#1: ALLT ER DRASL

Ég byrjaði á ritlaunum núna fyrsta mars og af því tilefni ákvað ég að flikka aðeins upp á heimasíðuna.

Reyndar var meira sem kom til, þar sem ég uppgötvaði um daginn að heimasíðan mín var horfin. Þegar ég reyndi að opna hana var mér beint inn á síðu með huggulegri skjámynd og fyrirsögninni SUSPENDED PAGE. Ég fór umsvifalaust í panikk og gerði ráð fyrir að allt mitt slugs varðandi öpdeit og fleira hefði nú loks komið mér í koll. Ég hef nefnilega aldrei verið neitt sérstaklega fær í því að dútla við þessa síðu, þótt að hún sá að verða tíu ára á næsta ári. Lénið og síðan sjálf var gjöf frá systur minni, stuttu eftir að ég kom heim úr ritlistarnáminu í Glasgow.

Ég man að ég var með miklar pælingar fyrst eftir að ég gerði síðuna public, eftir að hafa tekist að skjögra í gegnum uppsetningarferlið og bæta við einhverju template-i sem fylgdi frítt með. Ég ætlaði að byrja að blogga og vera með sérstakan flipa fyrir hverskyns örsögur og tilraunamennsku. Ég fylgdi engu af þessu eftir. Þess í stað breyttist síðan í einskonar ítarlega ferilskrá, þar sem ég hélt utan um nýjustu vendingar og það sem mér hafði tekist að gefa út eða koma í verk í gegnum tíðina. Það hefur reynst ágætt að hafa allt það efni á einum stað til að fletta í gegnum, ekki síst þegar ég er í viðjum septembers sálarinnar og efast um allt sem ég geri. Meginástæða þess að ég fór aldrei að pósta reglulega á þessa síðu er þó að ég er, og hef alltaf verið, óöruggur þegar kemur að því að tjá mig í rituðu máli á íslensku. Ég veit að þetta hljómar asnalega. Ég hef meira og minna fengist við nákvæmlega það síðustu árin, en þetta óöryggi er eitthvað sem hefur óneitanlega mótað mig og stíl minn sem höfundur.

Ég fór ungur að lesa á ensku. Pabbi narraði mig í það með því að segja mér alla bestu brandarana í Hitchhiker’s Guide to the Galaxy og láta mig síðan hafa slitna eintakið sitt svo ég gæti spreitt mig við enska textann. Þetta var nóta bene áður Kristján Kristmannsson tók sig til og þýddi bókina og gaf út með titlinum Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina. Ég hef verið svona kannski þrettán ára gamall þegar ég stautaði mig í fyrsta sinn í gegnum þessa frægustu bók Douglas Adams. Fyrir utan bækurnar sem mér var úthlutað í skólanum – Djöflaeyjan, Fátækt fólk og auðvitað Innansveitarkronika, sem var skyldulestur fyrir 9. bekk í Gaggó Mos – man ég varla eftir að hafa lesið bók á íslensku næstu tíu árin eða svo. Líklega hafði það eitthvað að gera með þá sérstöku blöndu af óöryggi og besservissma sem einkennir unglinga/ungt fólk – og sérstaklega stráka. Ég taldi víst og sannað að íslenskar bækur væru leim og leiðinlegar og að engir íslenskir höfundar jöfnuðust á við Palahniuk, Irwine Welsh, Italo Calvino, Neal Stephenson og William Gibson. (Já, ég las bara karla á þessum árum, eins og ég hef skrifað um áður). Ég kláraði menntaskóla, og las þar nokkrar íslendingasögur og meiri Laxness, en eftir það fór ég beint í nám í breskum og bandarískum bókmenntum í Englandi, og síðan, eftir nokkur góð auðnuleysingjaár þar sem ég fékkst mestmegnis við þjónustustörf og djamm, í ritlistarnám við háskólann í Glasgow. Það var ekki mikið um íslenskar bækur í þessu námi öllu.

