TMM KOMIÐ Í BÓKABÚÐIR

Gott að eiga góða að
Gott að eiga góða að

Nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar er núna komið í bókabúðir. Ég á smásöguna „Barnalæti“ í heftinu en hana verður líka að finna í væntanlegu smásögusafni mínu Smáglæpir, sem kemur út í haust.

Fjársjóðsfundur í bókasafnsbókabúðinni í Port Jeff

IMG_3467Bókasafnsbókabúðin í Port Jeff borgar sig enn og aftur. Tókum líka með af rælni eina rómansbók sem ber heitið Crossing Washington Square og er eftir Joanne Rendell. Hún einfaldlega seldi sig svo hrikalega vel á baksíðunni; með ástarþríhyrningi sem gerist við háskóla í New York þar sem prófessor í Silvíu Plath fræðum og prófessor í skvísubókmenntum berjast um hylli bresks og myndarlegs heimsóknarfyrirlesara.

„He made a herringbone sports coat look like one of the sexiest clothing items Rachel had ever seen.“

Conversation Guide Included.

Ann Patchett – This is a Story of a Happy Marriage

patchVið hjónin nældum okkur í notað eintak af þessari yndislegu bók eftir Ann Patchett á tvo dollara í bókasafnsbókabúðinni í Port Jeff um daginn. Bókin safnar saman helstu greinum Patchett en megnið af þeim skrifaði hún snemma á ferlinum fyrir hin og þessi blöð – Seventeen, Gourmet, jafnel Mercedes Benz Magazine – til að eiga í sig og á á meðan hún bisaðist við að skrifa skáldsögur og smásögur og annað efni sem gaf lítið eða ekkert í aðra hönd. Inngangur bókarinnar hefst á eftirfarandi orðum sem ég hugsa að ég eigi eftir að horfa til oftar en ekki þegar erfitt er að láta enda ná saman eða þegar ég bisast við að skrifa sögu eða annan texta án þess að hafa hugmynd um hvað ég muni gera við efnið og hvort ég fái vinnuna nokkurn tímann borgaða.
 
“The tricky thing about being a writer, or about being any kind of artist, is that in addition to making art you also have to make a living. My short stories and novels have always filled my life with meaning, but, at least in the first decade of my career, they were no more capable of supporting me than my dog was. But part of what I love about both novels and dogs is that they are so beautifully oblivious to economic concerns. We serve them, and in return they thrive. It isn’t their responsibility to figure out where the rent is coming from.” (Ann Patchett, This is the Story of a Happy Marriage, s. 3)

BARNALÆTI Í TMM

tmm 1.17
Ég á söguna Barnalæti í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. Sagan er ein af sjö smásögum sem verða í bók minni Smáglæpir sem mun koma út hjá bókaútgáfunni Sæmundi núna í haust. Útgáfa bókarinnar er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta en smásagnasafnið hlaut Nýræktarstyrk árið 2016. Hér að neðan má finna brot úr sögunni.


BARNALÆTI

Þetta var sumarið þegar ég varð tíu ára og við vorum nýflutt í Hafnarfjörð. Löngu áður en þau skildu og allt gerðist sem á undan því fór. Nýja húsið var hvítt tveggja hæða raðhús, spánnýtt og úr steypu svo að það brakaði ekki í því eins og gamla húsinu okkar. Skólinn var ekki byrjaður og ég hafði ekkert að gera og þekkti engan í hverfinu. Þau voru strax farin að rífast meira. Höfðu verið svo viss um að allt myndi batna í borginni. Bæði komin með vinnu og mamma alltaf að tala um gamlar vinkonur sem höfðu flust í bæinn á undan henni. Svo frestaðist eitthvað fyrsti dagurinn hennar í nýju vinnunni svo að hún var föst heima með mér, innan um allt dótið sem átti eftir að koma fyrir. Þau höfðu misreiknað stærðina á húsinu. Öll herbergin voru full af kössum og húsgögnum. Búslóðin miklu stærri en hægt var að koma fyrir í litlu raðhúsi. Þetta var eins og að búa í geymslu. Það höfðu líka verið fleiri veggir í gamla húsinu okkar og myndir og málverk hölluðu að veggjunum þar sem ætlunin var að hengja þau upp. Þau rifust mikið um hvaða mynd ætti að hanga hvar. Í gamla húsinu fóru þau alltaf inn á skrifstofuna hans pabba til að rífast en það var ekkert aukaherbergi hér svo að í staðinn fór ég inn í mitt herbergi eða út í garð.

