VIÐBURÐIR OG UPPLESTRAR Í DESEMBER

Jæja, ég er búinn að pakka í töskur og verð mættur á klakann eldsnemma í fyrramálið, þriðjudaginn 5. des, til að fylgja Smáglæpum úr hlaði inn í jólabókaflóðið. Þeir eru svosem ekki margir desember viðburðirnir en þó mun ég eitthvað vera að lesa upp og þusslags ásamt öðrum höfundum hér og þar í Reykjavík og meira að segja líka á Selfossi.

Dagsetningar eru sem hér stendur:

Fimmtudagurinn 7. des kl. 17:00, Jólabókagleði Kirsuberjatrésins, Vesturgötu 4

Jólabókagleði Kirsuberjatrésins heldur áfram! Aðrir höfundar sem lesa eru Halldór Armand, sem mun lesa úr skáldsögunni Aftur og aftur, Jóga, sem mun lesa úr bókinni Þúsund Kossar (rituð af Jóni Gnarr), og Elísa Jóhannsdóttir, sem mun lesa úr bók sinni Er ekki í lagi með þig?, sem hlaut barnabókarverðlaunin í ár.

Fimmtudagur 7. des kl. 19:00, Útgáfufögnuður ÓS Press í Gröndalshúsi

Um sjö leitið, beint á eftir jólabókagleðinni og hinum megin við hornið frá Kirsuberjatrénu, fagnar ÓS Press útgáfu á öðru hefti af tímariti þeirra, ÓS — The Journal í Gröndalshúsi í Grjótaþorpinu. Ég á litla og kvika sögu í heftinu sem heitir Þetta er allt í lagi — og mætti næstum segja að þar sé um hálfgerða hryllingssögu að ræða — og mun ég lesa hana fyrir gesti.

ÓS Press vinnur mikið og gott og — umfram allt — launalaust starf við það að koma á framfæri bókmenntalegum jaðarröddum úr samfélaginu, og hafa þannig skapað rými fyrir öfluga grasrót sem þrífst ekki innan íslenska útgáfubransans um þessar mundir. Því vil ég benda fólki á söfnunarátak Ós á Karolina Fund, þar sem reynt er að stemma stigu við eitthvað af prentkostnaðinum og starfsframlaginu á bak við þessa útgáfu.

Þriðjudagur 12. des kl. 20:00, Höfundakvöld á C is for Cookie, Týsgötu 8

Kaffihúsið C is for Cookie á Týsgötu stendur fyrir upplestrarkvöldum fram að jólum í ár og mun ég taka þátt í einu slíku þann 12 des klukkan 20:00. Ég er ekki kominn með það á hreint hverjir fleiri eru á dagskrá það kvöld en það skýrist þegar nær dregur.

Fimmtudagur 14. des kl. 20:00, Höfundaupplestrar á Bókakaffinu á Selfossi, Austurvegi 22

Eins og venjulega stendur Bókakaffið á Selfossi, höfuðstöðvar Sæmundar, útgefanda míns, fyrir vikulegum upplestrarkvöldum höfunda útgáfunnar alveg fram að jólum. Það er kósý og heimilisleg stemmning á þessum kvöldum, eins og í öllu sem viðkemur Bókakaffinu og Sæmundi, og mun ég lesa þar upp ásamt fleiri höfundum á vegum útgáfunnar fimmtudaginn 14. des. Húsið opnar klukkan 20:00 en upplestrar hefjast um 20:30, svo allir hafi nú örugglega tíma til að ná sér í vöfflu og kaffi.

Laugardagur 16. des kl. 14:00, Höfundasíðdegi í Bóksölu stúdenta, Sæmundargötu 4

Bóksala stúdenta stendur fyrir eftirmiðdags höfundaupplestrum í desember og mun ég stíga þar á stokk þann 16. desember klukkan 14:00 ásamt Jónasi Reyni Gunnarssyni (Millilendingin), Yrsu Þöll Gylfadóttur (Móðurlífið – Blönduð tækni), Oddný Eir Ævarsdóttur (Undirferli) og Úlfari Bragasyni (Frelsi, menning, framför). Er ég mjög hreykinn af því að vera boðið með í svo fríðan flokk.

Það er allt og sumt sem komið er á dagskrá í desember en ekki hika við að hafa samband í gegnum Facebook eða bjornhalldorssonis@gmail.com varðandi aðra upplestra eða uppákomur fram að jólum.

Hlakka til að sjá ykkur!

-BH