Þegar ég sneri aftur heim til Íslands að náminu loknu og hugðist loks byrja að skrifa á íslensku þurfti ég því að byrja á núlli; taka sögurnar sem ég hafði haft svo mikið fyrir að pússa og slípa með ritlistarhópnum mínum í Glasgow og snara þeim yfir á óvandaða og kommuþvælda íslensku. Með hjálp frá vinum og vandamönnum og fleiri yfirlesurum tókst mér á endanum að koma ypsilonum á réttan stað og ná kommusetningunni, ja svona nokkurn veginn. Sögurnar enduðu að lokum í Smáglæpum, minni fyrstu bók, sem hlaut nýræktarstyrk og ég er ennþá mjög stoltur af, ekki síst vegna þess að ég veit hve ótrúlega langan tíma það tók að koma efni bókarinnar í útgáfuhæft form. Reyndar er ég viss um þetta fyrsta heila uppkast af Smáglæpum, sem ég handskrifaði upp úr ensku Word-skjölunum til að reyna að rjúfa algjörlega tengslin á milli tungumálanna, var efalaust ekki eins hræðilegt og ég upplifði það þá. Óöryggi mitt gagnvart íslenskunni lét allt líta út fyrir að vera tífalt verra en það var.

Þetta sama óöryggi gerði það að verkum að mér hraus hugur við að hrista saman smá texta á íslensku og henda honum sísvona út í algleymið. Í hvert sinn sem ég settist niður til að sjóða saman eitthvað sem kalla mætti “blogg” var ég svo hræddur um að það kæmist upp um mig sem “ekki nógu góðan íslensku mann” að ég eyddi jafn miklum tíma í yfirlestur og lagfæringar og ég gerði við sögurnar sem ég var að reyna að koma inn í TMM. Ég var skíthræddur við að skrifa illa. Sem er fyndið, þar sem ég hef oft básúnað mikilvægi þess að skrifa illa. Allt er drasl til að byrja með. Eini munurinn á höfundinum sem klárar handritið og höfundinum sem yfirgefur það er að sá fyrri þorði að skrifa illa lengur.

Ég hef því ákveðið að fari í dálítið átak við að skrifa illa á næstu mánuðum og æfa mig í að rumpa hlutum af. Mér er nú þegar að mistakast það herfilega. Ég er búinn að lesa textann hér að ofan allt of oft yfir og slá upp hinum og þessum orðum í BÍN og nútímamálsorðabókinni og eyða þannig góðum skerf af þeirri takmörkuðu orku sem ég hef í mér til að skrifa á degi hverjum. Orku sem hefði efalaust verið betur varið í yfirlestur á handritinu að nýju skáldsögunni sem ég er að vonast til að geta lagt inn til Forlagsins á næstu vikum.

Hér finnst mér ég knúin til að setja inn einhverja niðurstöðu; einhvern punkt sem mér þykir draga snyrtilega saman allt sem ég hef verið að impra á hér að ofan.

En ég ætla ekki að gera það.

Bókamessan 2022

Bókamessan var loksins haldin aftur í Hörpu í ár, í fyrsta sinn eftir Covid. Það var synd að þessi árlegi viðburður, sem virtist vera rækilega kominn á kortið þegar ég mætti þar síðast, virtist aðeins hafa dottið út úr haustrútínunni hjá fólki, og maður heyrði oft kvartað á básunum um að það væri ekki eins góð mæting og síðast. Engu að síður var fullt af fólki þarna og mikil stemmning. Ég náði þó einungis að njóta hennar litlum hluta þar sem helgin reyndist vera hálfgerð vinnutörn fyrir mig.

Á laugardaginn ræddi ég við heilann flota af höfundum og leikurum/lesurum fyrir Storytel á básnum þeirra, þ.á.m. Júlíu Margréti, Emil Hjörvar og sjálfan Ólaf Ragnar Grímsson. Þetta var um þriggja tíma törn með tuttugu mínútna spjalli eða svo við hvern höfund og lesara, og segja má að ég hafi verið alveg útkjaftaður í lok dags. Ég þurfti þó að hrista það af mér og mæta aftur daginn eftir til að sjá um smásögupanel fyrir Bókmenntaborgina, þar sem ég ræddi við höfundana Maríu Elísabet Bragadóttur, Örvar Smárason og Guðjón Baldursson, sem öll hafa nýlega gefið út smásögusöfn, og Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur, sem hefur þýtt fjöldann allan af smásögum og ritstýrt söfnum og sýnisbókum um smá- og örsögur frá öðrum menningarheimum. Panellinn gekk vel og fór vel á með okkur, en hægt er að horfa á hann í heild sinni á Facebook.