Garðurinn var lítill og ferkantaður með hárri girðingu sitt hvoru megin til að skýla manni fyrir nágrönnunum, en við garðshornið hafði girðingin lotið í lægra haldi fyrir náttúrunni sem virtist vera á góðri leið með að taka yfir allan garðinn og kannski húsið sjálft ef ekkert yrði að gert. Þetta var þétt trjáþykkni, illgresi, fíflar, runnar, þyrnar og brenninetlur. Fyrst eftir að við fluttum talaði pabbi mikið um að taka garðinn í gegn, hreinsa burt runnana, snyrta trén og setja upp nýja girðingu, en hann dreif aldrei í því á meðan við bjuggum þar. Í staðinn lét hann sér nægja að slá þráðbeina línu fyrir framan óreiðuna við garðshornið.

Sumarið sem við fluttum var mjög hlýtt. Grasið í garðinum var gul sina sem lá á jörðinni eins og henni hefði verið dreift með sópi til að fela þurra moldina. Ég var úti að bíða eftir að enn eitt rifrildið rynni sitt skeið og dundaði mér við að teikna munstur í þurran jarðveginn með skósólunum, og reyndi að herma eftir flóknu merkjunum sem ég hafði lesið um í Ótrúlegt en satt og birtast stundum á kornökrum í Bandaríkjunum eftir strandaðar geimverur að reyna að senda SOS skilaboð til vina sinna úti í geimi. Litli garðurinn var allur orðinn útstrikaður og mig var farið að gruna að ég myndi lenda í vandræðum þegar pabbi og mamma sæju sköpunarverkið. Það var þá sem ég heyrði fyrst hljóðið handan við óræktina við garðshornið. Það var einhver þar að bölva af mikilli innlifun. Ég gekk á hljóðið og reyndi að gægjast á milli kræklóttra trjánna. Raddirnar sem bárust út um bakdyrnar voru orðnar háværari og af einskærum vilja til að komast í burtu frá þeim hóf ég að brjóta mér leið í gegnum gróðurþykknið. Brátt voru sköflungarnir orðnir rauðir eftir brenninetlurnar og ég var með frækorn í hárinu og fingurna klístraða af fíflamjólk. Blótsyrðin handan við trén höfðu þagnað en þegar ég smeygði mér undir síðustu greinarnar stóð fyrir framan mig strákur á mínu reki sem horfði á mig með eftirvæntingu, eins og hann hefði heyrt mig nálgast og verið að bíða eftir mér.

„Hæ!“ sagði hann.

„Hæ,“ sagði ég.

„Geturðu hjálpað mér?“ spurði hann.

„Með hvað?“ spurði ég varfærnislega. Hann lyfti hendi til að sýna mér. Svört rafmagnssnúra var vafin þétt um hana og yfir hnúana. Hvít rafmagnskló danglaði við úlnliðinn. Hann kippti til hendinni eins og hann væri með svipu og rafmagnssnúran bugðaðist eftir jörðinni og ég sá að hún var tengd við afturendann á gömlu sjónvarpi sem lá í grasinu skammt frá okkur. Hann tók báðum höndum um snúruna og hallaði sér aftur til að toga, kom henni síðan fyrir yfir öxlina og streittist við. Sjónvarpið ruggaði, dróst aðeins eftir jörðinni en sat svo fast. Hann togaði af öllum kröftum og gaf frá sér runu af blótsyrðum en sjónvarpið haggaðist ekki. Á endanum rétti hann úr sér og henti frá sér snúrunni. Klóin lenti í miðjum skjánum svo að söng í. Hann hrækti.

