BÓKADÓMUR UM SMÁGLÆPI Í KILJUNNI

 

Smáglæpir voru til umræðu í Kiljunni í gærkvöldi. Ég er bara býsna sáttur við það sem Kolbrún Bergþórs og Sigurður Valgeirsson höfðu fram að færa um bókina. Þau voru sammála um að sem fyrsta bók teljist þetta vera mjög vel gert. Sigurður minntist sérstaklega á söguna „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og hrósaði myndmáli hennar og sagði meðal annars:

„[Björn] sprettur fram sem mjög fær höfundur í þessari bók … Maður getur fullyrt að hann á eftir að skrifa fleiri og betri bækur.“

Kolbrún tók í sama streng og sagði meðal annars:

„Það er svo margt undir yfirborðinu. Það eru brotnar fjölskyldur, það er grimmd og það eru glæpir, og stundum engir smáglæpir … Honum tekst vel að lýsa fólki. Það er margt þarna sem er dálítið sjokkerandi. Þetta virðist vera frekar kyrrt á yfirborðinu en svo koma svona lítil atvik … og maður allt í einu hrekkur við og hugsar: „Hvað er ég að lesa!?““

SMÆGLÆPIR VÆNTANLEGIR Í INNBUNDNU BROTI

Nú styttist í að önnur prentun af Smáglæpum skili sér úr prentsmiðju. Þessi nýja útgáfa bókarinnar verður í innbundnu broti. Hún er væntanleg í búðir í lok október en auk þess að vera í nýju broti verður eftirfarandi umsögn frá Úlfari Þormóðssyni rithöfundi prentuð á kápuna:

„Þetta er besta efni sem ég hef séð um langa hríð; Björn er lágstemmdur, tilgerðarlaus, málsnjall og hugmyndaríkur; kann að nota íslenskt mál.“

Þakka ég Úlfari kærlega fyrir hólið, sem mér þykir alveg ógurlega vænt um. Ég kem aftur til Íslands 4. des til að taka þátt í jólabókaflóðinu en eins og venjulega er hægt að hafa beint samband í gegnum netfangið bjornhalldorssonis@gmail.com.