BÆ BÆ DAVÍÐSHÚS

Höfundur í hlaupagallanum

Kveð hús Davíðs Stefánssonar með handrit sem er nokkrum köflum lengra en það var þegar ég mætti fyrir 7 dögum síðan. Dvölin hefur verið ljúf þótt það hafi verið erfitt að halda sig innandyra við tölvuskjáinn í veðurblíðunni, en amk var hægt að verðlauna sig í lok dags með því að fara út að hlaupa eða sóla sig í sundi – eða með því að drekka rauðvín á sófanum og horfa á Mike Leigh myndir. Bæði var gert í réttum hlutföllum.

Dvöl í Davíðshúsi 2022

Mættur að nýju norður í Davíðshús til að vinna í handriti sem ég hófst handa við hér undir þessum kjallaraglugga síðast í nóvember – eftir nokkur ár af því að hripa hluti niður í glósubækur (hvenær sem tími gafst) og hugsa um persónurnar og afdrif þeirra (hvenær sem ég hafði ekki eitthvað annað og meira ákallandi til að hugsa um). Þetta mjakast.

PISTILL Í VÍÐSJÁ: (MÖGULEGAR) ÁSTÆÐUR ÞESS AÐ ÉG SKRIFA

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer sex er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um pólitísk skrif og ópólitísk skrif og um George Orwell.

„Þannig hef ég reynt að bera fyrir mig að skrifin séu andsvar mitt við þeim áleitnu spurningum sem hvíla á okkur í dag, og að markmið mitt sem höfundur sé að sýna hvernig mannskepnan lifir og hrærist undir því álagi. Ég hef oft haft eftir orð George Orwell, sem sagði: „engin bók er í raun og veru laus við pólitíska slagsíðu.“ Gott og vel, hugsa ég, ég þarf þá ekki að hafa frekari áhyggjur af því.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: HÉR ER BANNAÐ AÐ TAKA MYNDIR

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer fimm er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um myndatökur og dyravörslu og sundlaugar.

„Myndatökur hafa að einhverju leyti tapað hátíðleika sínum, núna þegar við erum umkringd myndavélum á alla kanta, og þær er að finna innbyggðar í ólíklegustu heimilistæki, en að sama skapi er líkt og myndavélarlinsan hafi breyst í enn eitt skynfæri sem við notum til að meðtaka heiminn og staðsetja okkur innan hans – skynfæri sem breytist í tjáningarfæri þegar við notum það til að miðla í gegnum samfélagsmiðla upplifun okkar á heiminum og okkur sjálfum.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: HVENÆR ER EITTHVAÐ „KAFKAÍSKT“ OG HVENÆR EKKI?

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer fjögur er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um Kafka og frásagnir.

„En þannig er það líka með sögur Franz Kafka. Þær veita svo takmarkaða sýn af heimunum sem þær gerast í og persónunum sem þær hverfast um að lesandanum er frjálst að sjá í þeim nánast hvað sem hugurinn girnist og móta þær þannig að eigin túlkunum.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: TÍMINN OG NATNIN

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer þrjú er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um tímann.

„Mér skildist á foreldrum mínum að úr væri bara eitthvað sem þú þurftir að ganga með, ekki ósvipað húslyklinum sem hékk í ól um hálsinn á mér. Líkt og húslykillinn var úrið tákn um bæði fríðindi og ábyrgð; lykillinn gerði mér kleift að vera einn heima eftir skóla, og úrið veitti mér rétt til að fara út að leika eftir kvöldmat – með því skilyrði að ég fylgdist með klukkunni og kæmi heim á skikkanlegum tíma.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: KARLAR SEM LESA EKKI KONUR

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer tvö er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um ómeðvitaða fordóma og lestur.

„Að uppgötva að ég læsi ekki konur var í alla staði óskiljanlegt. Það var eins og að uppgötva að ég læsi ekki bækur sem væru með oddatölufjölda af blaðsíðum; fáránlegt skilyrði sem ég hafði enga hugmynd um og gat ekki gefið neina rökrétta ástæðu fyrir“