„Æi, það skiptir svo sem ekki máli. Við eigum aldrei eftir að geta borið það alla leið,“ sagði hann, vonsvikinn.

„Hvert ætlarðu með það?“ spurði ég og gekk að sjónvarpinu. Skjárinn virtist heill en kassinn var allur rispaður og skemmdur eftir tilraunir hans til að draga það á eftir sér. „Ætlarðu að láta laga það?“ spurði ég.

Hann leit á mig eins og hann hefði aldrei heyrt neitt vitlausara. „Nei, ég ætla að sprengja það.“

Það fór um mig fiðringur. „Í alvöru?“ spurði ég.

„Það kemur hljóð þegar skjárinn brotnar.“ Hann þrýsti lófunum saman, kippti þeim svo í sundur og gaf frá sér hljóð eins og þegar pabbi kveikti á gasgrillinu okkar. „Stundum kemur blossi líka en ég held að það sé bara ef það er í sambandi.“

„Hvernig ætlarðu að brjóta skjáinn?“ spurði ég. Ég svipaðist um og sá ekkert í grenndinni sem mér sýndist hægt að nota. Við vorum stödd í einskismannslandi sem lá á milli garðanna í götunni okkar og næstu götu. Líklega hafði einhverntímann verið stígur í gegn en honum hafði verið lokað í sitthvorn endann með úrsérgenginni vírgirðingu öðru megin og runnum hinu megin. Fólki hafði sennilega ekki litist á tilhugsunina um að hægt væri að sniglast um bakatil hjá þeim.

„Ég ætla ekki að gera það hér,“ sagði hann. „Ég er búinn að finna stað. Það er samt svolítið langt í burtu og fyrst verðum við að koma því þangað.“ Hann setti annan fótinn ofan á sjónvarpið eins og veiðimaður í Afríku að stilla sér upp fyrir ljósmynd við skrokkinn á nýskotnu dýri. „Þetta væri ekkert mál ef við værum með hjólbörur. Á pabbi þinn hjólbörur?“

„Nei,“ sagði ég og bætti svo við, „við erum nýflutt hingað,“ til að afsaka mig.

„Við verðum að redda hjólbörum,“endurtók hann. „Veistu hvort einhver nágranni ykkar á hjólbörur?“

Ég hristi hausinn. Ég hafði gert ráð fyrir að hann væri úr hverfinu en það var ólíklegt úr því að hann var að spyrja út í nágrannana. Á sumum görðunum voru há grindverk með hliði eða hurð og hann hóf að ganga á milli og gægjast í gegnum rifurnar.

„Hjálpaðu mér að leita,“ sagði hann. „Ef þú sérð hjólbörur þá get ég klifrað yfir og sótt þær. Við skilum þeim seinna.“

Ég gerði eins og hann sagði og hljóp á milli girðinganna mín megin í von um að finna hjólbörurnar á undan honum. Loks sá ég glitta í stál í háu grasinu og gaf frá mér óp af spenningi. „Ég fann þær!“ kallaði ég. Hann kom á harðahlaupum til mín og ýtti mér til hliðar til að gægjast í gegnum glufuna á dyrunum. Svo sneri hann sér að mér, skælbrosandi. „Fullkomið!“ sagði hann. Hann ýtti öxlinni í hurðina en hún haggaðist ekki. „Gefðu mér fótstig.“ Ég beygði mig niður og fléttaði greipar. Hann setti annan fótinn í lófann og studdi sig með báðar hendur á bakinu á mér. Þegar hann steig í rétti ég úr mér og ýtti á eftir af öllum kröftum og honum tókst að ná taki efst á girðingunni og krafsa sig upp yfir toppinn. Ég heyrði hann lenda með dynki hinu megin. Það var andartaks þögn og svo heyrði ég að boltinn á hliðinu var dreginn til baka. Hurðin opnaðist og hann kom út, labbandi aftur á bak og með hjólbörurnar í eftirdragi.

„Núna verður þú að hjálpa mér,“ sagði hann.