HOLDIÐ OG VALDIÐ Á BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK

Han Kan, Kristín Eiríks, Aase Berg og ég. Af einhverjum ástæðum stendur á skjánum að Rosie Goldsmith sé stjórnandi kvöldsins en maður kippir sér svo sem ekki upp við svoleiðis smáatriði.

Ég tók að mér að stýra pallborðsumræðum á Bókmenntahátíð í Reykjavík í ár, líkt og ég gerði á síðustu hátíð fyrir tveimur árum þegar ég ræddi við höfundana Steinunni Sigurðar og David Nicholls. Titill samtalsins í ár var Holdið og valdið (Politics of Flesh) og voru viðmælendur mínir Kristín Eiríksdóttir, sem las úr væntanlega bók sinni Hendur & rætur, sænska súrrealista og femínista ljóðskáldið Aase Berg, en nýjasta bók hennar Hackers nýtir sér táknmyndir sníkjudýra og tölvuvírusa til að hvetja til árása gegn feðraveldinu, og Suður-Kóreski Man-Booker verðlaunahafinn Han Kang, höfundur bókarinnar Grænmetisætan, sem var nýlega gefin út hjá Bjarti, og hinnar mögnuðu Human Acts, sem fjallar um blóðuga uppreisn sem átti sér stað í borginni Gwangju í Suður-Kóreu árið 1980.

Kvöldið gekk vel og voru viðmælendur mínir einkar vel valdir til að ræða um verk sín og hugmyndafræði undir þessum titli. Því miður náði ég lítið að ræða við fólk í salnum eftir á til að heyra hvernig þetta kom allt saman út þar sem ég þurfti að fara beinustu leið heim að pakka. Ég átti flug til Bandaríkjanna snemma morguninn eftir og sökum mikils undirbúnings og álags vikuna fyrir viðburðinn var allt ógert fyrir ferðalagið.

Hægt er að horfa á samtal okkar Kristínar, Aase og Kang á streymisíðu bókmenntahátíðar en samtalið hefst um 1:20:00 bilið. Mér skilst að þau hjá Bókmennthátíðinni ætli að klippa öll viðtölin til og setja á netið og mun ég setja það hér inn þegar þar að kemur.