VIÐTAL Í SUNNUDAGSMOGGANUM

Í Sunnudagsmogga helgarinnar er að finna viðtal sem Árni Matt tók við mig. Viðtalið snertir á hinu og þessu en snýst aðallega um Smáglæpi og starfið sem liggur á bak við bókina. Viðtalið var ánægjuleg upplifun og er ég mjög sáttur við útkomuna en þarf þó að taka fram að ég hef aldrei útskrifast frá Háskóla Íslands né nokkurn tímann lagt stund á neitt nám þar. BA gráðan mín í enskum og amerískum bókmenntum er frá UEA, Háskóla East-Anglia héraðs í Norwich, Englandi. Það hefur eitthvað skolast til, en skiptir svosem ekki miklu máli.

 

HÖFUNDAEINTAK AF EFFE NUMERO SETTE KOMIÐ Í HÚS

Það vakti mikla lukku á heimilinu um daginn þegar höfundaeintakið mitt af sjöunda hefti ítalska bókmenntatímaritsins Effe barst í bósti, en í sögunni er að finna ítalska þýðingu smásögunnar “Þjófasaga” sem ég gaf út í Meðgöngumálaseríu Partus útgáfunnar í mars 2016. Þýðingin ber heitið “Storia di una ladra” og er eftir Francescu Ritu di Berardino en sögunni fylgdi einni falleg myndskreyting eftir Sunnu Rún Pétursdóttur. Það er augljóst að Effe er einstaklega metnaðarfullt blað hvað varðar hönnun og framsetningu hins ritaða efnis og er það mér mikill heiður að fá að vera með.

SMÁGLÆPIR FÁ ÞRJÁR OG HÁLFA STJÖRNU Í DV

Smáglæpir fékk þrjár og hálfa stjörnu í helgarblaði DV núna á föstudaginn. Stjörnunum fylgdi heilsíðu bókadómur og þessi spekingslega mynd af sjálfum mér sem tekin var í bókasafnssal Þjóðmenningarhússins. Dómurinn og stjörnugjöfin er mér að sjálfsögðu mikið gleðiefni, en sérstaklega finnst mér skemmtilegt að Ágúst Borgþór nefnir söguna “Ef þið hefðuð hringt” og hrósar henni. Enn og aftur hefur fólk skiptar skoðanir um sterkustu sögur safnsins, sem þýðir vonandi að lesendur séu að upplifa ólíka hluti við lestur sagnanna. Rithöfundur getur ekki óskað sér betra hóls.

BÓKADÓMUR UM SMÁGLÆPI Í FRÉTTABLAÐINU

Það birtist bókadómur um Smáglæpi í Fréttablaðinu núna um daginn eftir Magnús Guðmundsson. Ég var mjög sáttur við dóminn og hef lítið hlustað á þá sem segja mér að hægt hefði verið að bæta einni stjörnu eða svo við hann. Að dæma bækur, tónlist, kvikmyndir og önnur listaverk með stjörnugjöf er hvort eð er leiðinleg venja dagblaða sem mig grunar að flestir blaðamenn vildu heldur losna undan og fá fólk til að lesa skrifin sjálf í staðinn. Mér þótt vænt um að Magnús telur “Rekald”, sem er saga sem stingur eilítið í stúf í safninu sökum stíls og frásagnarmáta, vera sterkasta saga safnsins. Í þeirri sögu tók ég ýmsar áhættur og fór út fyrir þægindaramma minn. Það er gleðilegt að sagan hafi getað staðið undir þeirri tilraunamennsku. Hingað til hafa flestir helst talað um fyrstu söguna, “Barnalæti”, sem sterkustu sögu safnsins, líkt og gert var í dómi Kvennablaðsins núna um daginn, og þykir mér vænt um að Rekald og aðrar óhefðbundnari sögur, líkt og “Tveir Refir” sem einhver minntist á við mig nýlega, fái einnig að njóta athygli lesenda.