar á Loft Hostel á fimmtudaginn. Kvöldið hefst klukkan 20:00 og verður afsláttur á barnum fyrir þá sem fjárfesta í bókunum.