VIÐTAL Í MANNLEGA ÞÆTTINUM Á RÁS 1 (VARÚÐ: SPOILERS!)

Ég fór í viðtal hjá Lísu Páls í Mannlega þættinum á Rás 1 að því tilefni að verið var að gefa út Smáglæpi, mína fyrstu bók, í vikunni. Við ræddum ritstarfið og feluleikina sem því fylgja, útlegðina til Long Island, smásögur og hvers þær eru megnugar og ýmislegt fleira. Tekið skal fram fyrir þá sem ekki hafa lesið fyrstu söguna í Smáglæpum, Barnalæti, að í viðtalinu leynast einhverjir spoilerar, og því kannski betra að kíkja á hana fyrst. Ef ykkur vantar eintak skulið þið ekki hika við að hafa samband. Þátturinn birtist upphaflega á Sarpinum, vef Ríkisútvarpsins, þann 28. júní 2017 og ætti að vera aðgengilegur þar í heild sinni enn um sinn.

SMÁGLÆPIR ER KOMIN ÚT

Það eru mikil gleðitíðindi að segja frá því að um þessar mundir er verið er að dreifa bókinni Smáglæpir eftir sjálfan mig í allar betri bókaverslanir.

Smáglæpir er gefin út af útgáfufélaginu Sæmundi og samanstendur af sjö sögum úr úthverfum Reykjavíkur þar sem skoðaðar eru ákvarðanir sem ekki verða aftur teknar og eftirsjá sem varir út ævina. Persónurnar bera sekt sína í einrúmi þar til hún er orðin að þráhyggju sem hvorki er hægt að gangast við né leita sér aflausnar á. Þetta eru smáglæpirnir: tilfinningasárin sem við völdum, tækifærin til að breyta rétt sem við misstum af, orðin sem við létum ósögð.

Tvær af sögunum hafa áður birst í TMM, þó ekki í alveg sömu mynd, en hinar fimm hafa ekki komið út áður. Allar deila sögurnar ákveðnum efnistökum. Það er mikill léttir að vera loks að senda þær frá sér, enda hef ég lengi verið að rogast með þær og sérstaklega lagt til mikla nákvæmnisvinnu í lokahnykkinum undanfarið ár.

Efnt verður til háleynilegs útgáfuhófs á næstunni til að fagna útgáfu bókarinnar. Svo verður líka stærri útgáfuhátíð í lok júlí og mun sú uppskeruhátíð einnig snúa að útgáfu bókarinnar Pínulítil kenopsía: Varúð, hér leynast krókódílar eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur sem Sæmundur er líka að dreifa í búðir núna í vikunni.

Þeir sem vilja tryggja sér eintök skulu hafa samband í gegnum netfangið bjornhalldorssonis@gmail.com eða senda mér prívat skilaboð á Facebook, en einnig verður bókin til sölu í útgáfuhófinu og í Eymundsson og öðrum bókabúðum.

 

ÞJÓFASAGA KEMUR ÚT Á ÍTÖLSKU

Höfundaréttur: Veronica Cerri

Þjófasaga, sem kom út í Meðgöngumálaseríu Partus útgáfunnar árið 2016 undir ritstjórn Elínar Eddu Pálsdóttur, var nýverið gefin út í sjöunda og nýjasta hefti ítalska bókmenntatímaritsins Effe. Effe er á vegum Flanerí útgáfunnar þar í landi og heitir sagan á ítölsku Storia di una ladra. Heftið er helgað þýðendum og er þar að finna sögur hvaðanæva úr heiminum sem hafa verið þýddar yfir á ítölsku en auk mín eru höfundar frá Bandaríkjunum, Brasilíu, Tékklandi, Frakklandi og Úrúgvæ.

Sérstaklega skemmtilegt er að fólkið á bak við útgáfuna vildi láta myndskreytingu frá heimalandi höfundarins fylgja hverri sögu. Ég var því svo heppinn að þau hjá Effe höfðu samband við Sunnu Rún Pétursdóttur sem bjó til þessa fallegu mynd hér fyrir neðan út frá efni sögunnar.

Höfundaréttur: Sunna Rún Pétursdóttir

Annars kom ég lítið að þýðingunni og vinnunni á bak við að koma sögunni inn í tímaritið. Það framtak er að fullu á vegum Francescu Ritu di Berardino sem þýddi söguna. Ég þurfti varla að skipta mér neitt af því starfi nema þá að svara einstaka spurningum hennar um efnið og áferð og útlit hins ímyndaða heims sögunnar. Ég gæti ekki verið ánægðari og montnari af frágangi verksins, en tímaritið er augljóslega rekið af miklum metnaði og það er mikill heiður að hafa fengið að vera með.

Ef einhver hefur áhuga á að festa kaup á eintaki af Effe þá er hægt að nálgast það hér.