BÓKADÓMUR UM SMÁGLÆPI Í FRÉTTABLAÐINU

Það birtist bókadómur um Smáglæpi í Fréttablaðinu núna um daginn eftir Magnús Guðmundsson. Ég var mjög sáttur við dóminn og hef lítið hlustað á þá sem segja mér að hægt hefði verið að bæta einni stjörnu eða svo við hann. Að dæma bækur, tónlist, kvikmyndir og önnur listaverk með stjörnugjöf er hvort eð er leiðinleg venja dagblaða sem mig grunar að flestir blaðamenn vildu heldur losna undan og fá fólk til að lesa skrifin sjálf í staðinn. Mér þótt vænt um að Magnús telur “Rekald”, sem er saga sem stingur eilítið í stúf í safninu sökum stíls og frásagnarmáta, vera sterkasta saga safnsins. Í þeirri sögu tók ég ýmsar áhættur og fór út fyrir þægindaramma minn. Það er gleðilegt að sagan hafi getað staðið undir þeirri tilraunamennsku. Hingað til hafa flestir helst talað um fyrstu söguna, “Barnalæti”, sem sterkustu sögu safnsins, líkt og gert var í dómi Kvennablaðsins núna um daginn, og þykir mér vænt um að Rekald og aðrar óhefðbundnari sögur, líkt og “Tveir Refir” sem einhver minntist á við mig nýlega, fái einnig að njóta athygli lesenda.