SMÁGLÆPIR ER KOMIN ÚT

Það eru mikil gleðitíðindi að segja frá því að um þessar mundir er verið er að dreifa bókinni Smáglæpir eftir sjálfan mig í allar betri bókaverslanir.

Smáglæpir er gefin út af útgáfufélaginu Sæmundi og samanstendur af sjö sögum úr úthverfum Reykjavíkur þar sem skoðaðar eru ákvarðanir sem ekki verða aftur teknar og eftirsjá sem varir út ævina. Persónurnar bera sekt sína í einrúmi þar til hún er orðin að þráhyggju sem hvorki er hægt að gangast við né leita sér aflausnar á. Þetta eru smáglæpirnir: tilfinningasárin sem við völdum, tækifærin til að breyta rétt sem við misstum af, orðin sem við létum ósögð.

Tvær af sögunum hafa áður birst í TMM, þó ekki í alveg sömu mynd, en hinar fimm hafa ekki komið út áður. Allar deila sögurnar ákveðnum efnistökum. Það er mikill léttir að vera loks að senda þær frá sér, enda hef ég lengi verið að rogast með þær og sérstaklega lagt til mikla nákvæmnisvinnu í lokahnykkinum undanfarið ár.

Efnt verður til háleynilegs útgáfuhófs á næstunni til að fagna útgáfu bókarinnar. Svo verður líka stærri útgáfuhátíð í lok júlí og mun sú uppskeruhátíð einnig snúa að útgáfu bókarinnar Pínulítil kenopsía: Varúð, hér leynast krókódílar eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur sem Sæmundur er líka að dreifa í búðir núna í vikunni.

Þeir sem vilja tryggja sér eintök skulu hafa samband í gegnum netfangið bjornhalldorssonis@gmail.com eða senda mér prívat skilaboð á Facebook, en einnig verður bókin til sölu í útgáfuhófinu og í Eymundsson og öðrum bókabúðum.